Ég stundaði nám í heimspeki fyrst við Háskóla Íslands og lauka þaðan B.A. gráðu 1989. Eftir það starfaði ég sem fréttamaður í nokkur ár og var á árunum 1989 til 1992 um tíma fréttaritari í Rússlandi fyrir Ríkisútvarpið. Ég stundaði framhaldsnám í heimspeki viðColumbia háskóla í New York, og varði doktorsritgerð mína 1999. Ritgerðin, sem ber heitið „Conflict and method: An essay on Dewey“, er rannsókn á siðferðilegum og pólitískum hliðum rannsóknarkenningar Johns Dewey (e. theory of inquiry). Ég lauk einnig gráðu í Rússlandsfræðum frá Harriman stofnuninni sem er hluti af Columbia háskóla.

Eftir að ég sneri aftur til Íslands var ég forstöðumaður Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands í þrjú ár og starfaði að því loknu um tveggja ára skeið við ReykjavikurAkademíuna, en hún er miðstöð sjálfstætt starfandi fræðimanna. Ég var prófessor í heimspeki við Háskólann á Bifröst frá 2005 to 2014, og gegndi auk þess stöðu deildarforseta Félagsvísindadeildar frá 2006 til 2011 og aðstoðarrektors frá 2011 til 2013. Ég hef verið í stöðu prófessors í menningarfræði og rússlandsfræðum við Háskóla Íslands síðan í byrjun árs 2014.

Bók mín um íslensku sósíalistahreyfinguna Kæru félagar: Íslenskir sósíalistar og Sovétríkin 1920-1960 kom út hjá Máli og menningu 1999, og 2009 gaf ég út greinasafn um stjórnmálamenningu, andóf og stjórnmálaheimspeki sem ber heitið Andóf, ágreiningur og áróður. Bók mín Appelsínur frá Abkasíu. Vera Hertzsch, Halldór Laxness og hreinsanirnar miklusem fjallar um mat og endurmat á reynslu af hreinsununum miklu og fangabúðum Sovétríkjanna, Gúlaginu, í ljósi örlagasögu Veru Hertzsch og dóttur hennar Sólveigar Erlu, kom út 2012.

Helstu rannsóknir mínar nú eru á sviði tilrauna og nýjunga í lýðræði, einkum tengdra lýðvistun (e. crowdsourcing) og almenningssamráði með m.a. rökræðukönnunum. Rannsóknaáhugamál mín varða pólitískt andóf, þekkingarfræði valds, lýðræðislega kosti og valdasamhengi lýðræðisorðræðu.