Það er ekkert skrítið að fólk undrist að Guðlaugur Þór Þórðarson skuli vera svona viss um að hann geti setið áfram eftir að ljóst er orðið hvílíka styrki hann þáði í prófkjörsbaráttu sinni árið 2006. Ekki síst í ljósi þess að öðrum þingmanni, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, sem þó hafði þegið minni styrki en Guðlaugur, reyndist ekki mögulegt að halda þingsæti sínu eftir að ljóst varð um styrki hennar.

En það er kannski lítið vit í að einblína á það hvað Guðlaugi Þór finnist sjálfum um styrkina og eigin stöðu eftir að upplýst hefur verið um hvaðan hluti þeirra kom. Auðvitað mun hann á meðan hann getur halda því fram að árið 2006 hafi verið aðrir tímar en árið 2010, hann myndi ekki þiggja slíka styrki í dag, styrktaraðilarnir hafi þá verið virtir máttarstólpar samfélagsins og svo framvegis og svo framvegis.

Stjórnmálamenn róta sér ekki á meðan þeim er vært. Steinunn Valdís sagði ekki af sér vegna þess að eftir langa umhugsun kæmist hún að því að óverjandi hefði verið af henni að þiggja styrkina og þessvegna bæri henni siðferðileg skylda til að segja af sér. Hún gerði það vegna þess að hún var knúin til þess af fólki í hennar eigin flokki, samherjum og vinum sem lögðu að henni þannig að henni varð ljóst að henni væri nauðugur einn kostur. Kannski á hún afturkvæmt í pólitík, kannski ekki, en það er að minnsta kosti deginum ljósara að án afsagnar nú hefði hún ekki getað gert sér vonir um neina framtíð í pólitík.

Guðlaugur Þór sér málin öðruvísi. Hann telur sér vært og býst sjálfsagt við því að með því að sitja áfram geti hann smám saman sigrast á gagnrýni og endurheimt fyrri stöðu. Og það merkilega er að enn bendir ekkert til annars en að þetta gangi upp hjá honum. Hversvegna? Vegna þess að hans eigin flokkur styður hann, samherjar styðja hann og vinirnir hvísla því ábyggilega að honum að hann eigi bara að standa í lappirnar.

Það er ekkert skrítið að hann dragi þessa ályktun ef skilaboðin sem hann fær frá samherjum sínum eru á þessa lund. Það skrítna er að hann skuli fá þessi skilaboð: Það er stórfurðulegt að Sjálfstæðisflokkurinn og samherjar Guðlaugs í honum skuli ekki telja það mikilvægt, jafnvel lífsnauðsynlegt að hann segi af sér þingmennsku. Þeim finnist meiri trúverðugleiki og meiri siðferðisstyrkur fólgin í því að hann sitji áfram, en að hann geri það sem flestum öðrum finnst sjálfsagt og augljóst, að hann segi af sér strax og án skilyrða.

Það er svo sem ekki hægt að saka Guðlaug Þór um siðleysi ef hann situr áfram. Hann situr áfram ef hann getur það. Það eru samflokksmenn hans og samherjar sem sýna í verki siðblindu sína með því að láta það viðgangast að hann sitji áfram; með því að setja ekki á hann þá pressu sem hann þarf á að halda til að gera það eina sem er rétt í stöðunni: Að segja af sér.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *