Það er enginn vafi á því að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að reisa risastóra vatnsaflsvirkjun á Austurlandi er ein afdrifaríkasta ákvörðun síðari tíma á Íslandi. Með henni er stefnan tekin á uppbyggingu stóriðju í þessum landshluta frekar en að skapa fólkinu þar tekjur með öðrum hætti á borð við ferðamannaþjónustu og annað sem nýtir hina óspilltu náttúru, víðáttur og sérkenni landsins. Jafnvel þó að í einhverjum mæli megi sameina raforkuframleiðslu og ferðamennsku er ljóst að með framkvæmdunum er náttúran sett í annað sæti og ekki bara það, framkvæmdirnar og þau mannvirki sem reisa á við Kárahnjúka munu þegar fram líða stundir hafa í för með sér óafturkræfar breytingar á náttúrunni og því má segja að náttúran sé ekki aðeins sett í annað sæti, henni er fórnað.
Bók Ómars Ragnarssonar fjallar fyrst og fremst um þær deilur sem þessi afdrifaríka ákvörðun, undanfari hennar og eftirmálar, hafa hleypt af stað. Í henni stillir hann upp röksemdum þeirra sem hafa beitt sér fyrir virkjunarframkvæmdum á móti röksemdum umhverfis- og náttúruverndarsinna sem hafa barist á móti henni. Þetta tekst honum með aðdáunarverðum hætti. 34 meginágreiningsefnum eru þannig gerð ágæt skil og þau sett fram á einfaldan hátt þannig að hverju barni ætti að vera auðskilið. Ómar leggur sig mjög fram um að vanda til þess hvernig hvor málstaður um sig er handleikinn og sjálfur dregur hann engar heildarniðurstöður þótt vissulega gruni lesandann í hvaða átt þær kynnu að hníga.
Deilurnar um virkjanaframkvæmdir á Austurlandi, fyrst um fyrirhugaða Eyjabakkavirkjun, svo um Kárahnjúkavirkjun eru ekki aðeins stórfelldar, þær hafa líka tekið á sig sérkennilega og stundum ógnvænlega mynd. Ómar hefur frá upphafi verið sérstakur áhugamaður um þessi mál og sjónvarpsþættir hans sem endurspegla áhuga hans á landinu og umhyggju fyrir því hafa farið fyrir brjóstið á valdsmönnum. Ómar lýsir því í formála hvernig hann hefur mátt þola beinar og óbeinar hótanir um að beitt verði valdi til að stöðva hann, jafnvel koma því svo fyrir að hann yrði rekinn úr starfi. Sú fáheyrða valdníðsla sem kemur fram með þessum hætti er blettur á íslenskri stjórnmálamenningu og því miður ekki einsdæmi. Offors í rekstri mála á borð við virkjanamálin hafa sett svip sinn umræðu hér á landi um pólitísk hitamál. Deilur um Kárahnjúkavirkjun, rétt eins og deilur um fjölmiðlafrumvarp, Íslenska erfðagreiningu og fleira hafa ekki síður snúist um málsmeðferð stjórnvalda heldur en sjálft deiluefnið. Margir þeirra sem mótmæltu fyrirhugaðri virkjun voru einkum að mótmæla slæmum vinnubrögðum og því að stjórnvöld skyldu ekki skeyta um mótrök. Ákvörðunin hefði í raun verið tekin, framkvæmdir réðust því af valdi og afli stjórnarinnar fremur en rökum hennar.
Vanþroski stjórnmálaumræðunnar hér á landi gerir bók Ómars einstaklega gagnlega. Þetta er einmitt bókin sem nauðsynlegt er að hafa í höndunum til þess að geta á fljótlegan og hátt flett upp og rennt yfir hinar raunverulegu röksemdir á málinu. Hún getur hreinlega nýst sem kennslubók í lýðræði og sýnisbók yfir þau efni sem hefðu átt að vera krufin til mergjar í umræðunni um Kárahnjúka en voru það ekki.
Það er í sjálfu sér þarflaust að fara yfir einstakar röksemdir sem Ómar tínir til og stillir upp í bókinni. Það er ekki svo að skilja að hér sé um tæmandi lista að ræða og væntanlega er það ekki heldur tilgangur Ómars. Hann sýnir röksemdir úr umræðunni sem flestir hafa heyrt sem eitthvað hafa fylgst með og stillir þeim upp gegn mótrökum. Þetta heppnast vel og er tvímælalaust besti hluti bókarinnar, enda stærstur hluti hennar.
Á milli röksemdakaflanna stingur Ómar á nokkrum stöðum inn frásögnum af athugunum sínum á virkjanamálum erlendis. Fr´’oleik um íslenskar vikjanir, hugtakaskýringum og fleiri efnum. Þessir kaflar eru að mínu mati síður heppnaðir en röksemdakaflarnir og þeir eru misjafnir. Þó að Ómar hafi til dæmis aflað sér mikillar þekkingar á virkjanamálum erlendis ber umfjöllun hans keim af áhugamennsku sem hann reynir ekki að breiða yfir. Þetta kann sumpart að stafa af óöryggi þess sem ekki hefur sérfræðimenntun á því sviði sem hann er að fjalla um, kannski dæmigert óöryggi blaðamannsins, en það er með öllu óþarft. Það hefði verið áhugavert að sjá þessa millikafla gerða markvissari.
Í bókinni er fjöldi mynda, margar eftir Morgunblaðsljósmyndarana Ragnar Axelsson og Friðþjóf Helgason og sumar frábærlega góðar. En því miður eru í bland við þær loðnar og lélegar eftirprentanir vídeóramma sem stinga mjög í stúf við hitt myndefnið. Þetta spillir yfirbragði bókarinnar. Væntanlega ræður hér það sjónarmið að sýna helst myndir af því sem verið er að fjalla um hverju sinni, en þetta er að mínu mati alrangt sjónarmið í bók eins og þessari. Hér ætti miklu fremur að ríkja sú hugsun að nota ekki ljósmyndir nema þær séu þannig hver fyrir sig að vert sé að sýna þær. Hér finnst mér myndritstjórn forlagsins hafa brugðist. Sama má segja um notkun korta í bókinni. Það er látið nægja að birta kort beint upp úr landabréfabókum með klaufalega álímdum merkingum fyrir það sem verið er að fjalla um hverju sinni. Það er furðulegt að leggja svo mikið í prentun bókar eins og raunin er með þessa en ganga frá kortum eins og um sé að ræða vinnuskýrslu eða handrit.
Yfirbragð bókarinnar er létt og, eins og búast má við af Ómari Ragnarssyni, alþýðlegt. Enginn getur fengið það á tilfinninguna að bókin sé gerð í öðru skyni en því að leyfa lesendunum að afla sér sem einfaldastrar og bestrar sýnar á deilurnar um Kárahnjúkavirkjun. Fýlupokar eins og sá sem þetta skrifar andvarpa að vísu yfir fimmaurabröndurum í formála og staka smáatriði af því tagi skemmtikrafturinn Ómar Ragnarsson er þekktur fyrir, en enginn skyldi láta það spilla fyrir sér lestri bókarinnar. Hún er þarft innlegg í umræðu um virkjanamálin og hún er einstaklega mikilvægt framlag til umræðunnar um lýðræði í landinu sem virðist vera í fjörkipp eftir pólitískar sviptingar sumarsins.

Ómar Ragnarsson. Kárahnjúkar með og á móti. JPV útgáfa 2004.
Birt í Lesbók Morgunblaðsins 21. ágúst 2004.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *