Það var margt truflandi við þá ákvörðun Borgarstjórnar Reykjavíkur í september síðastliðnum að draga til baka ályktun um að Borgin hætti að kaupa vörur frá Ísrael, en það sem kannski truflaði mest var orðrómurinn um að meginástæðan væru hótanir ákveðinna aðila sem Borgin er að gera mikla viðskipta- og fram­kvæmda­samninga við. Borgarstjórinn hélt því að vísu fram að afstaða þessara hagsmuna­aðila hefði ekki ráðið úrslitum um að meirihlutinn ákvað að draga ályktun­ina til baka, en hann var ekki fylli­lega sann­­­færandi. Hvað svo sem raunverulega réði úrslitum um til­löguna má kalla það dulda spillingu ef hags­munaaðilar, sterk fyrirtæki í viðskiptalífinu, bankar, verktakafyrirtæki og svo framvegis, leyfa sér að beita stjórnvöld hót­unum og geta með því haft áhrif á ákvarðanir. Dulin er spillingin einmitt vegna þess að hún birtist sem „hvatning“ til yfirvalda um að finna einhverjar ástæður sem talist geti gildar til að breyta stefnu sinni á þann hátt sem hentar fyrir­tækjunum. Spilling er hún vegna þess að hún byggir á valdatengslum sem myndast óbeint af samningum – þegar opinber aðili er orðinn háður einkaaðilanum, búinn að binda sig á þann hátt gagnvart honum með samningum að hann hefur hreðjatak á þeim sem við völd er hverju sinni. Hagsmunir og vilji almennings víkja til hliðar, annarleg sjónarmið ráða ferðinni.

Því er oft haldið fram að hér á landi sé lítil eða engin bein spilling: Það er sennilega lítið um að fólki sé mútað beint og milliliða­laust, umslög full af seðlum fari á milli manna eða að vitað sé að tiltekin fyrirgreiðsla kalli á greiðslur undir borðið eða hlutdeild í gróða. Að vísu eru þeir til sem halda því fram að þetta sé alrangt. Mörg dæmi séu um mútur af þessu tagi en yfirvöld og eftirlitsaðilar ýmist líti framhjá slíku eða mönnum takist að leyna því. Látum það liggja á milli hluta. Höldum okkur í bili við þá almennu skoðun að spilling af þessu tagi sé ekki vandamál á Íslandi (hún er auðvitað stórkostlegt vandamál í mörgum löndum Austur- og Suður-Evrópu).

„Það er miklu erfiðara að henda reiður á þessari tegund spillingar en á beinni spillingu þar sem lög eru brotin.“
Hótanir einkaaðilans við Reykja­víkurborg eru hins vegar áminning um að dulin spilling – þar sem einka­­aðila tekst að gera opinbera aðila eða kjörna fulltrúa háða sér – kann að vera meiri hér en margur telur. Það er miklu erfiðara að henda reiður á þessari tegund spillingar en á beinni spillingu þar sem lög eru brotin. Dulin spilling þarfnast ekki þess að annar aðilinn greiði hinum fyrir athæfi sem felur í sér brot á lögum eða óskráðum reglum. Hún byggir á ákveðnum duldum tengslum aðila sem ganga á svig við hagsmuni almennings. Hún getur jafnvel verið þess eðlis að menn upplifa hana ekki sem spillingu heldur fremur sem einhvers konar gagnkvæma hagsmuni. Þar sem tengsl opinberra aðila og einkaaðila geta verið mjög fjölbreytileg, og einka­aðilar reyna iðulega að hafa áhrif á yfirvöld eða leita fyrir­greiðslu þeirra, geta mörkin þar sem fyrirgreiðslan er á kostnað almennings, frekar en í þágu hans, orðið býsna óljós.

Hegðun einkafyrirtækja á Íslandi fyrir hrun er ágætt dæmi um þetta. Það var að vísu ekki beint dulin spilling þar sem viðsnúningurinn á hlutverki opinberra aðila var orðinn svo algjör að yfirvöld töldu það beinlínis vera hlutverk sitt að móta stefnu eftir hagsmunum einkaaðila og fóru ekki leynt með það, en ástæðan fyrir því var auðvitað hin sérkennilega útrásarstemmning sem leitt hafði til óbeinnar valdatöku viðskiptalífsins.

Hvernig er hægt að berjast gegn dulinni spillingu? Með því að vakta og gagnrýna yfirvöld að sjálfsögðu og með duglegum fjölmiðlum sem halda áfram að vinna í málum og láta opinbera aðila ekki komast upp með að breiða yfir hinar raunverulegu ástæður gjörða sinna. Það er líka betra að stjórnarandstaða hverju sinni sé fær um að halda uppi málefnalegri og ígrundaðri gagnrýni frekar en að sleppa sér í innantómum yfirlýsingum, en það er önnur saga. Hættan á dulinni spillingu er alltaf til staðar þar sterkir aðilar utan stjórnmálanna reyna að hafa áhrif á yfirvöld sér í hag. Engin stjórnvöld geta því útrýmt slíkri spillingu en þau þurfa að geta sýnt að þau varist hana og berjist gegn henni, og samfélagið verður að geta fullvissað sig um að svo sé.

En á þessu hausti hafa enn fleiri gerðir spillingar komið upp á yfirborðið og sýnt sitt ljóta fés. Þriðja tegund spillingar er það sem kalla má djúpa spillingu. Hún er djúp vegna þess að hún er svo rótgróin og gegnsýrir stofnanir sam­félagsins í þeim mæli, að til að berjast gegn henni þarf meiri sjálfsrýni og sjálfsgagnrýni en yfirleitt er hægt að ætlast til hversdags af venjulegu fólki. Djúp spilling er ekki fyrst og fremst einkenni á hagsmunatengslum, heldur varðar hún afstöðu gagnvart samfélagslegum kerfum. Hún birtist í því viðhorfi að leiða hjá sér eða afneita kerfisbundnu ranglæti eða ósanngirni í meðferð samfélagsins á einstaklingum og hópum og leyfa annarlegum sjónarmiðum að ráða ferðinni – en þykjast á sama tíma, eða jafnvel telja sig vera, fullkomlega einlæga og heiðarlega.

Dæmið sem ég hef í huga er ráðning Hæstaréttardómara, en dómnefnd sem aðeins var skipuð körlum bjó til hugvitsamlega greinargerð til að sýna fram á að af þremur umsækjendum væri einmitt einn karl best hæfur til að gegna embætti Hæstaréttardómara. Formaður dómnefndarinnar var spurður um hlutlægni hennar og einlægni í einhverjum fjölmiðli og svaraði því til að allir hefðu dómnefndarmennirnir unnið af ítrustu samviskusemi og með það eitt í huga að komast að bestu og sanngjörnustu niðurstöðunni.

Á maður að kenna skipun dómnefndarinnar, vinnu hennar og niðurstöðu við spillingu? Já ég held að til þess sé full ástæða jafnvel þó að maður haldi því ekki fram að niðurstaðan hafi verið ákveðin fyrirfram. Hvers vegna? Ástæðuna má skýra í nokkrum liðum. Í fyrsta lagi ákveða þeir aðilar sem ráða skipun í dómnefndina að sniðganga lög í landinu sem kveða á um ákveðna kynjasamsetningu í nefndum og ráðum. Þeir halda því að vísu fram að lögin eigi ekki við um þessa tilteknu nefnd, en jafnvel þó svo væri lýsir skipunin blindu eða viljaleysi til að takast á við almennan vanda í samfélaginu sem birtist í ójafnri stöðu kynjanna. Í öðru lagi varðar spurningin hæfi umsækjendanna. Þau eru öll hæf að áliti dómnefndarinnar en mishæf. Frá sjónarmiði almennrar skynsemi blasir hins vegar við að þegar um er að ræða dómarastarf er ekki hægt að ákvarða hæfni með sama hætti og hæfni segjum heilaskurðlæknis eða geimfara. Dómarinn er líkari bensín­afgreiðslumanninum. Hann þarf að hafa ákveðna kunnáttu og helst reynslu sem gerir hann hæfan til starfsins. Hvort það sem hann hefur til að bera umfram þetta gerir hann hæfari eða ekki hæfari til að gegna því er ekki hægt að meta með neinum einhlítum hætti. Það er því ákvörðun dómnefndar að tilteknir þættir í reynslu umsækjenda skipti meira máli en aðrir. En þar með tekst líka að sniðganga jafnréttislög sem hefðu kveðið á um að konan í hópi umsækjenda fengi starfið væri hæfni allra talin jafnmikil. Þriðja atriðið er kannski veigamest: Skipun dómnefndarinnar sýnir einangrun lögmanna- og dómara­stéttarinnar í landinu. Þessi einangrun er til komin af því að þessi valdamikli hópur, eða ráðandi aðilar innan hans, getur látið eins og samfélagslegir hagsmunir séu sér óviðkomandi. Nú er að sjálfsögðu mikilvægt að dómarar og dómstólar séu sjálfstæðir gagnvart yfirvöldum. En það getur verið stutt á milli sjálfstæðis og einangrunar. Þegar tilvist kerfislægra þátta sem viðhalda gömlu stigveldi, ójöfnuði og ósanngjörnum viðhorfum er afneitað en valdahagsmunir og afturhaldssjónarmið stéttarinnar sjálfrar geta ráðið ferðinni blasir einangrun við frekar en sjálfstæði. Að forpokun og sérhagsmunir einangraðs hóps geti síðan stýrt því hvernig valið er inn í valdamikla stétt er djúp spilling.

Við getum lýst beinni spillingu svo að þar sem hún ríkir geti fjár­­hags­lega sterkir aðilar náð mark­miðum með því að hygla einstaklingum sem bregðast almanna­­hagsmunum. Dulin spilling er ástandið þar sem yfirvöld eru háð og að einhverju leyti á valdi sterkra fyrirtækja eða aðila í viðskiptalífi. Djúp spilling er ástandið þar sem valdamiklir hópar í samfélaginu geta stýrt ferlum og ákvörðunum sér í hag, til dæmis með því að sniðganga reglur og markmið sem miða að jöfnuði, sanngirni og réttlátum aðferðum. Ég hef nefnt tvær mögu­legar birtingarmyndir dulinnar spillingar og djúprar spillingar. Það er auðvelt að finna fleiri.

Birt í níunda tölublaði Stundarinnar 30. september 2015. Sjá vefútgáfu: http://stundin.is/pistill/spilling-dulin-spilling-og-djup-spilling/