Áður en bloggið varð til bloggaði Víkverji, þessi „fasti liður“ Morgunblaðsins. Ég man ekki hvenær ég las Víkverja síðast. Hér áður fyrr gleymdi maður Víkverja, mánuðum jafnvel árum saman. Og svo datt maður niður á hann aftur, eins og fyrir tilviljun. Eða kannski las maður alltaf Víkverja, en tók bara ekki eftir því. Nú hef ég ekki lesið Víkverja lengi – en hann er ekki hættur. Víkverji bloggar enn.
Skoðanir Víkverja eru heillandi vegna þess að þær eru fyrirsegjanlegar. Víkverji veltir fyrir sér landsins gagni og nauðsynjum og talar um daginn og veginn. Stundum fer Víkverji í sunnudagsbíltúr með fjölskylduna: Það má að sjá hann fyrir sér: Hattkúfur á höfði, spariföt, kannski vindilstúfur í munninum, konan í framsætinu, börnin aftur í. Honum blöskra vondir vegir og margvísleg mistök í gerð umferðarmannvirkja. Ökumenn sem fara óvarlega vekja athygli hans, hann fer um landið og veltir fyrir sér framtíð sjávarplássanna, hann veltir fyrir sér vinnubrögðum fólks sem hann sér að störfum. Hann er hlynntur útivist og íþróttastarfi. Hann fer í sumarfrí til útlanda og svo ber hann það sem fyrir augu ber þar saman við það sem hér er að sjá. Í seinni tíð hafa jafnréttismál verið honum hugleikin. Stundum er hann hneykslaður, en ekki alltaf. Víkverji ber hag þjóðar sinnar fyrir brjósti. Er ekki Víkverji örugglega karlmaður?
Víkverji, hinn eini sanni Víkverji, er nafnlaus. Kannski er hann annar hver starfsmaður Morgunblaðsins, en það breytir engu um skoðanir hans. Víkverji er hversdagsmaður, og hann er stoltur af því. Bloggið hefur hinsvegar margfaldað Víkverja. Nú birtist Víkverji ekki aðeins undir sínu venjulega dulnefni á síðum Morgunblaðsins. Hann birtist í ótal gerfum í völdum köflum af netsíðum sem einhver samviskusamur starfsmaður blaðsins velur á hverjum degi. Nafnleysið víkur fyrir skrifum hvers sem er. En skoðanirnar eru áfram fyrirsegjanlegar. Kannski skiptir ekki máli hvort það er annar hver starfsmaður Morgunblaðsins sem skrifar, eða annar hver borgari landsins.
Eðli bloggsins er eðli Víkverja. Endalaus straumur skrifa sem kommentera með einum eða öðrum hætti á það sem fram fer í kringum okkur og segja það sem hversdagsmaðurinn hugsar, því Víkverji er, sem fyrr segir hversdagsmaður. Og jafnvel þó að bloggið fari fleiri leiðir, áhugamálin verði óhefðbundnari, þá fylgir þeim alltaf hinn gamalkunni, trausti hversdagsleiki. Efniviður bloggsins er hversdagurinn og það er sama um hvað er rætt, eða hver hefur orðið. Alltaf sér maður glitta í hattkúfinn, sparifötin og vindilstúfinn.
Það er ekki lengur nauðsynlegt að lesa Morgunblaðið til að fá sinn Víkverja. Bókin á náttborðinu, upplifanirnar í sumarfríinu, hneykslun yfir vondum vinnubrögðum, leti, ofáti, hreyfingarleysi og kannski eitthvað örlítið meira krassandi í bland: Allt fær þetta sína umfjöllun og sinn dóm. Allir geta byrjað að blogga og eiginlega eiga allir að blogga.
Kannski ætti bloggið að vera nafnlaust, eða eins og Víkverji, nafnlaust, en undir dulnefni sem tengir höfundinn við stað eða tíma eða aðstæður. Þá gæti maður fengið fylli sína af heilbrigðri skynsemi hversdagsmannsins og deilt lífsreynslu hans (eða hennar) án tillits til þess hver hafði bókina á náttborðinu eða hver varð vitni að einhverju aðdáunarverðu eða hneykslanlegu sem ástæða var til að deila með samborgurunum. Eða færi þá bragðið af því? Sjónvarpsmaður skrifar? Vélstjóri skrifar? Húsmóðir í Vesturbænum skrifar? Varaþingmaður skrifar?
Allir eru Víkverji inn við beinið.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *