Stalíngrad, Antony Beevor 396 bls., þýðandi Elín Guðmundsdóttir, Hólar, 2007
Njósnari í Þýskalandi nasista? Ráðgátan um Olgu Tsékovu, Antony Beevor 255 bls., þýðandi Elín Guðmundsdóttir, Hólar, 2007

Bækur Antony Beevors um mögnuðustu bardaga seinni heimstyrjaldarinnar hafa notið mikilla vinsælda um allan heim síðustu ár. Fall Berlínar frá 2002 kom út í íslenskri þýðingu í fyrra og nú kemur þekktasta verk Beevors, Stalíngrad, frá 1998 einnig á íslensku ásamt smærra verki, nokkurskonar fjölskyldusögu, þar sem rússnesk-þýska leikkonan Olga Tsékova (gift frænda leikskáldsins Antons Tsékov og bróðurdóttir eiginkonu hans) er í aðalhlutverki.
Báðar bækurnar eru læsilegar og renna ofan í lesandann eins og spennusögur. Beevor nýtti sér sovéskar heimildir við ritun Stalíngrad sem fáir höfðu haft aðgang að áður og er því fær um að draga um nákvæmari og um leið skelfilegri mynd en margir fyrri höfundar af hinni örlagaríku orrustu og umsátri á bökkum Volgu sem markar endalok sigurgöngu Þjóðverja í stríðinu. Það sem gæðir bókina einkum lífi eru frásagnir hans af aðstæðum og aðbúnaði hermanna og herforingja í herbúðum beggja, sem sumpart kemur til af meiri og betri heimildavinnu en hjá ýmsum fyrri höfundum um efnið, sumpart af frásagnargleði Beevors. Það er tvímælalaust kostur á bókinni af hve mikill natni Beevor fjallar um hernaðinn sjálfan, framrás Þjóðverja og bardagana sem urðu til þess að 6. herinn undir stjórn Paulusar hershöfðingja sat á endanum innilokaður í og vestan við Stalíngrad og gafst upp fyrir Rússum í lok janúar 1943. Hinsvegar verð ég að viðurkenna, og ég býst við að sama gildi um marga aðra lesendur bókarinnar, að útlistanir á framrás herja, staðsetningum einstakra bardaga og margvísleg herfræði situr ekki lengi í kollinum. Eftir sem áður veit maður jafnvel og fyrr, að herir Hitlers sóttu hratt fram í átt að Volgu sumarið 1942, náðu næstum Stalíngrad á vald sitt og hröktu rússneska herinn næstum yfir á eystri bakka árinnar, mættu harðri mótspyrnu, voru stöðvaðir og loks umkringdir við Stalíngrad og örlög Þjóðverja þar með ráðin.
Bardagarnir við Stalíngrad eru meðal þeirra atburða sem sagnfræðingar, rithöfundar og kvikmyndagerðamenn halda áfram að vitja um fyrirsjánlega framtíð. Stalíngrad vegur þungt í sögulegu minni bæði Rússa og Þjóðverja og líklega eru ófáir hillumetrar þeirra bóka sem skrifaðar hafa verið um Stalíngrad síðustu 65 árin. Bók Beevors er ekki byltingarkennd í greiningu eða túlkun atburða. En hún sker sig úr fyrir vandvirkni og góða frásögn og er því nauðsynleg lesning þeim sem vilja gera sér sem skýrasta mynd af hryllingi heimstyrjaldarinnar síðari.
Bókin um Olgu Tsékovu, sem var ein frægasta kvikmyndaleikkona Þjóðverja á fjórða áratugnum og fram yfir stríð, er allt önnur tegund af sagnfræði þó að samskipti við Þjóðverja og stríðið komi vissulega einnig við sögu. Olga Tsékova var hálfgerð goðsögn í lifanda lífi. Hún var fædd og alin upp í Rússlandi, en fjölskylda hennar var þó þýsk. Föðursystir hennar og nafna giftist Anton Tsékov árið rétt fyrir aldamótin 1900 og en sjálf var hún um skamma hríð gift bróðursyni Tsékovs, Mikhaíl. Hún fór til Berlínar í byrjun 3. áratugarins og bjó þar uppfrá því, en sambandi hennar við Sovétstjórnina lauk þó ekki nema síður væri og eftir fall Berlínar naut hún fyrirgreiðslu Sovétmanna þar til hún ákvað að koma sér vestur yfir, en upp frá því bjó hún í Vestur-Þýskalandi.
Fjölskyldusaga Olgu Tsékovu er vissulega heillandi og með afbrigðum leyndardómsfull og í öllum hræringum heimstyrjaldanna, rússnesku byltingarinnar og harðstjórnar Stalíns er hún ótrúleg saga fólks sem alltaf lendir á réttum kili sama hvernig staða mála breytist. Lev Knipper, bróðir Olgu berst til dæmis með hvítliðum í borgarastríðinu, en tekst fljótlega eftir að því lýkur að koma sér innundir hjá bolsévíkum og starfar síðar fyrir öryggislögregluna.
Ættingjar hennar og venslafólk í Moskvu vissu auðvitað vel af henni og frægð hennar og einnig að hún væri talin náin sumum helstu leiðtogum nasista jafnvel Hitler sjálfum. Ættingjarnir vissu hinsvegar ekki að Olga var á skrá öryggislögreglunnar yfir njósnara í Þýskalandi og það kom þeim því mjög á óvart þegar hagur hennar virtist vænkast frekar en hitt í lok stríðsins. Það verður hinsvegar að segjast eins og er að Beevor kemst furðu stutt með að leysa ráðgátuna um Olgu Tsékovu. Þó að hann hafi haft aðgang að vissum gögnum sem sýna að Olga hafði tengsl við Lavrentí Bería og að einhver áform voru um að nota hana í aðgerðum sem aldrei var hrint í framkvæmd, vantar enn of margt í frásögnina til að með góðu móti megi átta sig á hvert mikilvægi Olgu Tsékovu var eða hver tengsl hennar voru í raun í Moskvu og Berlín.
Elín Guðmundsdóttir þýðir báðar bækurnar. Þýðing hennar er lipur á köflum, en þó er of algengt að sterkt þýðingarbragð sé af textanum, einnig er hugtakanotkun stundum sérkennileg. Það vantar líka mikið upp á að nægilegrar vandvirkni sé gætt við umritun rússneskra orða stundum virðist enskum umritunarreglum fylgt, stundum íslenskum en stundum er umritunin að því er virðist alveg heimatilbúin. Þetta þýðir ekki að þýðingin sé slæm, en forlagið hefur ekki vandað ritstjórn og yfirlestur nægilega, sem er synd.

Birt í Morgunblaðinu 28. nóvember 2007

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *