Í þessum fyrirlestri ætla ég að tala um lýðræði eins og titillinn gefur til kynna. Ætlun mín er að gera tvennt. Í fyrsta lagi ætla ég að velta vöngum yfir því hvernig er talað um lýðræði og hversvegna þannig er talað um það. Í öðru lagi ætla ég að velta fyrir mér tvennskonar sýn á lýðræði sem má kalla sýn athafna- eða átakalýðræðis annarsvegar og sýn samræðu- eða rökræðulýðræðis hinsvegar.

1
Spurningin sem ég fékk frá útvarpsmanni fyrir helgi, en hann hringdi í mig út af þessum fyrirlestri, er á sinn hátt lýsandi fyrir ákveðið viðhorf til stjórnmálaumræðu sem ég held að sé mjög algengt að minnsta kosti hér á landi. Spurningin var þessi (í góðlátlegum, en kannski ögn þreytulegum tón): Já þið ætlið að fara að tala um lýðræði þarna í ReykjavíkurAkademíunni, er ekki búið að tala nóg um lýðræði?
Þetta er ágæt spurning og á margan hátt skiljanleg. Það hefur vissulega verið talað töluvert um lýðræði að undanförnu. Samfylkingin, sérstaklega, hefur sett það í samband við samræðupólitík og lagt áherslu á að stjórnmálamenn eigi að hafa meira samráð við almenna borgara – kjósendur öðru nafni, heldur en hefur tíðkast. Eins hafa sumir stjórnmálamenn viljað opna stjórnkerfið og stjórnsýsluna meira til að gera hana þjónustuvænni og væntanlega um leið lýðræðislegri. Þessvegna hefur lýðræði ekki verið úthýst úr stjórnmálaumræðunni nema síður sé, og tæplega nokkur stjórnmálamaður myndi treysta sér til að hallmæla lýðræði, þó að sumir taki þann pól í hæðina að segja að lýðræði sé að vísu ekki fullkomin leið til að stjórna, en það skásta sem við höfum þrátt fyrir það.

2
En það er stórmerkilegt að hugtakið samræðulýðræði hefur á síðustu árum orðið hálfgert skammaryrði. Hugtakið sjálft nýtur ekki virðingar, það er jafnvel hæðst að stjórnmálamönnum sem taka sér það í munn, enda virðist mér að Samfylkingarfólk sé farið að nota það afar sparlega og jafnvel sniðganga það. Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn hafa líka skemmt sér við að gera Samfylkinguna hlægilega með því að kenna hana við samræðustjórnmál og ég hef ekki séð að þetta háð hafi vakið kraftmikil eða sannfærandi svör. Það má með öðrum orðum draga þá ályktun að háðið virki, en það þýðir væntanlega ekkert annað en að stór hluti kjósenda hefur efasemdir um samræður í stjórnmálum og heldur kannski að samræðustjórnmál séu „endalaus samræða“ þar sem ákvörðunum er stöðugt slegið á frest eða þær slegnar af.(1) Í samræðustjórnmálum þæfi stjórnmálamenn og almennir borgarar málin með innihalds- og meiningarlitlum samræðum.
En hversvegna skyldi pólitíkin meðhöndla samræðu-hugtakið af svo mikilli íróníu? Hversvegna liggja þeir sem halda fram hugmynd um náið samráð stjórnmálamanna og almennra borgara undir stöðugum háðsglósum? Hversvegna halda menn því fram að samræða sé jafnvel í ósamræmi við markmið lýðræðislegra stjórnmála? Framsóknarmenn gengu til dæmis svo langt fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor að auglýsa sig sem athafnastjórnmálamenn og sögðu flokk sinn flokk athafnastjórnmála. Þetta hugtak átti augljóslega að vera mótvægi við samræðustjórnmál andstæðingsins og gera þau hlægileg, og ég er ekki frá því að það hafi tekist að vissu marki.
Aðgreining samræðu- og athafnastjórnmála kemur við mikilvæga hagsmuni kjósenda: Þeir kjósa fólk, flokka osfrv. til að koma ákveðnum hlutum í verk. Þeir kjósa (væntanlega) í samræmi við forgangsröðun sína. Samræður geta hinsvegar hindrað verkin eða tafið fyrir þeim. Þessvegna er skiljanlegt að hægt sé að láta líta svo út að athafnastjórnmál séu valkostur sem taka eigi fram yfir samræðustjórnmál. En aðgreiningin hylur þó einnig annan mjög mikilvægan þátt lýðræðislegra stjórnmála. Lýðræði er aðferð til að taka ákvarðanir sem ætlast er til að sé betri en aðrar aðferðir. Þetta skiljum við ekki aðeins svo að einhver lýðræðisleg aðferð sé alla jafna sanngjarnari en aðrar aðferðir. Að lýðræði sé betri aðferð hlýtur að þýða að við getum gert ráð fyrir því að lýðræðislegar ákvarðanir séu betri en ákvarðanir sem teknar eru ólýðræðislega í þeim skilningi að þær þjóni best sameiginlegum gæðum. Athafnapólitíkusinn framfylgir ákvörðunum sem þegar hafa verið teknar og þarf af þeirri ástæðu ekki á neinum samræðum að halda. Með því að gera athafnir að andstæðu samræðu er látið líta svo út að hlutverk stjórnmálamannsins sé að framkvæma vilja kjósenda sem liggi fyrir og sé skýr og ekkert meira um að segja. Athafnapólitíkusinn þarf þá hvorki að hugsa né rökræða, það er búið að gera það allt fyrir hann, hlutverk hans er það eitt að berjast fyrir þeim málum sem hann er eða telur sig vera kosinn til að sinna.
Ég held að það gleymist stundum þegar talað er um lýðræði á þessum nótum, það er út frá ímyndakeppni stjórnmálamanna, þar sem hinn athafnasami einstaklingur er iðulega hærra skrifaður en sá sem rökræðir eða þykist gera það, að lýðræði er ekkert annað en aðferð til að taka sameiginlegar ákvarðanir. Þegar talað er um samræðulýðræði, en það er eins og ég hef skilið það íslenskun á enska hugtakinu deliberative democracy, sem líka hefur verið kallað rökræðulýðræði, hlýtur mikilvægasta spurningin að vera sú hvort sú leið sem beitir rökræðum til að skapa eða auka samstöðu, sé betri aðferð til að taka ákvarðanir heldur en einhver önnur aðferð (2).

3
Rökræður um stefnumál og ákvarðanir fela væntanlega í sér tvennt. Annarsvegar að rætt er um valkosti sem til greina komi og hvernig hægt sé að koma auga á þá, hinsvegar að rökrætt er um kosti og galla þeirra leiða sem taldar eru koma til greina. Það er alls ekki víst að rökræður séu alltaf besta leiðin til að finna kosti eða til að gera upp á milli þeirra. Stundum getur verið miklu nær að hafa bara atkvæðagreiðslu án þess að efna til nokkurra umræðna eða rökræðna.
Það má taka dæmi af stórum pólitískum málum þar rökræður kunna að hafa haft slæm áhrif frekar en góð. Þegar Bill Clinton náði kjöri sem forseti Bandaríkjanna 1992, var eitt af helstu stefnumálum hans að gera umbætur á bandaríska heilbrigðiskerfinu. Samkvæmt skoðanakönnunum voru þessar umbætur ofarlega á forgangslista kjósenda líka, sem töldu þær nauðsynlegar. Þegar Clinton kynnti tillögur sínar í september 1993 var almennur stuðningur við þær og litla andstöðu að merkja frá repúblíkönum á þingi. Þetta breyttist á nokkrum mánuðum, eftir að tryggingafyrirtæki fjármögnuðu auglýsingaherferð sem beint var gegn umbótatillögunum og fundu þeim allt til foráttu. Auglýsingaherferðin vakti mikla athygli og var fréttaefni vikum og mánuðum saman. Hún varð til þess að repúblikanar á þingi töldu að almenningsálitið hefði snúist gegn breytingunum og því óx andstaða þeirra við þær mjög. Þannig urðu umbótatillögurnar fyrst deiluefni en hurfu síðan út af borðinu í þingkosningum haustið 1994. Demókratar kusu að leggja það til hliðar frekar en að setja þær á oddinn í kosningabaráttu. Þetta gerðist jafnvel þó að skoðanakannanir sýndu allan tímann að almenningur taldi umbætur í heilbrigðiskerfinu eitt af mikilvægustu málefnum stjórnmálanna. Hér má því með nokkrum rétti halda því fram að rökræður hafi spillt fyrir eða lamað mikilvægt umbótamál, vegna þess að sérhagsmunahópur gat rænt málinu og snúið þvi sér í hag (3).
Svipaða sögu mætti segja af baráttu tóbaksfyrirtækja gegn því að viðurkenna að reykingar væru óhollar, en lengi vel héldu tóbaksfyrirtækin því fram að óhollusta reykinga væri ekki fyllilega sönnuð og fólk hefði því fullan rétt til að draga hana í efa. Það er með öðrum orðum engan veginn sjálfgefið að rökræður leiði til betri ákvörðunar. Einhver kynni að segja að í þessu dæminu hafi engar rökræður orðið, þvert á móti hafi sérhagsmunahópar komið í veg fyrir eiginlegar rökræður. Þessi mótbára held ég að sé ekki alls kostar rétt. Í fyrsta lagi er í sjálfu sér lítið hægt að gera við því að sérhagsmunahópur beiti rökum, hugsanlega falsrökum, í eiginhagsmunaskyni í opinni umræðu. Í öðru lagi getur oft verið erfitt að gera skýran greinarmun á rökum sem sett eru fram í góðri trú og rökum sem sett eru fram í eiginhagsmunaskyni. Aðalatriðið er að rökræðan geti verið þess megnug að sigrast á og útiloka verri rök, sama hvaðan þau koma.

4
Ég held að ein ástæða þess að samræðulýðræði er ekki hugtak sem hinn almenni kjósandi virðist taka ýkja alvarlega sé sú að hugtakið er ekki útfært nema í almennustu mynd sinni af þeim sem helst hafa haldið því á lofti og þeir hafa litlar tilraunir gert til að sýna fram á að rökræður eða samræður leiði til betri ákvarðana eða hvernig það geti gerst. Ég hef bent á að rökræður eru ekki alls megnugar. Í því sem er eftir af þessum fyrirlestri vil ég gera grein fyrir fáeinum atriðum sem styðja þá skoðun að rökræður séu mikilvægur hluti stjórnmálaumræðu þó að þær hafi einnig sínar takmarkanir. Rétt er að ítreka að með orðinu rökræður á ég við umræður eða samræður sem hafa það markmið hóps eða heildar að finna bestu niðurstöðu máls með tilliti til sameiginlegra gæða. Þetta er annað markmið en kappræður eða samningaviðræður. Kappræður snúast um að sigrast á andstæðingi, samningaviðræður um að finna jafnvægi á milli ólíkra einkahagsmuna.
Það er hægt að líta á vandamál sem varða val á nokkra mismunandi vegu. Til eru heilu kenningarnar um leiðir til að standa að vali sem ég ætla ekki að ræða hér. Þeim má hinsvegar gróflega skipta í tvo flokka. Annarsvegar er gengið út frá því sem vísu að þegar hópur kemst að sameiginlegri niðurstöðu þá mætist forgangsröðun ólíkra einstaklinga sem er í eðli sínu óbreytanleg, en verkefnið sé þá að finna málamiðlun sem best endurspeglar blöndu ólíkrar forgangsröðunar. Við skulum segja að hópur þurfi að gera það upp við sig hvort hann fær kaffi eða te, hvorttveggja komi ekki til greina, þá myndi væntanlega einfaldur meirhluti ráða – ef kostirnir eru flóknari getur þurft að finna upp flóknari leiðir til að velja það sem flestir sætta sig helst við. Aðalatriðið er að forgangsröðunin er í sjálfu sér skýr og breytist ekki, en val hópsins gerir að verkum að ekki fá allir allt sem þeir vilja.
Ég geri ráð fyrir því að þegar menn dæsa og segja að lýðræði sé langt frá því að vera fullkomið, en það sé skársta aðferðin sem við höfum til að taka ákvarðanir, það sé það þessi hugmynd um lýðræði sem byggt er á. Þá er átt við að lýðræði sé ófullkomið vegna þess að sumir fá ekki það sem þeir vilja.
Á hinn bóginn, og það er hinn flokkurinn sem ég nefndi, er gengið út frá því að forgangsröðun einstaklinga sé ekki óbreytanleg, henni megi breyta til dæmis með rökræðum og að þar sem viðfangsefni stjórnmála sé sameiginleg gæði þá þurfi slíkar rökræður að fara fram.
Með öðrum orðum, hér höfum við tvær hugmyndir um stjórnmál. Annað getum við kalla athafna- eða átakastjórnmál þar sem einstaklingar með ólíka sýn og gildi – ólíka forgangsröðun takast á um hlutina, hinsvegar eru samræðustjórnmál eða rökræðustjórnmál þar sem einstaklingar rökræða forgangsröðun og líta því á umræður stjórnmálanna sem leið að samstöðu, þar sem forgangsröðun getur umbreyst fyrir áhrif rökræðunnar.

5
Nú er eins og bent hefur verið á langt frá því augljóst að rökræður leiði alltaf til betri niðurstöðu – það er auðvelt að hugsa sér dæmi þess að hún hafi öfug áhrif og að henni sé misbeitt af hagsmunaaðilum til að blekkja eða vinna að þröngum einkahagsmunum. Getur verið að það sé einfaldara og jafnvel réttara að sjá stjórnmál fyrst og fremst í ljósi átaka einstaklinga og hópa sem hafa ólíka hagsmuni, sýn og gildi, þar sem hver hópur reynir einfaldlega að fá fram eins mikið af sínu og mögulegt er?
Ein rök gegn þessari hugmynd um lýðræði er sú að athafna- og átakastjórnmálin staðsetji stjórnmálin á markaðstorgi og breiði því yfir þann mikilvæga greinarmun sem verði að gera á markaðstorginu annarsvegar, vettvangi stjórnmálanna hinsvegar. Munurinn er sá að í stjórnmálum er unnið að því að taka ákvarðanir um sameiginleg samfélagsleg gæði og því eiga þröngir einkahagsmunir ekki nema að litlu leyti heima í stjórnmálumræðu.
Önnur rök og kannski veigameiri eru þau að með því að ganga út frá því sem vísu að einstaklingarnir komi inn í stjórnmálin með mótaðar skoðanir og noti stjórnmálin fyrst og fremst sem vettvang til að koma þessum skoðunum á framfæri, færist öll áhersla stjórnmálanna yfir á hagsmuni einstaklinga og hópa. Þetta gerir að verkum að tilhneiging stjórnmálanna er ekki sú að leita eftir upplýsingum og rökum heldur þvert á móti að breiða yfir upplýsingar og rök sem ganga gegn hagsmunum þeirra og umbjóðenda sinna. Það sem verra er, þetta verður fullkomlega sjálfsagður hluti af stjórnmálunum, vegna þess að tilgangur pólitískra ákvarðana er þá fyrst og fremst að þjóna hagsmunum hópa, en þessir hagsmunir þurfa alls ekki að fara saman við heildarhagsmuni eða sameiginleg gæði.
Fleira mætti nefna, ég ég held að þetta tvennt ætti að gefa vissar vísbendingar um að líkan athafna- og átakastjórnmála er í fyrsta lagi ekki eina stjórnmálalíkanið sem völ er á og í öðru lagi alls ekki besta almenna hugmyndin um eðli stjórnmála.

6
Það sem hefur verið að gerast hér á Íslandi á undanförnum árum, vöxtur umhverfishreyfinga og almennt aukinn aktívismi af öllu tagi, sýnir líka að átakastjórnmál, í þessum þrönga skilningi sem ég hef lýst, er ekki sú tegund stjórnmála sem almenningur sækist eftir, hvað svo sem líður öllum háðsglósum um samræðustjórnmál. Það virðist þvert á móti vera ljóst að rökræðustjórnmál eru í miklum uppgangi og hópar sem einbeita sér að einstökum málum og málaflokkum verða sífellt meira áberandi.
Rökræður hafa samstöðu að markmiði og því mætti segja sem svo að þær nái þá ekki tilgangi sínum nema þegar þetta tekst. Á hinn bóginn vitum við líka að í ólík pólitísk öfl ná seint samstöðu um þá hluti sem varða beint ólíka sýn og almenna afstöðu. Kosningar og aðrar valaðferðir verða auðvitað algjört grundvallaratriði í lýðræðislegum stjórnmálum um ókomna framtíð. Rökræður eru því engin töfralausn og þeim er hægt að misbeita eins og ég sagði áðan. En hverjir eru þá hinir augljósu kostir rökræðna?
Í fyrsta lagi virðast rökræður stuðla að þátttöku. Í átakalíkaninu, þar sem áherslan er á hagsmunahópa virðast þeir sem ekki hafa beinna eða augljósra hagsmuna að gæta í einstökum málum ekkert erindi eiga í umræðuna. Þessi blekking er furðu algeng. Núna virðist stjórnvöldum til dæmis hafa tekist að koma því inn hjá fólki að stækkun Álversins í Straumsvík sé einkamál Hafnfirðinga af því að beinir efnahagslegir hagsmunir þeirra af stækkun álversins séu langmestir. Á sama hátt vildu sumir Húsvíkingar útiloka aðra en íbúa á Húsavík og nágrenni frá rökræðum um mögulegt álver á Húsavík vegna þess að hér væri um hagsmunamál Húsvíkinga að ræða.
Í öðru lagi á hverskyns sérfræðiþekking greiðari aðgang að ákvörðunum í rökræðulíkaninu, þar sem hagsmunir einstaklinga og hópa víkja, að minnsta kosti tímabundið fyrir þeirri hugsun að pólitískar ákvarðanir varði sameiginleg gæði.
Í þriðja lagi eru rökræður nauðsynlegar til að verjast fordómum og koma í veg fyrir að ákvarðanir um sameiginleg gæði ráðist af þröngsýni eða forpokun.
Í fjórða lagi geta rökræður stuðlað að samstöðu um ákveðin atriði, jafnvel þó aðilar geri sér grein fyrir því að í öðrum atriðum stangist lífsgildi eða skoðanir á. Rökræðulýðræði getur því haft það markmið að stuðla að aukinni samstöðu jafnvel þó ekki sé raunhæft að búast við fullkominni eða endanlegr samstöðu.

Nú er rétt að hafa í huga að það er sama hvernig mál þróast, það er vart hægt að hugsa sér að rökræðustjórnmál leysi átakastjórnmál af hólmi. Það er helur ekki víst að það sé æskilegt og það má auðveldlega sjá kosti þess að viss fjölhyggja ríki um skilning á sjálfu lýðræðishugtakinu.
Það sem þarf hinsvegar að breytast er hvernig talað er um átaka- og athafnastjórnmál og hvernig menn virðast iðulega komast upp með að láta eins og þau séu eini valkostur lýðræðsins. Svo er ekki – en það stendur upp á þá sem þykjast vilja tala um lýðræði að gera það af meiri dýpt, útfæra hugmyndir sínar betur, segja meira um hvað samræðulýðræði eða rökræðulýðræði er. Það er líka vonandi að þeir sem hafa trú á rökræðulýðræði leggi ekki á flótta ef slíkum hugmyndum er fyrst í stað mætt með háði og spotti.

(Fyrirlestur í ReykjavíkurAkademíunni 12. febrúar 2007)

Neðanmálsgreinar:
(1) Sjá til dæmis grein Róbert Haraldssonar „Umræðustjórnmál“ í Ritinu 4. árg., 1/2004, bls. 173-176.
(2) Í þessum fyrirlestri geri ég ekki greinarmun á samræðu og rökræðu og ég slæ saman hugtökunum átök og athafnir á svipaðan hátt. Þetta er gert til einföldunar hér, en í ítarlegri umræðu væri ef til vill þörf á nákvæmari hugtakanotkun.
(3)Susan C. Stokes, Pathologies of Deliberation, 1998, bls. 130-131.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *