(Ræða við útskrift á Bifröst 2. júní 2012)

Kæru útskriftarnemar, aðrir nemendur, samstarfsfólk, aðstandendur og aðrir gestir.

Að starfa við Háskólann á Bifröst, hvort sem maður gerir það sem nemandi eða starfsmaður er stöðug áskorun. Við þurfum öll að minna okkur á það daglega hversvegna þessi skóli er svo mikilvægur og fyrir hvað hann stendur. Bifröst er, þrátt fyrir virðulegan aldur skólans, ekki mosagróin stofnun hins hefðbundna menntakerfis heldur lítill og dýnamískur skóli sem hlýtur alltaf að fara sínar eigin leiðir og bjóða hugrökku fólki upp á að gera hlutina öðruvísi.

Ég dáist á hverju hausti að þeim nemendum sem hafa tekið þá ákvörðun að sækja um hjá okkur, verið teknir inn í skólann, og birtast hér í lok ágúst, stundum með allt sitt hafurtask, jafnvel með heila fjölskyldu í farteskinu. Þið nemendur okkar hafið þurft að taka stóra ákvörðun og í mörgum tilfellum gera miklar breytingar á lífi ykkar til að geta komið hingað og lokið því námi sem þið hafið kosið hér. En þetta veldur því líka að Bifrestingar eru ákveðið fólk, sem auðveldlega lætur að sér kveða eftir að hafa lokið sínu námi.

Þetta verðum við að hafa í huga. Við þurfum líka að hafa í huga að hlutverk þessa skóla í samfélaginu er tvíþætt: Annarsvegar tökum við nemendur inn í skólann sem vilja komast út úr kæfandi hefð og rútínu viðtekinna hugmynda um hvað í því felist að vera í skóla, fólki sem hefur áhuga og getu til að vinna sjálfstætt og hugsa sjálfstætt. Hinsvegar útskrifum við fólk sem hefur hlotið ákveðna þjálfun hjá okkur og hneigist til að sjá heiminn með augum Bifrestingsins. Þannig getur lítill skóli eins og við, sem útskrifar að jafnaði ekki meira en 3-5 prósent þeirra sem ljúka háskólagráðu hér á landi á hverju ári, haft áhrif á samfélagið sem við lifum í. Við trúum því ekki aðeins að Bifröst geri gagn heldur líka og ekki síður að Bifrestingar séu afl í samfélaginu.

Besta hugmyndin: Íslensku háskólarnir verði sjálfseignarstofnanir

Í vor sendi Vísinda- og tækniráð frá sér skýrslu þar sem settar voru fram hugmyndir og í sumum tilfellum beinar tillögur um leiðir til að einfalda starfsumhverfi háskólakennslu og rannsókna. Þessi skýrsla er afurð starfs sem hefur staðið yfir lengi og kemur til af þeirri viðteknu skoðun innan hákólasamfélagsins að þörf sé á endurskipulagningu. Þegar um þessi mál er rætt í fjölmiðlum gætir oft þess misskilnings að markmið breytinga af þessu tagi sé fyrst og fremst eða eingöngu sparnaður. Sameiningar rannsókna- og háskólastofnana séu nauðsynlegar vegna þess að í núverandi umhverfi sé verið að borga margsinnis fyrir sömu hlutina.

Það þarf ekki annað en benda á að Ísland leggur hlutfallslega miklu minna fé til háskólastofnana sinna heldur en tíðkast í nágrannalöndum okkar til að sjá hversu fráleit sú hugmynd er að sparnaðarmarkmið eigi að vera í fyrirrúmi við breytingar á starfsemi og fjármögnun háskóla, þótt að sjálfsögðu eigi hagkvæmnissjónarmið að gilda í rekstri háskólastofnana eins og annarra.

En markmið breytinga hlýtur fyrst og fremst að vera að styrkja háskóla- og rannsóknasamfélagið og tryggja að það skili samfélaginu þeim ávinningi sem ætlast er til. Í dag er íslenskt háskólakerfi ódýrt, það er að segja við erum að útskrifa fólk með háskólagráður með minni tilkostnaði en nágrannalöndin. En um leið eru allir sammála um umhverfi og aðbúnaður háskólasamfélagsins þyrfti að vera miklu betri til að búast megi við nauðsynlegum árangri og framþróun. Hvað þarf til að svo megi verða?

Í skýrslu vísinda- og tækniráðs er farið yfir nokkrar hugmyndir sem fengið hafa mismikið vægi í fjölmiðlaumfjöllun síðan skýrslan var birt í drögum fyrr í vor. En sú hugmynd sem minnsta umfjöllun hefur fengið er þó sú sem án nokkurs vafa er best hvað háskólana og háskólakennslu varðar. Hún er sú að í stað þess að sameina undir einni yfirstjórn flesta eða alla háskóla landsins, verði rekstrarform íslenskra háskóla samræmt. Ríkisháskólunum verði breytt í sjálfseignarstofnanir og sömuleiðis verði eina háskólanum sem nú er rekinn sem hlutafélag, Háskólanum í Reykjavík, breytt í sjálfseignarstofnun. Bifröst og Listaháskólinn eru sjálfseignarstofnanir nú þegar.

Hversvegna er þetta án nokkurs vafa besta fyrirkomulagið? Svarið við því er einfalt. Í háskólasamfélaginu eiga stífar gæðakröfur að ráða úthlutun fjármagns. Hið opinbera, sem fjármagnar alla háskólamenntun að stærstum hluta á að geta gert sambærilegar kröfur um hagkvæmni og árangur til allra skóla án tillits til stærðar þeirra og staðsetningar. Í litlu samfélagi eins og okkar er lykilatriði að halda nauðsynlegri fjölbreytni um leið og samlegð og samvinna eru nýtt til að ná árangri á einstökum sviðum. Þessvegna er samvirkt háskólasamfélag, án annarrar miðstýringar en þeirrar sem öflugt gæðaeftirlit felur í sér langsterkasta fyrirkomulag háskólastarfsemi í samfélagi á borð við okkar.

Íslenskt háskólasamfélag: Ein heild, ekki ein stofnun

Við eigum að sjá íslenskt háskólasamfélag sem eina heild, en ef við höldum að þetta geti einungis gerst með því að búin sé til ein stór og sterk stofnun erum við á algjörum villigötum. Það er ansi hætt við því að með stórtækum sameiningum töpum við gæðum lítilla stofnana eins og Bifrastar, en viðhöldum öllum ókostum skrifræðis og þyngsla sem iðulega einkenna stórar stofnanir.

Það er einfaldlega gamaldags að halda að ein stór stofnun geti gert nokkurt gagn, sem ekki er hægt að ná fram með skilvirku samstarfi smærri eininga. Við lifum í samfélagi klasa og neta. Háskólasamfélagið verður að fá þróast og þroskast í þá átt, en til þess þarf hugrekki og hugmyndaauðgi sem því miður fer stundum lítið fyrir þegar gráhærðir háskólaprófessorar við aldur koma saman og segja skoðanir sínar á landsins gagni og nauðsynjum. Þeir hafa því miður oftar tilhneigingu til að kalla eftir auknu valdi, jafnvel krefjast þess að fá óskipt yfirráð yfir háskólamenntun í landinu, sannfærðir um að þannig séu gæði tryggð. Þessi hugsunarháttur má ekki ráða ferðinni á þróun íslensks háskólasamfélags.

Breytingar á stjórnskipulagi Háskólans á Bifröst

Háskólinn á Bifröst hefur eins og margar aðrar stofnanir og fyrirtæki í þessu landi mátt taka rösklega á síðustu árin. Opinber framlög til okkar hafa minnkað og velta hefur þurft við hverjum steini í rekstri skólans. Ég held samt að það megi segja að við stöndum nú á tímamótum. Endurskipulagningu, undir stjórn Bryndísar Hlöðversdóttur rektors, sem hófst í ársbyrjun 2011 eftir að horfið var frá áformum um sameiningu við Háskólann í Reykjavík er að mestu lokið. Það hefur orðið viðsnúningur í rekstri skólans og samningar um fyrirkomulag rekstrar íbúðarhúsnæðis eru á lokastigi. Um leið höfum við gert veigamiklar og afdrifaríkar breytingar á einstökum námslínum, rannsóknastarfi og almennt akademísku skipulagi skólans.

Mig langar að nefna það helsta:

Rannsóknamiðstöð háskólans á Bifröst og Rannsóknasetur verslunarinnar hafa verið að eflast gríðarlega á síðustu árum. Rannsóknasetur verslunarinnar stýrir og tekur þátt í fjölda rannsóknaverkefna hérlendis og í samstarfi við erlenda aðila. Innan Rannsóknamiðstöðvarinnar hefur höfuðáhersla verið lögð á að fjölga og efla styrkumsóknir í íslenska og erlenda sjóði til að auka rannsóknir við skólann.

Þetta starf skiptir öllu máli fyrir framtíð skólans sem háskóla- og rannsóknastofnunar. Hvað svo sem verður ákveðið um framtíð háskólastofnana á Íslandi, þá er ljóst að tekjuöflun mun velta á árangri við að afla styrkja úr samkeppnissjóðum. Í nágrannalöndum okkar er slík tekjuöflun víða 70-80 prósent af heildarfjármagni til einstakra rannsóknastofnana. Við þurfum að búa okkur undir að geta keppt við aðra í slíku samkeppnisumhverfi og það munum við geta ef við setjum þann kraft í rannsóknir og styrkumsóknir sem þarf.

Hvað kennslu varðar höfum við fækkað námslínum og straumlínulagað þær. Hluti grunnnáms er nú sá samai fyrri alla nemendur óháð námslínum. Allir nemendur skólans taka ákveðinn grunnkjarna námskeiða sem við teljum að sé undirstaða góðrar háskólamenntunar á sviði félagsvísinda og sé jafn mikilvægt vegarnesti fyrir alla hvort sem þeir stunda nám í viðskiptalögfræði, viðkiptafrði, sthírnmálafræði, heimspeki eða hagfræði.

Við höfum lagt niður hefðbundna deildaskiptingu þannig að allir akademískir starfsmenn skólans taka nú sameiginlega þátt í stefnumótun og umræðum um akademískt starf skólans.

Nú í vor gerði stjórn skólans einnig tímabærar og mikilvægar breytingar á skipulagsskrá skólans sem breyta engu um eðli hans, en eiga að tryggja að afdrifaríkar ákvarðanir um rekstur hans, fjárfestingar, framkvæmdir og framtíðarstarf séu ekki teknar án nauðsynlegrar umræðu og athugunar. Þessar breytingar fela í sér að til viðbótar við stjórn skipa bakhjarlar skólans, það er að segja þeir aðilar sem tilnefna fulltrúa í stjórn, svokallað fulltrúaráð skólans. Í því sitja fimmtán einstaklingar hverju sinni og er það nú, en ekki stjórn, æðsta vald í málefnum skólans. Breytingar urðu einnig á því hverjir skipa fulltrúa í stjórn og fulltrúaráð. Áður skipuðu Samtök atvinnulífsins þrjá fulltrúa, hollvinir einn og Háskólaráð Bifrastar einn. Nú skipa Samtök atvinnulífsins einn, Samband íslenskra samvinnufélaga einn, Borgarbyggð einn, Hollvinir einn og Háskólaráð Bifrastar einn.

Það fyrirkomulag sem nú hefur enn verið styrkt með stofnun fulltrúaráðs er í samræmi við þann rekstur sjálfstæðra háskóla sem best hefur gefist um allan heim áratugum og jafnvel öldum saman. Háskólaráð skólans er æðsta vald í innri málum háskólasamfélagsins og því getur enginn aðili utan skólans, ekki heldur stjórn hans eða fulltrúaráð, hlutast til um faglegar ákvarðanir og akademíska stefnumótun. Stjórnin og fulltrúaráðið ber hinsvegar ábyrgð á því að rekstur skólans og fjármál séu með eðlilegum hætti og veitir stjórnendum skólans nauðsynlegan stuðning við að þróa skólann og efla.

Að efla Bifröst til framtíðar er það markmið sem við öll sem hér erum getum án nokkurs vafa sameinast um. Við eigum ekki heldur að hika við að benda á að það rekstrafyrirkomulag sem við höfum hér, sé eðlilegt eftirlit og ábyrgð tryggt, er það fyrirkomulag sem hentar best háskólastofnunum. Sjálfseignarstofnanir eru samkvæmt skilgreiningu ekki reknar í ágóðaskyni. Oftast eru þær, eins og Bifröst, reknar í þeim tilgangi að skila samfélaginu varanlegum verðmætum. En sé rétt á málum haldið er rekstur þeirra ábyrgari og gagnsærri heldur en ríkisrekstur getur nokkurntímann orðið.

Ég vil að lokum endurtaka hamingjuóskir mínar til ykkar sem eruð að ljúka námi ykkar hér í dag. En munið þó þetta: Enginn yfirgefur Bifröst. Þó að næsti kafli í lífi ykkar taki við, og vonandi ekki síður spennandi heldur en sá sem nú er að baki, mun Bifröst fylgja ykkur áfram. Og Bifröst þarf á ykkur að halda, hér eftir sem hingað til.

Að svo mæltu vona ég þið njótið dagsins og veðurblíðunnar.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *