Þór Whitehead segir frá því í grein sinni „Smáríki og heimsbyltingin“ sem birtist í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmál, að hér á Íslandi hafi starfað öryggisþjónusta á kaldastríðsárunum og rekur þær ógnir sem knúðu stjórnvöld til að standa að þessari leynilegu starfsemi. Eins og titill greinarinnar gefur til kynna, telur Þór að þessi hætta hafi einkum stafað af róttækum flokkum og hópum hér á landi, það er að segja af kommúnistum og sósíalistum.

Grein Þórs er merkileg fyrir þær sakir að í henni segir hann sögu róttækra afla á Íslandi í ljósi ofbeldis og heldur því fram að ástæða hafi verið til þess fyrir íslensk yfirvöld strax á kreppuárunum og alla tíð eftir það að óttast ofbeldi og jafnvel byltingartilraunir af hálfu íslenskra kommúnista og sósíalista. Þór rekur í grófum dráttum þekktar staðreyndir um sovétsamskipti sósíalista og tengir slík samskipti við áhyggjur íslenskra og bandarískra yfirvalda af mögulegri njósna- og hryðjuverkastarfsemi hér á landi. Þannig tekst honum að gefa í skyn, að vegna sovéttengsla sinna hafi íslenskir sósíalistar í raun verið líklegir til að skipuleggja og fremja alvarleg ofbeldisverk, jafnvel hryðjuverk og manndráp.

Með grein sinni stígur Þór nýtt skref í túlkun á stjórnmálasögu 20. aldar á Íslandi þar sem hann tengir eina meginhreyfingu íslenskra stjórnmála beint við njósnir, undirróður og ofbeldi. Enginn hefur áður gert svo mikið úr þessum þætti stjórnmálabaráttunnar, þó að margt hafi komið fram á síðustu árum um pólitísk og viðskiptaleg samskipti íslenskra sósíalista við Sovéska kommúnistaflokkinn og Alþjóðasamband kommúnista. Þór gerir engan sérstakan greinarmun á mismunandi gerðum ofbeldis og leggur ólíkar tegundir átaka að jöfnu. Þannig virðist hann gera ráð fyrir að hætta á að íslenskir vinstrimenn beiti hverskyns ofbeldi sé til staðar á meðan þeir útiloka ekki allt ofbeldi hvort sem um er að ræða minniháttar spellvirki (ata málningu á herskip (81)) eða meiriháttar hryðjuverk og bein landráð (hjálpa erlendum her við að ganga hér á land (83)). Yfirvöld öryggismála hér á landi virðast hafa gert ráð fyrir að fólk sem væri fært um hið fyrrnefnda kynni af þeim sökum einnig að vera líklegt til hins síðarnefnda, ef aðstæður leyfðu. Þó að Þór falli að sjálfsögðu ekki í þá gryfju að réttlæta aðgerðir stjórnvalda, bendir málflutningur hans ekki til annars en að hann telji viðbrögð stjórnvalda við meintri ógn af kommúnistum eðlilega. Hann virðist jafnvel líta svo á að viðbrögð stjórnvalda við hættunni sem þau töldu stafa af kommúnistum sýni að þessi hætta hafi verið raunveruleg.

En var hún jafnraunveruleg og hann lætur? Eða sýnir íslenska öryggisþjónustan fyrst og fremst að íslensk stjórnvöld voru enn helteknari af móðursýki kaldastríðsáranna en áður hefur komið fram?

Þór rekur sögu árekstra róttæklinga og yfirvalda megnið af tuttugustu öld – en það er ef til vill ein sönnun þess hve friðsamlegt var hér á þessum ófriðartíma í heiminum að hægt sé í stuttri tímaritsgrein að rekja næstum öll meiri háttar átök sem hér urðu á öldinni. Hann byrjar á hreyfingu kommúnista á 3. og 4. áratug aldarinnar og segir að 25-30 Íslendingar hafi á 4. áratugnum stundað nám í skólum í Moskvu „sem áttu að ala upp einvalalið byltingarforingja í stalínskum anda“ (56). Þeir hafi lagt stund á „bókleg byltingarfræði“, verið „æfðir í vopnaburði“, fengið „tilsögn í launráðum (konspirasjón) og hernaðarlist“. Þessir menn áttu að vera kjarni byltingarliðs innan kommúnistaflokkanna að sögn Þórs.
Þetta er afar skrautleg lýsing á mun hversdagslegri veruleika. Skólarnir tveir sem vitað er með vissu að 19 Íslendingar sóttu (þó ekki sé ólíklegt að þeir hafi verið fleiri, jafnvel allt að 30 eins og Þór heldur fram) voru skólar fyrir verðandi starfsmenn kommúnistaflokkanna („funksjónera“). Slíkir menn þurftu fyrst og fremst kunna línudans réttrar útleggingar á hinum síbreytilega boðskap Sovéska kommúnistaflokksins og geta agað félaga sína til að fylgja hinni réttu línu hverju sinni. Hlutverk þeirra var með öðrum orðum pólitískt, en í þeim rannsóknum sem ég hef gert á þessari sögu (sjá bók mína Kæru félagar, 1999) hef ég engar heimildir fundið sem benda til þess að þjálfun þeirra í Moskvu hafi lotið að öðru en pólitísku starfi í aðildarflokki Alþjóðasambands kommúnista, Komintern.

Íslenski kommúnistaflokkurinn var, eins og bræðraflokkar hans í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, löglegur flokkur og starfaði í umhverfi sem var tiltölulega friðsamlegt miðað við það sem gekk á víða annars staðar í álfunni á sama tíma. Íslendingarnir fengu að því er mér hefur virst enga beina „byltingarþjálfun“ í Moskvu, þótt vafalaust hafi þeir lært meðferð skotvopna, þar sem slíkt var nánast hluti sovésks barnaskólalærdóms á þessum tíma. Verkefni þeirra var að skipuleggja og vinna í kommúnistaflokki innan friðsamlegs stjórnmálaumhverfis og því fer fjarri að Komintern hafi gefið Íslendingunum ráð eða fyrirmæli um að beita ofbeldi. „Launráð“ þeirra voru einkum í því fólgin að halda fundum sínum og ráðagerðum leyndum fyrir pólitískum andstæðingum heima á Íslandi, en þegar til Moskvu kom að leyna nöfnum sínum fyrir skólafélögunum og verjast njósnurum sem talið var að leyndust í hverju skúmaskoti.

Þór tengir meinta byltingarþjálfun íslensku kommúnistanna í Moskvu við óeirðir sem hér urðu oftar en einu sinni á kreppuárunum og gefur þannig í skyn að slíkar uppákomur hafi í raun verið verk þjálfaðra byltingarmanna, frekar en fyrirsjáanlegur fylgifiskur kreppu og atvinnuleysis. Sömuleiðis heldur hann því fram að kommúnistar hafi stofnað vopnaða sveit eftir fyrirmælum frá Komintern („Komintern ætlaðist til að kommúnistaflokkar hefðu slíkum liðssveitum á að skipa“ (58)). Fyrst hafi sveitin verið leynileg en síðar verið gerð opinber sem Varnarlið verkalýðsins og hafi haft 60-80 félaga þegar mest var en þeir hafi meðal annars stundað „japanska glímu“. Þetta lið hafi svo leikið lykilhlutverk í Gúttóslagnum svonefnda, 9. nóvember 1932. Þannig getur lesandinn dregið þá ályktun að annaðhvort hafi þessi slagsmál orðið fyrir beinan tilverknað Kominterns eða óbeint með því að þar hafi kommúnistar nýtt sér hina nýfengnu byltingarþjálfun félaganna. Staðreyndin er sú að einu heimildirnar sem um þetta hafa fundist í skjalasöfnum Sovétríkjanna sálugu eru varnaðarorð og jafnvel bein mótmæli við hvers kyns vopnuðum sveitum. Þór nefnir meira að segja eina slíka heimild en túlkar hana svo að um nokkurs konar taktískar mótbárur hafi verið að ræða (58).

Þannig sé ég ekki betur en Þór dragi víða rangar ályktanir af þeim heimildum sem hann nýtir sér í grein sinni og geri miklu meira úr fáeinum tilvísunum til skotþjálfunar og vopnaðrar baráttu en ástæða er til. Það er líka mikilvægt að hafa í huga að raunveruleg byltingarþjálfun krafðist miklu meira trausts en nokkur Íslendinganna naut í Moskvu (að einum ef til vill undanskildum) og aðeins það hlýtur að vekja miklar efasemdir um að þeir hafi fengið slíka þjálfun.

Annað einkenni á grein Þórs vekur ekki síður athygli en áhersla hans á að tengja átök og óeirðir á Íslandi við þjálfun í Moskvu. Honum tekst (hvort sem það er vísvitandi eða ekki ) að blanda markvisst saman annars vegar mælsku um áform og hins vegar raunverulegum áformum. Þannig telur hann að digurbarkalegt tal kommúnista um aðgerðir í óeirðum og verkföllum sé til sannindamerkis um að þeir hafi beðið færis að taka völdin og ætlað sér að taka andstæðinga sína af lífi, ef af valdatöku þeirra yrði.

Þessi bókstafstúlkun á mælsku er oft æði barnaleg. Þannig túlkar Þór orð Brynjólfs Bjarnasonar í umræðum um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu 1949 svo að hann hafi hótað pólitískum andstæðingum sínum lífláti, með því að segja þá „kvislinga“ og „landráðamenn“ (66). Á sama hátt túlkar hann allar yfirlýsingar um valdbeitingu sem áþreifanlega ógnun við öryggi samfélagsins og þannig verður hið svokallaða Varnarlið verkalýðsins „vísir að Rauðum her, og stríðsyfirlýsing KFÍ [Kommúnistaflokks Íslands] við „ríkisvald borgaranna““ (58).

Nú er erfitt að sakast við þau yfirvöld sem hverju sinni þurfa að meta ógnun af þessu tagi, þó að stöku sinnum hneigist þau til að ofmeta hættuna, ekki síst ef málflutningur er grófur og ofbeldiskenndur. En það er ekki þar með sagt að þau hafi rétt fyrir sér og eitt af því mikilvægasta í starfi sagnfræðinga sem fást við sögu síðustu áratuga er einmitt að gera greinarmun á mælsku og raunveruleika. Það er ekki sannfærandi aðferðafræði sem Þór beitir að túlka alla mælsku bókstaflega.

Yfirvofandi landráð sovétvina
Óeirðirnar við Alþingishúsið 30. mars 1949 marka þáttaskil í skilningi ríkjandi yfirvalda á þeirri hættu sem kunni að stafa af kommúnistum og sósíalistum og eru upphafið að þeirri leyniþjónustustarfsemi sem Þór segir frá í grein sinni. Sú túlkun á mögulegri ógn, ræðst sem fyrr að miklu leyti af meintum tengslum sósíalista við Sovétríkin, ekki síst af þeirri hugmynd að annaðhvort byltingarþjálfun í Moskvu eða bein fyrirmæli þaðan hafi strax á fjórða áratugnum mótað allt flokksstarf sósíalista og ráðið nokkru, jafnvel mestu, um stefnu þeirra og aðgerðir eftir það.
En það er rík ástæða til að efast um að tengslin hafi í raun haft slík áhrif. Sovétríkin höfðu strax árið 1943 afskrifað Ísland og gefið sér að það yrði um næstu framtíð á „áhrifasvæði“ Bandaríkjamanna. Þetta þýddi til dæmis að Sovétstjórnin hafði litlar athugasemdir við aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og við Varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna og taldi hvorttveggja rökrétt framhald af hersetu Bandaríkjamanna hér á stríðsárunum. Ljóst er að Sovétmenn héldu uppi umtalsverðri njósnastarfsemi í tengslum við herstöðina, og vafalaust hafa einhverjir Íslendingar blandast inn í þá starfsemi. Einnig var töluvert kapp lagt á að halda tengslum við Sósíalistaflokkinn eins og mikill fjöldi trúnaðarsamtala sendimanna Sovétstjórnarinnar á Íslandi við forystumenn í Sósíalistaflokknum sýnir glögglega. En þær heimildir duga engan veginn til að réttlæta þá umfangsmiklu upplýsingastarfsemi sem virðist hafa farið fram af hálfu íslenskra yfirvalda og þaðan af síður, ef rétt reynist að íslenskir embættismenn hafi deilt upplýsingum sem safnað var um einstaklinga á Íslandi með bandarískum yfirvöldum.

Af grein Þórs að dæma hefur ótti við að liðsmenn Sósíalistaflokksins gripu til hermdarverka verið það afl sem knúði starfsemi Öryggisþjónustunnar áfram og skapað þá sannfæringu í innsta kjarna kerfisins að sósíalistar kynnu, með fulltingi Moskvuvaldsins, að skipuleggja hryðjuverkastarfsemi þegar réttar aðstæður sköpuðust. Enn þá hafa engar heimildir fundist sem sýnt geti fram á að þessi ótti hafi verið réttmætur. Það eina sem er nýtt í grein Þórs eru heimildir hans um íslensku Öryggisþjónustuna, einkum minnisblað Péturs Kristinssonar lögregluvarðstjóra sem fannst í fórum nágranna hans. Í þessu minnisblaði er að finna drög að aðgerðaáætlun sem miða að því að verjast, eða draga úr hættu af „innlendum sovétvinum“. Að menn hafi borið slíkan ugg í brjósti segir þó auðvitað ekkert um réttmæti hans.

Nú er mjög líklegt að Sovétmenn hafi haft innlenda njósnara á sínum vegum sem gátu veitt upplýsingar úr innsta hring. Allt er hins vegar á huldu um hverjir slíkir njósnarar gætu hafa verið. Það eru viss vonbrigði að Þór skuli ekki hafa neitt meira um slíka starfsemi uppi í erminni en hina margtuggnu sögu af Ragnari Gunnarssyni sem sovéskir leyniþjónustumenn reyndu að fá til starfa fyrir sig snemma á sjöunda áratugnum. Það er mikilvægt að hafa í huga, að ólíkt því sem Þór gefur í skyn, er engin ástæða til að ætla að KGB eða GRU (leyniþjónusta hersins) hafi fremur sóst eftir kommúnistum til starfa fyrir sig en öðrum. Það er reyndar afar líklegt að reynt hafi verið að ráða fólk sem tengdist ekki vinstrihreyfingunni af þeirri augljósu ástæðu að slíkt fólk vekti síður grunsemdir. Eins og vel er þekkt úr njósnasögu kaldastríðsins er mestu njósnarana oft að finna meðal þeirra sem fæstum dettur í hug að gruna um græsku.

Ég vona að mér hafi tekist að gera kjarna málsins ljósan í þessari grein: Hvað sem líður vafstri einstaklinga þá höfum við engar heimildir sem leyfa okkur að draga þá ályktun sem Þór dregur í grein sinni, að íslenskir kommúnistar hafi verið þjálfaðir í Moskvu til ofbeldisverka. Ef til vill er hægt að fyrirgefa mönnum að hafa á sínum tíma fyllst hræðslu gagnvart stórveldinu í austri og óttast að það væri í óðaönn að heilaþvo unga Íslendinga og gera úr þeim ofbeldismenn. En það sama gildir ekki um sagnfræðinga nútímans sem geta kynnt sér heimildir og dregið eigin ályktanir. Við hljótum að búast við meiri rökvísi af þeim.

Það er alltaf mikilvægt að huga að samhengi hlutanna. Þór byrjar grein sína á að gagnrýna þá sem reyni að „koma höggi“ á dómsmálaráðherra fyrir að vilja búa til „með löglegum hætti stofnun, sem flestum þykir jafnsjálfsögð og umferðarlögregla eða slökkvilið í öðrum ríkjum Evrópu“ (55). Þessi „sjálfsagða“ stofnun er íslensk leyni- eða öryggisþjónusta. En slík starfsemi býður upp á fleiri hættur en slökkviliðið. Varhugaverðast við innlenda öryggisþjónustu er að í staðinn fyrir að einblína á raunverulegar hættur, fari hún að ofmeta þá hættu sem kunni að vera af ýmsum hópum innanlands og mikla fyrir sér möguleg tengsl þeirra við erlend myrkraöfl. Það sem afhjúpanir Þórs Whitehead nú gera ljóst er ekki að íslensk yfirvöld hafi metið hættu af róttækum hreyfingum hér á kreppu- og kaldastríðsárunum rétt, heldur einmitt að íslensk yfirvöld féllu í þá gryfju að ofmeta þessa hættu stórlega og leiddust því út í vafasamar og hugsanlega glæpsamlegar aðgerðir gegn saklausu fólki. Íslensk stjórnvöld ættu að láta sér það að kenningu verða og reyna eftir megni að forðast að gera sömu mistök aftur.

Birt í Lesbók Morgunblaðsins 7.október 2006

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *