Það gleymist stundum í umræðunni um sameiningu íslenskra háskóla að hún er þegar komin vel á veg. Hún hófst með stofnun samstarfsnets opinberu háskólanna í ágúst 2010, en aðilar að því eru Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Háskólinn á Hólum. Samstarfsnetið hefur tengt starfsemi þessara skóla sterkari böndum og langlíklegast er að þeir muni þegar fram líða stundir renna saman í eina stofnun. Þó að skólarnir séu enn fjórar sjálfstæðar einingar er villandi að líta svo á að þeir séu fjórir sjálfstæðir háskólar, starfsemi þeirra er nú þegar svo nátengd. Kannski getum við því sagt að háskólar Íslands séu í rauninni fjórir.

Spurningin sem þá vaknar er hvaðgera eigi við hina þrjá. Byrjum á Háskólanum í Reykjavík. Fyrir nokkrum árum leit út fyrir að hann væri að taka forystu í þróun háskólastarfs á Íslandi. Það hefur honum þó ekki tekist. Valin var sú leið að einblína á þrönga skilgreiningu hlutverks skólans sem tækni- og viðskiptaháskóla, frekar en að sækja inn á svið samfélags og menningar. Nýstofnuð kennslu- og lýðheilsudeild var lögð niður til að styrkja það sem nefnt var kjarnastarfsemi skólans. Nú þekki ég ekki fjárhagslegar forsendur þessarar ákvörðunar, en frá akademísku sjónarmiði var hún afdrifarík mistök.

Listaháskólinn er bæði lifandi og dýnamísk stofnun, en eftir því sem árin líða verður þó ljósara að skólinn er of lítill til að standa undir ríkara háskólastarfi en því sem felst í grunnþjálfun list-, hönnunar- og arkítektúrnema til fyrstu háskólagráðu. Rannsóknastarf og framhaldsnám krefst stærri stofnunar og skilvirkari stjórnunar til að það geti almennilega skilað árangri. Þessvegna er mikil hætta á að skólinn staðni við núverandi aðstæður.

Háskólinn á Bifröst hefur skapað sér mikilvægt  hlutverk í háskólastarfsemi í landinu með því annarsvegar að vera valkostur nemenda sem þrífast illa í hefðbundnu háskólanámi sem oft leiðir til óvirkni og einangrunar. Hinsvegar hefur skólinn tekið við nemendum sem vilja afla sér háskólamenntunar eftir að hafa verið á vinnumarkaði um lengri eða skemmri tíma. Í dag er hinsvegar erfitt að sjá hvernig hægt er að halda uppi háskólastarfsemi í svo lítilli stofnun. Fyrir því eru ýmsar ástæður, sumar rekstrarlegar en aðrar akademískar.

Þegar litið er yfir sviðið er því tiltölulega augljóst að mestur hagur af frekari sameiningu kæmi af auknu samstarfi og jafnvel sameiningu sjálfstæðu háskólanna þriggja, HR, LHÍ og Bifrastar. Allir hafa þessir skólar skapað sér stöðu og hlutverk í samfélaginu, en þeir standa allir frammi fyrir stöðugri gagnrýni sem að sumu leyti er réttmæt.

Einu nothæfu rökin fyrir sameiningu háskóla á Íslandi eru að hún efli starfsemi skólanna þar sem þeir búa nú þegar við fjársvelti, allir með tölu. Hið opinbera hefur lagt um 400 millj.kr. í samstarfsnet opinberu háskólanna og líklegt má telja að netið muni jafnvel þurfa hærri fjárframlög eigi það að skila árangri til framtíðar. Sama gildir um sjálfstæðu skólana. Til að samstarf eða sameining þeirra geti skilað árangri þarf að leggja til þess fé. Ætli núverandi menntamálaráðherra að setja mark sitt á háskólastarf með varanlegum hætti, ætti hann að sjá til þess að ráðuneytið hafi forystu um að koma á fót samstarfsneti sjálfstæðu háskólanna.

Fyrir fjórum árum, sumarið 2009, var haldinn fundur á Bifröst með helstu stjórnendum HR, LHÍ og Bifrastar til að kanna möguleika á því að þessir skólar sameinuðust um stofnun nýs háskóla sem yrði raunverulegt mótvægi og valkostur við Háskóla Íslands. Tilgangur slíks skóla er augljós: Háskóli Íslands er og verður hefðbundin háskólastofnun með ríkar skyldur við samfélagið ekki síst að sjá til þess að hér á landi sé að finna rannsókna- kennsluumhverfi helstu vísinda- og fræðigreina. Ný sjálfstæð háskólastofnun myndi móta sterk tengsl við atvinnulífið, sinna nýsköpun á sviði tækni, menningar og lista, vera í fararbroddi um þróun nýrra námsbrauta til að sinna breytilegum þörfum atvinnulífs og samfélags og byggja upp rannsóknir í tengslum við margvíslega samfélagsstarfsemi. Fyrirmyndirnar sem oft voru nefndar í þessum umræðum voru Aalto háskólinn í Helsinki og CBS (Viðskiptaháskólinn í Kaupmannahöfn) en þessum skólum hefur tekist með áhrifamiklum hætti að byggja upp leiðandi háskólastarfsemi á öðrum forsendum starf hinna hefðbundnu háskóla byggist á. Því miður náðu þessar þreifingar aldrei lengra en að vera skemmtilegar hálfs dags umræður. Ég held að sú staðreynd að engin tilraun af þessu tagi hefur verið gerð aftur, sýni fyrst og fremst ákveðið ráðaleysi í málefnum háskóla- og rannsóknasamfélags á Íslandi undanfarin ár og skort á uppbyggilegu frumkvæði.

Með samstarfsneti sjálfstæðu skólanna til hliðar við samstarfsnet opinberu skólanna mætti segja að háskólunum sé fækkað úr fjórum í tvo. Það skiptir í sjálfu sér ekki máli hvernig sjálfstæði eininga er hagað innan slíks nets, væntanlega kæmi í ljós með tímanum hvað hentar best í þeim efnum. Aðalatriðið er að netið geti orðið til þess að skólarnir sameinist um að byggja upp öfluga háskólastarfsemi.

Auðvitað má spyrja hvað sé því til fyrirstöðu að allir háskólarnir sameinist undir einni yfirstjórn í sameinaðan Háskóla Íslands. Svarið við því er einfalt: Það er mikilvægt að hafa fleiri stofnanir en eina til að  fást við rannsóknir, sköpun og kennslu á háskólastigi á ólíkum forsendum. Rökin eru svipuð og fyrir því að hafa fleiri en einn fjölmiðil, eða fleiri en einn stjórnmálaflokk. Ein stofnun er ávísun á gagnrýnisleysi, stöðnun og sjálfhverfu.

1 reply

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *