Kveldúlfur, stórfyrirtæki Thors Jensen og sona hans, átti hæðir sínar og lægðir eins og gengur, þó endalokin hafi verið bæði langvinn og sársaukafull. Eftir gósentíð þriðja áratugarins, lægð kreppuáranna og velgengni stríðsáranna, tók við hægfara afturför sem lauk ekki fyrr en seint á áttunda áratugnum þegar skilanefnd Kveldúlfs lauk störfum og fyrirtækið var tekið af firmaskrá, en Landsbankinn hafði þá löngu yfirtekið það. Skuldaskilin voru þó furðu hagstæð: „Kveldúlfur hafði þá eftir allt saman ekki orðið baggi á Landsbankanum“ er niðurstaða Guðmundar Magnússonar (340).
Niðurstaða hans er líka sú að Thorsararnir svokölluðu, Thor Jensen, synir hans og fleiri afkomendur sem voru áberandi, umsvifamiklir og umdeildir í íslensku samfélagi lungann úr 20. öldinni, hafi gert aðra ríka um leið og þeir auðguðust sjálfir. Ekki nóg með það, þeir hafi upp til hópa einnig verið örlátir og menningarlega sinnaðir framfaramenn sem voru tilbúnir til að láta umtalsvert fé renna til óvandabundinna, eða samfélagsins þegar málstaðurinn væri góður. Til að draga fram samfélagslega hugsun ættarinnar vitnar hann til orða ættföðurins, Thors Jensen sem sagði „að fjáraflamenn eins og hann og synir hans væru frekar „ráðsmenn yfir fé sínu en fullkomnir eigendur““ (346).
Bók Guðmundar fylgir þessu meginþema mjög dyggilega. Þó að hann dragi eitt og annað um fjármál og einkamál fjölskyldunnar fram í dagsljósið, þá er bókin skrifuð af mikilli hollustu við ættina og afar prúðmannleg í hennar garð. Hún er reyndar svo prúðmannleg að stundum, einkum um miðbik bókarinnar, verður frásögnin hrein flatneskja, því allt sem þetta ágæta fólk tekur sér fyrir hendur finnst höfundinum jafn sjálfsagt og eðlilegt og lítt fallið til frekari spurninga eða umfjöllunar.
Guðmundur leggur þannig talsverða áherslu á samfélagslegan virðisauka af umsvifum Thorsara og margendurtekur að hvernig sem á það sé litið hafi þessi umsvif haft góð og uppbyggileg áhrif. Þessi nálgun verður til þess að túlkun hans á heiftúðugri pólitík millistríðsáranna og síðar er að öllu leyti persónuleg. Í árásum andstæðinganna, (þetta á einkum við um andstæðinga Ólafs Thors, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins um 27 ára skeið) ráða þannig skap, hefnigirni, illkvittni og fleiri lestir ríkjum á meðan Ólafur er flinkur skylmingamaður og verst fimlega. Stundum er eins og hann sleppi sér í aðdáun sinni; þannig virðist Guðmundur halda að einn bræðranna, Thor Thors, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum um 2 áratuga skeið, hafi með ræðu á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna haft úrslitaáhrif á ferli sem leiddi til stofnunar Ísraelsríkis (313). Þessi einhliða persónulega sýn er að vísu ekki gagnrýnislaus, því Guðmundur gerir sér grein fyrir því að söguhetjur hans eru ekki fullkomnar, en verður á köflum nokkuð barnaleg.
Ýmsar staðreyndir um fjármál Thors bræðranna, reikninga þeirra erlendis og margvíslegar aðferðir til að komast framhjá höftum og bönnum sem ríktu hér á landi um miðbik aldarinnar eru athyglisverður hluti sögunnar. En um þetta og raunar ýmsar venjur fjölskyldunnar sem orkuðu tvímælis er viðkvæði Guðmundar ýmist að viðhorfin hafi verið önnur en nú er, eða að allir hafi hugsað og breytt á sama hátt og því megi ekki dæma hart. En stundum er einfaldlega ómögulegt að fallast á skýringar Guðmundar. Hvernig er til dæmis hægt að láta gott heita að „svona hafi allir gert“, þegar stjórnvöld gera á fimmta áratugnum aðför að íslenskum rithöfundi vegna meintra erlendra tekna og reikninga í Bandaríkjunum. Meðal þeirra sem að málinu koma er Thor Thors sendiherra, bróðir forsætisráðherrans, sem sjálfur á reikninga af þessu tagi og veit vel af fjölda slíkra reikninga í eigu annarra, þar á meðal skylddmenna sinna? Það virðist alveg fara framhjá Guðmundi að hér er um að ræða stjórnmálaspillingu af versta tagi (350-351).
Saga Thorsættarinnar er vissulega merkileg saga sem ein hlið íslenskrar samtímasögu. En bók Guðmundar Magnússonar gerir lítið meira en að krafsa í yfirborð hennar. Jafnvel nokkrar aðalpersónur sögunnar eru lesandanum lokuð bók eftir sem áður. Þetta á ekki síst við um elsta son Thors, Richard Thors, sem stýrði fjölskyldufyrirtækinu um árabil, auk þess sem hann var lengi einn af helstu samningamönnum þjóðarinnar erlendis. Richard er hinn myrki karakter þessarar sögu, maður sem að mati föður síns og kannski annarra, var heldur „stór í hugsun“ fyrir sitt litla land (110). Guðmundur ýjar að ýmsu og virðist hafa fengið leyfi fjölskyldunnar til að segja frá leyndarmálum sem varða bæði fjármál og tilfinningamál. En það sem hann segir er líklegra til að vekja spurningar með lesandanum frekar en að svara þeim.
Bókin er sem fyrr segir prúðmannlega skrifuð, fáir munu telja að sér eða sínum vegið með henni. En hún er þokkalega læsileg og það er ekki fyrr en á síðustu síðum hennar að aðdáun höfundar á Thorsurunum leysist upp í hreint smjaður.

Thorsararnir. Auður, völd, örlög. Guðmundur Magnússon, 398 bls., Almenna bókafélagið, Reykjavík, 2005.
Birt í Morgunblaðinu 20. desember 2005

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *