Fjárhættuspilarinn er ein af þessum mögnuðu stuttu sögum Dostojevskís, sem eru einfaldar og margræðar í senn. Sögumaðurinn, Aleksei Ivanovitsj, karakter sem maður gæti hvergi rekist á annarsstaðar en í sögu eftir Dostojevskí, lætur í ljós hugrenningar og tilfinningar sem stundum verða svo óþægilega nærtækar og svo pínlega kunnuglegar lesandanum, að hann langar mest til að kasta bókinni frá sér. Og þó heldur hún manni frá upphafi til enda.
Sagan fjallar um fjárhættuspil, eins og titillinn gefur til kynna, og hún fjallar um það í bókstaflegri merkingu. En fjárhættuspilið er meira en þema í bókinni. Spilið gegnsýrir allan veruleika persónanna í sögunni. Þær spila hver með aðra, með tilfinningar, eignir, fjármuni og líf hverrar annarrar.
Sagan gerist á þýskum ferðamannastað sem Dostojevskí nefnir Roulettenburg. Þangað koma efnaðir ferðamenn, ekki síst Rússar, meðal annars til að spila fjárhættuspil. Sagan segir frá undarlegri fjölskyldu ekkjumanns – hershöfðingja, börnum hans og stjúpdóttur, vonarbrúði hershöfðingjans og fleira fólki í kringum þau en söguna segir heimiliskennarinn, sem einnig er leynilega og ekki svo leynilega ástfanginn af stjúpdótturinni. Þá segir frá aldraðri og auðugri konu, frænku hershöfðingjans, en dauða hennar er beðið með mikilli eftirvæntingu þar sem fjárhagur fjölskyldunnar og hirðarinnar í kringum hana er háður því að geta leyst til sín auðæfi þeirrar gömlu.
Allt snýst á endanum um peninga og við rúllettuna rætast ótrúlegustu draumar til þess eins að hrynja aftur þegar ofsagróði breytist í tap á einu andartaki. Spilið innan og utan salarins er meginþemað, en hér er Dostojevskí líka upptekinn af efni sem mjög einkennir rússneska sjálfsmynd, þá sem nú, en það er samanburðurinn við aðrar þjóðir. Í sögunni eiga Rússar samskipti við Englendinga, Frakka og Þjóðverja og hugleiðingar sögumannsins snúast ekki síst um það hvernig Rússar skeri sig úr – hversu ólíkur þjóðarkarakter þeirra er hinum rólegu, yfirveguðu, borgaralegu, stilltu, yfirborðskenndu og jafnvel drepleiðinlegu Evrópumönnum. Þannig fléttast þetta tvennt saman í bókinni fjárhættuspilið, niðurlæging þess og sjálfseyðingarhvöt fjárhættuspilarans og hin ákafa rússneska minnimáttarkennd sem stundum birtist í stórkarlalegri sjálfsupphafningu gagnvart hinum leiðu Evrópubúum og stundum í sjálfsásökun og jafnvel sjálfsgagnrýni.
Þýðing Ingibjargar Haraldsdóttur er bæði traust og lipur. Hún er nákvæm og fylgir frumtextanum vel, en það getur stundum verið erfitt þegar þýtt er úr rússnesku, ekki síst þegar um sjálfan Dostojevskí er að ræða. Ingibjörgu tekst vel að koma merkingunni til skila án þess að ganga of langt í túlkun hans. Að þessu leyti minnir þýðing hennar mig á afbragðsgóðar þýðingar Larissu Volokhonsky og Richard Pevear á nokkrum verka Dostojevskís á ensku, þar sem maður sér fara saman fágaðan skilning á textanum og tilgerðarlausa framsetningu hans (reyndar er þýðing þeirra á þessari bók Dostojevskís væntanleg síðar á þessu ári).
Ingibjörg leysir yfirleitt mjög vel úr öllum þýðingavanda. Textinn er mjög frönskuskotinn sem getur virkað skringilega og jafnvel þreytandi á lesandann en Ingibjörg fer þá leið að halda allri frönskunni inni og þýða bara það sem nauðsynlegt er í neðanmálsgreinum, sem venst ágætlega. Orðið babúska sem þýðir amma en er notað mjg frjálslega í rússnesku fer skemmtilega á að halda í íslenskunni þar sem það á við og Ingibjörg gerir það með því að nota amma eingöngu þar sem mælandinn er í raun að tala um ömmu sína, en annars babúska eða sú gamla.
Í sögunni er eilíft verið að tala um peninga þar fer maður ekki svo yfir síðu að ekki komi fyrir flórínur, frankar, gyllini, gullpeningar, rúblur og talerar en því miður er nánast ókleift að átta sig á verðgildi eða upphæðum nema að svo miklu leyti sem eitthvað er sagt vera mikið eða lítið eða borið saman við aðra samtímagjaldmiðla. Það hefði verið vinsamlegt gagnvart lesandanum eð veita einhverja innsýn inn í það um hvaða upphæðir er að tefla í samanburði við eitthvað sem hönd á festir í samtímanum.
Það er til aragrúi af vondum þýðingum á rússneskum bókmenntum, ekki síst á Dostojevskí. Sem dæmi má nefna að í einni þýðingu á sögunni sem hægt er að fá ókeypis á netinu er slæm þýðingarvilla strax í fyrstu málsgrein og áfram eftir því. Það eru því talsverð forréttindi að geta gengið að þýðingum á verkum Dostojevskís á íslensku sem eru fyllilega samanburðarhæfar við bestu þýðingar á önnur tungumál. En þannig er það um Fjárhættuspilarann og sömu sögu er sennilega að segja af öðrum verkum hans sem Ingibjörg Haraldsdóttir hefur þýtt.

Fjárhættuspilarinn. Fjodor Dostojevskí, 158 bls., þýðandi Ingibjörg Haraldsdóttir, Mál og menning, 2004.
Birt í Lesbók Morgunblaðsins 16. apríl, 2005.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *