Þessa dagana er mikill spenningur fyrir breytingum á stjórnarskrá landsins og jafnvel stjórnkerfinu í heild sinni. Sú orka sem hefur farið í mótmæli síðustu daga virðist vera á leiðinni inn á braut nýrra framboða sem ætla sér að setja slíkar breytingar á oddinn og hugsanlega beita sér eingöngu fyrir stjórnkerfisbreytingum og jafnvel snúa táknrænt við blaðinu með því að tala um nýtt lýðveldi eða eitthvað slíkt.

Þó að þetta sé örugglega allt brýnt, held ég að annað sé bæði brýnna og líklegra til að skila árangri strax. Staðreyndin er sú að stærsta vandamálið í stjórnkerfinu er ekki kerfið sem slíkt, heldur starfshættirnir innan þess. Ný stjórn verður að sýna frá fyrsta degi að hún ætli sér að breyta þeim starfsvenjum og þeirri stjórnsýslumenningu sem orðið hefur til í næstum 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins.

Þetta er best gert með því að stjórnin setji strax á fyrsta fulla starfsdegi sínum siðareglur sem byrjað verður að vinna eftir þegar í stað. Þessar reglur þurfa hvorki að vera ítarlegar né endanlegar, en þær verða að vera skýrar. Þær verða að segja með afdráttarlausum hætti hvernig ráðherrum ber að haga aðgerðum og embættisfærslum í mikilvægum málum og leggja drög að því að ráðherrar axli í raun ábyrgð á athöfnum sínum. Þær verða einnig að kveða skýrt á um að ráðherrar rjúfi hagsmunatengsl sín við viðskiptalífið og eignarhald þeirra í fyrirtækjum sé annaðhvort takmarkað verulega eða komið í veg fyrir það. Þá verða reglurnar að setja ný skilyrði um starfshætti innan ráðuneyta, um samskipti ríkisstjórnar og þings, samráð um frumvörp og lagasetningu og fleira.

Ríkisstjórn sem er ákveðin í því að gera strax róttækar breytingar á stjórnmálamenningu sem mikil samstaða virðist vera um meðal almennings að séu nauðsynlegar þarf ekki að setja þær í margra mánaða nefnd áður en hafist er handa. Hún getur strax sett niður meginlínurnar í nýjum siðareglum og einsett sér að láta þær strax hafa áhrif á hvernig kerfið starfar. Nánari útfærsla þeirra getur komið síðar og sömuleiðis umræðan um það að hve miklu leyti slíkar reglur þarf að festa í lögum og að hve miklu leyti dugi að þær séu virkar siðareglur sem farið er eftir.

Það er nefnilega hægt að gera allskonar kerfisbreytingar án þess að það hafi nauðsynleg áhrif á stjórnarhættina. Skýr og afdráttarlaus stefna, styrkt með góðum og helst einföldum siðareglum getur hinsvegar komið af stað byltingarkenndum breytingum strax, þó að kerfið sjálft mótist og breytist á lengri tíma. Slík siðvæðing stjórnkerfisins gæti orðið lykillinn að því að ný stjórn móti stefnu til framtíðar, jafnvel þó að hún sé mynduð með hraði. Það má líta vestur um haf eftir fyrirmynd: Eitt af fyrstu verkum Baracks Obama eftir að hann tók við embætti í síðustu viku var að halda fund með starfsliði Hvíta hússins og kynna þeim nýjar siðareglur. Þær eru skýrar. Framsóknarmenn myndu líklega segja að þar hafi forsetinn nýi tekið málin almennilegum vettlingatökum.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *