Jón Baldvin Hannibalsson hefur haldið því fram að forysta Samfylkingarinnar og þá einkum formaður hennar eigi að axla ábyrgð á hruni bankanna í haust og efnahagskreppunni sem fylgdi með því að segja af sér trúnaðarstörfum fyrir flokk sinn. Hann hefur haldið því fram að Samfylkingin sé eini stjórnmálaflokkurinn af þeim sem komið hafa að stjórn landsins undanfarin ár sem hefur ekki látið forystu sína axla ábyrgð með þessum hætti.

Það er merkilegt að heyra þessar röksemdir frá jafn reyndum og skarpskyggnum stjórnmálamanni og Jóni Baldvin og raunar enn merkilegra hve lítil viðbrögð yfirlýsingar hans vekja, því niðurstaða hans er svo augljóslega röng. Jón Baldvin virðist einfaldlega rugla saman tvennskonar ábyrgð og í raun fullkomlega óskyldum tegundum siðferðilegrar ábyrgðar.

Eftir hrunið í haust héldu ýmsir því fram, þar á meðal sá sem þetta skrifar, að hamfarirnar kölluðu á afsögn ríkisstjórnarinnar í heild sinni og að langeðlilegast væri að þáverandi forsætisráðherra bæðist lausnar og skipuð yrði starfsstjórn fram að kosningum. Það mátti svo sem fallast á að rétt væri að stjórnin starfaði þar til eftir að náðst hefði samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, en þá var henni auðvitað ekkert að vanbúnaði að segja af sér. Sama hefði átt að gilda um bankastjórn Seðlabankans og stjórn Fjármálaeftirlitsins. En þá var fundin upp hugmyndin um „björgunaraðgerðir“ sem rök fyrir því að stjórnin sæti einfaldlega áfram og að kosningar væru ekki einu sinni settar á dagskrá.

Ábyrgð ráðherra í ríkisstjórninni, stjórnarinnar í heild og helstu embættismanna ætti ekki að vera flókin eða óljós og það má til sanns vegar færa að formaður Samfylkingarinnar hefði átt að segja af sér sem ráðherra og slíta þar með stjórnarsamstarfinu til að axla þá ábyrgð. En það er ekki þar með sagt að hún hefði um leið átt að segja af sér sem formaður flokks síns. Þar hlýtur vilji hins almenna flokksmanns að hafa eitthvað að segja og ýmis önnur atriði sem sem varða starf og stefnu flokksins.

Krafan um að Ingibjörg víki úr formannsstóli nú, hefur því ekkert að gera með ábyrgð á hennar á hruninu sem ráðherra í ríkisstjórn Geirs Haarde í haust. Slíka kröfu þyrfti að rökstyðja á annan hátt, það er með því að benda á að hún og forysta Samfylkingarinnar beri ábyrgð á þeirri fjármála- og peningastefnu síðustu 10 ára eða svo sem hefur ýtt okkur fram af bjargbrúninni. En hvað sem segja má um þátt Samfylkingarinnar í stjórnarsamstarfinu þá er ekki nokkur leið að halda því fram að hún beri ábyrgð á stefnu Sjálfstæðisflokksins undanfarin ár. Og þessvegna er krafan um afsögn og að axla ábyrgð dálítið undarleg nú – ekki laust við að maður hafi á tilfinningunni að hún sé hreinlega byggð á misskilningi sem felst í því að rugla saman annarsvegar ábyrgð á stefnu og ákvörðunum til langs tíma, hinsvegar ráðherraábyrgð; það er ábyrgð á því sem gerist þegar maður „er á vaktinni“. Það má sannarlega gagnrýna Samfylkinguna fyrir að hafa ekki brugðist rétt við eftir hrunið þannig að það þurfti að skapast byltingarástand í Reykjavík áður en menn gerðu sér grein fyrir því hvað nauðsynlegt væri að gera, það er senda Sjálfstæðisflokkinn í stjórnarandstöðu. En það er bara dálítið annað en ábyrgð á stefnu áranna á undan.

Loks er rétt að benda á að forystuskipti í Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki eru alls ekki til marks um að flokkarnir axli ábyrgð á stefnu sinni eða stjórnarsetu. Í Framsókn var það krísa á milli ólíkra afla í flokknum sem knúði formanninn til afsagnar. Í Sjálfstæðisflokknum eru veikindi hin opinbera skýring þess að formaðurinn dregur sig í hlé.

Það er dálítið dapurlegt ef þetta skrítna útspil Jóns Baldvins reynist vera fjörbrot hans sem stjórnmálamanns.

11 replies
 1. Fríða
  Fríða says:

  Jón ef þú ert að segja að ISG beri aðeins ábyrgð á þvi sem gerðist á hennar vakt þá er það í sjálfu sér fullnóg ástæða fyrir því að hún segi af sér. Henni var fullkunnugt um í hvert stefndi og kaus að aðhafast ekki neitt. Nú er sú dapurlega staða komin upp að hún hangir eins og hundur á roði á valdi sínu og skýlir sér á bak við vinsældir Jóhönnu Sigurðardóttur. ISG er búin að vera sem pólitíkus en er í algerri afneitun. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fylgi Samfylkningarinnar verður í næstu skoðanakönnun eftir þetta útspil í gær. Engin endurnýjun hjá þeim og ekki nokkur einsasti áhugi á því. Hvað ætlar ISG að gera þegar hún hefur náð aftur heilsu? Koma inn og taka yfir forsætisráðuneytið ef JS situr þar? Þetta útspil hennar í gær lyktar því miður af diktatoríal tilburðum og einlægum skorti á heiðarleika, því miður.

  Svara
 2. Ragnar Þór Pétursson
  Ragnar Þór Pétursson says:

  Þetta er lélegur pistill.

  Þú leyfir þér að grauta saman nokkuð agaðri rökræðu og slöppum pólitískum áróðri að því er virðist til að byggja sprengjubyrgi yfir ISG.

  Það má vel vera að til sé tvenns konar pólitísk ábyrgð, ráðherraábyrgð og flokksábyrgð. Og það má meira að segja vera að ráðherraábyrgð sé í eðli sínu afdráttarlausari, einfaldari og skýrari en flokksábyrgð.

  En það er alrangt að krafan um að ISG víki sem formaður SF nú hafi ekkert með setu hennar í ríkisstjórn að gera. Og það er líka rangt hjá þér að afsagnarkrafa vegna bankahrunsins geti aðeins skapast ef ábyrgð viðkomandi nær yfir tíu ára tímabil (eða tiltekið mengi athafna). Allt þetta tal hjá þér er til þess fallið að sníða ábyrgðarspennitreyju sem aðeins passar einum flokki, Sjálfstæðisflokki.

  Eins er hjal þitt um að SF megi gagnrýna fyrir að hafa ekki komið Sjálfstæðisflokki í stjórnarandstöðu fyrr óttalegt þvaður. Sú aðgerð var ekki með neinum skýrum hætti nauðsynleg, þótt flest bendi til þess að hún hafi verið nægjanleg – a.m.k. einhverjum. En það liggur hundurinn grafinn. JBH er bersýnilega ekki þeirrar skoðunar að það sé nóg.

  Sú ábyrgð sem pottormabyltingin kallaði eftir hjá stjórnmálamönnum var hvorki flókin né óljós.

  Margir eru þeirrar skoðunar að enginn eðlismunur sé á kröfunni um að koma Sjálfstæðisflokki í stjórnarandstöðu og kröfunni um að ISG stígi til hliðar. Þú kallar fyrri kröfuna nauðsynlega (án nokkurs rökstuðnings) en segir síðan að seinni krafan sé til marks um misskilning og ekki í neinum tengslum við það, sem kröfuhafar halda sjálfir fram.

  Það má vel vera að það þjóni ekki sérhagsmunum SF og vildarvina hennar að ISG segi af sér. En almenningur (a.m.k. nokkuð stór hluti hans) er kominn með meira en nóg af sérhagsmunagæslu stjórnmálamanna.

  Krafan um að ISG víki hefur allt með bankahrunið að gera. Hún var annar af tveimur oddvitum ríkisstjórnar sem svaf af sér öll hættumerki. Hún var í forsvari fyrir flokk sem fór með bankamál.

  Svara
 3. jonolafs
  jonolafs says:

  Takk fyrir kommentin!
  Verð að viðurkenna að ég skil komment Ragnars og Bárðar ekki nægilega vel til að geta svarað þeim.
  Hvað Fríðu varðar er svar mitt bara það, að hér er um tvennt að ræða: Ábyrgð gagnvart þjóð/almenningi annarsvegar og ábyrgð gagnvart eigin flokki hinsvegar. Það er vel hægt að krefjast þess (sé maður í Samfylkingunni) að ISG segi af sér. En forsendurnar sem JBH gefur sér eru svo augljóslega rangar að manni rennur það til rifja. Það væri miklu eðlilegra að krefjast afsagnar ISG á þeim forsendum til dæmis að hún hafi tekið kolrangt á málum EFTIR hrunið. En JBH er alls ekki að gera það. Hann er að leggja hlutverk hennar fyrir hrunið að jöfnu við hlutverk forystumanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Og það er sama hvað manni finnst um ISG, þarna er verið að gelta við vitlaust tré.

  Svara
 4. Jakobína
  Jakobína says:

  Jón þessi aðgreining þín er dálítið undarleg og samhengi hennar við gagnrýni Jóns Baldvins.

  Samfylking undir stjórn ISG var á vaktinni með sjálfstæðisflokki í átján mánuði. Síðastliðið ár er sögulegt í ljósi yfirdrifinna stjórnarfarsklúðra. Öll ríkisstjórnin er ábyrg og þ.m.t. ISG. Það er ekkert dularfult við það. það hafa verið upp háværar raddir vantrausts á ISG innan samfylkingar en engin virðist þó þora að fara fram gegn henni. Dæmigert fyrir þöggun og hlýðni innan samfylkingar.

  Jón Baldvin er þó síðri kostur ef eitthvað er. Gamall refur og ábyrgur fyrir vanköntunum í EES samningnum sem liggja til grundvallar Icesave klúðrinu.

  Það hefði verið gott að sjá ferska vinda blása um samfylkingu en kemur þó ekki á óvart að valdagræðgi og eiginhagsmunir hafi fengið að ráða mótun framtíðar flokksins

  Svara
 5. Bjarni Ben
  Bjarni Ben says:

  Ég er algerlega ósammála þér, en manni heyrist á umræðunni að fólk vilji ekki hafa hana þarna almennt, svo fyrir mig sem andstæðing Samfylkingar eru þetta góð tíðindi. Tek það fram að ég er ekki Sjálfstæðismaður þó ég kjósi ekki Samfylkingu.

  En ég botna ekki í þessari fullyrðingu þinni að mat Jóns Baldvins á stöðunni séu ,,augljóslega rangt“. Þú talar eins og þetta sé einhversskonar stærðfræðijafna sem er bara hægt að sanna á einhvern einn hátt. Það er ekki svo, maðurinn er einfaldlega ósammála þér og setur sér aðrar forsendur, sem hann er þeirrar skoðunar að séu réttar. Þú gefur þér allt aðrar forsendur og færð aðra niðurstöðu fyrir þig og lesendur þína að lesa. Það er ekkert augljóst við það, einungis persónubundið mat. Ef skoðanir fólks væru svona augljóslega ,,réttar“ eða ,,rangar“ þá hugsa ég að kosningar væru algerlega óþarfar enda myndi fólk bara læra í skóla hvað því ætti að finnast líkt og önnur stærðfræðisannindi.

  Svara
 6. Sigtryggur Karlsson
  Sigtryggur Karlsson says:

  Ég er algerlega sammála þér Jón um mismunandi ábyrgð ISG gagnvartalmennigi annarsvegar og gagnvart flokki og flokksmönnum hinsvegar.

  Ég er líka samála þér um það bull JBH að leggja að jöfnu ábyrgð ISG og svo Geirs Hilmars Haarde á þjóðarhruninu. Sjálfstæðisflokkurinn er fyrst og fremst höfundurinn að fallinu eins og þeir hafa reyndar bent á sjálfir í nýútkominni skýrslu. Helstu stuðningmenn þeirra og meðreiðarsveinar í helmingaskiptastjórn voru svo Framsóknarmenn.

  Að vilja snúa þessu saman í einn göndul er fyrst og fremst rangt og að öðru leyti líkast pólitískum ofsóknum gagnvart ISG þar sem JBH notar GHH til að koma höggi á pólitískan „samherja“ í þeim tilgangi að upphefja sjálfan sig.

  Annarsflokks bullur (les. sjálfsæðismenn) grípa svo tækifærið til að níða niður af ISG skóinn til að koma höggi á SF. Rökþvættan hér fyrir ofan er með fádæmum og fellur um sjálfa sig fyrir það fyrsta að vera óskiljanleg og að öðru leyti svo full af pólitísku hatri á ISG að hún dæmir sjálfa sig ógilda þar með. Hlutlægnin er engin.

  Svara
 7. Hulda Björg Sigurðardóttir
  Hulda Björg Sigurðardóttir says:

  Sæll Jón
  Ég er mjög sammála þér og ánægð með að þú skulir vekja máls á þessu. Dómar margra (og/eða fordómar) hafa oft virst af öðrum rótum runnið en málefnin í umræðunni um fall þjóðarinnar. En varðandi Jón Baldvin þá rakst ég í einhverju blogginu (eða greinarkorni) á orðfærið „hin stóru Egó“. Ég myndi hiklaust telja hann í þeim hópi og eins og við vitum þá geta þau verið dálítið stjórnlaus og erfið og jafnvel hættuleg eins og íslenska þjóðin hefur mátt upplifa og grípa stundum til ýmissa meðala.

  Svara
 8. Jón Baldvin
  Jón Baldvin says:

  PÓLITÍSK ÁBYRGÐ?

  Eftir Jón Baldvin Hannibalsson

  Jón Ólafsson, lærdómsmaður að Bifröst, vandar um við mig í pistli sínum fyrir að gera ekki tilhlýðilegan greinarmun á ráðherraábyrgð og ábyrgð flokksformanns. Það getur vel verið að á þessu tvennu sé einhver munur þótt rökstuðningur J.Ól. fyrir því sé lítt sannfærandi. Og þegar hann sakar mig um að “rugla saman … fullkomlega óskyldum tegundum siðferðilegrar ábyrgðar,” er hann áreiðanlega farinn að fullyrða meira en hann getur staðið við.

  Samkvæmt leikreglum lýðræðisins er stjórnmálamönnum skylt að leggja mál sín reglulega “í dóm kjósenda.” Öfugt við embættismenn, t.d. bera þeir ábyrgð frammi fyrir kjósendum. Þetta á við um alþm. og ráðherra, sem skv. íslenskri hefð eru oftast sama persóna. Þessu til viðbótar ber að nefna landsdóm, sem er sérstakur dómstóll sem á að dæma um afglöp ráðherra í starfi. Merkilegt nokk hefur sá dómstóll ekki haft mikið að gera á Íslandi.

  Hver er ábyrgð flokksformanna? Þeir eru kosnir af flokksfólki eða fulltrúum þess á flokksþingi og til ákveðins tíma. Flokksformaður ber því ábyrgð frammi fyrir almennum flokksmönnum og eftir atvikum stofnunum flokksins og kjósendum, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum og reglum.

  Það er áreiðanlega ofmælt hjá heimspekingnum J.Ól. að hér sé um að ræða”fullkomlega óskyldar tegundir siðferðilegrar ábyrgðar.”
  Báðir, þ.e. alþingismaðurinn og ráðherrann annars vegar og flokksformaðurinn og ríkisstjórnaroddvitinn hins vegar, bera pólitíska ábyrgð gagnvart umbjóðendum sínum, þótt kjósendahópurinn sé ekki nákvæmlega sá sami.

  Ég er sakaður um að leggja að jöfnu pólitíska ábyrgð forystumanna Sjálfstæðisflokksins eftir átján ára stjórnarsetu og forystumanna Samfylkingarinnar eftir átján mánuði. Ég hef hvergi lagt þetta að jöfnu. Það geta menn sannfærst um með því að lesa greinasafn mitt um hrunið og afleiðingar þess á heimasíðu minni (www.jbh.is). En þótt ábyrgð Sjálfstæðisflokksins sé sýnu þyngri þá verður pólitísk ábyrgð seint reiknuð nákvæmlega samkvæmt hlutfallareikningi. Skv. íslenskri stjórnskipun er ábyrgð forsætis- og fjármálaráðherra meiri en annarra ráðherra á efnahagsstefnunni. Ábyrgð seðlabankastjóra á framkvæmd peningastefnu er ótvíræð. Svo ber þess að geta að í íslenskum samsteypustjórnum eru það formennirnir sem eru valdamestir. Þeir eru oddvitar ríkisstjórnarinnar. Þeir bera meiri ábyrgð en aðrir ráðherrar. Þar fer saman ábyrgð þess sem er flokksformaður og ráðherra.

  Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir voru oddvitar fyrrverandi ríkisstjórnar og bera sem slíkir meiri pólitíska ábyrgð á störfum þeirrar ríkisstjórnar en aðrir. Viðskilnaður þessarar ríkisstjórnar var óumdeilanlega hinn versti í lýðveldissögunni og þótt víðar væri leitað. Efnahagshrunið er mælanlegt á venjulega hagkvarða og skuldabyrði heimilanna í landinu sömuleiðis. Mikill fjöldi fólks á persónulega um sárt að binda, t.d. vegna atvinnu- eða eignamissis, beinlínis af völdum aðgerða eða aðgerðaleysis fyrrverandi ríkisstjórnar. Þess vegna er sú krafa uppi með þjóðinni að þeir sem báru höfuðábyrgð á þessum þungbæru áföllum, víki.

  Ef þetta hefðu verið hamfarir af náttúrunnar völdum myndum við tala um slys. Í versta falli yrði rannsakað hvort hamfaravörnum hefði verið áfátt eða hvort björgunarstarfið hefði gengið eðlilega fyrir sig. En efnahagslegur ófarnaður íslensku þjóðarinnar var af mannavöldum. Hann var fyrirsjáanlegur og fyrirbyggjanlegur. Upplýsingar um yfirvofandi hrun lágu fyrir og voru aðgengilegar í tæka tíð. Aðgerðir og aðgerðaleysi oddvita ríkisstjórnarinnar sýna að þau gerðu sér enga grein fyrir hættuástandinu og brugðust þeirri skyldu sinni að grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana í tæka tíð. Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor, hefur kallað þetta mestu afglöp lýðveldissögunnar. Haldbær rök til að hnekkja þeirri fullyrðingu eru satt að segja vandfundin.

  Í samanburði við þessi ósköp sýnist mér þrætubók Jóns Ólafssonar um tvenns konar ábyrgð, ráðherrans og flokksformannsins (sem í þessu dæmi eru ein og sama persónan), vera ósköp lítilfjörleg og varla þess virði að eyða á hana meira púðri. Samfylkingarfólk verður einfaldlega að gera það upp við sig í forvali og á landsfundi hvort því finnst við hæfi að bjóða þeim kjósendum, sem nú eiga um sárt að binda af völdum fyrrverandi ríkisstjórnar upp á óbreytta forystu? Og hvort því finnst ekki svolítið holur hljómur í því að krefjast þess af andstæðingum okkar sem báru ríkisstjórnarábyrgð á óförum þjóðarinnar, að þeir víki – en ekki okkar maður?

  Svara
 9. jonolafs
  jonolafs says:

  Ég þakka ítarlegt svar JBH við hinni „lítilfjörlegu þrætubók“ minni. Vandinn hér er ekki fólginn í kröfu um afsögn flokksformanns, eða áskorun til flokksmanna um að víkja flokksformanninum til hliðar heldur í ástæðunum sem gefnar eru fyrir slíkri kröfu eða áskorun.
  Nú man ég ekki hver afstaða Jóns Baldvins var síðastliðið haust, en sjálfur taldi ég þá að réttar pólitískar og siðferðilegar afleiðingar hrunsins væru afsögn ríkisstjórnar, uppstokkun og kosningar. Ingibjörg Sólrún hefur reyndar tekið undir þetta sjónarmið með því að lýsa því yfir að það hafi verið mistök af sér að halda ríkisstjórnarsamstarfinu áfram í haust. Hrunið hefði átt að sýna henni og forystu Samfylkingarinnar fram á að það væri bæði óhyggilegt og rangt að starfa áfram með Sjálfstæðisflokknum – jafnvel færa heim sanninn um að það hefðu verið mistök að fara í þetta stjórnarsamstarf yfirleitt.
  Með því að tala um leiðtogaskipti í Framsókn og Sjálfstæðisflokki eins og um væri að ræða uppgjör þessara flokka við stefnu sína í ríkisstjórn og krefjast þess svo að Samfylkingin geri slíkt hið sama er að mínu mati bæði verið að rangtúlka það sem er að gerast í Framsókn og Sjálfstæðisflokki og gera vitlausa kröfu til Samfylkingarinnar. Hverju sem hún eða formaður hennar ber ábyrgð á, þá er það ekki stefna þessara flokka í ríkisstjórn frá 1995 til 2007. Ef einhver stjórnmálamaður innan hinnar núverandi Samfylkingar ber ábyrgð á því sem Sjálfstæðisflokkurinn lét af sér leiða á 18 ára valdatíð sinni, þá er það auðvitað Jón Baldvin sjálfur – maðurinn sem gerði Davíð að kóngi. En það væri þá enn ein tegundin af siðferðilegri ábyrgð.

  Svara
 10. Hulda Hákonardóttir
  Hulda Hákonardóttir says:

  Þakka þér Jón fyrir þennan pistil og reyndar marga aðra hér á blogginu þínu. Hæfni þín til að greina og skýrleiki í framsetningu eru þættir sem fleiri mættu temja sér til eftirbreytni.

  Svara

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *