Íslendingar eru saklaus þjóð. Varnarlaus þjóð. Við treystum á vini í ótryggum heimi. Forseti Bandaríkjanna var vinur okkar þangað til fyrir skemmstu að í ljós kom að hann var bara vinur Davíðs Oddssonar. Sem betur fer eru til aðrir vinir. Til dæmis framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins sem kom að heimsækja okkur vikunni og hann mun, hljótum við að vona, tala „máli okkar í höfuðstöðvum [Atlantshafs]bandalagsins í Washington þar sem á hann er hlustað“ eins og leiðarhöfundur Morgunblaðsins orðaði það svo skemmtilega sakleysislega á fimmtudag.
Utanríkisráðherrar síðustu missera hafa hamrað á þeirri staðreynd að við vitum ekki neitt um varnarmál eða hermál og því getum við ekki haft neinar útfærðar tillögur um hvernig við viljum að vörnum landsins sé háttað. Það eina sem við getum gert er að berja í borðið og krefjast þess að hér séu þotur. En ef við vitum ekkert um hermál, hvernig vitum við þá að við þurfum endilega að hafa hér þotur? Nákvæmlega hvernig á framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins að tala máli okkar í Washington?
Ísland verður ekki varnarlaus þjóð við það að bandaríski flotinn taki saman föggur sínar og yfirgefi varnarstöð sína á Íslandi, því varnarleysi okkar er huglægt frekar en áþreifanlegt. Það myndi ekki minnka við það að ósigrandi her tæki sér varnarstöðu í hverju krummaskuði, þotur sveimuðu yfir landinu í leit að óvini eða flokkar kafbáta hringsóluðu í hafinu umhverfis landið. Varnarleysi okkar birtist best í þessari einu setningu leiðarahöfundar Morgunblaðsins: „Þessvegna hljótum við að vona að framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins … tali máli okkar í Washington … þar sem á hann er hlustað.“
Rússum finnst erfitt að horfast í augu við þá staðreynd að stórveldi þeirra er liðið undir lok. Þeim gremst ekkert meira en að vera lagðir að jöfnu við hvert annað Evrópuríki. Íslenskum stjórnvöldum virðist á sama hátt finnast erfitt að sætta sig við að hernaðarlega er Ísland ekki lengur mikilvægt. Þessvegna eru viðbrögðin þau að heimta framhald hins sama eins og ekkert hafi breyst í heiminum. Framhald varna eins og Ísland sé ennþá mikilvægt, sama þó svo sé ekki. Og ef stjórnvöld eru beðin að útskýra það hversvegna við þurfum á framhaldi hins sama að halda, neita þau að svara og segjast ekkert vita um varnarmál eða hermál.
Sakleysi er varnarleysi, en þrjóska, þvermóðska og hugmyndaleysi er líka varnarleysi. Með hverjum deginum sem líður fer þetta varnarleysi Íslands vaxandi. Þegar ameríski flotinn verður farinn frá Keflavík og vindurinn gnauðar í gluggatóftum draugabæjarins mun varnarleysi Íslands verða svo átakanlegt að einhverjum hlýtur að renna það til rifja – og kannski mun sá tala máli okkar á réttum stöðum, á meðan við rífumst um framtíð draugabæjarins og vonum helst að þangað komi nýr her með nýjar þotur og draugabærinn verði aftur fullur af fólki í einkennisbúningum, sem notar vatn og rafmagn, rekur útvarpsstöð og veitir vinnu.
En þetta mun engu breyta um varnarleysið. Á meðan varnarpólitík Íslands mótast af sakleysi, er keyrð áfram af þrjósku og birtist í því að vilja eingöngu ríghalda í það sem verið hefur, er þjóðin varnarlaus. Á meðan forsætisráðherrann þarf að þjóna Bandaríkjaforseta með opinberum stuðningi við hernað (sem hann hefur væntanlega ekkert vit á) til að kaupa velvilja út embættistíma sinn eru varnir landsins ekki trúverðugar. Þegar stjórnvöld neita að ræða stefnu um varnir og viðbúnað við landsmenn og segjast ekki hafa vit á þeim, þá hefur Ísland heldur engar raunverulegar varnir, sama hve margir hermenn og hve margar þotur hafa bækistöðvar í Keflavík.
Lesbók Morgunblaðsins, 17. júní 2006

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *