Íslensk stjórnmál eru drifin áfram af elítum – af hópum sem hafa tekið sér forystuhlutverk og náð þeirri stöðu að geta mótað almenningsálit. Þannig eru óformleg völd ákveðinna hópa oft umtalsverð. Dæmi um þetta eru áhrif mennta- og listamanna á pólitík eftirstríðsáranna. Vinstrihreyfingunni tókst að ná stuðningi þessa þjóðfélagshóps á tímum kalda stríðsins með því að höfða til þjóðernistilfinninga og menningarlegrar varðveislu (sumir virðast reyndar halda að vinstrimenn hafi stjórnað menningarlífinu, en með því er orsakarsamhenginu snúið við). Annað dæmi er áhrif fjármálamanna og viðskiptamógúla fyrir hrun, þegar stjórnvöld gátu í raun lítið gert án fulltingis þeirra. Þá hafði ný elíta tekið völdin.

Þetta einkenni íslenskra stjórnmála er ekkert einsdæmi, elítur eða forystuhópar eru alltaf áhrifavaldar í opnum samfélögum, en í litlu samfélagi geta áhrifin orðið svo afgerandi, þar getur einhver tiltekinn hópur hreinlega ráðið lögum og lofum á ákveðnum sviðum, stundum með hörmulegum afleiðingum eins og saga íslenska efnahagshrunsins vitnar skýrt um. En áhrifin geta líka verið góð. Ég held að áhrif menningarelítunnar hér á landi á löngu árabili hafi frekar verið til góðs en hitt. Sú forysta varð örugglega til þess að draga úr ýmsum öfgum þeirra sem fóru með stjórn landsins, fyrir nú utan að vera uppspretta heilbrigðs andófs í samfélaginu.

Íslensk elítupólitík hefur kannski komið best fram í forsetakosningum, og þá sérstaklega árin 1968 og 1980. Kristján Eldjárn sigraði keppinaut sinn með yfirburðum árið 1968 vegna þess að hann hafði stuðning þeirra sem gátu mótað almenningsálit, náðu langt út fyrir raðir vinstrimanna en byggðu þó í grunninn á þeim vinstrimiðaða mennta- og menningarkjarna sem Gunnar Thoroddsen gat tæplega höfðað til. Þó Vigdís Finnbogadóttir hafi ekki sigrað með yfirburðum – hún hafði rétt rúm 30% atkvæðanna – þá byggði sigur hennar á þessum sama kjarna. Ólafur Ragnar Grímsson hafði hann að miklu leyti sín megin í kosningunum 1996, sem hann sigraði með yfirburðum.
Í síðustu forsetakosningum var hins vegar erfitt að sjá þessar skýru línur og þess vegna eðlilegast að skýra sigur Ólafs þá með tvennu. Annars vegar vantaði trúverðugan mótframbjóðanda, því þótt Þóra Arnórsdóttir fengi mikið fylgi þá skorti hana alltaf þennan afdráttarlausa elítustuðning, fylgi hennar var dreift og alltof tengt óbeit stórs hluta þjóðarinnar á forsetanum. Hins vegar eimdi enn af þeirri hugsun fólks að það væri í andstöðu við hefðina að fella sitjandi forseta.

Hvað geta þessar vangaveltur sagt okkur um stöðuna nú? Það er greinilegt að forsetinn er alvarlega að íhuga að bjóða sig fram í sjötta sinn og leitar að réttu mælskulistinni til að skýra það. Hann hefur auðvitað fullan rétt til þess. Hann er vafalaust líka að velta fyrir sér möguleikunum á því að fram komi svo sterkur mótframbjóðandi að hann geti óttast að tapa í kosningum.
Það er merkilegt hve margir virðast telja að Ólafur hljóti að sigra ef hann býður sig fram. Það er að mínu mati engin ástæða til að halda það, að minnsta kosti ef tvennt gerist til viðbótar. Í fyrsta lagi þarf fólk að vera búið að venjast þeirri tilhugsun að það sé kannski bara í góðu lagi að forseti sem er búinn að sitja lengi í embætti fari halloka í kosningum – þekki hann ekki sinn vitjunartíma. En í öðru lagi þarf mótframbjóðanda sem hefur stuðning elítunnar – og þá er ég sérstaklega að hugsa um þann almenna hóp frjálslynds fólks sem í dag er staðsettur hægra og vinstra megin við miðju í pólitík: Þann stóra hóp velmenntaðs fólks sem hefur ríkan skerf af heilbrigðri skynsemi. Það er ekki gamla menningarelítan en þó að vissu leyti afsprengi hennar. Frambjóðandi sem hefur stuðning hennar leikur sér að því að sigra Ólaf Ragnar.

Þetta er nefnilega ekki spurning um að frambjóðandann sem getur sigrað Ólaf þurfi að uppgötva, svona eins og Dalai Lama er fundinn, heldur um samstöðu stuðningshópsins, hver svo sem frambjóðandinn er og sem betur fer held ég að það komi margir til greina sem gætu notið þeirrar almennu og óskiptu virðingar sem forseti lýðveldisins þarf að njóta.

Umhverfi stjórnmálanna er töluvert breytt frá því sem var fyrir tuttugu árum að ekki sé talað um lengri tíma. Það er líklegt að miklu fleiri hafi hug á að bjóða sig fram en áður var og hætt er við því að ef Ólafur býður sig ekki fram komi hópur misálitlegra lukkuriddara fram á sjónarsviðið. Það má því jafnvel sjá það þannig að framboð Ólafs geti verið rétta áskorunin fyrir næsta forseta. Það þarf nefnilega hetjuskap til að bjóða sig fram og kannski er það besti mælikvarði sem hægt er að hugsa sér á næsta forseta að það sé karl eða kona sem þorir í Ólaf Ragnar og vinnur hann.

Birt á vef Stundarinnar 13. desember 2015 sjá http://stund.in/PFH