Eftir hrunið í haust hefur mörgum fundist að ekkert annað komi til greina en að að samfélagið gangi í gegnum gagngera pólitíska endurnýjun með „nýjum samfélagssáttmála“, jafnvel stofnun „nýs lýðveldis“. Það er auðskilið hversvegna slíkar hugmyndir koma upp, vantraust á stjórnvöldum er útbreitt og djúpstætt. Ekki einu sinni byltingarástand, stjórnarslit, kosningar og vinstristjórn slær á það. Ef grunnskipulag samfélagsins er í molum er varla nóg að skipta um „lið í brúnni“.

En hvað er samfélagssáttmáli? Hverjir geta verið aðilar að slíkum sáttmála? Og hvernig fara þeir að því að gera hann? Samfélagssáttmáli varðar ákveðin grundvallargildi samfélagsins og grunnskipan þess. Sáttmálakenningar gera ráð fyrir að samband ríkisvalds og þegna byggist á samkomulagi: Þegnar afsala sér réttindum og gangast undir skyldur gagnvart ríkinu en á móti tekur það að sér að tryggja lífsskilyrði, öryggi og hagsmuni þeirra að vissu marki. En þar sem hagsmunir manna stangast á með margvíslegum hætti er spurningunni um innihald, umfang og svið samfélagssáttmálans ekki auðsvarað. 

Samfélagssáttmáli er ekki stefnumótun

Spurninguna um innihald samfélagssáttmálans má nálgast með því að velta fyrir sér hvað samfélagssáttmálinn er ekki. Sumir hafa tengt samfélagssáttmála við stefnumótun og telja jafnvel að sameiginleg framtíðarsýn allrar þjóðarinnar geti þjónað sem einskonar samfélagssáttmáli. En þetta er hæpið. Eitt grundvallaratriði í stefnumótun fyrirtækja er sú staðreynd að starfsfólkið getur alltaf sagt upp ef fyrirtækið tekur stefnu sem því líkar ekki. Sá meginkostur stefnumótunar að hún skýrir markmið og leiðir og gerir fólki mögulegt að gera það upp við sig hvort það getur samsamað sig þeim, kemur í veg fyrir að hún henti samfélaginu í heild.

Í fyrsta lagi geta þegnar í einu samfélagi yfirleitt ekki skipt um samfélag eins og hægt er að skipta um starf. Í öðru lagi er samfélag ekki hópur fólks sem verður sammála um hlutina. Lýðræðislegt fyrirkomulag byggir á því að ákvarðanir þarf að taka án þess að allir séu sammála og stefnumótun sem nær til heils samfélags væri því andstæða lýðræðis: Í stað þess að gengið sé út frá því sem vísu að samfélagið sé sundurlynt er þá látið eins og allir sameinist um niðurstöðu stefnumótunarinnar. Slíkt viðhorf er fyrst og fremst ávísun á skoðanakúgun.

Í lýðræðissamfélagi er aðferð kosninga beitt eftir ákveðnum reglum til að afhenda þeim sem meirihlutinn styður lögmætt umboð til að fara með stjórn mála. Sömu aðferð er beitt til að taka umdeildar ákvarðanir. Sé rétt staðið að málsmeðferð og umræðum um umdeild mál, getur niðurstaða fengist sem allir sætta sig við, jafnvel þótt engin sátt ríki um hana. Það er einn mikilvægasti kostur lýðræðis að slíkar niðurstöður mögulegar.

Sáttmáli og þjóðarsátt

Ef samfélagssáttmáli er hvorki stefnumótun né niðurstaða atkvæðagreiðslu, hvernig er þá hægt að gera hann? Þarf hver einasti þegn samfélagsins að gerast aðili að sáttmálanum með einhverjum formlegum hætti? Alveg eins og stefnumótun er erfitt að heimfæra upp á heilt samfélag, er erfitt að ímynda sér að hægt sé að gera samfélagssáttmála í bókstaflegum skilningi formlegs samnings allra þegna. Og ef um væri að ræða einhverskonar upplýst samþykki hlyti einhver hópur fólks, jafnvel stór hópur, að hafna sáttmálanum og hver væri þá tilgangur hans?

Annar möguleiki væri að hugsa um sáttmálann á sama hátt og þjóðarsátt. Með þjóðarsátt er átt við samkomulag eða bandalag hagsmunaaðila eða fulltrúa þeirra til lengri eða skemmri tíma. En sjálf hugmyndin um slíkt bandalag krefst einskis sáttmála. Þjóðarsáttin gengur einmitt út frá hinu gagnstæða, að hagsmunir aðilanna stangist á. Hún sé hagkvæm vegna þess að undir vissum kringumstæðum græði allir aðilar meira á því að slíðra sverðin en að takast á.

Þjóðarsátt gengur þannig ekki upp nema ljóst sé að hún er tímabundin og í eðli sínu óvanalegt – jafnvel óeðlilegt – ástand. Hún er viðurkenning þess að vald í lýðræðissamfélagi liggur miklu víðar en hjá réttkjörnum stjórnvöldum. Allir þeir aðilar sem í einhverjum skilningi eru fulltrúar hópa, hafa um leið völd sem stjórnvöld verða að taka tillit til. Sú staðreynd hefur hinsvegar lítið með grunnskipan samfélagsins að gera að öðru leyti en því að hún undirstrikar ólíka, frekar en sameiginlega, hagsmuni hinna ýmsu hópa samfélagsins.

Stjórnlagaþing

Stundum er svo að skilja á umræðunni að stjórnlagaþing, sem ætlunin hefur verið að efna til, eigi að þjóna sem vettvangur samfélagssáttmála. Þegar betur er að gáð orkar þetta þó tvímælis af fleiri ástæðum en einni. Stjórnlagaþing hefur það hlutverk að semja og jafnvel setja nýja stjórnarskrá. Þó að augljóslega séu mikil tengsl á milli stjórnarskrár og samfélagssáttmála, þá er stjórnarskráin ekki samfélagssáttmáli, ekki einu sinni jafngildi slíks sáttmála. Það mætti hinsvegar vel hugsa sér að stjórnarskrá verði ekki sett nema á grundvelli samfélagssáttmála. Hlutverk stjórnarskrárinnar er að setja fram með skýrum hætti þær meginreglur réttarfars sem löggjöf miðast við og sem yfirvöld hljóta að virða í öllum samskiptum sínum við borgarana. En hvað ræður þessum meginreglum?

Að hluta til ráðast þær af þeim siðferðilega grunni sem álitinn er hafinn yfir vafa hverju sinni. Þannig eru til dæmis mannréttindi nú álitin einn grundvöllur alls réttarfars: Lög sem brjóta gegn mannréttindum eru ólög. En að hluta ráðast þær af einhverskonar sátt eða samkomulagi um ákveðnar hugmyndir sem út af fyrir sig geta verið afstæðar eða menningarbundnar. En hvar er nákvæmlega sáttin um þessar hugmyndir, meginreglur eða gildi?

Ímyndaður frekar en bókstaflegur veruleiki

Kjarni málsins er sá að allar tilraunir til þess að hugsa um samfélagssáttmála bókstaflega virðast á einhvern hátt renna út í sandinn. Samfélagssáttmáli er alls enginn formlegur samningur – og varla óformlegur heldur. Grundvöllur stjórnarskrár og þar með grundvöllur réttarríkis og réttlátrar samfélagsskipanar eru einfaldlega ákveðnar hugmyndir sem eru nægilega almennar til að vera óumdeildar, en þó nægilega sértækar til að hægt sé á grundvelli þeirra að segja eitthvað um það sem stjórnvöldum beri að gera og eitthvað um hvað þau megi ekki gera.

Þannig má segja að samfélagssáttmáli sé ímyndaður veruleiki: aðferð til að hugsa um hlutina ekki nafn á tiltekinni gerð samkomulags. Það dregur ekki úr gildi sáttmálans sem aðferðar að óhugsandi sé að slíkur sáttmáli sé gerður í bókstaflegri merkingu. Í stað þess að gera sáttmála, má þannig komast að niðurstöðu um stefnu og meginreglur í ljósi þess hvernig gera megi ráð fyrir að sáttmálinn myndi vera, ef hann væri gerður.

Það er ljóst að kjarninn í samfélagssáttmála er réttlæti. Sáttmálinn hlyti að fela í sér greinargerð fyrir þeirri hugmynd um réttlæti sem lægi að baki meginreglum réttarfars og valdbeitingar. Þessi hugmynd verður að vera svo víð að hægt sé að líta svo á að um hana ríki almenn sátt. Um leið verður hún að vera nægilega vel útfærð til þess að hún hafi áhrif á stefnumótun og ákvarðanir.

Hvar er byltingarandinn?

En hvernig má þá hugsa sér að sáttmálinn virki? Við getum tekið dæmi um eitt mögulegt atriði hans til að varpa ljósi á það. Segjum að sú stefna sé almennt viðurkennd að þeir sem standa höllum fæti eigi rétt á stuðningi umfram þá sem betur er komið fyrir. Þetta jafngildir með öðrum orðum því að ákveðin jafnaðarhugsun sé talin eðlileg og réttlát. En með hvaða hætti er hægt að láta þessa hugsun birtast í verki? Hvaða almenna regla má hugsa sér að tryggi „eðlilegan“ jöfnuð og sé hluti af samfélagssáttmála?

Hugmyndin um samfélagssáttmála leikur meginhlutverk í kenningu eins helsta stjórnmálaheimspekings 20. aldar, Bandaríkjamannsins Johns Rawls. Hann býður upp á ákveðið svar við þessari spurningu: Samkvæmt kenningu hans má hugsa sér að nauðsynlegt skilyrði þess að opinber stefna teljist réttlát sé að hún hagnist þeim sem verst hafa það. Þessi regla er hvorki algild né hafin yfir allan vafa, en hún gerir mögulegt að hugsa um jöfnuð í samfélagi á ákveðinn hátt. Þannig krefst réttlætið þess ekki að allir séu efnahagslega jafnir. Það þýðir hinsvegar að ójöfnuður er ekki réttlætanlegur nema hann nýtist líka þeim sem njóta hans ekki beint. Hér er dæmi um réttlætishugmynd (hvað er sanngjarnt) sem hægt er að láta í ljós með þessum einfalda hætti.

Þetta er auðvitað ekki nema lítið dæmi um hvernig hægt er að beita hugmyndinni um samfélagssáttmála í daglegri pólitískri umræðu. En einhvernveginn fer ekki mikið fyrir áhugaverðum skoðanaskiptum um þessi grundvallaratriði. Það er merkilegt að þrátt fyrir háværar kröfur um nýja grunnskipan samfélagsins er mjög þokukennt hvað eigi að einkenna hana. Það er lítið vit í samfélagssáttmála nema stöðugt sé til umræðu hver meginatriði hans eru og það má jafnvel halda því fram eins og ég hef ýjað að hér að samfélagssáttmálinn sé ekkert annað en stöðug umræða um innihald hans. En auðvitað gerist ekki neitt nema einhver krefjist þess og það er skrítið og dapurlegt ef byltingarandi vetrarins hefur gufað upp nú þegar kannski er mest þörf á honum.

Birt í Lesbók Morgunblaðsins 30. maí 2009

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *