Þorvaldur Gylfason bendir á það í pistli í DV að ekki sé ljóst hvernig ríkisstjórnin getur fjármagnað skuldaleiðréttingar sínar og að möguleikarnir sem í boði eru séu þess eðlis að líkurnar á aukinni verðbólgu vegna aðgerðanna yfignæfandi, hvaða leið svo sem notuð er til að sækja féð. Í stað þess að horfa til framtíðar sé ríkisstjórnin að beita gamaldags aðferðum sem muni hafa gamalkunnar afleiðingar og ekki hjálpa neitt við að endurreisa efnahag landsins: „Ábyrgðarlaus hagstjórn með gamla laginu mun ekki flýta batanum, heldur tefja hann og trufla“ segir Þorvaldur í lok greinarinnar.

Ef sérfræðingarnir hafa rétt fyrir sér

Nú skulum við gefa okkur að Þorvaldur hafi rétt fyrir sér, eins og raunar mjög margir (ef ekki flestir) hagfræðingar sem hafa tjáð sig um þessi mál upp á síðkastið. Segjum að sérfræðingar séu upp til hópa sammála um að aðgerðir ríkisstjórnarinnar séu óskynsamlegar, jafnvel mjög slæmar. Hvernig gæti þá staðið á því að þær eru samt vinsælar? Nú má auðvitað hugsa sér að sérfræðingarnir hafi rangt fyrir sér, rétt eins og margir töldu líklegra að Ísland tapaði Icesave málinu, en að það ynnist fyrir Efta dómstólnum. En í þessu tilfelli er það reyndar ólíklegra þar sem ekki er um að ræða forspá um ákvörðun dómara, heldur hagfræðilega greiningu á afleiðingum tiltekinna aðgerða. Og greiningin virðist vera tiltölulega einföld, svona einskonar hagfræði 101.

Er þá almenningur heimskur?

Þá væri niðurstaðan sú að almenningur sé fáfróður eða jafnvel heimskur: Meirihluti fólks neiti að horfast í augu við augljósa greiningu sérfræðinga en trúi þess í stað lýðskrumurum og loddurum. Er það líklegt? Margir stjórnmálafræðingar og heimspekingar telja það ekki fráleitt. Vilhjálmur Árnason hefur í nýlegri Skírnisgrein útlistað hve varasamt það er að láta almenning kjósa um mál, einmitt vegna þess hve hann geti verið viðkvæmur fyrir lýðskrumi og Gunnar Helgi Kristinsson hefur bent á í ræðu og riti að lýðræði sé „mjög vandmeðfarið“ af viðlíka ástæðum.

En hversvegna skyldum við ætla að fólk sem hefur fulla burði til að sjá skýrt í eigin fjármálum og virðist geta séð afleiðingar vanhugsaðra ákvarðana sjálfs sín (það á nú þrátt fyrir allt við um allan þorra almennings), sé svona óskynsamur, fáfróður og jafnvel heimskur þegar kemur að fjármálum ríkisins? Það virðist rökréttara að gera ráð fyrir því að ef aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru glapræði, þá ættu flestir að átta sig á því. En ef svo er, hversvegna eru þá ekki flestir á móti þeim?

Eða kannski ekki svo heimskur…

Hugsum málið örlítið: Annarsvegar er því lofað að margir fái peninga strax, ef svo má að orði komast, fái tafarlausa lækkun á húsnæðisskuldum sínum (látum endanlega upphæð og aðferð við niðurfærsluna liggja milli hluta í bili). Hinsvegar er bent á að betra væri að gera áætlanir til lengri tíma, bæta hagstjórn og svo framvegis – á því myndu allir á endanum græða meira en á skuldaleiðréttingunni. En hér er valið á milli fugls í hendi og fugls í skógi. Og leiðrétting lána er (hvað sem Þorvaldur Gylfason segir) fugl í hendi. Hversvegna skyldi almenningur búast við því að langtímaáform geti náð fram að ganga? Núverandi ríkisstjórn byrjaði á því að eyðileggja margt af því sem fyrri ríkisstjórn hafði lagt drög að, sumt að því er virðist eingöngu vegna andúðar sinnar á forverunum. Næsta ríkisstjórn mun vafalaust eyðileggja það sem þessi ríkisstjórn leggur drög að. En þetta sýnir okkur bara að það er mjög óskynsamlegt að styðja langtímaáform ríkisstjórnar, hver svo sem stjórnin er.

Almenningur er sem semsagt hvorki fáfróður né heimskur þótt hann bæði trúi sérfræðingunum og velji leiðréttinguna. Ástæðan er sú að hann hefur enga ástæðu til að treysta neinu sem stjórnmálamenn segja og þess vegna er að sjálfsögðu best að taka peningana strax, ef þeir eru í boði út frá heilbrigðri skynsemi hvers einstaklings. Að hugsunarháttur af þessu tagi kunni að ráða því hvaða stefnu og aðgerðir fólk aðhyllist segir hinsvegar sína sögu um ástand mála í íslenskri pólitík. Á meðan það ríkir mun fólk tæplega sjá skynsamlega ástæðu til að að styðja langtímaáætlanir sama hvað við höfum góða sérfræðinga og sama hvað almenningur er gáfaður.

1 reply
 1. Sævar
  Sævar says:

  Eggið eða hænan?
  Það er rétt að nefna að það var umræddur almenningur sem kaus umrædda stjórnmálamenn. Hann kaus frekar að koma til valda þeim sem vildu skipta um stjórnvöld en að viðhalda óbreyttri stjórnarstefnu. Hann kaus „leiðréttinguna“ frekar en að haldið yrði áfram á þeirri braut að reyna að leysa mál þeirra sem verst stæðu. Um það ber kosningasigur Framsóknar merki. Það er því almenningur sjálfur sem ræður því hvernig ástand mála í íslenskri pólitík, svona til legri tíma litið.

  Burtséð frá því þá má heldur ekki vanmeta að margir trúðu ekki sérfræðingunum eftir hrun og töldu þá hafa brugðist og ekki varað við. Og ég sé ekki að það ástand hafi batnað til neinna muna. Ég að Icesave leggist svo við hrunið sem skýring hvers vegna svo margt fólk var ekki tilbúið að trúa sérfræðingunum. Hvað sem segja má um Icesave I, II og III verður að viðurkennast að eftir dóm EFTA dómstólsins þvarr traust margra til þeirra stjórnmálamanna sem vildu semja og fræðimanna.

  Þegar sömu fræðimenn og hvöttu til samþykktar einhverra þessarra samninga koma nú og benda á galla „stóru millifærslunnar“ taka margir því nánast sem frekari sönnun þess að aðgerðirnar séu hið eina rétta. Enda hafi þessir sömu aðilar haft rant fyrir sér í Icesave en Advice, InDefence og Framsókn hafi haft rétt fyrir sér, þeir hafi alltaf ‘vitað’ að við hvorki ættum eða þyrftum að borga. Nú sannast það aftur að Frosti og Sigmundur og krakkarnir í Framsókn hafi alltaf ‘vitað’ að rétt og gerlegt væri að leiðrétta lánin án þess að allt færi í klessu, líkt og leiðtogar fyrri stjórnar héldu fram.

  Og allt hefur þetta þann kost fyrir kjósandann skila honum, sé hann sæmilega stæður og með íbúðalán sem hann hefur ekki þurft aðstoð með fram að þessu, tafarlausri lækkun á húsnæðislánum sinum.

  Hitt er svo annað mál að þrátt fyrir mikinn trommuslátt eru Leiðréttingin miklu minni og ómarkvissari en skilja mátti á málflutningi forsætisráðherra fyrir kosningar og fyrstu mánuð eftir að hann tók við.

  Það verður þess vegna forvitnilegt að fylgjast með því hvort hagmennin sem þú lýsir í pistlinum snúist gegn ríkisstjórninni.

  Svara

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *