Landsbókasafn-Háskólabókasafn stenst ekki almennan samanburð við svipuð söfn í löndum sem við berum okkur saman við. Er það skrítið? Hver gæti búist við því að 300 þúsund manna þjóð ætti jafngóð bókasöfn og fjölmennari og ríkari þjóðir? En smæðin er ekki fólgin í eintakafjölda eða krónutölum. Smæðin birtist í tómlætinu.
Háskóli hefur verið starfandi á Íslandi í bráðum 100 ár. Síðastliðin 30-40 ár hefur metnaður háskólanna í landinu ekki aðeins verið til starfsmenntunar presta, lækna, lögfræðinga eða kennara, heldur hefur metnaðurinn verið akademískur í orði kveðnu. En hefur hann verið það í raun? Því miður er engu líkara, þegar litið er á eina raunverulega háskólabókasafnið á Íslandi, að þessi metnaður hafi verið orðin tóm – Háskóli Íslands hefur aldrei gert minnstu tilraun til þess, hvorki einn né í samstarfi við aðra, að skipuleggja bókasafn sitt með þeim hætti að það standist samanburð. Aldrei hefur nokkur sjálfstæð stefna verið mörkuð, sem þó væri eðlilegt að vænta af háskólabókasafni. Tómlæti Háskóla Íslands um bókasafn sitt hefur verið smánarblettur á skólanum um áratuga skeið.
Það nægir að skoða innkaupatilhögun háskólans til að þetta metnaðarleysi sé ljóst hverjum manni: Ólíkt því sem þykir sjálfsagt, jafnvel í bókasöfnum lítilla grunnnámsháskóla í Evrópu og Bandaríkjunum, hefur Háskólabókasafnið aldrei stundað skipulögð eða kerfisbundin innkaup. Engir starfsmenn safnsins fara yfir útgáfu bóka á tilteknum sviðum og haga innkaupum í samræmi við stefnu um ritakaup eða fjármagn til ráðstöfunar. Öll innkaup hafa farið eftir óskum kennara, sem panta bækur eftir kennsluþörfum sínum og áhugamálum hverju sinni. Þessvegna ráðast ritakaup safnsins oft af hreinni tilviljun og því er líka tilviljanakennt hvað til er af ritum jafnvel á helstu fræðasviðum. Safnið getur átt rit um sérhæfð og óvenjuleg efni í löngum runum en lítið eða ekkert um kjarnaefni einstakra greina. Í sumum greinum er að finna dýrar og vandaðar fræðilegar heildarútgáfur lítt þekktra höfunda, á meðan aðeins eru til rit á stangli eftir þá mikilvægustu.
Háskóli Íslands hefur ekki aðeins sýnt innkaupum safnsins og ritaeign tómlæti. Hvað eftir annað er ráðist á hinar naumu fjárveitingar deilda til ritakaupa og þær skornar enn frekar niður. Þetta getur gengið svo langt að á miðju ári þurfi að stoppa öll innkaup þannig að jafnvel kennurum sé neitað um ritakaup vegna námskeiða. Þetta sýnir að Háskóla Íslands er ekki treystandi til að vera ábyrgur fyrir eina raunverulega háskólabókasafninu á Íslandi, sama hvað allri mælskulist líður um að hann ætli að verða einn af 100 bestu háskólum í heimi.
Eigi að verða til nothæft háskólabókasafn á Íslandi þarf að taka þann bikar af Háskóla Íslands. Háskólarnir í landinu og ríkið þurfa að taka saman höndum og gera það að sameiginlegu metnaðarmáli að byggja upp innlent bókasafn sem hægt er að bera saman við bestu háskólabókasöfn. Innkaup þarf að sameina og samræma og straumlínulaga innlent lánskerfi þannig að rit megi senda á milli landshluta eftir þörfum. Sú staðreynd að nú þegar er til landskerfi bókasafna þar sem hægt er að fletta upp í skrám þeirra allra gerir þetta auðveldara. Það ætti einnig að auðvelda þetta að starfsfólk bókasafna hér á landi er upp til hópa vel menntað og mjög hæft á sínu sviði.
Það er vitleysa að halda að eina leiðin til að skapa gott háskólabókasafn hljóti að felast í því að eintakafjöldi í Þjóðarbókhlöðunni margfaldist. Aðalatriðið er að rit og annað efni til sameiginlegs háskólasafns sé valið með faglegum og kerfisbundnum hætti og gert aðgengilegt þannig að allir háskólar í landinu hafi jafnan aðgang að ritum þess og rafrænum söfnum.
Birt í Lesbók Morgunblaðsins 19. ágúst 2006.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *