Þegar rætt er um íslenska háskóla finnst sumum ofrausn að á Íslandi skuli starfa sjö háskólastofnanir. Það er talað um bruðl og sparnað og það er reiknað út að hagstæðast og best fyrir land og þjóð hljóti að vera að smala öllum sem vilja læra svipaða hluti í eina skemmu og messa yfir þeim í öflugu hátalarakerfi.

Slíkar aðferðir eru vissulega ódýrar, en eru þær að sama skapi hagkvæmar?

Við, sem störfum við Háskólann á Bifröst, leyfum okkur að efast um að svo sé. Við teljum að gæði í háskólamenntun birtist í því að rækt sé lögð við þroska og þjálfun einstaklingsins. Þessvegna höfum við byggt upp háskóla sem er ekki stærri en svo að hægt er að sinna öllum nemendum sem einstaklingum.

Við kennum ekki hjörðum, heldur litlum hópum. Við hvetjum nemendur til að leita beint til kennara sinna um leiðbeiningu og aðstoð, og við næstum drekkjum nemendum okkar í verkefnum sem eru í senn fræðileg, hagnýt og raunhæf. Þetta er kennslufræði Bifrastar og hún hefur staðist próf tímans í því að nemendur okkar ná í flestum tilfellum þeim árangri sem þeir stefna að.

Það má alltaf bæta sig, og það má alltaf spara. En hagkvæmast er að hlúa að því sem vel er gert og efla það. Þessvegna breytir engin kreppa þeim áformum Háskólans á Bifröst að halda áfram að byggja upp framúrskarandi háskólanám í Norðurárdal, rétt tæpa 100 kílómetra frá höfuðborginni.

Fréttablaðið 10. október 2009

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *