Þegar stjórnvöld eða „kerfið“ misbýður almenningi getur umræðan í kjölfarið verið afhjúpandi. Þannig hefur stjórnvöldum og þar til bærum embættismönnum reynst erfitt að skýra fyrir okkur hvers vegna nauðsynlegt var að vísa hópi flóttafólks úr landi, þar á meðal langveiku barni sem á enga raunhæfa batamöguleka í heimalandi sínu. Umræðan, sársaukafull og vandræðaleg sem hún er, sýnir okkur vissulega að „þetta fólk“ (og nú nota ég það orðalag ekki um flóttafólkið heldur um stjórnmálamenn okkar, embættismenn og lögmenn) er í erfiðri stöðu: Það þarf að fara að lögum og það þarf að hugsa um fordæmisgildi ákvarðana sinna. Það þarf að meta hvort tilteknar ástæður séu nægilega veigamiklar til að heimila undanþágur og svo framvegis og svo framvegis.

En þetta síðasta dæmi um úrlausn þessa fólks á þeim málum sem það hefur tekið að sér að leysa í mikilvægum embættum eða sem kjörnir fulltrúar, sýnir betur en margt annað hve blint það getur orðið á siðferðilegar hliðar gjörða sinna að ekki sé talað um skeytingarleysi um afleiðingar þeirra eftir að fórnarlömbin eru komin burt úr lögsögu okkar. Því margir þeirra sem voru sendir úr landi um daginn eru einfaldlega fórnarlömb kerfis og embættismanna íslenska ríkisins.

Vandamálið er ekki síst tilhneiging okkar samviskusömu embættismanna til að snúa hlutunum á hvolf. Í stað þess að spyrja um skyldur okkar (sem eru siðferðilegs frekar en lagalegs eðlis) er athyglinni beint að óskum þeirra sem hingað koma eins og við getum sinnt eða leitt þessar óskir hjá okkur eftir atvikum. Þannig er iðulega talað um að það sé óheppilegt að langan tíma taki að afgreiða mál hælisleitenda vegna þess að „falskar vonir“ geti vaknað hjá þeim ef þeir koma sér fyrir í íslensku samfélagi áður en umsóknum er svarað. Nú kann vel að vera að lagahyggja embættismannanna búi til þetta orðfæri, en það blasir við að þegar einstaklingar og fjölskyldur skapa sér líf hér á landi verða líka til skyldur samfélagsins við það. Þetta eru kannski ekki lagaskyldur, en fólk sem hefur eignast hér heimili og vini og náð að búa sér til raunverulega framtíðarmöguleika er ekki ofurselt „fölskum vonum“ þegar það gerir ráð fyrir því að samfélagið bregðist við – ekki eins og sjúkur einstaklingur – heldur á þann eðlilega hátt sem mannúð og velvilji krefst.
Nú er hætt við að lögspekingarnir haldi því fram að þeir geti einmitt ekki komið til móts við óskir, því þeir séu fastir í kerfi laga og reglna þar sem heimildir skorti oft til að gera það sem gott væri að geta gert. Það verður að vera til lagaheimild segja þeir. Þetta er auðvitað rétt eins langt og það nær. En aðeins eins langt og það nær. Lagaheimildatalið snertir nefnilega siðferðilegan grunn réttarríkisins sem þetta fólk virðist margt hafa misst sjónar á. Þetta tekur þungt á mig segir lögspekingurinn sem situr í æðsta embættinu – en ég get ekkert gert. Það er líka rétt eins langt og það nær. En ekki lengra.

Ólöf Nordal Innanríkisráðherra taldi sig ekki hafa heimild til að hafa áhrif á brottvikningu langveikra barna úr landi.
Vilji og geta er stundum eitt og hið sama. Þegar ráðherra eða háttsettur embættismaur segist „ekki geta“ gert þetta eða hitt þýðir það ekki annað en að hann eða hún vill ekki gera það: Vill ekki stíga það skref sem þarf til að geta gert það. Lagaheimildir eru góðar til að koma í veg fyrir að yfirvaldið níðist á þegnum sínum. Það verður að hafa skýrar heimildir til að beita fólk ofbeldi, en það þarf ekki lagaheimildir til að finnat leiðir til að gera það sem er rétt. Það skiptir ekki máli hvort það felst í því að passa upp á að börn njóti læknisþjónustu sem þau þurfa á að halda, að duglegt og heiðvirt fólk sem hingað kemur og hefur fullan hug á að skapa sér líf í þessu samfélagi geti það eða að hlustað sé og reynt að skilja frekar en að tortryggnin ráði alltaf ríkjum. Tilfellið er að kerfið er hannað með það fyrir augum fyrst og fremst að geta rekið fólk burt. Til þess eru lagaheimildirnar. Við skulum því ekki láta blekkjast af talinu um lagaheimildir: Yfirvöld hafa vissulega lagaheimildir til að koma fram eins og þau hafa gert, en það þýðir ekki að þeim beri skylda til að gera það eða geti ekki gert annað. Lagaheimildirnar gera þeim þetta mögulegt. Um leið og við erum farin að trúa því að lagaheimildirnar séu þröskuldur sem kerfið komist ekki yfir og kaupum þá röksemd að í einstökum tilfellum sé ekkert hægt að gera, fólk verði að snúa sér að því að berjast fyrir breyttri löggjöf, vilji það breyta einhverju, þá höfum samþykkt siðleysi.

Er ég að taka of djúpt í árinni? Ég held ekki. Stundum blasir sannleikurinn við alveg óháð allri mælskulist og ímyndasmíð og hann er sá að hvað sem öllum lagaheimildum líður, þá var brottflutningur að minnsta kosti sumra flóttamannanna um daginn siðlaus, hvernig sem á það er litið.

Lagaheimildirnar voru ekki það sem kom í veg fyrir að embættismenn gætu leyft fólkinu að vera hér, heldur voru þær tækið sem notað var til að koma því úr landi.

Sumir gera grín að þeim sem láta myndir hafa tilfinningaleg áhrif á sig – þeim sem líður til dæmis ekki rétt vel þegar þeir sjá myndir af börnum með tuskudýr sem samviskusamir embættismenn lögreglunnar eru að flytja úr landi, sennilega vopnaðir til að vera við öllu búnir. En hvernig er hægt annað, fyrir þann sem hefur snefil af siðferðisvitund, en að láta það hafa áhrif á sig þegar kerfið sem maður er hluti af og styður með því að kjósa fólk til valda og sem skýlir manni sjálfum þegar á þarf að halda, verður mannfjandsamlegt vegna þess að það „getur ekki annað“? Jújú, það er hægt að kalla innanríkisráðherrann öllum illum nöfnum, og fordæma embættismennina eða kvarta yfir tómlæti kirkjunnar. Hin erfiða staðreynd málsins er hins vegar sú að við eigum þetta öll – ábyrgðina og skömmina yfir því að geta ekki tekið rétt og fallega á málum fólks.

Birt í þrettánda tölublaði Stundarinnar 17. desember 2015. Sjá vefútgáfu http://stundin.is/pistill/vid-erum-ekki-vont-folk-eda-erum-vid-thad/