I
Í grein sinni „Lying in Politics: Reflections on the Pentagon Papers“ fjallar Hannah Arendt um eðli og hlutverk lyga í stjórnmálum. Tilefnið er næsta augljóst. Pentagon skjölin, 4000 blaðsíður af opinberum skjölum frá næstum 30 ára tímabili auk 3000 síðna greiningar á ákvörðunum á sama tímabili, voru afrakstur leynilegrar innri rannsóknar varnarmálaráðuneytisins á stefnu Bandaríkjastjórnar í málum sem vörðuðu Suðaustur-Asíu frá seinni heimstyrjöld og fram að þeim tíma sem rannsóknin fór fram laust fyrir 1970. Þau sýndu á sláandi hátt hvernig stjórnvöld höfðu beitt lygum og blekkingum til að réttlæta ákvarðanir og afla þeim fylgis: „Kviksyndi loginna staðhæfinga af öllum gerðum,“ segir Arendt „blekkinga jafnt sem sjálfsblekkinga, er líklegt að hver sá lesandi sökkvi í sem langar til að kynna sér þetta efni og sem hann verður illu heilli að horfast í augu við að sýni gangvirki bandarískrar utan- og innanríkisstefnu…“ (bls. 4). Það var eitt af þeim reiðarslögum sem bandarísk stjórnvöld urðu fyrir á árunum upp úr 1970 þegar Pentagon skjölunum var lekið í blaðamann New York Times og sá leki átti vafalaust sinn þátt í því endurmati á trúverðugleika stjórnmálamanna sem áttundi áratugurinn einkenndist af þar í landi. Pentagon skjölin sýndu svo ekki varð um villst að stjórnmálamenn ljúga, æðstu embættismenn gera það, leiðtogar ríkja – jafnvel leiðtogar frjálsra ríkja sem telja sig geta verið öðrum ríkjum fyrirmynd í flestum hlutum. Nú væri barnalegt að halda að lygar séu nýtilkomnar í pólitík, eða að láta þá staðreynd að stjórnmálamenn ljúga koma sér á óvart. Stjórnmálamenn lifa í heimi þar sem orðum og mælsku er beitt með markvissum hætti til að hafa áhrif á veruleikann – til að stýra honum. Staðhæfingar stjórnmálamanna um ástand mála eru ekkert annað eða meira en staðhæfingar um staðreyndir og staðreyndir geta verið með einum hætti eða öðrum. Það sem er satt gæti verið ósatt og öfugt; engin lygi sem stjórnmálamaðurinn beitir er þannig að hún gæti ekki verið sannleikur, væru hlutirnir með ofurlítið öðrum hætti. Það má jafnvel ganga lengra: Lygar eru ekki bara auðveldar í pólitík, þær eru í vissum skilningi órjúfanlegur hluti stjórnmálanna. Stjórnmálamaðurinn talar til að breyta. Dygð hans er ekki sannsögli – dygð stjórnmálamannsins getur einmitt birst í frelsi hans undan oki raunveruleikans. Lygar, sé þeim beitt af kunnáttusemi og fyrirhyggju, geta verið magnað tæki til að framkvæma og til að breyta straumum og stefnum sem hlutirnir virðast annars fastir í. Lygar geta verið hreyfiafl í stjórnmálum og hæfileikinn til að ljúga skiptir höfuðmáli um eðli athafna, ekki síst athafna í stjórnmálum. Ákvörðun valdsmannsins setur stefnu í ákveðna átt og með henni eru aðrir möguleikar sem fram að því komu til greina útilokaðir. Þannig skapar ný ákvörðun nýjan veruleika sem oft krefst þess að beitt sé því sem Hannah Arendt kallar hinn sérkennilega mennska hæfileika „að neita því í hugsun og orði sem þó er raunin hverju sinni“ (bls. 5). Þessi hæfileiki er til marks um frelsi mannsins frá þeim aðstæðum sem hann býr við hverju sinni. Þannig er hæfileikinn til að ljúga nátengdur getunni til að breyta; til að taka veruleikann og snúa honum upp í eitthvað annað og nýtt. II Sá sem beitir lygum verður þó að horfast í augu við að raunveruleikinn nær alltaf út yfir lygina. Engin lygi er svo mögnuð að hún nái yfir alla möguleika sem upp geta komið og fyrr eða síðar hlýtur öll lygi að mæta raunveruleikanum. Þessvegna er það dálítið sérkennilegt og kannski kaldhæðnislegt að mæra lygina. Staðreyndin er sú, og um þetta eru Pentagon skjölin ákaflega skýr vitnisburður, að sjaldan er ein báran stök. Það er eitt að ljúga um einstök atriði, annað að gera lygina að reglu. Lygi í stjórnmálum er sett fram til að gera veruleikann viðráðanlegri og það heppnast oft í einstökum atriðum. Um þetta má nefna eitt nýlegt dæmi úr íslenskri pólitík. Fyrir hálfu öðru ári kom þáverandi forsætisráðherra landsins fram í útvarpi og lýsti því yfir að hann vissi að eigandi stórs fyrirtækis hefði viljað bjóða sér mútugreiðslur. Strax komu upp miklar efasemdir um að forsætisráðherrann væri að segja satt. Nú skal því látið ósvarað hvort svo var eða ekki, en staðhæfingin, sönn eða login, hjálpaði vafalaust til að kasta rýrð á ákveðna hópa í samfélaginu. Og það sem meira var, almenningi virtist í raun standa á sama um hvort hún væri sönn eða ósönn. Enginn krafðist þess að málið væri rannsakað. Þetta er einstakt dæmi sem segir okkur að hér á landi að minnsta kosti er umburðarlyndi gagnvart einstökum lygum töluvert. En verði lygin að reglu er annað og meira í húfi. Þá eykst hættan á því að greinarmunurinn á sannleika og lygi verði óljós en um leið og sá greinarmunur er horfinn getur lygarinn hæglega misst tökin á þeim veruleika sem hann reynir að stýra með lyginni. Stjórnmálamenn, rétt eins og þeir sem fást við auglýsingar, kynningarmál, markaðsstarf og áróður af ýmsu tagi, búa við stöðuga freistingu að ljúga. Valdið býður þessari freistingu heim: Þegar hægt er að lýsa hlutunum á næstum hvaða hátt sem er, hversvegna skyldi maður þá binda sig um of við að lýsingin sé rétt eða nákvæm eða samræmist tilteknum veruleika hér og nú? Hversvegna skyldi maður ekki alveg eins einbeita sér að því að hafa áhrif á heiminn í tiltekna átt og oft virðist lygin vera miklu betri og auðveldari leið til þess heldur en viðleitni til að láta frá sér sannar staðhæfingar um veruleikann eins og hann er hér og nú. Gagnrýni Hönnuh Arendt á bandarísk stjórnvöld í kjölfar Pentagon skjalanna var einmitt fólgin í því að benda á að þau hefðu gert lygina að reglu. Sá veruleiki sem blasti við þegar stefnumörkun og ákvarðanir bandarískra stjórnvalda voru settar í heildarsamhengi var að í mörgum atriðum hafði viðleitni þeirra til að skapa veruleika náð yfirhöndinni og gert raunsæislegt mat ómögulegt. Þessi viðleitni birtist á tvo vegu. Annarsvegar í auglýsingamennsku – ímyndarsmíð sem lýtur ekki takmörkunum annars veruleika en þess sem hægt er að fá fólk til að trúa, hinsvegar í stefnumörkun. Hannah Arendt bendir á að þeir sérfræðingar og ráðgjafar sem hugsuðu og mótuðu utanríkisstefnu Bandaríkjanna á kaldastríðsárunum beittu iðulega flóknum kenningum sem jafnvel byggðu á stærðfræðilegum líkönum til að leggja drög að og réttlæta hegðun stjórnarinnar: „Þeir lögðu metnað sinn í að finna formúlur … sem gætu fellt þann sundurlausa veruleika sem blasti við þeim í eitt kerfi, þeir vildu finna lögmál sem gæti skýrt og sagt fyrir um sögulegar staðreyndir eins og þær væru nauðsynlegar og þessvegna jafn áreiðanlegar og náttúruvísindamenn héldu einu sinni að gilti um náttúrlegar staðreyndir“ (bls. 11). Það merkilega við þessa greiningu er ekki sú hugmynd að ímyndarsmiðir fáist fyrst og fremst við tilbúinn veruleika. Höfuðatriði hér er að veruleikasmiðirnir eru sérfræðingarnir, ráðgjafarnir sem eiga að lesa úr margvíslegum upplýsingum og meta þær. Viðsnúningurinn felst í því að þeir sem eiga að gera valdhöfunum mögulegt að takast á við flókinn raunveruleika taka í raun þátt í að skapa hann en þar með verður lygin ekki val stjórnmálamannsins sem kýs að afvegaleiða eða blekkja. Lygin verður regla og stefna stjórnvalda því byggð á tilbúningi sem þegar upp er staðið hrynur eins og spilaborg. Þegar hingað er komið sögu má jafnvel spyrja hver lygarinn sé og Arendt bendir á hlutirnir kunna vel að þróast svo að sá sem mest hefur völdin verði á endanum mesta fórnarlamb lyginnar. Hann er umkringdur sérfræðingum, ráðgjöfum að öllu tagi sem eiga að færa honum nákvæmar upplýsingar um hvað sé að gerast og við hverju megi búast, en í raun eru þeir uppteknir við að smíða veruleika handa valdsmanninum og smíðin verður flóknari og flóknari eftir því sem gera þarf grein fyrir fleiri hlutum. III Meðal skrifa þýska heimspekingsins Immanuels Kants er stutt hugleiðing um sannsögli þar sem Kant færir rök fyrir því að yfirlýsingar sem gefnar eru í því skyni að blekkja séu réttlætanlegar í vissum tilvikum. Hann heldur því fram að á meðan ekki sé hægt að saka mann um beina lygi hafi hann umtalsvert siðferðilegt svigrúm til að leiða þá á villigötur sem hann á til dæmis í samkeppni við eða þarf að afvegaleiða af öðrum orsökum. Þessi skrif Kants koma þeim alltaf ofurlítið á óvart sem þekkja siðfræðikenningu hans en hann lýsir því með kostulegum dæmum hvernig hægt er að blekkja án þess að ljúga beint og án þess að gera nokkuð sem hægt væri að halda fram að bryti í bága við siðalögmálið, en eins og við vitum felur siðalögmál Kants það í sér að lygar er ekki hægt að réttlæta undir nokkrum kringumstæðum. „Setjum svo“, segir Kant, „að ég óski þess að fólk haldi að ég sé á leið í langt ferðalag (þó ég ætli mér það alls ekki) og því pakka ég niður farangri. Þá dregur fólk þá ályktun sem ég vil að það dragi en enginn hefur þó rétt til að krefjast þess að ég gefi yfirlýsingu um ætlun mína“ (Fyrirlestrar um siðfræði, bls. 29). Það viðhorf Kants að blekkingar séu réttlætanlegar á meðan þær geta ekki kallast beinar lygar birtir í hnotskurn þversagnarkenndan skilning nútímans á blekkingum og lygum. Sú viðleitni að reyna að teygja mörk hins mögulega eins langt og farið verður án þess þó að brjóta tiltekna grunnreglu birtir okkur hugmynd um siðferði þar sem mannlegum athöfnum er stýrt af óbrjótanlegri reglu frekar en af markmiðum eða hugsjónum um farsæld eða frelsi. Á meðan reglan er ekki brotin má fara sínu fram. Þó að þetta leiði ekki beinlínis af siðfræði Kants, þá er hugleiðing hans um muninn á „blöffi“ eða blekkingum annarsvegar og lygum hinsvegar athyglisverð viðbót við siðfræði hans. En blöffið eða blekkingin, sama hve óhjákvæmileg og hve fastur hluti hún er af samskiptum fólks á vettvangi viðskipta og stjórnmála, tekur á sig nýja mynd þegar hún verður föst regla, verður þáttur í því hvernig veruleikinn er túlkaður. Ráðgjafarnir sem á kaldastríðsárunum reyndu að skilja heiminn í ljósi líkana sem sögðu fyrir um möguleika í samskiptum og þróun tveggja hugmyndafræðilegra kerfa, eru á sínum stað þó að aðferðir þeirra og matstæki hafi breyst. Í bandarískum blöðum á borð við The New York Review of Books og New Yorker hafa síðustu mánuði birst nákvæmar úttektir á blekkingarleik bandarískra valdhafa í kringum stríðið í Írak. Hvort sem um er að ræða innrásina sjálfa og réttlætingu hennar, samskipti við Íraka heima fyrir, við ný stjórnvöld í landinu eða meðferð á föngum, þá hefur viðleitnin til kerfisbundinnar blekkingar hvað eftir annað verið afhjúpuð. Kerfisbundin blekking hefur það einkenni að hún teygir sig dýpra heldur en einstakar blekkingar og einstakar lygar yfir á svið þess hvernig veruleikinn er túlkaður. Bestu sögulegu dæmin um slíkar blekkingar er að finna í Sovétríkjum Stalíns þó að ef til vill sé það George Orwell í skáldsögu sinni 1984 sem nær að lýsa kerfisbundinni blekkingu á áhrifamestan hátt. Fylgifiskur kerfisbundinnar blekkingar er sá að mörkin á milli sannleika og lygi taka að leysast upp og hverfa. Hvað merkir það nákvæmlega? Jú það merkir að sannleikurinn hættir að vera tilgangur í sjálfum sér. Um leið og sannleikurinn er ekki tilgangur í sjálfum sér verður hann líka merkingarlaus. Ef það verður fátítt eða jafnvel undantekning að fólk segi það sem það segir ekki í því skyni að segja satt og til að mótmæla öðru sem sagt er og sem það telur rangt, heldur í einhverjum allt öðrum tilgangi, til dæmis til að þóknast valdsmönnum, til að sýna með hverjum það standi eða til að taka þátt í að refsa einhverjum, þá er allt sem kenna má við umræðu, að ekki sé nú talað um lýðræði, í mikilli hættu. Annað einkenni kerfisbundinnar blekkingar er að erfitt eða ókleift getur reynst að sýna fram á hana og þar með að eyða henni. Jafnvel þó að reynt sé að afhjúpa hana, sýna fram á lygarnar, þá er oft auðvelt að gera gagnrýnina sjálfa og afhjúpanir hennar ótrúverðugar. Kerfisbundin blekking er ekki leiðrétt heldur hrynur hún um leið og vélin sem nauðsynleg er til að halda henni gangandi gefst upp – um leið og valdið að baki henni hverfur. Það sem er að gerast í Írak núna er þess eðlis að menn segja gerólíka hluti um ástandið eftir því hvernig þeir hafa komið að málum. En hvað er að viðurkenna hinn bitra veruleika í Írak? Er það fólgið í því að reyna að gera sér grein fyrir hvað það merkir að daglega séu mannskæðar sprengjuárásir í Bagdad og öðrum helstu borgum landsins? Eða felst það í því að segja að það sé nú ekkert voðalegt mál þó að fólk sé drepið á einum eða tveimur stöðum í Írak því að ekkert fólk hafi verið drepið á mörgum öðrum stöðum í landinu á sama tíma eins og núverandi utanríkisráðherra sagði með svo kindarlegum hætti á Alþingi í eldhúsdagsumræðum í gær, 4. október, um leið og hann lýsti því yfir að konur nytu nú frelsis í Írak og gaf þar með óljósa vísbendingu um að rétt eins og þjóðhöfðingi Bandaríkjanna hneigðist hann til að rugla saman Írak og Afganistan.
IV Í 1984 er að finna hugleiðingu um hvað það merkir þegar einstaklingi er meinað að segja það sem hann telur vera satt vegna þess að það sé satt. Það hefur margt verið skrifað um einmitt þetta atriði í 1984; hvað það merki nákvæmlega þegar spurningin um satt eða logið hættir að vera mælikvarðinn á það hverju halda beri fram og hverju ekki. Bandaríski heimspekingurinn Richard Rorty hefur skrifað sérlega áhugaverða grein um þetta sem hann nefnir „Orwell on Cruelty“ en í henni bendir hann á að brotið gegn einstaklingnum varði í raun ekki að honum sé meinað að höndla eða viðurkenna hinn hlutlæga sannleika, en sé neyddur til að leggja trúnað á það sem yfirvöldin ákveða að hann skuli trúa. Rorty skipar frelsinu ofar hlutlægum sannleika í túlkun sinni á Orwell og orðar það svo að sannleikurinn sjái um sig sjálfur sé frelsi tryggt (bls. ?). Það sem skáldsagan lýsir er því ítrasta frelsisskerðing: Svipting á þeim rétti að trúa á sjálfan sig sem sjálfstæða og vitiborna veru er njóti virðingar og tiltekinnar friðhelgi. Þessi túlkun Rortys, sem varðar einkum samskipti aðalsöguhetjunnar Winstons Smith við kvalara sinn O’Brian hefur orðið tilefni deilna sem ég ætla ekki að fara út í hér, en það er þó rétt að nefna að um þær var fjallað á þessum vettvangi fyrir líklega einum tveimur árum þegar Róbert Haraldsson gerði gagnrýni annars bandarísks heimspekings, James Conants á Rorty að umtalsefni í hádegiserindi á vegum Sagnfræðingafélagsins. En hvað sem líður skáldsögunni þá er túlkun Rortys í samræmi við margt annað sem Orwell skrifaði. Þannig bendir hann til dæmis á í ritgerðinni „Inside the Whale“ að einstaklingur sem hafi hæfileika af einhverju tagi sé líka nauðsynlega einstaklingur sem trúir á sannfæringar sínar, hvort sem þær eru sannar eða ósannar og bætir við: „Til eru þær aðstæður þar sem ósönn skoðun er líklegri til að vera höfð af einlægni heldur en skoðun sem er sönn“ (bls. 45). Með öðrum orðum Orwell er ekki svo mjög að hugsa um hvernig Winston Smith og öllum í hans aðstæðum er lokuð leiðin að hlutlægum sannleika. Hann er ekki að hugsa um sannleikann heldur þá staðreynd að hin kerfisbundna blekking sem þegn alræðisríkisins er dæmdur til að lifa við sviptir hann réttinum til að trúa einhverju af einlægni eða halda fram skoðun vegna þess að hann trúi því að hún sé sönn. Það sem einstaklingurinn er sviptur við þessar aðstæður er rétturinn til tjáningar og rétturinn til sjálfstæðrar og skapandi hugsunar um sjálfan sig og heiminn í kringum sig. V Samfélag samtímans hefur af sumum heimspekingum verið kennt við stýringu sem felst í því að valdi er beitt til að stýra hegðun hópa við flóknar og að mörgu leyti ófyrirsjánlegar aðstæður, frekar en að ná yfirsýn yfir þjóðfélagið í gegnum fullkomna niðurhólfun þess. Birtingarmyndir valdsins geta verið óræðar í stýringarsamfélaginu en á móti kemur að stýring ristir dýpra heldur en flokkun eða vistun gerir í ögunarsamfélaginu, forvera stýringarsamfélagsins. Stýring birtist líka á miklu fleiri vegu en þann að yfirvöld reyni að stýra þegnum sínum á einn tiltekinn hátt. Stýring kemur fram í því að viðhorf og vissar tegundir orðræðu ákvarða skoðanir og sjálfsmynd einstaklinganna í samfélaginu. Þetta merkir að sjálfsögðu að veruleikasmíði er stýringarleið og vald að hluta fólgið í að ákvarða túlkun veruleikans. Það sem valdahafar hljóta að huga að er að hve miklu leyti veruleikinn getur komið aftan að þeim. Að hve miklu leyti geta þeir búist við því að sú túlkun veruleikans sem þeir halda fram muni styrkjast þegar fram líða stundir og að hve miklu leyti er við því að búast að veruleikinn verði annar og ákvarðanir þeirra muni reynast rangar, jafnvel fáránlegar síðar. Það er ekki hægt að nefna neina eina leið í þessu sambandi aðra en þá að leitast við að varðveita þann skilning á muninum á sannleika og lygi sem allir temja sér í hversdaglegu lífi. Þetta gera stjórnvöld með því að hlusta á ólíkar raddir frekar en að fara sínu fram og dæma hverja gagnrýnisrödd dauða og ómerka. En það er sannarlega ekki leiðin sem valin hefur verið hér á landi á undanförnum mánuðum og árum – þvert á móti. Ég skipti lygum í þrjá flokka hér í dag og talaði í fyrsta lagi um lygar í einstökum atriðum – atvik þegar stjórnmálamaður tekur þann kost að segja ósatt eða afvegaleiða um tiltekið efni frekar en að segja satt og ég vil leyfa mér að halda því fram að þessi tegund lyga sé fastur liður í pólitík. Í öðru lagi ræddi ég stuttlega um auglýsingamennsku í pólitík og þá staðreynd að það verður stöðugt stærri þáttur í opinberu lífi að búa til ímyndir með markvissum aðgerðum sem oftar en ekki hafa lítið að gera með veruleikann. Í þriðja lagi ræddi ég um kerfisbundna blekkingu sem birtist í því að stefnumótun og ákvarðanir sem varða ástand mála í stórum heildum og stórum tímabilum er byggð á tilbúnum veruleika eða á tilraun til að fella veruleikann í hugmyndafræðilegt eða fræðilega úthugsað kerfi sem þar með verður í raun sjálfstæður veruleiki. Þessi síðasta tegund af blekkingum var á kaldastríðsárunum viðloðandi alþjóðapólitík og hefur á síðustu árum birst aftur í auknum mæli. Þetta sjáum við ekki síst í kringum það sem Bandaríkjamenn nefna stríð sitt gegn hryðjuverkum og innrás þeirra og bandamanna þeirra í Írak. Sjáum við merki þess sama hér á landi? Að vissu marki held ég að við gerum það. Tíminn sem ég hef er búinn og ég ætla ekki að fara út langar útskýringar á því sem ég á við. En umdeildar ákvarðanir síðustu ára á borð við virkjanaframkvæmdir, álver og ég vil líka nefna löggjöf um gagnagrunn á heilbrigðissviði sýna öll merki umræðu þar sem stjórnvöld ríghalda í tilbúinn veruleika sem þau láta sig ekki í að sé sá eini rétti sama hvaða sjónarmiðum er teflt fram á móti honum. Þetta hefur birst með jafnvel ennþá skýrari hætti í þeim umbrotum sem orðið hafa vegna fjölmiðlafrumvarpsins. Jafnframt eru allir andstæðingar þeirra ákvarðana sem um er að ræða álitnir harðir stjórnarandstæðingar og það verður almenn vitneskja í samfélaginu að með því að láta í ljós tilteknar skoðanir eða röksemdir sé maður að skipa sér í sérstakt lið. Á sama hátt verður þrýstingur á þá sem taka þátt í opinberu lífi stöðugt meiri að þeir fylgi línu flokks frekar en að fylgja eigin sannfæringu og segja það sem flokkurinn hefur ákveðið í sameiningu frekar en að segja það sem einstaklingurinn er tilbúinn til að halda fram og standa við. Ég get ekki lokið þessu án þess að nefna eina nýlega uppákomu sem ég hef talsvert reynt að botna í en átta mig þó ekki á enn. Nýlega stóð ráðherra frammi fyrir því að þurfa að skipa hæstaréttardómara úr hópi umsækjenda um þá stöðu. Nú bregður svo við að stór hópur lögmanna tekur sig til og skrifar dómsmálaráðherra bréf með stuðningsyfirlýsingu við einn þessara umsækjenda. Það sem ég átta mig ekki á er nákvæmlega í hvaða skyni stuðningsyfirlýsingin var send. Varla hefur hún verið send til að styrkja umsækjandann því að stuðningsyfirlýsingar af þessu tagi orka tvímælis en gera ráðherra ekki auðveldara að velja umsækjandann sem mælt er með og það vita lögmenn væntanlega manna best. Þurftu lögmennirnir að tryggja stöðu sína með því að skipa sér í lið með þessum hætti og þá gagnvart hverjum? Svona má spyrja áfram en ég ætla að láta staðar numið hér.
Rit sem vísað er til: Hannah Arendt (1972). Lying in Politics. Reflections on the Pentagon Papers. Í Crises of the Republic. New York: Harvest/HBJ.
Richard Rorty (1989). The Last Intellectual in Europe. Orwell on Cruelty. Í Contingency Irony and Solidarity. Cambridge: Cambridge University Press.
George Orwell (1940). Inside the Whale. Í Inside the Whale and other Essays, Harmondsworth: Penguin, 1962.
Immanuel Kant (1930). Lectures on Ethics. London: Methuen. Hér er vísað til brota úr textanum sem birt eru í Donaldson & Werhane (1999) Ethical Issues in Business. New Jersyey: Prentice Hall.

Flutt sem hádegiserindi hjá Sagnfræðingafélaginu þriðjudaginn 5. október 2004

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *