Fórnarlömb skoðanakönnunar MMR um „persónueiginleika nokkurra stjórnmálaleiðtoga“ hafa sum brugðist illa við. Því hefur jafnvel verið haldið fram að „svona kannanir“ séu algjört ómark. Fjármálaráðherra, sem skorar ekki hátt í könnuninni, skrifaði 400 orða fésbókarfærslu þar sem hann afgreiðir könnunina sem markaðstrikk: „Svona könnun er tilvalin til að auglýsa það fyrirtæki sem hana gerir og dreifir ókeypis og til þess er leikurinn væntanlega gerður,“ segir hann þar.

Það getur vel verið að MMR geri kannanir af þessu tagi í auglýsingaskyni. Það breytir þó engu um könnunina sem slíka. Bjarni telur að niðurstöðurnar séu vart marktækar meðal annars vegna þess að spurt sé um óræða og lítt mælanlega eiginleika. Hann tekur dæmi af leiðtogahæfileikum „Hvernig er hægt að halda því fram að einstaklingar sem hafa sjálfir stofnað stjórnmálaflokk og hlotið kosningu á þing ásamt fjölda þingmanna séu ekki leiðtogar … Og hvað er átt við með … að vera fæddur leiðtogi? Hvernig fer sú mæling fram og hvenær, nákvæmlega?“

Hann telur sumar niðurstöður könnunarinnar augljóslega rangar þar sem „stjórnmálaleiðtogunum“ sé öllum vel treystandi: „Ég hef unnið með þeim öllum og þekki mörg hver orðið býsna vel. Þess vegna veit ég af eigin raun að þau geta unnið undir álagi, þau virða skoðanir annarra og þau eru heiðarlegt fólk sem maður getur treyst…“

Það er reyndar gaman að sjá að þegar á reynir er formaður Sjálfstæðisflokksins tilbúinn til að fullyrða að pólitískir andstæðingar hans, rétt eins og samherjar séu gott, traust og heiðarlegt fólk. Mig grunar reyndar að flestir þeirra sem spurt er um í könnuninni væru tilbúnir til að segja það sama um flesta hinna. Það er þó ekki að öllu leyti gott, þar sem samstaða stjórnmálamanna kyndir jú undir kenningunni um „stjórnmálastéttina“ sem eigi sinna sérhagsmuna að gæta óháð hagsmunum almennings.

En hvað er þá hægt að lesa út úr könnuninni – hvað mælir hún? Er til dæmis hægt að halda því fram, eins og Bjarni gerir, að hún krefjist þeirrar túlkunar að 95% svarenda telji að hann sé ekki í neinum tengslum við almenning? Er hægt að halda því fram að hún sé „áfellisdómur“ yfir íslenskum stjórnmálum, eða að hún sýni að almenningur vantreysti stjórnmálamönnum?

Nei, ekkert af þessu er hægt að lesa út úr könnuninni. (Það er ekki þar með sagt að íslensk stjórnmálamenning sé ekki ömurleg, það þýðir bara að þessi tiltekna könnun sýnir það ekki). Það sem hægt er að lesa út úr henni er ekki annað en það sem hún segir: Hún spyr um ákveðna eiginleika, mannkosti. Tökum fyrstu spurninguna, um heiðarleika: Níu prósent svarenda eru tilbúin til að svara því játandi að þau telji Sigmund Davíð Gunnlaugsson heiðarlegan, tíu geta sagt það um Bjarna Benediktsson og svo áfram þar til toppnum er náð: fjörutíu og sjö prósent geta sagt það um Katrínu Jakobsdóttur. Í tólftu og síðustu spurningunni, sem er einskonar samantekt, kemur fram að fimmtíu prósent svarenda telja að Sigmundur Davíð hafi engan þeirra ellefu mannkosta sem spurt er um, en fimmtán prósent að Katrín Jakobsdóttir hafi engan þeirra og hinir raða sér á milli þeirra.

Er þetta mikið eða lítið? Gott eða slæmt? Það fer eftir því við hverju er að búast. Persónulega fyndist mér það ógnvænlegri staðreynd ef níutíu prósent teldu forsætisráðherra heiðarlegan heldur en að níu prósent geri það (þótt kannski megi eitthvað í milli vera). Staðreyndin er sú að könnunin er ekki tilraun til að mæla hvort leiðtogarnir hafi tiltekna eiginleika. Hún er einungis athugun á því hve stórt hlutfall fólks er tilbúið til að fullyrða að tilteknir stjórnmálaleiðtogar séu ákveðnum kostum gæddir. Þeir sem eru tilbúnir til að fullyrða slíkt reynast vera í færri kantinum. Það er ekki endilega slæmt.

Ástæðan gæti verið sú að pólitíkin er ekki sú tegund af leik sem byggir hrifningu eða aðdáun (nema þá helst í einræðissamfélögum þar sem ákveðnum brögðum er beitt til að kalla fram hrifningu á leiðtogum). Stundum geta stjórnmálamenn búist við því að njóta virðingar í lok ferils síns og stundum skýtur stjörnum tímabundið upp á himininn. Í lýðræðissamfélagi á pólitíkin að ganga út á gagnrýni og efasemdir um einstaklinga rétt eins og flokka og stofnanir og þess vegna þurfa stjórnmálamenn að lifa við stöðugan mótbyr. Sumum finnst það auðvitað erfitt og ósanngjarnt. Fjármálaráðherrann virðist vera í þeim hópi. Þeir verða að bíta á jaxlinn. Þeir völdu þetta hlutskipti.

Katrín Jakobsdóttir líkti um daginn pólitíkinni á Íslandi við absúrd­leikrit og benti á að ekki þurfi annað en að skrifa upp samtölin í þinginu eða kópera það sem leiðtogarnir segja (stundum í fésbókarfærslum) til að hafa í höndunum leikverk samkvæmt hefð absúrdleikhússins sem stæðist jafnvel samanburð við perlur þess. Umræðan um könnun MMR er góð viðbót við þann texta, þegar persónurnar barma sér yfir hörmulegri útreið og segjast víst vera traustir, heiðarlegir, góðir, skilvirkir, duglegir og ákveðnir.

Það er ekkert skrítið eða alvarlegt við það að stjórnmálamenn fái slæma útreið í mannkostakönnunum. En það er skrítið að þeir kippi sér upp við niðurstöðuna. Nema þeir séu þá farnir að taka hlutverk sitt of hátíðlega sem persónur í leikhúsi fáránleikans.

Birt í fjórða tölublaði Stundarinnar, 7. maí 2015. Sjá vefútgáfu: http://stundin.is/pistill/personurnar-i-leikhusi-faranleikans/