Félagsvísindadeild Bifrastar er vissulega yngsta deild skólans og markar jafnvel nýjan kafla í sögu hans. Samt má segja að engin deild standi nær sögulegri hefð skólans en einmitt félagsvísindadeildin.

Sjálfstæði og öryggi í flóknum heimi
Þegar Samvinnuskólinn var stofnaður árið 1918 var ein fyrirmynd hans Ruskin college í Oxford, skóli sem stofnaður hafði verið 19 árum fyrr í því skyni að auka möguleika alþýðufólks til æðri menntunar. Ruskin college lagði frá upphafi áherslu á tengsl náms og samfélags og á framlag nemenda til samfélagsins að námi loknu. Í Samvinnuskólanum hét það að nemendurnir væru í „foringjaskóla“ og leiðtogahugsun að baki náminu hefur alltaf verið áberandi í sjálfsmynd skólans.
HHS – heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði – fellur sérstaklega vel að leiðtogaímynd skólans. BA próf í HHS er fyrst og fremst ávísun á undirstöðugóða menntun á sviði félags- og hugvísinda, en slík menntun er einmitt líklegust til að geta skapað nauðsynlegt sjálfstraust og öryggi til að fóta sig í flóknum heimi fjölmiðla, almannatengsla, alþjóðlegs samstarfs, stjórnmála og viðskipta, svo eitthvað sé nefnt.

Listin að grípa tækifærin
HHS er kjarni deildarinnar – og lýsir eðli hennar best. Framtíðarþróun hennar veltur þó ekki síður á því að henni takist á þróa spennandi og eftirsóknarvert framhaldsnám. Nú þegar er hægt að leggja stund á Evrópufræði og Menningar- og menntastjórnun en ýmsar fleiri hugmyndir eru á teikniborðinu. Hugsanlegt er að Bifröst færi út kvíarnar í svæðisbundnum greinum og bæti Austur-Evrópu og Rússlandsfræðum við Evrópufræðiprógrammið sem fyrir er. Eins er talsverður áhugi á að bjóða upp á meistaranám tengt fjölmiðlum og heimildamyndagerð.
Þegar háskólaflóran er skoðuð er ekki síður merkilegt að sjá hvað er þar ekki heldur en hvað þar er að finna. Sé til dæmis litið á námsframboð í Háskóla Íslands sjáum við að þar ríkir heiðríkja kalda stríðsins enn. þar er hægt að leggja stund á helstu tungumál Vestur-Evrópu svo dæmi sé tekið og Japans, en það er eins og Austur-Evrópa, Rússland og Kína séu ekki til. Og ef ekki væru tíðar heimsóknir Magnúsar Bernharðssonar og Guðfræðideildin, mætti halda að Háskóli Íslands vissi ekki af Miðausturlöndum heldur.
Bifröst þarf að hafa augun opin fyrir því sem vantar í háskólamenntun á Íslandi – það er einn lykillinn að árangri.

Smæðin er styrkur
Tækifæri Bifrastar eru ekki síst fólgin í því að geta brugðist hraðar og með kraftmeiri hætti við nýjum aðstæðum og nýjum þörfum fyrir menntun í samfélaginu heldur en stærri og þunglamalegri menntastofnanir geta gert. Smæðin er og verður styrkur Bifrastar – það er að hluta vegna hennar sem skólinn hefur að mörgu leyti verið leiðandi á síðustu árum og verður það áfram.
Meistaranám í Menningar- og menntastjórnun sem fór af stað við skólann sumarið 2004 er prýðilegt dæmi um þetta. Áhuginn á þessu námi hefur verið mjög mikill frá upphafi og á þeim tveimur árum sem liðin eru síðan það fór af stað hafa yfir 60 manns skráð sig í það.
Á næsta ári munu fyrstu nemendur deildarinnar í Heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði útskrifast með BA gráðu og einhver hluti þeirra heldur hugsanlega áfram námi til MA gráðu við deildina. Þetta þýðir að bestu nemendurnir geta náð því að ljúka MA prófi á þremur til þremur og hálfu ári eftir upphaf háskólanáms.
Það er gott að geta gefið góðum nemendum slíkt tækifæri en því fylgir líka mikil ábyrgð. Mikilvægasta verkefni félagsvísindadeildarinnar á næstu árum verður að auka námsframboðið, þróa það og bæta jafnt á meistarastigi sem í grunnnámi.

Birtist í blaði Útskriftarfélags Bifrastar, desember 2006.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *