Í nýrri stefnu Vísinda- og tækniráðs sem til umræðu er í dag er gríðarleg áhersla lögð á þá verðmætasköpun sem vænta má af öflugum vísindarannsóknum. Það má reyndar segja að í stefnunni takist á tvö, ekki óskyld sjónarmið, um tengsl vísinda og verðmætasköpunar. Annað má kalla nytjasjónarmið. Í því felst krafa um að rannsóknir séu skipulagðar á þann veg sem líklegt er að skili mestum hagnaði sem fyrst fyrir samfélagið. Þá er allt kapp lagt á að stytta sem mest leiðina á milli rannsóknanna og ávinningsins af þeim. Hitt má kalla nýsköpunarsjónarmið. Í því felst að áherslan er á að auðvelda nýjungar án þess að krafan sé um verðmætasköpun í hverju einstöku tilfelli. Það er eðlilegt að nytjasjónarmiðs gæti í stefnu sem hefur í og með það strategíska markmið að auka sem mest það fjármagn sem hið opinbera leggur í rannsóknastarf. Vísindasamfélagið þarf stöðugt að lofa hinu opinbera því að féð sem fer til rannsókna muni skila ríkulegri ávöxtun, jafnvel þó að slík ávöxtun sé alltaf vonarpeningur. En vísindasamfélagið þarf líka að reyna eftir megni að fá opinbera aðila til að skilja að þröng nytjastefna um vísindi er ekki vænleg stefna til lengri tíma litið. Hagnaður, ávinningur, árangur og verðmætasköpun hlýtur að vera langtímamarkmið frekar en skammtímamarkmið og verkefnið er að fá hið opinbera til að leggja sig fram um að leyfa heilbrigðu vísindasamfélagi að blómstra. En það þýðir að vísindastefna verður að gera meira en að fókusera á tiltekin markmið, tiltekinn árangur og verðmætasköpun. Hún verður líka á leggja grunninn að vísinda- rannsókna- og háskólasamfélagi sem stuðlar að gæðum, fagmennsku og frumkvæði einstaklinga. Hvernig getur þetta orðið? Það er spurningin em ég hef áhuga á að tala um hér í dag.

Það má byrja á því að spyrja hvaða samfélag átt sé við þegar talað er um háskólasamfélagið. Er til eitthvert háskólasamfélag á Íslandi? Ég held að svarið við þessari spurningu sé að einhverju leyti já, augljóslega eru til háskólar og fólkið sem starfar við þessa háskóla sem nemendur, kennarar, sérfræðingar og svo framvegis, mynda augljóslega samfélag. En ef um er að ræða samfélag sem telur sig hafa í mikilvægum skilningi sameiginleg markmið er svarið ekki eins einfalt. Áherslan sem lögð hefur verið á samkeppni háskólastofnana hefur að mörgu leyti verið mjög eitruð. Hún hefur til dæmis leitt til megnrar andúðar á milli stofnana. Fólk hefur hneigst til að samsama sig ákveðnum stofnunum og þannig hefur orðið til ákveðinn korporatismi í háskólasamfélaginu. Þessi stofnanabundna andúð hefur háskalegar afleiðingar við núverandi ástand þar sem stofnanirnar slást um þá bita sem ríkinu þóknast að skilja eftir fyrir þær frekar en að standa saman að því berjast fyrir sem minnstri skerðingu fjárframlaga til háskóla. Það er þó ekki vegna samkeppni sem ég held að erfitt geti verið að tala um háskólasamfélag, hedur vegna þess hvers eðlis samkeppnin er: Hún er stofnanabundin, stofnanir keppa hver við aðra frekar en að sjónarmið, aðferðir eða vísindaleg viðhorf takist á.

En er þá til eitthvert rannsókna- eða vísindasamfélag sem stendur undir nafni, ef háskólasamfélagið gerir það ekki? Ég hef áhyggjur af því að vísindasamfélagið á Íslandi hafi um langt árabil verið hættulega háð fjárveitingavaldinu í þeim skilningi að vísinda- og fræðimönnum hafi reynst nauðsynlegt að réttlæta tilvist sína með því að vísa of sterkt til nytjasjónarmiða um rannsóknir. Ég endurtek að það er í sjálfu sér eðlilegt að gera það að vissu marki, en sjálfstæði vísindasamfélagsins birtist þó fyrst og fremst í því að geta mótað stefnu sem byggir ekki á nytjasjónarmiði heldur miklu fremur á nýsköpunarsjónarmiði, þar sem langtímaávinningur samfélagsins af vísindum er tekinn sem gefinn án þess að stöðug krafa sé gerð um rannsóknir sem fjármagnaðar eru af opinberu fé að þær skili samfélaginu tilteknum mælanlegum hagnaði.

En spurningarnar eru nátengdar. Ég held nefnilega að skortur á háskólasamfélagi sé í hnotskurn vandi vísindasamfélagsins. Korporatisminn innan háskólasamfélagsins grefur undan vísindasamfélaginu þannig að í stað þess að það geti verið stjórnvöldum sterkt aðhald og haldið uppi kröftugri baráttu fyrir því að sjónarmið vísinda- og fræða séu ríkjandi í vali viðfangsefna, fjárveitingum til rannsókna osfrv. þarf vísindasamfélagið stöðugt að vera að sannfæra stjórnvöld um að það þjóni þeim dyggilega. Þetta er veik staða, og mér sýnist að staða vísindasamfélagsins á Íslandi sé því miður veikari en í löndunum í kringum okkur.

Ég gæti i framhaldi af þessari greiningartilraun reynt að segja eitthvað um hvað sé til bóta eða ráða en ég er að hugsa um að láta það ógert. Þess í stað vil ég reyna að lýsa því sem í mínum augum eru grunnstoðir heilbrigðs háskólasamfélags og þar með vísindasamfélags.

Vísindasamfélagið er í fyrsta lagi lýðræðissamfélag. Þetta þýðir að niðurstöður, stefnumótun, túlkun á staðreyndum og á niðurstöðum rannsókna er viðfangsefni samræðu. Enginn einstaklingur getur gert annað en að leggja rök sín, fullyrðingar og niðurstöður fram til umræðu. Stofnanir eða hópar geta í ekki í krafti kennivalds viðhaldið ákveðnum viðhorfum og vísindasamfélagið má ekki verða samtryggingarkerfi þar sem menn gagnrýna helst ekki hver annan, nema þá að um stofnanalegan fjandskap sé að ræða.

Það er auðvelt að benda á að í síðustu árum hefur vísindasamfélagið brugðist að þessu leyti. Skýrslur um stöðu bankanna sem öllum þykir augljóst nú að séu vísindalega vafasöm plögg, voru ekki gagnrýndar af kollegum þeirra sérfræðinga sem sömdu þær á sínum tíma. Sömuleiðis má benda á að gagnrýni vegna fjármögnunar rannsókna var fyrst og fremst millistofnanagagnrýni. Þeir sem tóku sig til og bentu á aðfinnsluverð tengsl kostunaraðila og rannsakenda voru annaðhvort að pota í aðra stofnun en sína eigin, eða hrópendur í eyðimörk innan eigin stofnunar.

Vísindasamfélagið þarf í öðru lagi að skapa sér sjálfstæði gagnvart öllum þeim aðilum sem láta fjármagn renna til rannsókna eða kennslu. Þetta á við hvort sem um er að ræða einkaaðila eða opinbera aðila. Þetta þýðir annarsvegar að það er vísindasamfélagið sem þarf að móta stefnu sína, það má ekki verða þjónn hins opinbera, það verður að standa sjálfstætt gagnvart fjárveitingavaldinu frekar en að vera stöðugt háð því að hið opinbera sjái skjótan og augljósan ávinning af öllum rannsóknum sem fjármagnaðar eru. Gagnvart einkaaðilum þurfa að verða til miklu skýrari leikreglur um hvernig og á hvaða forsendum einkafjármagn má renna til rannsókna. Það er til dæmis ótækt að hagsmunaaðilar eða fyrirtæki fjármagni beint ákveðnar rannsóknir sem varða starfsemi þeirra, eins og mörg dæmi eru um frá góðæristímunum og reyndar virðist lítil grundvallarbreyting hafa orðið á þessu enn. Dæmi eru um að stórir hagsmunaaðilar séu að kosta rannsóknir beint. Eins þarf skýrar reglur sem tryggja eðlilega fjarlægð á milli kostunaraðila og einstakra námsbrauta, en á síðustu árum fyrir hraun varð stöðugt algengara, einkum í Háskóla Íslands, að einstakar stöður væru kostaðar.

Í þriðja lagi þurfa einstaklingar að hafa svigrúm og frelsi til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Háskólasamfélagið verður að hafa pláss fyrir ólík sjónarmið bæði í tilteknum fræðigreinum og um vísindastefnu og vísindapólitík. Háskólasamfélagið verður að hlúa að og leggja rækt við öfluga samfélagsgagnrýni og andóf gegn heimskulegri pólitík, vanhugsuðum ákvörðunum eða ákvörðunum sem byggja á einkahagsmunum og taka ekki nægilegt tillit til sérfræðiþekkingar og kunnáttu. Stjórnmálamenn munu alltaf viðhafa allskyns fagurgala um mikilvægi rannsókna og þekkingarsköpunar en reyna samt að sniðganga slíka þekkingu þegar hún fellur ekki að einhverjum tilteknum markmiðum þeirra.

Í fjórða lagi þarf rík gæðakrafa að ríkja innan háskóla- og vísindasamfélagsins sem leyfir ekki að hvikað sé frá viðurkenndum stöðlum. Allt kerfið, allar stofnanir, verða að vinna eftir samskonar stöðlum og lúta samskonar eftirliti alveg sama hvaðan peningarnir koma. Sérstaða vísinda- og háskólasamfélagsins er áherslan á jafningjamat. Það er ekki fullkomið kerfi eins og allir vita, en það byggir á þeirri sérstöðu háskólasamfélagsins að vald komi aldrei til af öðru en sérfræðiþekkingu þegar verið er að meta rannsóknir og kennslu. Jafningjamatskerfið er leið til að tryggja sanngjarna beitingu valds og um leið tilraun til að afbyggja stigveldi þar sem stærstu stofnanirnar eða sterkustu hóparnir ráða óháð gæðum. Háskólasamfélagið á líka að fara á undan með góðu fordæmi í því að krefjast þess alltaf að ákvarðanir séu byggðar á bestu viðeigandi sérfræðiþekkingu frekar en á styrk einstakra hagsmunaaðila.

Í stefnu Vísinda- og tækniráðs eru átta kaflar eða áhersluatriði sem sérstaklega er fjallað um. Í fyrsta kaflanum um háskóla- og rannsóknarstofnanir er bent sérstaklega á að stofnanirnar þurfi að virka betur sem ein heild, hvatt er til samstarfssamninga og sameininga þar sem það á við og um hagræðingu getur verið að ræða. Það er mikilvægt að mínu mati að hafa í huga að þetta markmið er ekki tæknilegt úrlausnarefni heldur hápólitískt atriði.

Það er ekki nóg að hvetja til samstarfssamninga einstakra stofnana og svo framvegis. Það verður að stuðla að því líka að vísindasamfélagið sjái sig sem eina heild, hvað sem öllum ágreiningi innan þess líður og það þýðir líka að háskólarnir verða að vinna saman sem ein heild.

Við búum núna við óvenjulegt ástand að því leyti að flestir virðast tilbúnir til að sætta sig við niðurskurð. En það undirstrikar veikleika háskólasamfélagsins að í stað þess að það beiti einhverri sameiginlegri strategíu til að lágmarka tjónið og færa rök fyrir fyrir því gagnvart stjórnvöldum að niðurskurður til rannsókna og annarrar háskólastarfsemi eigi að vera sem allra minnstur, eru heiftarleg átök um hvar niðurskurðurinn eigi að lenda. Þetta eykur líkurnar á því að ákvarðanir um framtíðina verði teknar á röngum forsendum og án þess að nægilega sé hugað að því hvernig best verður tekið á þessum málum nú þannig að það valdi sem minnstum skaða til framtíðar.

Sterkt vísindasamfélag þarf á því að halda að hugað sé vel að öllum þeim þáttum sem Vísinda- og tækniráð dregur sérstaklega fram í stefnunni (Háskólar og rannsóknastofnanir, Nýsköpun, Gæði og ávinningur, Alþjóðlegt rannsókna- og nýsköpunarsamstarf, Samkeppnissjóðir, Innviðir rannsókna og nýsköpunar, Opinn aðgangur að rannsóknaniðurstöðum, Nýliðun). En til þess að hægt sé að setja þessar áherslur og fylgja þeim eftir þarf líka að sjá til þess að vísinda- og háskólasamfélaginu sé ekki rústað með ótímabærri og vanhugsaðri sameiningu stofnana, með því að stofnanir verði slegnir af eða fjármögnun hætt án þess að það sé hugsað mjög vandlega og með vitneskju og þátttöku hagsmunaaðila.

Stærsta hættan innan háskólasamfélagsins er misnotkun valds og misnotkun valds er óhjákvæmileg ef tilteknar stofnanir eða einstaklingar hafa of mikið að segja um ráðstöfun fjár. Núna virðist það sjónarmið til dæmis vera mjög algengt, næstum ríkjandi, að eðlilegt sé að slá af minni stofnanir en láta stærri stofnanir taka við verkefnum þeirra. Þetta er oft lagt til á algjörlega vanhugsuðum forsendum þar sem ímyndaður sparnaður er miklaður mjög, en ekkert hugsað út í hætturnar sem af slíkum aðgerðum stafi.

Eina skynsamlega vitið fyrir háskóla- og vísindasamfélagið er að krefjast þess af stjórnvöldum að ákvarðanir um að niðurlagningar eða sameiningar verði ekki teknar nema að vandlega athuguðu máli.

Hugsum okkur til dæmis hvað það þýðir að háskóladeild sé lögð niður. Við það er ekki aðeins áralangri uppbyggingu fleygt út um gluggann, heldur getur líka vel hugsast að verið sé að fórna mikilvægum hlekk í uppbyggingu rannsókna á ákveðnu fagsviði. Um leið og ákveðinni faglegri samkeppni er fórnað verður meiri hætta á því, en ekki minni, að jafningjar stundi að klappa hver öðrum á bakið og verja hver annan frekar en að þeir leggi sig fram um að halda á lofti ítrustu gæðakröfum. Þegar sparnaður krefst þess að skorið sé niður og starfsemi hætt verður að skoða allar afleiðingar þess sem máli skipta. Það dugir ekki að einblínt sé á útgjaldaliðinn einn og sér og því haldið fram að með því að hætta tiltekinni starfsemi sparist nákvæmlega sú krónutala sem hann tók.

Það er til dæmis fáheyrt þegar félag ríkisprófessora sendir frá sér tillögur um slíkan niðurskurð með jafn fátæklegum rökum og sjá má í tillögu stjórnar félagsins til rektors Háskóla Íslands sem sagt hefur verið frá í fréttum undanfarna daga, þar sem lagt er til að Háskólinn bjóðist til að taka yfir þá kennslu sem nú fer fram við þrjá aðra háskóla, HR, Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og Bifröst. Þarna falla prófessorarnir í þá gildru sem maður sér stundum nýliða í blaðamennsku falla í. Þeir taka ákveðna tölu úr fjárlögum, bjóðast til að vinna það verk sem hið opinbera greiðir fyrir hjá öðrum háskólum, slá á það þumalputtatölu og segjast geta sparað 2 milljarða! Allt án þess að huga neitt að samfélagslegum afleiðingum þess að leggja þessa þrjá háskóla niður að miklu eða öllu leyti  og án þess að velta fyrir sér víðara samhengi þess sparnaðar sem af þessu á að hljótast. Það er ótrúlegt að félag þeirra sem bera ábyrgð á rannsóknum og kennslu við stærstu menntastofnun landsins skuli láta aðra eins tillögu frá sér. Auk þess má benda á að það er nær útilokað að upphæðin sem prófessorarnir segjast geta sparað með því að flytja kennslu til með þeim hætti sem lagt til sé rétt, jafnvel þótt maður fallist á forsendur þeirra að öðru leyti. Það er að mínu mati dæmi um fullkomið ábyrgðarleysi þegar félag prófessora, sem ætti fyrst og fremst að krefjast þess af stjórnvöldum og af eigin stofnunum að ákvarðanir séu faglegar, vel unnar og hugsaðar í réttu samhengi, kemur með útspil af þessu tagi. Prófessorarnir haga sér eins og þeir séu þrýstihópur, fulltrúar eigin stofnunar, sem verður þá eins og hvert annað stórfyritæki, en ekki fulltrúar vísinda- og háskólasamfélagsins sem hefur fyrst og fremst samfélagsleg og vísindaleg markmið að leiðarljósi.

Það mætti hugsanlega segja að þetta sé tillaga stjórnar sem ekki kemur frá félaginu sjálfu, en á meðan engar athuagsemdir eru gerðar af hálfu félagsmanna við tillöguna er ekki hægt að skilja hana öðruvísi en svo að hún sé tillaga alls félagsins.

Samfélag háskóla, vísinda og rannsókna hefur breyst mikið á undanförnum árum. Rannsóknir eru ekki jafn bundnar tilteknum stofnunum og áður var, gríðarlega viðamikil rannsóknaverkefni eru nú unnin í samstarfi margra aðila frekar en að slík verkefni séu háð því að ein öflug eða valdamikil stofnun sjái um þau. Í rannsóknum er áherslan á klasa og sprota  og stefna vísinda- og tækniráðs ber þessum nýju tímum skýr merki. Allt þetta ætti að sýna að leiðin til sparnaðar á ekki að felast í því að leita eftir sameiningum heldur með því að láta háskóla- og rannsóknastofnanir standa miklu betri skil á því fé sem til þeirra rennur hvort heldur sem er í gegnum samkeppnissjóði, frá hinu opinbera beint eða frá einkaaðilum. Það er engin spurning að það er hægt að ráðstafa því fé betur sem veitt er til rannsókna og kennslu og það er vafalaust hægt að slá eitthvað af. En ef Vísinda- og háskólasamfélagið ræður yfir þeirri þekkingu og rannsóknagetu sem á að vera samfélaginu lífsnauðsyn til framtíðar, þá hefði maður haldið að innan þess væri líka að finna þá sérfræðiþekkingu sem nauðsynleg er til að hámarka nýtingu fjár í rannsóknum og kennslu.

En það er algjör ranghugmynd að mínu mati að massívar sameiningar leysi nokkurn vanda, fjárhagslegan eða faglegan. Þær skapa aðeins ný vandamál, eru til lengri tíma líklegri til að draga úr gæðum frekar en auka þau, auka líkur á því að kollegar hylmi yfir hver með öðrum frekar en að þeir gagnrýni hver annan og svo má áfram telja. En það sem ég held að sé mikilvægast nú er að háskóla- og vísindasamfélagið geti staðið saman gagnvart hinu opinbera og fært haldbær rök fyrir því að háskólastarf og rannsóknir eigi að vera efst á forgangslista stjórnvalda. En grundvallarforsenda slíkra raka er að þau komi frá háskólasamfélaginu í heild sinni ekki frá einni stofnun sem telur sig einfaldlega geta séð um þetta allt saman.

(Erindi flutt á rannsóknaþingi Rannís, 27. maí 2010. Titill erindisins á þinginu var „Rannsóknir, samfélagsrýni og andóf í háskólasamfélaginu“)

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *