Séra Gunnar Jóhannesson gerir tilraun til að svara röksemdum Richard Dawkins gegn trúarbrögðum í grein í Lesbók Morgunblaðsins um helgina. Það er áhugavert að sjá hvernig trúmenn bregðast við trúleysisrökum af því tagi sem Dawkins og aðrir guðleysingjar beita, en því miður veldur greinin vonbrigðum þótt löng sé. Gunnar gerir í rauninni litla eða enga tilraun til að beita heilsteyptum rökum gegn trúleysinu, en endurtekur hinsvegar aftur og aftur þá skoðun sína að málflutningur Dawkins einkennist annarsvegar af vanþekkingu og hinsvegar af virðingarleysi gagnvart trúuðu fólki.
Nú kann vel að vera að Dawkins sé bæði fáfróður og hrokafullur, en það segir auðvitað ekkert um hvort röksemdir hans eru gildar eða ekki. Dawkins heldur því fram að trúað fólk haldi í trú sína jafnvel þó að það viti af sterkum rökum gegn trú. Gunnar virðist álíta að þetta sé sama og fullyrða að trúað fólk eigi að hafa vísindalegar sannanir fyrir trú sinni og því eyðir hann miklu púðri í grein sinni í það að útskýra að trú og vísindi séu sitthvað. En þegar eitt meginatriðið er misskilið með þessum hætti, er ekki við miklu að búast.
Það væri vissulega áhugavert að sjá viðbrögð trúaðs fólks á borð við Gunnar við hinni eiginlegu spurningu: Það er hvað réttlætir trúarbrögð þegar vísindin virðast sífellt vera að segja okkur að flest í þessum heimi megi útskýra án þess að vísa til nokkurra yfirnáttúrlegra fyrirbæra? Nú hafa ýmsir guðfræðingar og heimspekingar (t.d. William James, sjá http://etext.virginia.edu/toc/modeng/public/JamVari.html) reynt að svara þessari spurningu. Það hefði verið skemmtilegt að sjá íslenskan guðsmann gera tilraun til þess, frekar en að halda því fram að trú eigi „ekki heima á hinu rökræna sviði mannlegrar hugsunar“. Það er lítt áhugaverð skoðun, jafnvel þó að maður samþykki að trú þarfnist fleiri þátta en rökvísi.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *