Í nýjum hugmyndum Vísinda- og tækniráðs um framtíðarskipulag háskóla- og rannsóknastofnana er staðnæmst við tvær tillögur um íslensku háskólana sjö. Ráðið leggur til að kerfið verði einfaldað með þeim hætti að annaðhvort verði háskólunum fækkað í fjóra eða rekstrarfyrirkomulag þeirra verði samræmt með því að þeir verði allir sjálfseignarstofnanir. Báðar tillögurnar hafa margt til síns ágætis sem slíkar. Hinsvegar má segja að þær dylji hin raunverulegu átök sem nú fara fram um íslensku háskólana. Grundvallarspurningin er nefnilega ekki sú hversu margar eða fáar háskólastofnanir eigi að reka í landinu, heldur með hvaða hætti hér verði skapað eitt háskólasamfélag.

Einn háskóli?

Við getum hugsað okkur tvær leiðir. Í fyrsta lagi má hugsa sér að hér starfi í rauninni einn háskóli með starfsstöðvar víða um land. Þessi háskóli gæti heitað Háskóli Íslands en hann gæti líka alveg heitað eitthvað annað. Nafnið skiptir engu máli. Dæmi um háskóla af þessu tagi, stórar stofnanir sem halda mörgum kampusum, rannsóknastofnunum og rannsóknasetrum gangandi eru til víða um heim og sumir slíkir háskólar eru meðal öflugustu háskóla heims, til dæmis Kaliforníuháskóli. Það má segja að Háskóli Íslands hafi stigið skref í þessa átt með stofnun rannsókna- og fræðasetra um allt land sem smátt og smátt eru að skila sér í neti stofnana og miðstöðva sem auka tengsl skólans við landsbyggðina verulega og dreifa háskólastarfi til hagsbóta fyrir einstök byggðarlög. Skóli af þessu tagi yrði óhjákvæmilega miðstýrt fyrirbæri með svipuðum hætti og Háskóli Íslands er í dag. Ákvarðanir um kennslu og rannsóknir væru teknar á einum stað og fámennur hópur stjórnenda hefði mikil völd til að stýra allri háskólastarfsemi í landinu. Þetta er í sumra augum besta tryggingin fyrir öflugu gæðastarfi þar sem það þýddi að ákvarðanir væru teknar með tilliti til stofnunarinnar allrar frekar en að einstakar háskólastofnanir væru að keppa hver við aðra eða bítast um fjármagn.

Sjálfstæðar stofnanir

Í öðru lagi má hugsa sér að hér starfi margar háskólastofnanir án sameiginlegrar miðstýringar en með skipulögðu samstarfi í gæðamálum rannsókna og kennslu, skilvirku kerfi verkaskiptingar og nemendaskipta og í samræmi við skýrar reglur hins opinbera um grunnforsendur allrar fjármögnunar rannsókna og kennslu. Slíkt kerfi eða samfélag háskóla hlyti að vera markmiðið væri sú ákvörðun tekin að samræma rekstrarform allra háskóla með því að þeir yrðu sjálfseignarstofnanir reknar á sömu grunnforsendunum og samkvæmt sömu reglum um skólagjöld, samstarf við atvinnulífið og aðgang að opinberum sjóðum.

Miðstýring kæfir

Í mínum augum væri miðstýrða kerfið ólíklegt til árangurs. Fyrir því eru nokkrar ástæður.

Sú fyrsta varðar gæði: Það eru engin ný tíðindi að sem mest frelsi í rannsóknum og kennslu leiði til framfara. Það er mikilvægt að gott eftirlit sé með allri fjármögnun, en einokun á sviði háskólastarfsemi ber dauðann í sér og er í eðli sínu andstæð nýsköpun. Til þess að íslenskt háskólaumhverfi sé gróskumikið og lifandi þarf að tryggja valddreifingu í akademískum efnum. Það er best gert með því að leyfa sem mest sjálfstæði stofnana, um leið og strangar kröfur eru gerðar til þeirra um nýtingu fjármuna. Í stærra samfélagi þar sem margir sjálfstæðir háskólar gætu þrifist utan slíks kerfis mætti sjá kosti þess, eins og gildir um Kaliforníuháskóla. En okkar samfélag er einfaldlega og lítið til þess. Miðstýrð háskóalstofnun af þessu tagi myndi útiloka aðrar leiðir.

Önnur ástæða varðar hagkvæmni. Því miður er ekki hægt að segja að rekstur þeirra stofnana sem annast kennslu og rannsóknir á háskólastigi sé ýkja hagkvæmur. Það þarf ekki annað en að benda á að Háskóli Íslands virðist ekki komast uppúr þeirri sjálfheldu að missa frá sér þriðjung nemenda sinna á ári hverju. Brottfall í skólanum er langt umfram það sem eðlilegt getur talist og það felur ekkert annað í sér en sóun á fjármunum. Vel skipulagðar sjálfseignarstofnanir eru miklu betur reknar heldur en ríkisstofnanir eins og dæmin sanna, búi þær við eðlilegar kröfur og eftirlit. Sjálfseignarstofnanir eiga þar að auki miklu auðveldar með að afla sér fjármagns úr atvinnulífinu. Það er að mörgu leyti þversögn fólgin í því að ríkisstofnun sæki fjármagn til atvinnulífsins, tengsl þess við sjálfseignarstofnanir eru eðlilegri, sé rétt staðið að slíkri fjármögnun og henni miðlað án þess að um leið sé seilst til of mikilla áhrifa innan stofnananna.

Þriðja ástæðan er byggðasjónarmið. Þótt Háskóli Íslands hafi unnið gott starf með uppbyggingu rannsókna- og fræðasetra er tilvist þeirra þó langt frá því að vera einstökum byggðarlögum sú lyftistöng sem sjálfstæðir háskólar geta verið. Það er engin spurning, svo dæmi sé tekið, að Háskólinn á Akureyri er mesta lyftistöng Akureyrarbæjar undanfarin 25 ár. Útibú HÍ á Akureyri hefði aldrei haft viðlíka áhrif. Svipaða sögu má segja um Borgarfjörðinn sem býr við þau forréttindi að hýsa tvær öflugar háskólastofnanir.

Sjálfseignarstofnanir í öguðu umhverfi

Það mætti nefna fleira, en niðurstaða mín er mjög einföld: Við eigum að fara sjálfseignarstofnanaleiðina um leið og settar verða skýrar reglur um starfsemi slíkra háskóla sem tryggja að þeir starfi í þágu samfélagins og stuðli að grósku í rannsóknastarfi. Þessar sjálfseignarstofnanir ættu að hafa með sér mikið samstarf, til dæmis ættu þær að fella allt doktorsnám undir einn hatt með sameiginlegri miðstöð doktorsnáms, þær ættu að fara eftir sömu viðmiðum um mat á rannsóknum, kennslu og öðrum störfum akademískra starfsmanna, þær ættu að reka sameiginlega alþjóðaskrifstofu og sameina móttöku skiptinema. Þær ættu að skapa skilyrði fyrir sameiginlegar brautir og námsgráður eftir því sem við á og svo framvegis.

Miðstýring er ekki góð hugmynd. Skeytingarleysi um nýtingu fjármagns er það ekki heldur. En stjórnvöld geta og eiga að skapa skilyrði fyrir því að akademískt starf geti blómstrað með því að taka róttækar ákvarðanir. Tillögur Vísinda- og tækniráðs eru flestar vel hugsaðar og hjálpa til við að gera þetta. En það þarf bæði áræði og skýra framtíðarsýn til þess. Spurningin er bara hvort slíkt sé að finna hjá stjórnvöldum.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *