Á laugardaginn verður mér, einsog öðrum landsmönnum, boðið upp á að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave lögin. Þar get ég greitt lögunum sem Alþingi samþykkti fyrir áramót atkvæði mitt, eða greitt atkvæði gegn þeim. Nú vill svo til að lögin sem sett voru fyrir áramót eru staðfesting á ríkisábyrgð vegna ákveðins samnings en í millitíðinni er komið í ljós að viðsemjandinn er tilbúinn til að bjóða hagstæðari samning. Það er því ljóst að annar valkosturinn í atkvæðagreiðslunni er enginn valkostur: Mér er því gefinn kostur á að greiða atkvæði mitt með samningi sem enginn heilvita maður getur stutt, ekki frekar en neinn heilvita maður tekur verra fram yfir betra.

Á ég þá ekki bara að taka hinn kostinn, það er hafna samningnum? Þá vandast málið. Við skulum segja að ég hafi, þegar lögin voru samþykkt verið þeirrar skoðunar að sá samningur sem þá lá fyrir væri skársti kosturinn í stöðunni og því væri eðlilegt að ábyrgjast hann. Nú hefur komið í ljós að þetta var ekki rétt, viðsemjandinn reyndist tilbúinn til að bjóða hagstæðari samning. En það þýðir ekki að mér beri að fara á kjörstað og lýsa yfir andstöðu minni við upprunalegan samning með því að fella hann. Þar sem betri samningur liggur fyrir, er upphafleg löggjöf í raun fallin úr gildi: Það er ekki annað eftir en að uppfylla formleg skilyrði þess að hún falli úr gildi. Atkvæðis míns er því augljóslega ekki þörf til að fella samninginn úr gildi.

Með því að greiða atkvæði gegn samningnum væri ég því að gefa annað í skyn, það er að segja að ég sé á móti því að Íslendingar greiði skuldir sínar og telji að þeir eigi að hlaupast undan því með lagatæknilegum rökum eða með þjóðernis- eða byltingarrökum að borga Icesave skuldina. Þannig hefur atkvæðagreiðslan snúist upp í andhverfu sína. Eini hugsanlegi tilgangurinn með því að taka þátt í henni væri að láta í ljós andstöðu við ábyrgð Íslendinga á Icesave, þó að í orði kveðnu sé hún um allt annað.

Það er eitt grundvallaratriði lýðræðislegra stjórnmála að móta kosti á sanngjarnan og eðlilegan hátt þannig að þegar mál eru leyst með atkvæðagreiðslu sé um skýra og raunverulega valkosti að ræða. Atkvæðagreiðsla þar sem venjulegu skynsömu fólki er boðið upp á að velja á milli kosta sem eru í raun engir kostir er útúrsnúningur á lýðræðinu. Þá er atkvæðagreiðslan ekki lengur aðferð til að velja á milli umdeildra kosta, heldur einskonar sýning, sýndaratkvæðagreiðsla notuð til að sýna umheiminum eitthvað frekar en til að velja.

Ég verð að segja eins og er að mér finnst lítið spennandi að taka þátt í sýndaratkvæðagreiðslu. Sýndaratkvæðagreiðsla er móðgun við heilbrigða skynsemi og réttsýni fólks, rétt eins og sýndarréttarhöld og spuni fjölmiðla og stjórnmálamanna.

12 replies
 1. Ólafur Tr. Þorsteinsson
  Ólafur Tr. Þorsteinsson says:

  En í því liggur vandinn að það liggur ekki fyrir annar samningur. Það er aðeins búið að veifa framan í okkur hugmyndum að annarri útfærslu en það er ekkert í hendi. Hvað vitum við nema þeir dragi í land með þetta tilboð?
  Úr því sem komið er þarf fólk að fara og kjósa eins og önnur lausn sé ekki í sjónmáli, þó ekki væni nema bara til að senda skýr skilaboð um afstöðu þjóðarinnar til þess samnings sem nú bíður staðfestingar.

  Svara
 2. Gunnar
  Gunnar says:

  Margir góðir punktar, vissulega en þetta er fyrsta tækifæri sem þjóðin fær til að segja sitt álit. Mér finnst ekki koma til greina að sitja heima, þó ekki væri nema til að gefa ekki stjórnmálastéttinni tækifæri á að nota lélega mætingu sem rök fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðslur séu tilgangslausar. Alveg burtséð frá því að kostirnir í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu mættu gjarnan vera vitrænni.

  Endilega sitja heima ef þér finnast þjóðaratkvæðagreiðslur vera algjört rugl og vilt treysta þeim snillingum sem landinu „stjórna“ til að gera það án aðhalds. En ef þér finnst rétt og eðlilegt að þjóðin fái að segja sína skoðun í mikilvægum málum þá finnst mér að þú eigir að mæta.

  Er þér alveg sama hvort þú færð að kjósa um aðild Íslands að ESB þegar þar að kemur?

  Svara
 3. Ragnar Ólafsson
  Ragnar Ólafsson says:

  Sýndaratkvæðagreiðsla?

  Nei, atkvæðagreiðslan snýst um það hvort lögin frá því í desember eigi að halda gildi.

  Já=lögin gilda
  Nei=lögin falla

  Framhaldið er svo að vissuleyti óráðið. Nýr samningur á grundvelli nýrra OG BETRI samningsdraga? Alls enginn samningur? Opin spurning.

  Svara
 4. jonolafs
  jonolafs says:

  Gunnar – muna að lesa áður en þú svarar. Málið er ekki atkvæðagreiðslan sem slík heldur kostirnir. Í þessu tilfelli eru kjósendur spurðir hvort þeir vilji leyfa ríkinu að ábyrgjast samning sem er verri heldur en annar samningur sem ríkinu hefur verið boðinn. Tilgangur slíkrar atkvæðagreiðslu er þá ekki lengur að velja á milli kostanna heldur einhver annar (sýna samstöðu, neita að borga, gefa skít í heimskapítalismann eða guð má vita hvað).

  Svara
 5. Brynjar H
  Brynjar H says:

  Þessar fundir milli þjóða varðandi nýjan samning komu aðeins til vegna þess að þessu var skotið í þjóðaratkvæði.
  Ef það hefði ekki verið gert væri búið að samþykkja þetta og við með verri díl en virðist stefna í að okkur bjóðist.
  Að fara á morgun og kjósa nei skilar því til Hollendinga og Breta að við sættum okkur ekki við þau kjör sem okkar ráðamenn svo óskynsamlega samþykktu. Því jú eins og þið sjáið í dag, þá hefði verið hægt að ná betri samning, eins og virðist stefna í, í framhaldi af þessum kosningum.

  Því er frekar augljóst að þessar kosningar og þau skilaboð sem frá þeim koma skiptir miklu máli. Og það skiptir miklu máli að sem flestir kjósi.

  Svara
 6. Theódór Norðkvist
  Theódór Norðkvist says:

  Síðuhöfundur virðist sjálfur ekki hafa lesið þessa athugasemd Ólafs Tr. Þorsteinssonar hér að ofan:

  „En í því liggur vandinn að það liggur ekki fyrir annar samningur. Það er aðeins búið að veifa framan í okkur hugmyndum að annarri útfærslu en það er ekkert í hendi.“

  Útlit er fyrir annað samningstilboð VEGNA þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

  Skítasamningurinn frá um áramótin er í gildi nema hann verði kosinn í burtu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

  Stjórnarskráin kveður á um að ef forseti hafnar lögum SKULI FARA FRAM ÞJÓÐARATKVÆÐAGREIÐSLA.

  Það stríðir ekki gegn heilbrigðri skynsemi að fara eftir stjórnarskránni. Það stríðir gegn heilbrigðri skynsemi að FARA EKKI eftir henni.

  Svara
 7. jonolafs
  jonolafs says:

  Theódór/Brynjar, málið er þetta: Gefum okkur að lögin séu samþykkt. Þá munu Íslendingar eigi að síður gera nýjan samning við Breta og Hollendinga. Stjórnvöld munu fella lögin úr gildi og leggja fram nýtt frumvarp. Gefum okkur að lögin séu felld. Lögin falla úr gildi. Þá munu Íslendingar gera nýjan samning við Breta og Hollendinga og leggja fram nýtt frumvarp. Sérðu hvert þetta leiðir: Það er sama hver niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er, nákvæmlega sama framvinda blasir við. Þessvegna er atkvæðgreiðslan tilgangslaus.

  Svara
 8. Brynjar H
  Brynjar H says:

  jonolafs: það sem þú ert ekki að skilja er, að ef þessi atkvæðagreiðsla hefði ekki komið til og Óli hefði skrifað undir, þá hefði ekkert frekar verið ræddir samningar. Við sætum uppi með samning sem vitað er og viðurkennt af Jóhönnu og Steingrími að sé lélegri en hægt er að ná í í dag.

  Þannig að ef Óli hefði skrifað undir lögin strax, þá hefði aldrei verið farið út í að semja aftur og þau lög svo felld úr gildi, mikill misskilningur af þinni hálfu.

  Þessi áhvörðun sem Óli tók er sigur fyrir Íslendinga og lýðræði hér á landi og allir ættu að virða það og mæta og kjósa hver sem þeirra afstaðar er, hvort sem valið er nei, já eða skilað auðu.

  Núna hefur Íslenska þjóðin fengið leið staðfesta til að fá að segja sitt um mikilvægar ákvarðanatökur af hálfu yfirvalda sem í þessu tilfelli virðast blinduð af þörf til að þóknast ESB.

  Svara
 9. Elle
  Elle says:

  Jón Ólafs. skrifar: „Með því að greiða atkvæði gegn samningnum væri ég því að gefa annað í skyn, það er að segja að ég sé á móti því að Íslendingar greiði skuldir sínar og telji að þeir eigi að hlaupast undan því með lagatæknilegum rökum eða með þjóðernis- eða byltingarrökum að borga Icesave skuldina.“

  Hvaða lagarök hefur þú fyrir að Íslendingar skuldi eyri í Icesave??? Fjöldi færustu lögmanna, erlendir og innlendir, hafa löngum fært rök fyrir að engin lagarök séu fyrir að ísl. ríkið og ísl. almenningur beri nokkra ábyrgð á Icesave. Það þýðir ekkert að koma og ranglega skrifa um að við skuldum skuld sem við skuldum ekki og höfum aldrei skuldað, samkvæmt neinum dómi eða lögum. Icesave er fjárkúgun og ekki okkar skuld.

  Svara
 10. Magnús Þ. Þórðarson
  Magnús Þ. Þórðarson says:

  Þú flækir málið um of fyrir þér. Allt er þetta samkvæmt stjórnarskránni. Annaðhvort samþykkirðu gjörning Alþingis eða ekki; eða skilar auðu, ef þú getur ekki gert upp hug þinn. Allar aðrar vangaveltur eru aukatriði, sem skipta nánast engu máli. Skv. 26. grein voru lögin landslög (þangað til í gær) og eina leiðin til að losna við þau var að fella þau í þjóðaratkvæði eða ógilda með öðrum lögum, settum af Alþingi. Það bólaði ekkert á síðari kostinum í tvo mánuði og því gekk þetta fram sem raun varð.

  Svara

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *