Ég verð að gera játningu. Ég kaus ekki Besta flokkinn. Satt að segja hvarflaði aldrei að mér að gera það. Ástæðan fyrir því var meðal annars sú að ég hélt næstum fram á síðasta dag að Besti flokkurinn væri grínframboð. Meira að segja dálítið vel heppnað grínframboð. En maður kýs ekki grínframboð, nema maður vilji gera grín að sjálfum sér, og ég var ekki orðinn nógu þroskaður til þess.

Það er fleira. Það var og er eitthvað sem truflar mig við Besta flokkinn. Þetta kom í veg fyrir að ég gæti kosið hann og gerði að verkum að ég fylltist engri gleði eða bjartsýni yfir stórsigri hans. En hvað er að trufla?

Í Besta flokknum er miklu stærri hópur góðs fólks en í nokkrum öðrum stjórnmálaflokki. Mér finnst gleðiefni að Einar Örn Benediktsson og Óttar Proppé  séu orðnir borgarfulltrúar, eins Elsa Yeoman og Eva Einarsdóttir, þó ég geti ekki sagt að ég þekki þær. Sömuleiðis Karl Sigurðsson. Allt augljóslega gott fólk með hjartað á réttum stað sem á erindi í borgarstjórn. Og sannarlega engin viðrini. Eins má gleðjast yfir varaborgarfulltrúunum, án þess að ég nefni nú nokkurn sérstaklega annan en frænda minn Sigurð Björn Blöndal sem ég er viss um að mun sinna nefnda- og öðrum skyldustörfum af fagmennsku og metnaði.

Þetta fólk truflar mig ekki neitt. Það er eiginlega bara eitt sem truflar mig við Besta flokkinn. Það er nafni minn. Gnarr.

Jón Gnarr sagði daginn eftir kosningarnar að stjórnmálamenn hefðu verið farnir að trufla hann. Hann hefði ekki skilið það sem þeir voru segja vegna hugtakanotkunar þeirra. Honum hefði fundist heimur stjórnmálanna lokaður fólki eins og sér. Þessvegna ákvað hann að trufla stjórnmálamennina, frekar en að láta þá halda áfram að trufla sig. Og það hefur honum svo sannarlega tekist.

Stjórnmálamenn hafa líka löngum truflað mig. Davíð Oddsson hefur til dæmis truflað mig samfellt í 28 ár, frá því að hann varð borgarstjóri í Reykjavík fyrst. Halldór Ásgrímsson truflaði mig mikið, Halldór Blöndal og margir fleiri. Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig ég gæti látið þá hætta að trufla mig, og um leið aðra sem ég veit að þeir trufla líka. En mig hefur aldrei langað sérstaklega til að trufla þá. Nú eru þeir allir hættir að trufla mig, nema Davíð að vísu sem truflar mig ennþá með leiðara- og staksteinaskrifum sínum í Morgunblaðið. En það er nú ekkert miðað við það sem áður var. Nú er það Jón Gnarr sem truflar mig.

Jón Gnarr er eins og Davíð Oddsson frábær grínisti. Hann er reyndar miklu betri grínisti en Davíð. Matthildur fellur algjörlega í skuggann af öllu því gríni sem Jón Gnarr hefur tekið þátt í. Eitt það besta við grínið hjá Jóni Gnarr er að það virðist yfirleitt vera fúlasta alvara. Og kannski er það einmitt fúlasta alvara. Þetta er málið. Davíð Oddsson varð pólitíkus eftir að hann hætti að vera grínisti. Hann breyttist í fúlan, leiðinlegan og óbilgjarnan stjórnmálamann. Jón Gnarr hinsvegar getur haldið áfram að vera grínisti jafnvel þó að það sem hann er að gera sé fúlasta alvara.

Í kosningabaráttunni hefur Jón Gnarr leikið frambjóðanda með því að vera frambjóðandi. Svör hans við spurningum eru fyndin en ekki fáránleg vegna þess að þau eru leikaraskapur. Jón Gnarr þarf ekki að vita nokkurn skapaðan hlut um eitt einasta málefni eða hafa skoðun á nokkru vegna þess að svörin sem hann gefur eru einmitt best ef hann virðist vera að svara spurningu um efni sem hann hefur ekki einu sinni leitt hugann að áður. Um leið verða svör þeirra sem hafa kynnt sér mál og myndað sér skoðun og eru að reyna að berjast fyrir þeirri skoðun leiðinleg og truflandi. Kannski óskiljanleg vegna einhverra hugtaka.

Ég verð að viðurkenna að það var ekki alveg svona sem ég sá hina nauðsynlegu pólitísku endurnýjun fyrir mér. Að leiðtogaembættin (borgarstjóri nú, kannski forsætisráðherra næst) væru íróníseruð með þeim hætti að hinn kjörni leiðtogi sé á sama tíma og hann er leiðtogi, líka að leika leiðtoga. Það er nákvæmlega sú tvíræðni sem Jón Gnarr, borgarstjóri, ber með sér, að því gefnu auðvitað að hann verði borgastjóri. Hann er borgarstjóri en um leið er hann að leika borgarstjóra. Hann er það sem hann leikur, leikur það sem hann er. Kannski getur hann haldið starfinu í Borgarleikhúsinu þó að hann sé borgarstjóri, kannski uppfyllir hann samninginn við leikhúsið jafnvel ennþá betur sem borgarstjóri heldur en sem leikskáld leikritunarsjóðs Leikfélags Reykjavíkur.

Það má kannski kalla það póstmódernískan viðsnúning þegar veruleiki leiðtogans er orðinn sýndarveruleiki og með því að vera leiðtogi leikur hann um leið leiðtoga þannig að skilja má athafnir hans jöfnum höndum bókstaflega og sem skopstælingu. Jón Gnarr, borgarstjóri, framkvæmir embættisverk og um leið skopstælir hann borgarstjóra sem vinnur embættisverk. En það hlýtur að vera þetta sem Jón Gnarr var kosinn til að gera, til að skopstæla. Hann er fagmaður í því. Hvort hann hefur eitthvað sett sig inn í borgarmál veit enginn.

En kannski ætti ég alls ekki að láta þetta trufla mig. Jón Gnarr, borgarstjóri, er afbygging leiðtogans. Kannski er þetta einmitt skref í átt að því að rústa því pólitíska stigveldi sem krefst þess að allir fylki sér um leiðtogann. Með því að vera leiðtogi skopstælir hann leiðtogann og gerir um leið lítið úr honum. Útrýmir honum kannski. Eða ekki. Það veit enginn.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *