(Fyrirlestur á málþingi um John Dewey i tilefni af 150 ára afmæli hans, Háskóla Íslands, Menntavísindasviði, 22. október 2009)

Hugtakið pragmatismi hefur verið notað yfir ákveðna tegund heimspeki í rúmlega hundrað ár. William James varpaði því fram fyrstur og sagði kollega sinn Charles Peirce hafa fundið upp á því, þótt engar skjalfestar heimildir séu um það. James, Peirce auk Johns Dewey eru yfirleitt sagðir höfundar eða „feður“ pragmatismans auk nokkurra annara heimspekinga, þ.á.m. Bandaríkjamannsins George Herbert Mead og stundum einnig bresk-danska heimspekingsins Frederics Schiller. Það hefur hinsvegar vafist fyrir mönnum að lýsa pragmatisma í hnotskurn sem heimspekilegri sýn eða aðferð. Í fyrsta lagi eru heimspekingarnir sem kenndir eru við hann býsna ólíkir og í öðru lagi eru viðfangsefni þeirra ekki þau sömu. Á síðustu áratugum hefur pragmatismi hinsvegar fengið aukna athygli heimspekinga úr hefð rökgreiningaheimspekinnar sem hafa sveigt hann nokkuð að sínum áhugamálum. Um leið hefur fræðimennska á sviði pragmatisma orðið vinsæl grein bandarískrar heimspekisögu. Þetta hefur ekki beint orðið til þess að það yrði skýrara hvað pragmatismi stendur fyrir heldur þvert á móti, spurningin „hvað er pragmatismi?“ hefur kannski sjaldan verið eins í miðpunkti heimspekinnar og nú.

Ætlun mín nú er að grein fyrir viðhorfi mínu til pragmatisma og gefa um leið viss takmörkuð svör við spurningunni um hvað hann sé. Ég færi rök fyrir þeirri skoðun best sé að skilja pragmatisma út frá hlutverki vafans í allri heimspekilegri og vísindalegri (fræðilegri) hugsun. Pragmatistar veita svar við efahyggju sem byggir á þeirri hugmynd að praktískar afleiðingar svara og lausna skipti höfuðmáli við allar rannsóknir. Um leið er því haldið fram að öll svör og allar niðurstöður séu fallvaltar. Þetta þýðir að ef við veltum ekki fyrir okkur hvað virki þegar við leitum að svörum við spurningum um heiminn, erum við á hættulegum villigötum. Gagnrýni pragmatista á heimspekihefðina, og síðar á ýmsar kreddur rökgreiningarheimspekinnar, er einmitt sú að heimspekinni sé afar hætt við að lenda á slíkum villigötum.

Þótt Dewey sé jafnan talinn einn upphafsmanna heimspekilegs pragmatisma notaði hann þetta hugtak lítið í skrifum sínum og yfirleitt ekki til að lýsa heimspekilegri afstöðu sjálfs sín. Hann leit svo á að heimspekilegum viðhorfum hans sjálfs væri best lýst með orðinu instrumentalism eða verkfærishyggja, en með því hugtaki er áhersla lögð á gildi hugtaka og staðreynda sem verkfæra. Það gefur auga leið að verkfærishyggja af þessu tagi leggur ekki höfuðáherslu á sannleika, í klassískum skilningi hugtaksins, og því er jafnvel haldið fram hún leiði til þeirrar skringilegu niðurstöðu að hægt sé að halda því fram að skoðun sem „virkar“ – og með því er átt við að hægt sé að hafa hana án þess að lenda í mótsögn við reynslu – sé þar með sönn. Þetta er hinsvegar ekki niðurstaða Deweys.

En hvernig tengist Dewey þá pragmatisma nákvæmlega? Mig langar til þess að svara þessari spurningu, og um leið varpa örlitlu ljósi á heimspekilegan pragmatisma, með því að líta á grein sem Dewey skrifaði árið 1925 fyrir yfirlitsrit um hugmyndasögu sem Columbiaháskóli gat út. En fyrst er kannski rétt að læða að skilgreiningu á Deweys á pragmatisma sem kemur fram í annarri ritgerð, um „þróunarlega veraldarhyggju.“ Þar segir hann: „Pragmatismi er sú kenning að upplag raunveruleikans sé verklegt og það birtist á skýrastan hátt í vitsmunastarfi“ (Dewey 1998a bls. 126).

Það er rétt að fara í saumana á þeim hugtökum sem hér koma fram: Á frummálinu hljóðar skilgreiningin svo: „By [pragmatism] I mean the doctrine that reality possesses a practical character, and that this character is most efficaciously expressed in the function of intelligence“.

Hér eru nokkur lykilhugtök sem erfitt er að koma á íslensku með fullnægjandi hætti, einkum þessi tvö: Practical character og Function of intelligence ég hef þýtt þau hér með annarsvegar verklegt upplag og hinsvegar vitsmunastarf. Þessi orð undirstrika þá hugmynd Deweys að „þekkingu á raunveruleikanum“ sé betur lýst með myndhverfingu snertingar (tengsla) frekar en myndhverfingu sjónar. Raunhyggja (og náttúrlega hluthyggja) gengur út á að raunveruleikinn sé með einhverjum hætti og sannleikur sé ekki annað en samsvörun fullyrðingar við þennan raunveruleika. Samsvörunin byggir á lýsingu: Setning sem lýsir heiminum eins og hann er, er sönn. Þegar Dewey fjallar um þau tök á raunveruleikanum sem birtast í hefðbundinni raunhyggju bendir hann á að byggt sé á hliðstæðu sjónrænnar reynslu í mikilvægum atriðum og þessvegna uppnefnir hann raunhyggju/hluthyggju sem „áhorfendakenninguna um þekkingu“.

Að vita er að sjá: Áhorfandinn er fær um að segja sannleikann vegna þess að hann sér hann og þýðir svo eða afkóðar þessa reynslu sína með því að færa hana í orð. Þá er setningin sem hann segir samsvarandi veruleikanum í einföldum skilningi. Þessi grunnhugmynd um sannleikann vekur hinsvegar spurningar sem heimspekingar hafa löngum bent á, David Hume gerði það kannski með frægustum og einföldustum hætti, þegar hann sýndi fram á að lykilhugtök raunvísindanna, svo sem orsakarhugtakið, á sér enga samsvörun í reynslu.

Gallinn við að gera grein fyrir þekkingu að hætti klassískrar raunhyggju er samkvæmt Dewey er sá að einstaklingurinn er slitinn úr tengslum við raunveruleikann sem hann hefur þekkingu á. Þekking er þá skilgreind sem áhorf frekar en þátttaka. Þetta stríðir hinsvegar gegn hversdagslegri reynslu okkar, og það sem meira er, það verður mjög óljóst hvernig best er að gera grein fyrir áhrifum manna á umhverfi sitt. Þetta má orða svo að litið sé framhjá verklegu upplagi (praktískum karakter) raunveruleikans. Dewey hafnar ekki áhorfendakenningunni, hann gerir einfaldlega lítið úr vægi hennar. Auðvitað er samsvörun fullyrðingar og veruleika mikilvægur þáttur sannleikans. En þessi samsvörun er tæpast neitt aðalatriði þegar við gerum grein fyrir þekkingu og það er alls ekki nauðsynlegt að gera grein fyrir þekkingu á þennan hátt. Það sem er hinsvegar nauðsynlegt að hafa í huga er sú staðreynd að við, hver einasti maður, er með fullar hendur raunveruleikans hverju sinni:

Engin rannsókn hefst á hlutlausum upphafspunkti, maður byrjar aldrei með tvær hendur tómar: Öll umhugsun hefst á krossgötum þar sem saman koma ótal skoðanir og hugmyndir og margvísleg sannfæring. Verkefni hverskyns rannsóknar er ekki síður að greiða úr flækju sannfæringanna en að búa til nýjar og ferskar skoðanir. Spurningar verða oft til við það að tiltekin niðurstaða á einu sviði vekur spurningu á öðru. Það er ekki nóg með að skoðanir séu alltaf fjölmargar. Samfélagið er skipulagt í kringum öflugar stofnanir sem meðal annars hafa það hlutverk að segja okkur til með einum eða öðrum hætti, hvort sem leiðsögnin er veraldleg eða trúarleg, í formi sérfræðilegs mats eða pólitískra viðhorfa, veitt á grundvelli viðtekinna kenninga eða sem gagnrýni á hið viðtekna. Verklega upplagið byggist því engan veginn á því að varpa fram tilgátum og sjá svo hvort þær virka, heldur á þeirri hversdagslegu staðreynd að raunveruleikinn er ekki mynd sem við erum að reyna að sjá betur, heldur kerfi sem við erum að reyna að ná betri tökum á.

Í því safni hugmynda sem Dewey nefnir einu nafni áhorfendakenninguna um þekkingu er líka að finna þátt sem kannski hefur haft meiri áhrif í heimspeki en menn gera sér almennt grein fyrir. Þetta er hugmyndin um sýn á raunveruleikann sem er ekki aðeins hlutlaus, heldur einnig hrein og óflekkuð. Hún birtist ef til vill best í vangaveltum Platons um skilning á hinu góða, sanna og fagra í einni hugsýn. Ef við hugsum um hellislíkinguna og frummyndakenningu Platons sjáum við strax hve máttug hin sjónræna samlíking er um skilning okkar á þekkingu. Áhorfendurnir í hellinum eru njörvaðir niður og vita því ekki að það sem þeir sjá eru ekki raunverulegar birtingarmyndir hlutanna heldur skuggamyndir þeirra. Þegar heimspekingurinn stendur upp og fer upp í ljósið öðlast hann skilninginn ekki með öðrum hætti heldur en áhorfendurnir í hellinum. Áhorfið – sýnin – er enn aðalatriðið.

Munurinn er sá að hann sér aðra hluti, það er, hann sér þær myndir hlutanna sem standa nær raunveruleikanum heldur en skuggamyndirnar í hellinum. Þessar myndir eru „hreinni“ og þær eru meira „ekta“ en eftirlíkingarnar í hellinum og eftirlíkingarnar sem skilningarvit okkar eru full af í jarðneskri reynslu okkar. Þessi tilhneiging heimspekinnar, að nema þekkingu á brott frá hversdagsreynslunni og koma henni fyrir í hreinum og óflekkuðum heimi hugmyndanna hefur sett svip sinn á alla vestræna hugsun, jafnt hugmyndaheim kristninnar sem seinni tíma hugmyndir um eðli og hlutverk vísinda, og ég held reyndar að þær séu enn þann dag í dag viss dragbítur í umræðuhefð heimspekinnar. Áhersla Deweys á vitsmunastarf (function of intelligence) er tilraun til að komast út úr þessum hugmyndaheimi og takast öðruvísi á við spurningarnar og vandamálin sem lífið hefur upp á að bjóða. Hann reynir að fá okkur til að hugsa um hvernig við getum bætt tök okkar á þessum spurningum, að því gefnu að raunveruleikinn sem við lifum í eða búum við er einfaldlega umhverfið sem við vinnum með og breytum. Hreinleikahugsunin byggir alltaf á því að raunveruleikinn sé hafinn yfir mannlega starfsemi: Á því að maðurinn geti vissulega haft áhrif á umhverfi sitt, en eðli, lögmál og grundvallarstaðreyndir heimsins breytist ekki.  Gegn þessari hugmynd bendir Dewey á að vitsmunastarf er tilraun til að breyta veruleikanum, ekki síst í vísindarannsóknum þar sem næstum alltaf er lagt upp með viðhorf eða skoðanir sem ástæða er til að endurskoða eða breyta. Spurningin sem þá vaknar er um mælikvarða á þetta inngrip: hvernig er hægt að leggja mat á niðurstöðu eða nýja sannfæringu eða skoðun öðruvísi en með því að spyrja um afdrif hennar í kerfinu sem breytist við tilkomu hennar? Ég held að svarið við þessari spurningu hvað Dewey varðar, sé að finna í grein hans frá 1925 sem áður var nefnd.

Í greininni heldur Dewey því fram að bandarísk heimspeki – þ.e. pragmatismi, hafi orðið til sem framhald evrópskrar heimspeki við nýjar aðstæður (Dewey 1998a bls. 11-12). Þessvegna einkennist pragmatismi líka af ríkri sögulegri vitund sem meðal annars birtist í gagnrýninni og leitandi afstöðu til spurningarinnar um hver eiginleg verkefni heimspekinnar séu. Markmiðið, segir Dewey, hlýtur að felast í því að gera lífið skynsamlegra, og auðga það. Það má endurorða það sem Dewey segir hér og segja sem svo: Heimspeki í skilningi pragmatista snýst um greiningu og sköpun.

Greiningarhugtakið nær þá yfir viðleitnina til að spyrja gagnrýninna spurninga og leyfa vafa að njóta sín í þeim skilningi, að það er vafi, raunverulegur vafi, sem kallar á rannsókn, en ekki uppgerðarefi, í líkingu við efann sem kemur fram í þeirri afstöðu að eg geti efast um alla þekkingu mína á þeim forsendum einum að ég kunni að hafa aflað mér hennar á vafasaman hátt. Pragmatistar ætlast til að greining á veruleikanum leiði í ljós ástæðu til vafa, með öðrum orðum, vafann þarf að rökstyðja.

Sköpunarhugtakið hinsvegar varðar viðhorf til spurninga sem þarf að svara og vandamála sem þarf að leysa. Dewey bendir á að staða vísindamannsins og listamannsins sé hliðstæð þegar staðið er frammi fyrir verkefni. Beita þarf frumlegri hugsun, átta sig á spurningum og takast á við þær og svo framvegis. Í þessum skilningi verður hugsuðurinn gerandi – eða maður gæti eins sagt skapandi: Til þess að leysa vandamál þarf hann að beita hugviti og framkvæma og framkvæmdin skilur eitthvað eftir sig. Hér er auðvitað verið að hugsa um framkvæmd í mjög víðum skilningi.

Í framhaldi af þessu má segja að þekking sé forvirk. Dewey notar sjálfur víða það orðalag að segja að tilgátur beinist að framtíð; þær eru „forward-looking“ (Dewey 1998a bls. 8). Forvirknihugtakið nær þessari hugsun ágætlega: Maðurinn sem gerandi (eða skapandi) leitast við að skilja og sjá fyrir. Hann vill geta brugðist rétt við þeim aðstæðum sem upp kunna að koma í framtíðinni og hann vill að einhverju marki geta stýrt eða haft áhrif á það sem gerist. Það er mikilvægt í þessu sambandi að gerandinn er andstæða leiksoppsins. Að gera lífið skynsamlegra og auka gildi þess er líka að breyta hlutdeild mannsins frá því að vera leiksoppur örlaganna í að geta að vissu marki tekið tilveru sína í eigin hendur, hvort sem um er að ræða í einstaklingsbundnum eða samfélagslegum skilningi.

Það er enn algengt viðhorf til pragmatisma að hann taki þann pól í hæðina að snúa baki við viðurkenndum vandamálum heimspekinnar, gefa hagnýt ráð um hvernig best sé að haga lífi sínu og láta ráðgátur mannsaandans lönd og leið. Atli Harðarson endurtekur þessa skoðun í nýrri bók sinni Efahyggja, þegar hann segir pragmatista „hafa skrítna hugmynd um sannleikann sem stingur í stúf við það sem flestum þykir augljóst“ þar sem þeir hafni „því sem liggur í augum uppi, að fullyrðing er þá og því aðeins sönn að hún segi að hlutirnir eru eins og þeir eru“ (Atli Harðarson 2009, bls. 34). Hann veltir því svo fyrir sér hvernig á því standi að „rit þeirra“ (pragmatista) komist í tísku af og til og heldur að það stafi af því að stundum verða menn þreyttir á að fást við hinar þungu ráðgátur heimspekinnar og langar til að auðvelda sér lífið. „Fræði eru torf“ segir hann og bætir við „[e]f manni tekst ekki að finna nein sannindi getur hann látist gáfaður með því að segja eitthvað um sannleikann svona almennt og yfirleitt“ (sami staður).

Það sem ég hef reynt að gera örlitla grein fyrir í þessu erindi er að þessi hugmynd um pragmatisma er röng. Enginn þeirra heimspekinga sem kenndir hafa verið við pragmatisma hafna því að í einfaldasta skilningi orðsins er sannleikur bara samsvörun fullyrðingar og raunveruleika. Dewey bendir hinsvegar á að þetta leysi engan heimspekilegan vanda og því sé misskilningur að halda að með því að einblína á það vandamál að gera grein fyrir samsvörun fullyrðinga og veruleika sé heimspekinni eða mannlegri þekkingu best þjónað.

Atli lýsir sjálfum sér sem hluthyggjumanni um veruleikann sem aðhyllist samsvörunarkenningu um sannleika frekar en að velja flóttaleiðir á borð við pragmatisma. En pragmatismi er alls engin flóttaleið. Þvert á móti. Heimspekingar á borð við John Dewey eru ekki að reyna að fækka heimspekilegum vandamálum eða leysa í eitt skipti fyrir öll einhverjar af þeim ráðgátum sem heimspekingar hafa fjallað um og tekist á við öldum saman. Markmið hans er aðeins að benda á að heimspekileg vandamál eru fleiri en þessi og sum þeirra eru mikilvægari einfaldlega vegna þess að hluthyggjumaðurinn hefur tilhneigingu til að einfalda veruleikann fyrir sér: Hann býr sér til handhægt líkan sjónrænnar samsvörunar og stendur svo á því fastar en fótunum að sönn heimspeki geti einungis snúist um að gera grein fyrir heiminum út frá þessu líkani hans og að allar efasemdir um líkanið sjálft sé flótti frá raunveruleikanum. En á endanum snýr Dewey gagnrýni hluthyggjumannsins upp á hann sjálfan: Hluthyggjumaðurinn er á æðisgengnum flótta frá raunveruleikanum, ekki pragmatistinn.

Glærur með fyrirlestrinum

Tilvísanir

Atli Harðarson. 2009. Í sátt við óvissuna. Reykjavík: Heimspekistofnun Háskóla Íslands.

John Dewey. 1998. The Essential Dewey I. Bloomington: Indiana University Press.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *