Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar og ráðherrar hennar segjast óttast að ringulreið skapist á Íslandi verði núverandi stjórnarsamstarfi slitið, boðað til kosninga og starfsstjórn skipuð fram að þeim. Það er erfitt að átta sig á rökunum fyrir þessum ótta. Þvert á móti virðist flest benda til að meiri ástæða sé til að óttast óvissuna sem fylgir því að núverandi ríkisstjórn sitji áfram og lifi í þeirri trú að umboð hennar sé óbreytt þrátt fyrir hrunið.

Það er út af fyrir sig merkilegt að því skuli haldið fram að leiðtogar á borð við forsætisráðherra, fjármálaráðherra og Seðlabankastjóra sem hafa misst svo rækilega tökin á því sem þeim var trúað fyrir, eigi að sitja áfram í embættum sínum. Stjórnendur fyrirtækja eða stofnana væru tæplega látnir halda áfram í störfum sínum eftir aðrar eins ófarir. Hversvegna eru ekki bankastjórar þrotabankanna látnir sitja áfram? Rökin fyrir því (draga úr óvissu, hafa trausta menn við stjórnvölinn) væru alveg jafn sannfærandi og rökin fyrir því að Geir Haarde og nánustu samstarfsmenn hans haldi áfram. Líklega stafar þessi trú manna á embættis- og stjórnmálamenn af því að þeir eru taldir hafa einhversskonar landsföðurhlutverki að gegna, þessvegna hljóti mikil óvissa að vera því samfara að láta þá víkja. En kannski kominn sé tími til að hrista af sér goðsögnina um landsfeður en krefjast þess frekar að þingið skipi hæft fólk til að halda á málum fram að kosningum. Miðað við aðstæður nú væru góð rök fyrir því að skipa utanþingsstjórn, ef ekki vildi svo óheppilega til að þingmenn virðast ekki þola að heyra á það minnst og telja slíka hugmynd árás á sig. En eins og sakir standa er í þó furðulegt að sá möguleiki sé ekki til umræðu.

Það myndi enga óvissu skapa að leysa Sjálfstæðisflokkinn frá störfum eftir 17 ára þjónustu hans. Þvert á móti myndi það draga úr óvissunni sem áframhaldandi stjórnarseta þeirra stjórnmálamanna sem bera mesta ábyrgð á núverandi ástandi felur í sér. Fjöldi manns, meira að segja margir þeirra sem nú sitja á þingi, eru líklegri til að taka skynsamlegar ákvarðanir um brýnustu mál heldur en þeir. En óvissan er síðasta haldreipi Sjálfstæðisflokksins og í krafti hennar ætlar flokkurinn að koma í veg fyrir að mikilvægar ákvarðanir verði teknar á næstu vikum sem myndu marka stefnu landsins í nánustu framtíð. Það kann að vera skársta strategía flokksins í stöðunni að reyna að hanga á sínu fram á vorið og ekki er að sjá á Samfylkingunni að hún ætli að þvælast fyrir Sjálfstæðismönnum, þrátt fyrir bókun ráðherranna um Seðlabankastjóra.

Spurningin er hinsvegar hvort undiraldan í samfélaginu leyfi áframhald hins sama. Um síðustu helgi tóku 1000 manns þátt í mótmælum í miðbænum. Þessi hópur á vafalaust eftir að stækka á næstu vikum. Þessvegna hljóta kjörnir fulltrúar að velta því fyrir sér hvernig bregðast þurfi við almennum mótmælum gegn stjórnvöldum. Hvort sem slík mótmæli verða kennd við flís, flauel eða eitthvað annað þá gætu þau orðið almennari en við höfum kynnst áður. Hvernig munu stjórnvöld bregðast við slíku? Með lögreglu og táragasi? Eða með því að hlusta?

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *