(Um Sofandi að feigðarósi, Ólafur Arnarson, JPV, 2009)
Bók Ólafs Arnarsonar um bankahrunið á Íslandi haustið 2008 er fyrsta heillega úttektin á fjármálahamförunum í bókarformi, en alveg örugglega ekki sú síðasta. Stærð og merking þessara atburða er slík, að það mun taka ár eða áratugi að vinna úr þeim. Í bók Ólafs er engan stórasannleika að finna í málinu, en hann rekur atburði og helstu skýringar á þeim í samantekt sem á köflum er mjög læsileg. Bókin er þannig gagnleg, en fæstum mun þó koma nokkuð á óvart sem í henni stendur. Raunar er mest af því sem hann segir um menn og málefni ýmist almælt tíðindi eða velþekktar tilgátur um atburðina og skýringar þeirra. Þetta er enginn áfellisdómur yfir bókinni, en vissulega hefði maður viljað sjá dýpri, skarpari og umfram allt betur unna greiningu á hruninu.
Ólafur lýsir því yfir í formála að markmið hans með bókinni hafi ekki verið sagnfræði- eða hagfræðileg úttekt á hruninu heldur saga „sem gæti gripið lesandann og haldið honum“ (7). Það er ekkert við þessa markmiðssetningu að athuga og reyndar mjög skiljanlegt að höfundur sem ætlar að skrifa bók um hrunið á skömmum tíma þannig að hún komi út á meðan það er enn á toppi listans yfir vinsælustu umræðuefni matarboðanna hafi slík markmið. Ólafur bendir einnig á að bakgrunnur hans, menntun, starfsreynsla og sambönd hafi augljóslega mælt með því að hann skrifaði slíka bók, byggða á viðtölum hans við einstaklinga í stjórnkerfinu og viðskiptalífinu og upplýsingum sem hann ætti bæði hægt með að útvega og ágætar forsendur til að skilja.
Spurningin er því hvernig til hafi tekist að þessum forsendum gefnum: Er Sofandi að feigðarósi bók sem grípur lesandann og heldur honum? Því miður vantar töluvert á að svo sé. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Fyrsta ástæðan varðar stíl bókarinnar. Ólafi tekst ekki að móta stöðu sína sem sögumanns þannig að frásögn hans verði grípandi eða trúverðug. Hann blandar saman almennri lýsingu atburða, frásögn af tiltekinni atburðarás frá sjónarhorni þátttakenda, upphrópunum um ástandið (Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson „vöknuðu inn í útópíu sósíalismans“ (19) við hrunið), hreinum sleggjudómum og tiltölulega vel ígrunduðum niðurstöðum. Bókin er furðulega mishæðótt stundum eins og hagfræðiskýrsla (sem hún á ekki að vera samkvæmt yfirlýsingum höfundarins í upphafi hennar), stundum eins og æsifréttamennska (sem hann hefur varla stefnt að heldur).
Önnur ástæðan er sú að atburðalýsingar bæta stundum engu við skilning á atburðunum. Þannig er því til dæmis lýst í löngu máli hvernig Lárus Welding sat erfiðan fund í Abu Dhabi í þágu Glitnis (fimm tímar, fékk hvorki vott né þurrt), hafði miklar áhyggjur, hringdi heim, talaði við Þorstein Má osfrv. osfrv. án þess að fundahöldin og ferðalögin séu skýrð (32-35). Eins eru ályktanir oft þannig að þær hljóma eins og enn eitt matarboðssamtalið frekar en að um greiningu sé að ræða eða nýjar upplýsingar. Þannig fullyrðir Ólafur til dæmis að Seðlabankinn „hljóti“ að hafa vitað að lántaka hans hjá Bayrische landesbank hefði hrikalegar afleiðingar fyrir Glitni sem var í viðskiptum við sama banka. Allt annað sé „fráleitt“. En hér er ekki um neitt dýpra að ræða en ályktun Ólafs af staðreyndum sem blasa við öllum. Hefði hann ekki með samböndum sínum getað aflað meiri upplýsinga? Það er nefnilega alveg sama hvernig einhver telur að hlutirnir hljóti að vera, eftir sem áður er opin spurning hvort svo sé. Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum. Bókin veldur, þrátt fyrir ýmsa góða kosti einfaldlega vonbrigðum vegna þess hvað hún bætir litlu við vel þekktar staðreyndir og vegna þess að greiningin á þessum staðreyndum nær ekkert lengra en greining hinna fjölmörgu skörpu einstaklinga maður er stöðugt að hitta á götuhornum og í matarboðum.
Rauði þráðurinn í bók Ólafs (og um leið styrkur hennar) er viðleitni hans til að gera samhangandi grein fyrir hruninu og um leið pólitískum og kerfislægum orsökum þess. Frá leikmannssjónarmiði er greinargerð fyrir kerfislægum þáttum ágæt og orð- og hugtakaskýringar í bókarlok hjálpa lesandanum við að átta sig á hinu hagfræðilega orsakasamhengi. Ólafur er gerir sér far um að skýra hvernig fjölmargar stefnumótandi ákvarðanir síðustu ára, ekki síst hvernig til tókst við einkavæðingu bankanna leiddu til ófremdaraástandsins sem upp var komið í lok september 2008.
En pólitíska greinargerðin er þó þungamiðja bókarinnar og Ólafur fer ekki í neinar grafgötur um að Davíð Oddson beri höfuðábyrgð á hinum pólitísku hrakförum sem hafa rúið íslenska hægrimenn trausti og virðingu, og um leið sett Íslendinga í ömurlega og hlálega aðstöðu á alþjóðlegum vettvangi: Það var Davíð sem leiddi þjóðina í glötun með dyggri hjálp Geirs Haarde og Davíð var „stærsta efnahagsvandamál Íslands“ eftir að hann tók við Seðlabankanum „í skjóli Geirs H. Haarde“ (210). Bókin er á sinn hátt uppgjör við Davíð og merkileg sem slík, ekki síst vegna þess að höfundur hennar var um árabil ákafur aðdaándi Davíðs og samstarfsmaður á fyrstu árum stjórnartíðar hans. Sterkasti kafli bókarinnar varðar beina ábyrgð Davíðs á hruninu og þar tekst höfundinum í stuttu máli að færa mjög sterk og skýr rök fyrir því að náðarhögg íslenska bankakerfisins megi rekja til hins fræga viðtals við Davíð Oddsson í Kastljósi Sjónvarpsins þriðjudagskvöldið 7. október (94).
Það er freistandi að setja Sofandi að feigðarósi í samband við pólitískan bakgrunn höfundarins sem afneitar fyrri goðum sínum af festu og jafnvel nokkru hugrekki. En um leið er ómögulegt annað en að setja hana í samband við það róttæka endurmat á pólitískum gildum sem nú fer fram í öllu samfélaginu – og reyndar ekki aðeins á Íslandi. Bók Ólafs er, þrátt fyrir ýmsa galla, meira en uppgjör við einstaka menn, stefnu þeirra eða mistök. Hún er fyrsti votturinn af þeim skuldaskilum sem 18 ára samfelld stjórn frjálshyggjunnar á Íslandi hefur gert nauðsynleg. Það verður fróðlegt að sjá hvort fleiri frjálshyggjumenn og fyrrverandi frjálshyggjumenn muni gera upp við guðinn sem brást á svipaðan hátt og Ólafur.
Birt í Lesbók Morgunblaðsins, bls. 12, 6. júní 2009
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *