Menn hafa velt vöngum yfir því að undanförnu hvaða hag Rússnesk yfirvöld geti séð sér í því að veita Íslendingum 4 milljarða Evra lán og hafa sumir jafnvel getið sér þess til að óskað verði eftir því formlega að veitt verði tiltekin aðstaða, slakað til í ákveðnum málum eða stuðningur tryggður við einhver baráttumál Rússa.
Allt slíkt er nánast óhugsandi. Hvorki Rússar né Íslendingar (skulum við vona) eru barnalegir. Verði lánið veitt verður það veitt samkvæmt eðlilegum skilyrðum um ávöxtun og endurgreiðslu og að eitthvað annað geti komið með formlegum hætti inn í samninga um það er fráleitt.
Það breytir ekki því að lánið er hápólitískt: Að Rússar bjóða þetta lán fram nú hefur að sjálfsögðu pólitískan tilgang, þeir sem halda öðru fram hafa ekki hugsað málið til enda. Að halda því fram að vinátta Rússa við okkar litlu þjóð ráði ferðinni lýsir ekki raunsæjum skilningi á alþjóðamálum, þótt vafalaust hafi vinsamleg afstaða þeirra til okkar einhver áhrif.
En ef Rússar ætla ekki að semja við okkur um neitt annað en veitingu og endurgreiðslu láns, hvernig ná þeir þá sínum pólitísku markmiðum?
Í fyrsta lagi eru vináttutengsl við þetta litla NATO ríki afskaplega vel til þess fallin að styrkja málflutning rússneskra stjórnvalda um þessar mundir í viðleitni sinni til að reka fleyg á milli Evrópu og Bandaríkjanna. Rússneskir ráðamenn munu óspart notfæra sér lánveitinguna til að útmála „vináttu Rússa við smáþjóðir“ svo notaður sé frasi frá Sovéttímanum.
Í öðru lagi opnar lánveitingin fyrir möguleika á auknum umsvifum rússneskra aðila á Íslandi. Það þarf engan speking til að skilja að lánið hlýtur að draga úr þeirri tortryggni sem ríkt hefur gagnvart rússnesku fjármagni í íslensku atvinnulífi.
Í þriðja lagi kann lánveiting að draga úr heitri andstöðu íslenskra ráðamanna við flug Rússa í kringum landið og heræfingar þeirra á Norðuratlantshafi og tæplega munu Íslendingar mótmæla usmvifum Rússa á þessu svæði með jafn kröftugum hætti og gert var á NATO fundinum í Búkarest síðastliðið vor.
Allt skiptir þetta máli fyrir Rússa um þessar mundir – þeir standa frammi fyrir óvinsældum og áhrifaleysi á alþjóðlegum vettvangi og jafnvel lítil skref á borð við lán til Íslendinga (sem aldrei er kallað annað en efnahagsaðstoð í rússneskum fjölmiðlum) geta hjálpað verulega.
En hver er kostnaðurinn fyrir Íslendinga? Um það er erfitt að segja á þessari stundu og sé neyðin mikil verður hinn pólitíski tilkostnaður ef til vill léttvægur. Það má þó búast við eftirfarandi áhrifum: Jafnvel þó að íslensk stjórnvöld breyti ekki stefnu sinni gagnvart Rússlandi hlýtur tónninn gagnvart Rússum að breytast. Það verður erfitt fyrir Íslendinga að lýsa sig eindregna stuðningsmenn Georgíu í deilum Georgíumanna og Rússa, svo dæmi sé tekið.
Þó að lánið sjálft þurfi ekki að hafa slík áhrif, þá hlýtur trúverðugleiki Íslendinga að minnka ef verið er að nota lánstilboð Rússa sem tromp gegn Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og hugsanlegum skilyrðum fyrir lánveitingu hans. Tengsl við stórveldið í austri eru almennt varasöm þar sem þau auka líkur á að Rússar freistist til að teygja meint áhrifasvæði sitt til vesturs. Þótt rússnesk stjórnvöld hafi alltaf lagt mikla áherslu á vináttu sína við smáþjóðir þarf tæpast að eyða löngu máli í að sýna fram á að sú vinátta hefur reynst kæfandi í mörgum tilfellum, svo vægt sé tekið til orða.
Það kann vel að vera að Íslendingum sé nauðugur sá kostur að taka lán hjá rússneskum stjórnvöldum. En lánið er hápólitískt og jafnvel þó að því fylgi engin pólitísk skilyrði hefur það miklar og langvarandi pólitískar afleiðingar.