Það virðist vera gap á milli viðhorfa almennings til fjármálakreppunnar og afstöðu ríkjandi stjórnvalda. Á meðan forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar umgangast kreppuna eins og hvert annað tæknilegt vandamál, sem hægt er að leysa með samhentum „björgunaraðgerðum“ virðist stór hluti, jafnvel þorri almennings, sjá miklu dýpri og ískyggilegri merkingu í kreppunni. Hrun bankanna er líka meira en þrot stórra fyrirtækja. Hrunið afhjúpar stórkostleg vandamál stjórnkerfisins, mikil og endurtekin mistök í fjármálastjórnun og stórfelld pólitísk afglöp að ógleymdri allri spillingunni sem nú blasir við. En það sem meira er: heilt hugmyndakerfi er hrunið.

Árið 1979 kom út lítil bók með greinum eftir marga höfunda. Titill bókarinnar var Uppreisn frjálshyggjunnar og höfundar greina voru Davíð Oddsson, Þorsteinn Pálsson, Geir H. Haarde, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, Baldur Guðlaugsson, Björn Bjarnason og Halldór Blöndal, svo einhverjir séu nefndir. Hreinn Loftsson las prófarkir. Höfundarnir lýsa, hver með sínum hætti, stefnu og sýn nýfrjálshyggjunnar og færa rök fyrir ágæti hennar. Á þeim tæpu þrjátíu árum sem liðin eru má segja að þessir höfundar hafi haft öll tækifæri sem hugsast gat til að koma hugsjónum sínum í framkvæmd. Af þeim sem hér eru nefndir hafa þrír verið forsætisráðherrar og tveir til viðbótar setið árum saman í ríkisstjórn. Einn er ráðuneytisstjóri og annar prófessor og til margra ára áberandi talsmaður félaga sinna, einkum þess sem fyrstur er nefndur.

Prófessorinn í hópnum, Hannes Hólmsteinn Gissurarson birti grein í hausthefti Skírnis sem kom út nú fyrir nokkrum dögum undir heitinu „Ósigur frjálshyggjunnar?“ Þessi grein kallast skemmtilega á við greinasafnið sem hann átti þátt í tæpum 30 árum áður. Í grein sinni í Uppreisn frjálshyggjunnar kallar Hannes hana „gagnbyltingu“: Hann segir, ákafur, að hún sé hafin á Vesturlöndum og „hún er að hefjast á Íslandi“ (bls. 22). Í Skírnisgreininni eru markmiðin hófstilltari: „Í frelsinu býr feikilegur sköpunarmáttur“ segir þar „og við getum leyft okkur að vona með Hegel að einn góðan veðurdag verði það sameign alls mannkyns“ (bls. 488).

Á milli þessara greina eru ekki aðeins tæp 30 ár, heldur heilt tímabil. Það er tímabil nýfrjálshyggjunnar sem hófst á Vesturlöndum með „gagnbyltingu“ Hannesar í lok áttunda áratugarins og lauk með heimskreppu og hruni á Íslandi haustið 2008. En það merkilega er að gagnbyltingarmennirnir sem útlistuðu kenninguna fjálglega í Uppreisn frjálshyggjunnar og náðu svo völdum, halda þeim enn þótt heimur þeirra sé hruninn. Það er svona dálítið eins og Berlínarmúrinn væri hruninn en Erich Honecker enn við völd í Austur-Þýskalandi.

Hannes heldur því fram í Skírnisgreininni að frjálshyggjan hafi ekki beðið neinn ósigur. Kreppan sé þvert á móti fyrst og fremst misvitrum stjórnmálamönnum að kenna enda hafi þeir í raun komið af stað þeirri atburðarás sem síðar olli heimskreppu. En auðvitað er frjálshyggjan hrunin, alveg eins og kommúnisminn og rétt eins og það þótti illa henta að hafa kommúnista við völd eftir að kommúnisminn hrundi þyrftum við nú að losna við frjálshyggjumennina.

Brynjólfur Bjarnason sagði, í grein sem hann skrifaði eftir að Sovétstjórnin afhjúpaði glæpi Stalíns, að Stalínisminn hefði verið eins og hvert annað gelgjuskeið á þroskabraut kommúnismans, dálítið óþægilegt en eiginlega bara eðlilegt. Kannski frjálshyggjumennirnir telji nú að „gagnbylting“ frjálshyggjunnar sé líka „gelgjuskeið nýrra þjóðfélagshátta“?

5 replies
 1. Gerum ekki neitt!
  Gerum ekki neitt! says:

  Takk fyrir skemmtilega grein.

  Ef Hannes Hólmsteinn segir í Skírni að heimshrunið sé „fyrst og fremst misvitrum stjórnmálamönnum að kenna“ er hann þá ekki um leið að ríkisstjórn Sjálfsstæðisflokks seinustu 17 ár hafi verið skipuð misvitrum sjórnmálamönnum?

  ps. Uppreisn frjálshyggjunnar er náttúrulega algert gullkorn. Sérstaklega sniðugt að sjá Þór Whitehead nota sagnfræðina sem réttlætingartól í grein sinni um íslensk utanríkismál og veru bandaríska hersins á Íslandi.

  Svara
 2. Reynir Kristjánsson
  Reynir Kristjánsson says:

  Nema hvað, að það sem er að valda okkur mestum vandræðum hefur akkúrat ekkert með frjálshyggju að gera:
  1. Það sem kom heimskreppunni á stað má rekja til ríkisafskipta af bandarískum lánastofnunum (ekki frjálshyggja).
  2. Að taka við innlánum og láta skattgreiðendur vera í ábyrgð fyrir þeim er ekki frjálshyggja.
  3. Að ráða seðlabankastjóra, eða aðra starfsmenn eða stjórnendur, út frá öðrum forsendum en hæfni í starfið er ekki frjálshyggja.
  4. Ríkisstjórn sem eykur ríkisumsvif ár frá ári er ekki frjálshyggju stjórn (sama hvað meðlimir hennar hafa skrifað um áður).
  5. Að setja ekki skýrar leikreglur og sjá ekki til að þeim sé fylgt er ekki frjálshyggja.

  Svara
 3. jonolafs
  jonolafs says:

  Frjálshyggja er fyrst og fremst sú skoðun að markaðurinn virki því betur sem færri reglur hefta hann. Því trúa fáir nú. Síðustu atburðir benda til þess að fjármálamarkaður þurfi á flóknu regluverki að halda og stífu eftirliti opinberra aðila, eigi að tryggja að hann fari ekki í vitleysu. Þetta með ríkisafskipti af bandarískum lánastofnunum minnir á skýringar sósíalista á harðstjórninni í Sovétríkjunum. Hvað 2 og 3 varðar er ekki hægt að sjá að frjálshyggja komi á nokkurn hátt í veg fyrir slíka hluti. 4 er sennilega rétt: Það er erfitt að kalla þá frjálshyggjumenn sem beita þessum meðulum, alveg eins og mörgum sósíalistum þótti erfitt að kyngja því að harðstjórnin í Sovétríkjunum væri sósíalísk. En um 5 er aðeins hægt að segja sama og um 2 og 3, ekki aðeins frjálshyggjumenn gera þetta ekki – og hvað segir að þeir HLJÓTI að setja skýrar leikreglur og sjá til þess að þeim sé fylgt? Þú getur ekki sýnt fram á að frjálshyggja sé góð á þeim forsendum að hún sé góð!

  Svara
 4. Sævar Finnbogason
  Sævar Finnbogason says:

  Sæll Jón.
  Þessi umræða er ekki aðeins skemmtileg heldur nauðsynleg. Það er ekki á hverju ári sem heil hugmyndafræði býður skipbrot á heimsvísu. Þú dregur fram uppgjörið við stalínsmann og skemmtilegt að bera saman við viðbrögð Hannesar og kómískt að Reynir Kristjánsson skyldi finna sig knúinn skrifa þetta komment og sanna mál þitt.

  Hvað varðar tölulið 3. hjá Reyni þá man ég ekki betur einmitt reynsla Davíð af efnahagsmálum og sem guðföður frjálshyggjunnar hafa verið ein helsta röksemdin fyrir ráðningu hans.

  Hvað varðar undirmálslánin í Ameríku sem „allir eru að tala um“ þá má einmitt rekja stærð þess vanda til hugarfars nýfrjálshyggjunnar og græðginnar sem henni fylgdi. Til þess að geta lánað fleirum og meira var búið að búa til flókið völundarhús fjálmálavafninga sem byrjuðu á sölumanninum sem fékk laun í samræmi við magn lána (óháð gæðum) og var í engum tengslum við þann á sem síðar eignuðust lánið. Þannig var áhættan af láninu ekki á tæknilega á ábyrgð þess sem veitti það upp upphaflega, hann veitti lánið og losaði sig svo við það.

  Það er alveg merkileg að nú þegar BNA stjórn er enn eina ferðina að „beila út“ kemur sami söngurinn, eins og jólalag í nýrri útsetningu Þetta er allt stjórnmálamönnum og ríkinu að kenna.

  Svara
 5. Reynir Kristjánsson
  Reynir Kristjánsson says:

  Það er vel hugsanlegt að við séum ekki að skilgreina hugtakið frjálshyggja með nákvæmlega sama hætti enda hefur það alltaf verið viðurkennt meðal frjálshyggjumanna að þeir þurfa ekki allir að vera steyptir í sama mótið og geta vissulega haft ólíkar skoðanir þó að grunn stefið sé það sama. Þannig hefur það alltaf verið misjafnt hversu langt frjálshyggjumenn vilja ganga í því að láta markaðinn ráða öllu. Þeir sem vildu ganga hvað lengst í þeim efnum voru gjarnan kallaðir markaðshyggjumenn. Eitt af grundvallar viðhorfum frjálshyggjumanna er að það ríkji heilbrigð samkeppni milli fyrirtækja. Einkafyrirtæki í einokunaraðstöðu er síst skárra en ríkisfyrirtæki í sömu aðsöðu. Þess vegna vilja flestir frjálshyggjumenn að til staðar sé regluverk, eftirlit og aðhald sem tryggir að heilbrigð samkeppni ríki á markaði. Einnig er það grundvallar atriði frjálshyggjunnar að einstaklingar geti tekið áhættu í viðskiptum og þá ýmist grætt á því þegar vel gengur en tapað ella. Það getur enganveginn talist í anda frjálshyggjunnar að fyrirtæki eða einstaklingar stundi viðskipti sín með þeim hætti að þriðji aðili beri ábyrgð á viðskiptunum eins og var í tilfelli bankanna.
  Því fer víðs fjarri að hugmyndafræði frjálshyggjunnar hafi liðið undir lok. Ég bendi t.d. á að barátta J. Locke og B. Spinoza á 17. öld hefur sem betur fer borið árangur en þeir börðust fyrir trúfrelsi. Um 300 árum síðar voru frjálshyggjumenn á Íslandi að berjast fyrir því að sala á bjór yrði leyfð og að fleiri en ríkið mættu reka útvarps- og sjónvarpsstöðvar. Vinstrimenn á Íslandi voru margir mjög mótfallnir þessu. Einnig má benda á að grunngildi frjálshyggjunnar eru sem betur fer stór hluti af stefnu allra íslensku stjólrnmálaflokkanna. Hugmyndafræði frjálshyggjunnar á hvað mest undir högg að sækja í heiminum í dag í þeim löndum þar sem menn byggja stjónkerfi sitt á trúarlegri löfgjöf.
  Að lokum vil ég vitna í orð Atla Harðarsonar:
  Frjálshyggjan er ólík öðrum stjórnmálastefnum því hún leitar leiða til að menn geti lifað saman í sátt þrátt fyrir ólíkt gildismat. Í sinni bestu mynd er hún stöðug viðleitni til að leysa sameiginleg vandamál án þess að beita ofríki, kúgun eða þvingunum og finna leiðir til að menn geti lifað í friði þótt þeir hafi ólíkar skoðanir og sækist ekki allir eftir því sama. (Atli Harðarson: Frjálshyggjan og stjórnmál nútímans,
  Stefnir 1. tbl. 56. árg 2006, bls. 31—35)

  Svara

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *