Valdhroki er hvimleitt en nokkuð algengt fyrirbæri í íslenskum stjórnmálum. Af einhverjum ástæðum virðast margir íslenskir stjórnmálamenn vera auðveld bráð: Þeir eru ekki fyrr komnir í ráðherraembætti en hrokinn heltekur þá.

Norrænir kollegar þeirra íslensku eiga auðveldara með að verjast hrokanum. Þess vegna koma þeir stundum þokkalega út úr verstu hneykslismálum. Í lok árs 2013 var til dæmis hart sótt að þáverandi dómsmálaráðherra Danmerkur, Morten Bødskov, vegna þess að danska öryggislögreglan hafði stolist til að njósna um Piu Kærsgaard, leiðtoga Danska þjóðarflokksins.

Bødskov hrökklaðist að lokum úr embætti vegna þessa, en aldrei hélt hann því fram að gagnrýnin á sig væri „ljótur pólitískur leikur“ eða að fjölmiðlar legðu sig í einelti.
Hann varði sig og reyndi eftir því sem hann gat að halda embættinu. En þegar ljóst var að hann hafði ekki lengur pólitískan stuðning sagði hann einfaldlega af sér. Sama gerði Christian Friis Bach, ráðherra þróunarmála, nokkru áður, en hann varð uppvís að því að gefa danska þinginu rangar upplýsingar, og Uffe Elbæk menningarmálaráðherra þurfti einnig að segja af sér vegna gagnrýni á embættisfærslur hans. Vafalaust fannst þessum ráðherrum öllum illa að sér vegið en þeir kunnu sig sem stjórnmálamenn: Vörðu sig fyrir ásökunum, sanngjörnum eða ósanngjörnum, á málefnalegan hátt á meðan það var hægt, og sögðu svo af sér þegar þeir sáu sína sæng uppreidda. Það er ekki þar með sagt að þessir tilteknu einstaklingar séu dygðugri eða betra fólk en aumingja pólitíkusarnir okkar en þeir lifa og hrærast í stjórnmálamenningu sem gerir þegar upp er staðið meiri kröfur um fagmennsku.

Valdhroki birtist á ýmsa vegu. Í einni mynd sinni er hann afneitun á ábyrgð, eins og þegar háttsettum embættismönnum er fyrirmunað að skilja að opinber gagnrýni á störf þeirra, sama hversu hörð og sama hversu ósanngjörn, krefst þess af þeim að þeir svari málefnalega án þess að vera með undanbrögð eða blammeringar. En það getur skinið í hann í öðru samhengi, ekki síst þegar ráðherrar eða æðstu stjórnendur halda að þeir þurfi ekki að ávinna sér traust í embætti en geti gert – tja bara það sem þeim sýnist. Hann birtist líka í oftrú á eigin dómgreind og ákvarðanir – þegar stjórnmálamenn eru sannfærðir um vinsældir þeirra velti á þeir séu nógu fjandi harðir og fljótir að svara fyrir sig.

Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu finnst illa með sig farið þessa dagana og hefur þess vegna ákveðið að sniðganga suma fjölmiðla en nota aðra til að koma á framfæri áliti sínu á ásökunum og gagnrýni sem hún hefur orðið fyrir. Það hefur ekki hvarflað af henni að segja af sér og það virðist ekki hvarfla að henni heldur að viðbrögð hennar sjálfrar geti á endanum rúið hana því trausti sem hún einhvern tímann hafði. Innanríkisráðherra telur að það nægi að hún lýsi því yfir að hún beri fullt traust til lögreglustjórans. Í viðbrögðum beggja við snúinni og í hæsta máta vandræðalegri stöðu birtist valdhroki af mjög einfaldri gerð:

Þær halda að þær geti hagað sér eins og gagnrýnendur hafi rangt fyrir sér og aðalatriðið sé að hlusta ekki á þá.
Hvenær geta stjórnmálamenn og embættismenn leyft sér að hlusta ekki á gagnrýni? Þegar þeim finnst hún ósanngjörn og röng? Eða þegar þeir njóta trausts hvers annars? Í rauninni skiptir ekki öllu máli í dag hvort Ólöf Nordal treystir Sigríði Björku Guðjónsdóttur – kannski skiptir það engu máli eða er jafnvel bara einkamál þeirra tveggja. Það sem skiptir hins vegar máli er hvort almenningur treystir lögreglustjóranum. Ef svo er ekki og ef viðbrögð hennar gefa æ minna tilefni til að henni sé treyst, þá ætti innanríkisráðherrann kannski bara að halda trausti sínu fyrir sig. Ef traust á lögreglustjóranum skiptir máli, þá er það traust almennings – samfélagsins og innanríkisráðherrann ætti að hugsa um það frekar en sína persónulega afstöðu.

Þess vegna gerði ráðherrann líklega bara illt verra með traustsyfirlýsingunni. Og þótt vart hefði verið hægt að búast við því fyrirfram þá er engu líkara en einhver saga sé að endurtaka sig: Að vegna vanhugsaðra viðbragða þróist málin stöðugt á verri veg fyrir þá sem í þeim standa. Kannski er þetta lærdómsferli fyrir alla. Ágengir fjölmiðlar og hrakfarir þeirra sem vinna ekki bug á valdhrokanum eru þrátt fyrir allt líklega besta leiðin til að breyta stjórnmálamenningu til hins betra.

Birt í öðru tölublaði Stundarinnar 12. mars 2015. Sjá vefútgáfu: http://stundin.is/pistill/valdhroki-traust-og-hrakfarir/