Greinar um kalda stríðið hér í Lesbókinni hafa leitt til kostulegra skoðanaskipta. Guðni Elísson brást við fullyrðingum Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra, en Björn sagði að hefðir kalda stríðsins ríktu enn í stjórnmálaumræðu á Íslandi, og birti dæmi um gagnrýni á sig og samherja sína til sannindamerkis um það. Guðni benti réttilega á að dæmi Björns sönnuðu allt annað. Birni virðast þykja þær skoðanir sem víkja frá hans eigin skrýtnar eða á einhvern hátt óviðurkvæmilegar og grein hans og dæmi vekja óhjákvæmilega grunsemdir um að hann eigi erfitt með að þola eðlilega og lýðræðislega gagnrýni.
En grein Björns, gagnrýni Guðna og svar Björns við henni, ásamt öðrum greinum sem birtust í greinaflokki Lesbókarinnar um kalda stríðið (þar á meðal einni eftir sjálfan mig) skilja vissulega eftir áleitna spurningu um íslenska pólitík: Hefur hún breyst frá því á kalda stríðs árunum og þá hvernig? Í greinum sínum gerir Björn mikið úr stílbrögðum þeirra sem hafa látið í ljós gagnrýni á aðgerðir hans sem dómsmálaráðherra, á Bandaríkin, forystumenn stjórnarflokkanna, Ríkislögreglustjóra og Hannes Hólmstein Gissurarson. Stílbrögðin telur hann bera vott um yfirlæti: Sama yfirlæti og Björn telur að einkennt hafi málflutning vinstrimanna á kalda stríðs árunum.
Nú er auðvitað sárt þegar gefið er í skyn að maður sé laumufasisti, eins og Björn hefur orðið fyrir, ekki síður en að vera líkt við Adolf Hitler, Joseph McCarthy og Jósep Stalín eins og rithöfundurinn Andri Snær Magnason mátti þola í Lesbókinni, 29. júlí síðastliðinn. En hér er um stílbrögð að ræða – og yfirleitt fremur slök stílbrögð. Í kalda stríðinu beittu vinstrimenn vissulega afar fjölskrúðugum og hvössum orðaforða og stílbrögðum, enda voru íslenskir menntamenn af einhverjum ástæðum flestir þeim megin eins og Björn víkur að í greinum sínum. En það er algjör misskilningur sem Björn virðist haldinn að stílbrögðin sem slík hafi markað umræðuhefðina á kalda stríðs árunum. Það sem gerði hana ógeðfellda og rangláta var hin pólitíska stimplun sem henni fylgdi: Á kalda stríðs árunum voru menn vægðarlaust dregnir í pólitíska dilka til vinstri eða hægri ef þeir voguðu sér að taka þátt í opinberum umræðum og þar með voru örlög þeirra í mannlegu samfélagi (að minnsta kosti íslensku) ráðin.
Mörgum stjórnmálamönnum hefur reynst erfitt að átta sig á því að gagnrýni á stjórnvaldsaðgerðir sem komið hefur fram á síðustu árum er siðferðileg frekar en pólitísk. Þetta þýðir að þó gagnrýnendurnir geti verið eftir atvikum hægrimenn eða vinstrimenn þá ræðst gagnrýni þeirra á, svo dæmi séu nefnd, gagnagrunn á heilbrigðissviði, fjölmiðlalög, virkjanaframkvæmdir, áætlanir um byggingu álvera eða stuðning við stríðið í Írak, ekki af hægri- eða vinstriviðhorfum heldur af siðferðilegri andstöðu við áformin, ákvarðanirnar eða starfshættina. Það er furðu algengt að valdsmenn eins og Björn Bjarnason geri lítið úr slíkri gagnrýni og reyni að vísa henni frá með því að mistúlka hana og stimpla gagnrýnendurna ómerkinga.
Mér virðist túlkun Björns á dæmunum sem hann tekur einmitt bera vott um að hann hafi ekki náð þessu: Í stað þess að taka mark á gagnrýni eins og þeirri sem nefnd er hér, sem er eðlileg og mikilvæg þótt hörð sé, vegna þess að ástæður hennar eru fyrst og fremst siðferðilegar, reynir hann að réttlæta þvermóðsku sína gagnvart henni með því að heimfæra hana upp á átök kalda stríðs áranna. Ef eitthvað viðheldur hinu sjúklega andrúmslofti kalda stríðsins, þá eru það einmitt slíkar æfingar.

Birtist í Lesbók Morgunblaðsins 12. ágúst 2006

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *