I
Orðræða stjórnmálanna er að mestu leyti hætt að vera siðferðileg. Hún sýnir stundum á sér hugmyndafræðilegar hliðar enn þann dag í dag, en þó er hún að mestu tæknileg.

Það má taka dæmi til að skýra þetta: Þegar deilt er um einkavæðingu, er deilan vissulega að hluta hugmyndafræðileg: Sumir telja einkavæðingu í eðli sínu æskilega, meðan aðrir telja að einkarekstur sé ekki í eðli sínu betri eða rökréttari tegund rekstrar heldur en opinber rekstur. En þrátt fyrir að þessi hugmyndafræðilegi munur sé til staðar snúast deilur um einstök einkavæðingarmál þó fyrst og fremst um þær afleiðingar sem slíkt geti haft í einstökum tilfellum fyrir rekstur fyrirtækis. Og spurningin um þær er ekkert annað en tæknilegt atriði.

Í kalda stríðinu var stjórnmálaorðræðan mjög hugmyndafræðileg, en hún var líka, og kannski einkum og sér í lagi, siðferðileg. Þetta merkir að andstæðingar í pólitík sökuðu hver annan ekki aðeins um að hafa ranga hugmynd um afleiðingar, eða rangar skoðanir eða byggja málflutning sinn á röngum forsendum, heldur sökuðu þeir hver annan iðulega um að hafa annarleg markmið í huga, ganga erinda einhverra, stundum auðmanna, stundum erlendra þjóða, stundum hvorttveggja. Menn sögðu hver annan glæpamenn, samviskulausa þorpara, landsölumenn, dólga og svo má áfram telja.

Það má vel halda því fram að það sé að vissu leyti kostur að stjórnmálin eru hætt að vera siðferðileg í þessum skilningi og fólk sakar hvert annað ekki lengur um glæpi gegn mannkyni í hvert sinn sem tekið er til máls.1 Það er kostur vegna þess að það er líklegra að hægt sé að tala af viti um hlutina þegar menn eru búnir að þurrka af sér siðbótarsvipinn. En það er líka galli að siðferðilega sýnin skuli að mestu horfin. Það er galli vegna þess að með því er röksemdum af ákveðnu tagi úthýst úr umræðunni. Og það sem verra er, ákveðin hugtök sem eru í eðli sínu siðferðileg eða gildishlaðin, eru notuð án nokkurrar siðferðilegrar skírskotunar.

Ágætt dæmi um þetta er hugtakið landsala. Fyrir nokkrum áratugum var augljóst að landsala væri ákveðin tegund af landráðum. Landsölumenn voru þeir kallaðir sem vildu afhenda Ísland bandaríska hernum til yfirráða og fullrar notkunar. En landsala hefur ekki þessa merkingu nú. Að selja landið er beinlínis verkefni sérstakra stofnana sem gylla það fyrir ferðamönnum og fjárfestum erlendis að koma hingað og ýmist eyða peningunum sínum eða festa þá í einhverju hér.2 Nú segja menn stoltir að þeir starfi við að selja landið að minnsta kosti ef þeir eru í flug- og ferðabransanum.

Hér hefur orðið breyting sem varðar fleira en orðanotkun. Það felst viðhorfsbreyting í því að geta notað hugtök á borð við landsala með vissri íróníu. Það felst líka viss samstaða í því að geta talað svona, samstaða þeirra sem eru sammála um hvað þurfi að gera og hengja sig ekki í hvað hlutirnir séu kallaðir. En samstaðan getur líka breitt yfir og hulið raunverulegar spurningar. Með því að tala tæknilega, spyrja tæknilegra spurninga og svara þeim, með því að láta siðferðilegar hliðar liggja á milli hluta – þegar landsala, einkavæðing, hergróði kannski aronska og fleira eru ekki lengur gildishlaðin hugtök heldur bara tæknileg – með þessu breiðum við yfir ákveðinn flokk spurninga frekar en að spyrja þeirra. En þá verður allt stjórnmálatal hversdagslegt og litlaust. Þá má ekki lengur segja það sem þó er kannski kjarni málsins, að sumar pólitískar ákvarðanir séu einfaldlega siðlausar eða jafnvel glæpsamlegar – því þá er maður kominn út úr hinu tæknilega og yfir á eitthvert óráðið og kannski pínulítið óþægilegt svið.

II
Tæknileg orðræða gerir ráð fyrir samstöðu um ákveðin grundvallaratriði – samstöðu til dæmis um það hvað sé í eðli sínu rétt eða rangt og hvað sé ekki rétt eða rangt í eðli sínu heldur í mesta lagi rétt eða rangt með tilliti til vissra afleiðinga og aðstæðna. Við skulum segja að deilt sé með þessum hætti um virkjanaframkvæmdir. Þá gera menn ekki ráð fyrir því að framkvæmdirnar sem slíkar hafi siðferðilegt gildi. Þær hafa siðferðilegt gildi að svo miklu leyti sem þær hafa siðferðilegar afleiðingar. Það má halda áfram og spyrja: Hefur eyðilegging náttúrunnar siðferðilegt gildi? Og aftur mætti svara, nei hún hefur ekki siðferðilegt gildi nema að svo miklu leyti sem hún er einstaklingum í hag eða veldur þeim tjóni. Þegar hin tæknilega orðræða er ríkjandi er tilhneigingin sú að nota ramma hins tæknilega sem aðgangssíu að pólitískri umræðu: Ekkert fær að komast að nema það sé sett fram í mynd hins tæknilega eða á forsendum hins tæknilega.3

Ein birtingarmynd þessa er þegar spurningin um hvort virkja eigi eða ekki er látin snúast einvörðungu um þá spurningu hvort framkvæmdin sé nægilega arðvænleg. Þá er einfaldlega sagt sem svo: Arðsemishugtakið er nægilega vítt til þess að það geti rúmað allt sem skiptir máli við að taka ákvörðunina, og það er eðlilegt viðmið vegna þess að arðsemi er mælanlegur og vel skiljanlegur þáttur.

Það er merkileg, en algeng hugsunarvilla fólgin í þessari nálgun: Gert er ráð fyrir því að spurning um arðsemi sé spurning sem hægt er svara með einhlítum hætti og í eitt skipti fyrir öll. Nú virðist mér augljóst að það sé aldrei hægt að komast að neinni skýrri niðurstöðu um hvort stórframkvæmd á borð við Kárahnjúkavirkjun eða Álverið í Reyðarfirði sé arðvænleg eða ekki. Það hlýtur að velta á því hvaða forsendur menn gefa sér og augljóslega eru margvíslegar ólíkar forsendur mögulegar. En margir virðast halda að vegna þess að spurningin er tæknileg og hefur með hagfræði að gera að þá hljóti að vera hægt að komast að einni skýrri niðurstöðu í málinu.

Þannig skapar hin tæknilega orðræða blekkingu lausnarinnar: Stjórnmál snúast um aðgerðir og tæknileg orðræða er lausnamiðuð. Þessvegna er ályktað að óvissan hljóti að vera minni ef við höldum okkur alfarið inni á sviði hins tæknilega. En þessi greining er einfaldlega röng. Við ímyndum okkur að vegna þess að ákveðnar niðurstöður um arðsemi og langtímaáhrif á efnhag eða íbúaþróun er hægt að orða á ákaflega skýran og skipulegan hátt, þá séu þessar niðurstöðu líka miklu betri og sannari heldur en niðurstöður sem erfitt er að orða á jafn skýran og afgerandi hátt. Þetta er rangt. Skýrleikinn breiðir yfir og hylur djúpa óvissu. Það sem meira er: Tæknilegu rökin ganga út frá ákveðnu verðmætamati og öll tæknileg rök snúast þessvegna um tvennt: Að verja þetta verðmætamat (til dæmis með því að skapa þá hugmynd að ekkert annað verðmætamat sé mögulegt) og koma í veg fyrir að eitthvað læðist inn í umræðuna sem getur ógnað því.

III
Í Draumalandinu bendir Andri Snær okkur á að með því að kjósa ákveðnar lausnir í efnahagsmálum séum við um leið að binda okkur við þessar lausnir um ókomna tíð. En þetta merkir líka að afleiðingar hinna tæknilegu lausna ná langt út fyrir hið tæknilega. Með því að byggðarlag kjósi að láta byggja risastórt álver er byggðarlagið að skapa nýjan veruleika sem mun einkenna líf næstu kynslóða. Það verður ekki mögulegt að búa á Austurlandi og láta sér álið í léttu rúmi liggja. Hagur álverksmiðjunnar mun ráða því hvernig afkoma, hagur og menning íbúanna þróast. En þegar fjallað er um kosti og galla álversbyggingarinnar er yfirleitt ekki spurt um þetta. Spurningarnar varða þær framtíðarspár sem hægt er að gera um álverð og raforkuframleiðslu og tengda þætti. Þó að hitt, mannlíf, lífsstíll, menning, möguleikar sé ekki beint aukaatriði, þá er augljóst að það er undir hinu komið. Hugsunin er einfaldlega sú að ef þessi tegund rekstrar skili hagnaði, þá verði allt hitt sjálfkrafa eins og best verður á kosið.

Hér er umræðunni enn haldið á sviði hins tæknilega þar sem hún hefur tilhneigingu til að breiða yfir eða hylja spurningar af öðru tagi sem varða umhverfi framtíðarinnar í heild sinni. Hverskonar umhverfi, menningarlegt og náttúrlegt og hverskonar sjálfstæði er æskilegt? Hversu mikil fórn er færð með því að gera iðnframleiðslu af ákveðnu tagi að grundvelli mannlífsins á þessum slóðum? Hvað er unnið með því? Hvað kemur annað til greina? Það er eins ekkert mark sé tekið á þessum spurningum – kannski vegna þess að erfitt er að svara þeim á einn veg frekar en annan. Kannski vegna þess að þær virðast hafa siðferðilegan undirtón. Einhver kynni að vilja segja: Bíddu við, hvernig getum við kosið lífstíl fyrir alla? Er ekki einmitt grundvallaratriði að fólk geti kosið sér lífstíl og lífsgildi? Og með þeim orðum er spurningum um framtíðar lífstíl þeirra sem búa á Austurlandi og Austfjörðum ýtt út af borðinu, um hann hafa menn ekkert sérstakt að segja, vegna þess að ríkjandi hugmyndafræði lítur á hann sem einkamál. En staðreyndin er sú að hann getur ekki verið einkamál. Þessar ákvarðanir hafa róttæk og varanleg áhrif á þá tegund umhverfis sem möguleg er á þessu svæði í framtíðinni. Hún hefur því líka varanleg áhrif á einkalíf þeirra sem þar munu kjósa að búa, eða neyðast til að búa á um lengri eða skemmri tíma.

Hvað merkir það að framtíð íbúanna á þessu svæði, hvert svo sem þjóðerni þeirra og sjálfsmynd kann að verða í framtíðinni, sé framtíð verksmiðjunnar? Er það gott eða vont? Þetta er einfaldlega búið að ákveða. Framtíð Austurlands og Austfjarða er framtíð iðnaðar, raforkuframleiðslu og álframleiðslu. Það merkir að hún er ekki framtíð lífrænnar ræktunar, menningartengdrar ferðaþjónustu, skógræktar eða menningarstarfs nema að svo miklu leyti aðalatvinnuvegurinn, iðnaðurinn leyfi slíkt og geri slíkt mögulegt. Því mun stóriðnaður verða einkenni Austurlands og Austfjarða framtíðarinnar.

Spurningin um það hverskonar lífi menn vilja lifa og hverskonar veruleika menn vilja skapa sér er menningarleg og siðferðileg spurning. Að hvaða leyti er hægt að taka sameiginlegar ákvarðanir um slíkt og að hvaða leyti eru afleiðingar sem varða það líf sem menn vilja lifa lögmætt umræðuefni í stjórnmálum?

Þetta er nátengt eftirfarandi spurningu: Er álver á Austurlandi líklegt til að skapa áhugavert, frjótt og fagurt umhverfi á Austurlandi þegar til lengri tíma er litið? Eða er líklegra að slíkur rekstur leiði til einhæfs verksmiðjuumhverfis sem muni þegar fram líða stundir koma því til leiðar að svæðið verði einangrað og óvinsælt. Að Austurland álversins verði líkast Olíuborpalli í Norðursjó, eða verksmiðju í Alaska eða Síberíu: Staður sem fólk lætur sig hafa að vera á í dálítinn tíma á meðan það er að þéna töluvert meira en það gæti annarsstaðar og yfirgefur svo? Hversvegna þurfa ekki þeir sem taka ákvarðanir og standa fyrir framkvæmdum að svara þessum spurningum? Því þetta eru mikilvægustu spurningarnar, miklu fremur en hinar tæknilegu spurningar og sýndarsvörin sem við þeim eru gefin.

IV
Þannig er tæknileg umræða yfirbreiðsla af ákveðinni tegund. Hún er tilraun til að gera umræðu skýrari og skarpari og það tekst henni að vissu marki, en svo gengur hún of langt. Hún kemur í veg fyrir að við skoðum og rannsökum möguleika sem við eigum að skoða og rannsaka. Hún lætur okkur halda að þeir möguleikar sem eiga sér ekki augljós verkferli og sem ekki er hægt með góðu móti að stilla upp innan hinnar tæknilegu orðræðu séu ekki alvörumöguleikar og það sé tímaeyðsla að velta vöngum yfir þeim, eða að það sé eitthvað sem helst henti börnum og heimspekingum.

Staðreyndin er sú að tæknihyggja eins og þessi sem ég hef lýst, heldur sig á yfirborðinu við gildi sem um er samstaða, en í raun breiðir hún iðulega yfir róttækt endurmat gilda. Yfirbragð hennar er yfirbragð hins sjálfsagða og lausnamiðaða en í raun skapar hún iðulega veruleika sem ekki verður komist undan. Hin hefðbundna umræða um orkumál á Íslandi er tæknileg umræða um kosti og galla virkjanakosta þar sem gengið er út frá samstöðu um eðlilega nýtingu náttúruauðlinda. En hin tæknilega umræða sem af þessari samstöðu leiðir læsir okkur inni í hugsunarramma sem fyrr en varir hefur sett stefnuna á framkvæmdir sem gerbreyta menningarlegri og félagslegri framtíð landsins og um það er ekki samstaða.

Eina undankomuleiðin er að hafna hinni tæknilegu orðræðu, sjá í gegnum „lausnirnar“ og velta fyrir sér hvernig hægt sé að ræða og fjalla um þessa hluti á annan hátt. Það er aðalstyrkur Draumalandsins að það er rit sem gerir heiðarlega tilraun til að leggja drög að því að brjótast út úr einhæfni og undnan villuljósi hins tæknilega. Hún er þessvegna ágætt „manífestó“ nýrrar siðfræði sem gagnrýnir og sér í gegnum hið tæknilega. Þessa siðfræði væri líklega best að kalla bara siðfræði andstöðunnar.

V
Hvað er framtíðarsýn? Hvernig geta stjórnvöld sem neita að horfast í augu við nema lítinn hluta af afleiðingum gerða sinna verið fær um að hafa framtíðarsýn? Með því að neita að horfast í augu við afleiðingar, eða neita að viðurkenna nema lítinn hluta af afleiðingum gerða sinna bregðast leiðtogar. Við stöndum frammi fyrir þeirri sérkennilegu þversögn að annarsvegar lítum við svo á að val á lífsstíl og lífsgildum sé persónuleg ákvörðun sem hið opinbera á ekki að reyna að að stýra, að frelsi sé einmitt fólgið í því að geta valið lífstíl án afskipta.4 En á hinn bóginn hafa þær tæknilegu ákvarðanir sem teknar eru gríðarleg, afgerandi og óafturkræf áhrif á það hverskonar lífstíl fólk hefur tækifæri til að velja – hverskonar lífi það getur lifað.

Hugtakið þekkingarsamfélag er orðið ákveðin klisja og sama gildir um hugtakið fjölmenningarsamfélag. En á bakvið klisjuna leynist veruleiki sem er að miklu leyti ókannaður. Hverskonar þekking einkennir þekkingarsamfélagið? Er það tæknileg þekking – verkfærisleg sem afneitar og reynir að skýla sér fyrir hugsun um siðferði, menningu og svo framvegis? Eða er það þekking sem leitast við að dýpka og auka skilning okkar á veruleika og markmiðum umfram hinar einföldu tæknilegu lausnir?

Hversvegna hættum við ekki að tala um þekkingarsamfélag og fjölmenningarsamfélag og horfumst frekar í augu við þann veruleika að þeir sem stjórna landinu einblína á tæknisamfélagið?

Tæknisamfélagið er samfélag hinna einföldu tæknilegu lausna. Það gerir ráð fyrir því að náttúra, mannlíf og menning séu afleiðing hins tæknilega, frekar en veruleiki sem á að hemja og takmarka hið tæknilega. Hugsun tæknisamfélagsins gerir ráð fyrir því að enginn veruleiki sé hugsanlegur nema sá sem á einhvern hátt er leiddur af tæknilegum lausnum.
Ég byrjaði á að tala um hvernig hinu siðferðilega hefur smám saman verið úthýst úr orðræðu stjórnmálanna. En það merkilega er að stundum er eins og hið siðferðilega eigi sér endurkomu bakdyramegin í formi hins tæknilega. Þetta má sjá í nýlegum blaðaskrifum: Talsmaður Landsvirkjunar og Orkumálastjóri hafa gengið svo langt að halda því fram að hinar tæknilegu lausnir iðnvæðingar og virkjana séu ekki aðeins möguleikar sem hagstætt geti reynst að fara út í, heldur séu þessar aðgerðir siðferðileg skylda landsmanna.5

En er hægt að hugsa sér grófara dæmi um tæknihyggju: Að eyðilegging náttúrunnar sé siðferðileg skylda vegna tiltekinna afleiðinga sem hún er talin munu hafa? Þar með eru þá náttúruverndarsinnar orðnir siðleysingjar, barbarar sem berjast gegn því að hin siðmenntuðu, göfugu og alþjóðlega þenkjandi stjórnvöld geri skyldu sína.

Tilvísanir:
1. Þó er ekki þar með sagt að stjórnmálamenn beiti ekki siðferðisrökum sem mælsku í vissum tilfellum, einkum þegar um er að ræða andstöðu við öfl í samfélaginu sem reynt er að svipta pólitískum eða viðskiptalegum áhrifum. Þannig var málflutningur Davíðs Oddssonar gegn Baugi alltaf siðferðilegur, sömuleiðis var áróður gegn Jóni Ólafssyni athafnamanni iðulega siðferðilegs eðlis. En í þessum tilfellum eru siðferðisrökin persónuleg í þeim skilningi að þau varða persónulegt siðferði þess sem deilt er á frekar en þeirra hagsmuna sem hann er fulltrúi fyrir. Þetta hefur því ekki áhrif á það sem ég er að segja hér.

2. Það er reyndar athyglisvert að jafnvel þó að landið sé auglýst sem paradís „monstertrukka“ eða sem land hinna stóru virkjana – opið hverjum sem hefur fjármagn – og ríkisstjórnin sé reiðubúin til að virkja hvert einasta fallvatn í landinu þá myndi enginn fordæma það með því að kalla það landsölu. Það dugir að segja að hér sé um að ræða „óheppilega markaðssetningu“ sem þurfi að leiðrétta.

3. Því má bæta hér við að innan umhverfissiðfræði er deilt um hvort siðferðilegt mat af þessu tagi hljóti að vera mannhverft eða hvort hægt sé að hugsa sér að náttúran hafi gildi í sjálfri sér sem er óháð beinum hagsmunum manna. Ég fer hinsvegar ekki út í þá umræðu hér, en gef mér að í pólitískri umræðu séu mannhverf sjónarmið í raun ríkjandi.

4. Það er rétt að hafa í huga að hér er ég einfaldlega að vísa til hefðbundinna viðhorfa frjálslyndisstefnunnar sem hefur einkennt vestrænar lýðræðishugmyndir síðustu 200 árin. Sjá til dæmis John Rawls (1971) A Theory of Justice. Oxford: Oxford University Press.

5. Þorsteinn Hilmarsson, Að átta sig á samhenginu. Morgunblaðið 6. maí 2006. Þorsteinn vísar í tilvitnun Andra Snæs í orð Þorkels Helgasonar orkumálstjóra, en hann er höfundur þeirrar hugmyndar að Íslendingum beri siðferðileg skylda til að byggja vatnsaflsvirkjanir; Jakob Björnsson fyrrverandi orkumálastjóri hefur einnig skrifað greinar í Morgunblaðið þar sem hann tekur í sama streng.

Flutt á Bifröst, 13. maí 2006

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *