Mannkostir (2002) er þriðja greinasafn Kristjáns Kristjánssonar og inniheldur ritsmíðar birtar í blöðum og tímaritum á árunum 1997-2002. Ritsmíðunum má skipta í þrjá flokka. Í fyrsta lagi eru eiginlegar fræðigreinar og fræðilegir ritdómar, í öðru lagi umfjöllun um heimspekileg efni í formi útskýringatexta eða svara við beinni og óbeinni gagnrýni og í þriðja lagi blaðagreinar sem Kristján flokkar sjálfur undir heimspekilega blaðamennsku. Aðeins tvær greinar bókarinnar eru eiginlegar fræðigreinar, en það eru grein Kristjáns „Stórmennska“ sem áður birtist í Skírni (vor 1998) og ritdómur hans um bækur Loga Gunnarssonar, einnig birtur í Skírni (haust 2001). Fimm greinum má með góðu móti koma fyrir í öðrum flokknum, en um helmingur bókarinnar eru ritsmíðar á sviði heimspekilegrar blaðamennsku. Fyrirferðamestar eru þar tíu greinar um póstmódernisma sem Kristján birti í Lesbók Morgunblaðsins haustið 1997 og hefur fellt hér í eina langa grein. Ýmsir eftirmálar þeirra skrifa taka og ærið rými. Það er því spurning hvort undirtitill bókarinnar Ritgerðir um siðfræði gefur rétta mynd af efni hennar. Bókin er ekki síður um póstmódernisma en siðfræði og það má jafnvel halda því fram að hún sé um ýmislegt fleira en þetta tvennt. En kannski er það allt siðfræði á endanum, og það má til sanns vegar færa að gagnrýni Kristjáns á aðra heimspekinga, ekki síst þá sem hann nefnir tískuheimspekinga eða poppheimspekinga er oft af siðferðilegum toga.
Kristján er afkastamikill heimspekingur. Hann er ötulli við að birta í erlendum tímaritum en flestir kollegar hans hér á landi og hann hefur lengi verið duglegur að láta til sín taka í umræðum um uppeldismál og ýmis þjóðfélagsmál. Mannkostir bera breidd og dugnaði Kristjáns ágætt vitni. Hún er hinsvegar að mörgu leyti ósamstæð bók; hún er einfaldlega það sem Kristján hefur skrifað yfir tiltekið tímabil. Sumt af því efni er pantað og þó að vissulega beri skrif Kristjáns sömu heildareinkennin gerir þetta að verkum að viðfangsefnin eru sundurleit. Heimspekileg blaðamennska Kristjáns, svör hans við gagnrýni vegna hennar, stakar blaðagreinar hans um efni á borð við alkóhólisma og fleira á mismikið erindi við þá sem kunna að hafa áhuga á heimspekilegum skrifum hans. Sum þessara skrifa standast tímans tönn betur en önnur, eins og gengur um það sem sett er saman í hita augnabliksins.
Í formála gerir Kristján grein fyrir nokkrum stefjum sem einkenni fyrri ritgerðasöfn hans og sem hann segist áfram hafa að leiðarljósi í skrifum sínum þó að um ólík efni kunni að vera. Hann bætir ekki við nýju stefi í Mannkostum en slær því fram að í henni birtist með skýrari hætti en áður eitt meginstef sem í raun gangi í gegnum öll skrif hans um heimspeki. Þetta sé veraldarhyggja eða natúralismi en samkvæmt henni fjallar siðfræðin um reglur og gildi sem liggja samlífi manna til grundvallar að því gefnu að allar slíkar reglur og öll slík gildi eigi uppruna sinn í náttúrlegu eðli og veraldlegum heimi (8-9). Kristján nefnir einnig að þessi afstaða feli í sér að siðfræði sé þá ekki annað en sálfræði og samfélagsfræði sem blönduð er heilbrigðri skynsemi um hvernig best sé að samstilla lífshætti manna.
Það má raunar segja að þetta síðastnefnda stef, samstillingarstefið, sé ekki síður áberandi í hugmyndum Kristjáns um siðfræði en veraldarhyggjan. Kristján lýsir heimspeki sinni sem vörn fyrir hugsjónir upplýsingarinnar en í henni felst ekki síst samstilling, áhersla á það sem sameinar fólk frekar en það sem sundrar því og sú sannfæring að fyrst þurfi að öðlast skilning á sameiginlegum þáttum sem „gera okkur að mönnum“, því næst að finna út hvaða „siðferði og stjórnmálakerfi“ gerir sem flestum kleift að öðlast farsæld og loks leitast við að koma því í kring (261). Verkefni heimspekinnar er því hagnýtt að dómi Kristjáns, heimspekin leitast við að afla skilnings sem getur orðið til þess að bæta líf manna, auka farsæld og það kemur fram aftur og aftur í hinum ýmsu greinum bókarinnar. Jafnframt gagnrýnir Kristján harðlega allt sem hann telur vera viðleitni til að draga möguleika þessarar hugsjónar í efa, að ekki sé talað um hugmyndir sem hann telur ráðast gegn sjálfri hugsjón upplýsingarinnar, þegar gefið er í skyn að áherslan á samstillinguna og hið sameiginlega geti gengið of langt, leitt til kúgunar frekar en frelsunar. Áköf og heitfeng andstaða Kristjáns við hverskyns póstmódernisma kemur einkum til af þeirri niðurstöðu hans að póstmódernismi sé árás á meginhugsjónir upplýsingarinnar. Loks kemst lesandinn ekki hjá því að taka eftir einu leiðarstefi enn, en það er skáldskapur Staphans G. Stephanssonar. Kristján skrifar ekki svo grein að ekki sé einhversstaðar vitnað í eitthvert ljóða Stephans G. einhverri röksemdinni til stuðnings.
Ætlunin í þessari grein um rit Kristjáns Kristjánssonar er ekki að fara í smáatriðum í gegnum allar greinar eða öll stef bókarinnar. Hér verður stiklað á stóru og litið á einstaka þætti í því skyni að velta vöngum yfir þeim rökum og viðhorfum sem birtast sterkast í heimspeki Kristjáns.

Í greininni „Fjársjóður fordómanna“ sem fjallar meðal annars um siðfræðikennslu og afstæðishyggju, bendir Kristján á mikilvægi þess að börn og unglingar komi að námi með hugmyndir í farteskinu jafnvel þó að margar þessara hugmynda séu óígrundaðar og einkennist jafnvel af fordómum. Eitt af því sem drífur kennslu áfram er einmitt sú staðreynd að það vekur venjulega forvitni fólks þegar það sér að skoðanir eða hugmyndir sem það hafði áður tekið /gengið að sem gefnum reynast vafasamar. Kristján nefnir dæmi um þetta úr raungreinum, en beinir svo athyglinni að kostum fordóma í siðfræðikennslu.
Það er að skilja á Kristjáni að veigamestu fordómarnir sem við sé að eiga í siðfræðikennslu varði afstæðishyggju um siðferðileg efni. Kristján segir afstæðishyggju algenga eða jafnvel yfirgnæfandi skoðun meðal íslenskra unglinga og bendir svo á heppilegar leiðir til að vekja efasemdir með þeim um slíka afstöðu. Mikilvægt er að áliti hans að kennari leiðist ekki út í þurrlega greiningu á hinum mismunandi gerðum hughyggju og hluthyggju heldur komi hann því svo fyrir að nemendurnir reki sig á eigin fordóma með því að láta þá orða þá á skýran hátt (44). Umræður af þessu tagi leiða svo von bráðar til þess, að mati Kristjáns, að unglingarnir sjá að það sem þeir gáfu sér um ólík gildi og grundvallarreglur í ólíkum samfélögum og fleira af því tagi rekist á við ýmsa hversdagslega reynslu.
Gallinn við umfjöllun Kristjáns, jafn sammála og maður kann að vera hinni kennslufræðilegu ábendingu, er sú að hann skuli gefa sér að afstæðishyggja sé í villukenning og til marks um fordóma þegar hún birtist í skoðunum ungs fólks. Nú kann vel að vera að með því að orða nægilega róttæka mynd afstæðishyggju sé auðvelt að sýna fram á að hún rekist á við einföld mannleg sannindi. Þetta er hinsvegar alls ekki svo einfalt þegar um er að ræða hófsamari myndir siðferðilegrar afstæðishyggju. Slík afstæðishyggja stafar alls ekki alltaf af fordómum hjá ungu fólki sem ekki hefur lagt fyrir sig heimspeki, heldur einmitt oft af því að nú orðið ferðast margir víða og sjá margt strax á unglingsárum.
Róttæk eða herská siðferðileg afstæðishyggja hafnar öllum sammælanleika siðadóma og hafnar því allri umræðu á milli ólíkra hópa um siðferðileg gildi. Slíkri afstæðishyggju má meðal annars mótmæla með því að sýna fram á að oft liggi samskonar gildi að baki ólíkum siðum og háttum og að skilnings á milli ólíkra hópa sé best aflað með því að benda á þetta. En hófsöm afstæðishyggja felur allt annað í sér. Hún segir ekki annað en að varasamt sé að leggja að jöfnu siðferðilega mælikvarða ólíkra hópa eða ólíkra menningarheilda og enn varasamara að draga þá ályktun af menningarlegum hliðstæðum að þær séu til vitnis um sammannleg gildi sem liggi öllu siðferði til grundvallar. Kristján gefur sér einfaldlega að afstæðishyggja um siðadóma grafi „undan allri skipulegri umræðu um siðferðileg efni“ hún verði í staðinn að „marklausum samkvæmisleik“ (43). Skynsamlegri niðurstaða er að verkefni siðfræðinnar sé einmitt og einkum það að grafast fyrir um og leggja drög að siðfræðilegri umræðu án þess að hafna afstæðishyggju. Hér eins og víða annarsstaðar birtist Kristján sem eindreginn talsmaður ákveðins heimspekilegs viðhorfs sem leitast við að útiloka önnur viðhorf, sýna fram á að þau séu röng eða „lemja“ á þeim. Þessi heimspekilega einsýni er stundum skýr og upplýsandi, en oftar er hún hvimleið og gagnslítil fyrir þann sem hefur áhuga á að öðlast innsýn í þau vandamál samtímaheimspeki sem Kristján fæst við.

Greinin „Stórmennska“ er sem fyrr segir sú grein bókarinnar sem helst stendur undir nafni sem sjálfstæð og fullburða fræðileg grein en í henni greinir Kristján stórmennskuhugtak Aristótelesar og gerir grein fyrir samsvarandi dygð. Skoðun Kristjáns er sú að stórmennskan sé vanmetin dygð og oft misskilin. Helsta framlag sitt til fræðilegrar umræðu um hana telur hann felast í því að hugsa til hlítar hvað það merki „ef við vildum gera manngildishugsjón stórmennskunnar að okkar“ (83) en niðurstaða hans er að sú hugsjón sé mikilvæg viðbót við þær dygðir sem einkenna gott líf.
Það er skemmst frá því að segja að greinin er að mörgu leyti vel heppnuð. Kristján gerir stuttlega grein fyrir dygðasiðfræði og endurreisn forngrískrar siðfræði í inngangi greinarinnar. Hann gerir einnig ágæta grein fyrir efasemdum um að dygðasiðfræði samtímans, sem að miklu leyti er reist á nýtúlkun á fornöldinni, geti skapað heilsteypta og boðlega siðfræðikenningu. Það er einnig mat þess sem þetta skrifar að Kristján færi sannfærandi rök fyrir því að vert sé að huga að stórmennsku og hvernig hún falli að þeim dygðum sem taldar eru mikilvægastar í samtímanum. Í raun birtist hér sú hófsama afstaða (hvort sem maður er nú tilbúinn til að fallast á hana eða ekki) að stórmennska sé, eins og margar aðrar dygðir fornaldar, frjór jarðvegur fyrir siðferðishugsun jafnvel þó að við séum ekki tilbúin til að taka hana upp gagnrýnislaust og í heilu lagi.
Nú gæti maður haldið því fram að það sé á vissan hátt mótsagnakennt að gera svo mikið úr mikilvægi einstakrar dygðar á borð við stórmennsku en halda sig samt í orði fyllilega við meginlínur upplýsingarinnar. En slík mótsögn, ef um mótsögn er að ræða, kemur til af einfaldri ástæðu. Kristján kallar sig nytjastefnumann og það er hann að vissu marki, en hann er þó fyrst og fremst nokkurskonar úrvalshyggjumaður í siðfræði sem birtist í því að hann leitar fanga í klassískum kenningum rétt eins og í siðfræðikenningum nýaldar. Veraldarhyggjustefið sem Kristján segir að einkenni skrif sín í Mannkostum birtist hér sem regla um val: Kristjáni hugnast þær kenningar og sannfæringar sem falla að veraldarhyggju og þá skiptir ekki meginmáli hvernig þær flokkast að öðru leyti.
Lesandinn kemst hinsvegar ekki hjá því að loknum lestri þessarar greinar Kristjáns að velta því fyrir sér hvort stórmennska sé mikilvæg dygð, ekki síst í ljósi þess sem Kristján segir vera sannfæringu sína að heimspekin eigi að breyta heiminum. Er stórmennskan dygð af því tagi að hún bæti siðlegri vídd við lífið sem menn færu á mis við án hennar? Er hugsanlega rétt hjá Kristjáni að auðmýkt eða lítillæti nægi engan veginn og kunni jafnvel að verða dragbítur á persónulegt siðferði – koma í veg fyrir að menn njóti sín og njóti sannmælis fyrir siðferðilega eiginleika sína? Hann skrifar: „Það er erfitt að njóta sín með þann djöful í dragi að mega ekki kannast við fyrir sjálfum sér að siðleg staða manns kunni að vera betri en ýmissa annarra – sé hún það í raun!“ (105). Þannig færir Kristján rök fyrir því að stórmennskan sé nauðsynleg dygð, þótt með óbeinum hætti sé; hún er sú dygð sem einkennir framúrskarandi einstakling sem jafnframt veit af því að hann er framúrskarandi og reynir ekki að leyna því eða gera lítið úr því.
Þó að hugsanlega megi fallast á að stórmennska geti farið saman við dygðugt líf sé ég ekki betur en Kristján ofmeti stórmennskuna en vanmeti eða geri lítið úr dygðum á borð við auðmýkt. Hann ruglar einfaldlega saman auðmýkt sem sprettur af vanmetakennd og auðmýkt sem sprettur af þeirri ákvörðun eða lífsafstöðu að hefja sig ekki upp yfir annað fólk. Það er samskonar afstaða og þegar fólk lætur vera að hælast um af afrekum sínum, gerir ekki mikið úr sigrum sem það hefur unnið og breytir ekki tengslum sínum við annað fólk jafnvel þó að það hafi náð meiri árangri á ýmsum sviðum. Auðmýkt af þessu tagi er auðvitað snar þáttur í kristnu siðferði en mig grunar að hennar megi sjá merki í allri siðfræði nýaldar. Sú sjálfsgagnrýni sem auðmýktin boðar er í beinni andstöðu við stórmennskudrauma Kristjáns, rétt eins og hún er andstæð ofurmennishugmyndum Nietzsches. Það er því erfitt að fallast á þá niðurstöðu Kristjáns að stórmennskan sé mikilvæg dygð. Þvert á móti virðist hún fela í sér hættur frekar en að hún opni betri skilning á því hvernig gott siðferði er samsett. Sú staðhæfing Kristjáns að siðferðileg afstaða okkar eigi að rúma þá staðreynd að sumir verðskulda minni virðingu en aðrir (105) varðar allt annað en stórmennskuna og jafnvel ekki siðferði nema að hluta. Auðvitað má ég koma fram við þann sem ég ber litla virðingu fyrir í samræmi við það og ekkert er eðlilegra en að sniðganga þann sem hefur valdið manni vonbrigðum eða svikið mann. En þetta er ekki hið sama og að mismuna öðrum einstaklingi vegna siðferðilegra ávirðinga hans. Framkoma samstarfsmanns míns við foreldra sína eða börn getur verið til háborinnar skammar en á það að breyta afstöðu minni til þess hvort hann á að fá kauphækkun? Þessari spurningu er vandsvarað – það er hægt að hugsa sér aðstæður þar sem svo kynni að vera en þó hlýtur maður alltaf að gera greinarmun á þeirri virðingu sem manneskja á skilda til dæmis sem fagmanneskja eða samstarfsmaður og þeirri sem hún á skilda sem foreldri eða sonur eða dóttir.
„Hvernig á að kenna ungu fólki“ spyr Kristján „að reiðast, eða vera afbrýðisamt á réttan hátt og innan réttra marka, án þess að um leið sé espuð upp í því smámunasemi og fyrtni?“ (110). Hér er á ferðinni afhjúpandi spurning sem kannski skýrir að sumu leyti afstöðu og nálgun Kristjáns til siðfræðinnar. Hann telur að hlutverk siðfræðinga sé meðal annars að kenna ungu fólki að reiðast og vera afbrýðissamt „á réttan hátt“. Þessi kennsla siðfræðinganna krefst þess að þeir geti boðið upp á manngildishugsjón sem sé bæði aðlaðandi, rökrétt og í tengslum við menningu og arf (ef ég skil Kristján rétt). Þannig er stórmennskan og fleiri dygðir úr forngrískri heimspeki í miklu samræmi við sagnaarf Íslendinga og hér er kannski komin meginréttlæting þess í augum Kristjáns að gera svo mikið úr stórmennskunni (þó að hann segi það reyndar ekki hreint út). En það má setja þetta í annað samhengi líka: Varla þarf sérfræðinga til að kenna ungu fólki að reiðast og síst af öllu ættum við að óska eftir sérfræðiaðstoð við að reiðast rétt. Hinsvegar þarfnast hver mannseskja þess að geta hugleitt eigin tilfinningar, fundið í þeim rökvísina og lært að hafa áhrif á þær. Eru siðfræðingar með gildisdóma sína og kröfu um að allt sé mælanlegt á mælikvarða sannleika og lygi, réttrar og rangrar breytni, góðs og ills, sérlega gagnlegir í þeirri viðleitni? Ég held ekki, síst af öllu þegar manngildishugsjónir þeirra setja þá á jafn mikið flug og Kristján Kristjánsson í grein sinni um stórmennskuna.
Styrkleiki þessarar greinar felst í ágætri greiningu á þeim hugtökum sem Kristjáni eru hugleiknust, með stórmennskuna í miðpunkti að sjálfsögðu. Efasemdir hljóta hinsvegar að vakna þegar hann reynir að setja þessa greiningu í pólitískt og uppeldislegt samhengi. Kannski má segja svipað um Kristján og Martha Nussbaum segir á einum stað um Nietzsche: Á meðan hann heldur sig við siðferðilega sálarfræði í þröngum skilningi er áhugavert að fylgjast með honum. En draumurinn breytist í martröð þegar hann ætlar að fara að beita niðurstöðum sínum á hagnýt og hversdagleg efni. Mér virðast stórmennskuhugmyndir eiga álíka lítið erindi í pólitík og kynórar í kaþólskum prestskap.
En þetta er flókið efni sem þó höfðar furðu sterkt til íslenskra heimspekinga því að nú hefur Róbert Haraldsson svarað Kristjáni á sama vettvangi (Skírnir vor 2004) um stórmennsku og þar virðist margt gefa tilefni til rökræðna þeirra Kristjáns um þetta efni. Hér er því best að láta staðar numið um stórmennsku.

Ég sagði í upphafi að póstmódernismi væri ekki síður meginefni bókarinnar en siðfræði. „Tíðarandi í aldarlok“, tíu greina flokkur Kristjáns frá haustinu 1997 er upphafið að gagnrýni hans á póstmódernisma sem hefur leitt af sér talsverðar ritdeilur síðan. Það er að sumu leyti fróðlegt að renna í gegnum þessar deilur aftur – eða öllu heldur í gegnum hlut Kristjáns í þeim. Það sem slær mig er tvennt: Í fyrsta lagi hitinn í málflutningi Kristjáns. Í greinaflokki hans eru mikil stóryrði um póstmódernisma og póstmódernista. Staðhæfingar þeirra og niðurstöður kallar Kristján iðulega firrur, hann segir póstmódernisma hafa „saurgað“ ímynd femínisma, hann fullyrðir að það sem þekktir heimspekingar á borð við Derrida segja um heimspeki, jafnvel eigin heimspeki sé „óskiljanlegt blaður“ og svo má áfram telja (t.d. 213, 216). Í öðru lagi alhæfingar hans um póstmódernisma og póstmódernista, en hann virðist líta svo á að það sé engum vandkvæðum bundið að vísa til póstmódernista almennt eins og þeir séu samstæður hópur manna með kenningu sem bæði er hægt að þekkja af einstökum verkum og staðhæfingum og sem leiðir af sér tiltekna sýn á listir, fræði, stjórnmál og mannlegt samfélag. Sú einföldun sem hér er á ferðinni veldur því að skrif Kristjáns eru stundum strákslega gróf, stundum allt að því einfeldningsleg. Eðlilegast væri, úr því að Kristján telur skrif sín um póstmódernisma til heimspekilegrar blaðamennsku, að taka hann á orðinu og komast að þeirri niðurstöðu að heimspekileg blaðamennska sé þá ákveðin tegund æsiblaðamennsku. Kannski eru heimspekileg markmið Kristjáns með þessum skrifum einmitt sambærileg við markmið æsiblaðamannsins. Hann vill búa til sögu um póstmódernismann, hneykslanlega sögu, sem kallar fram hjá lesandanum ákafa andúð á því sem hinn heimspekilegi æsiblaðamaður lýsir. Þessu markmiði nær Kristján vafalaust með marga lesendur sína. Það svarar hinsvegar ekki spurningunni um hvort markmið sem þessi séu líkleg til að geta af sér áhugaverða umfjöllun. Græðir maður eitthvað á því að lesa það sem Kristján hefur skrifað um póstmódernisma? Er maður fróðari? Er eitthvað sem maður skilur betur? Um þetta hef ég talsverðar efasemdir.
Í greinaflokknum „Tíðarandi í aldarlok“ (hér eftir Tíðarandinn) byrjar Kristján á því að draga upp mynd af samtíðinni þar sem ákveðin breyting, sem jafnvel má kalla hnignun hefur átt sér stað að hans mati. Tíðarandi ræðst ekki lengur af leitandi og mótandi sýn heimspeki og vísinda heldur hefur ákveðinn samfélagshópur, loddarar sem Kristján nefnir einu nafni kjaftastéttirnar, tekið völdin. „Kjaftastéttir“ eru lauslegt hugtak yfir þá sem fást við menninguna í víðum skilningi: Háskólafólk í félagsvísindum af ýmsu tagi, fjölmiðlafólk, álitsgjafa þar með talda væntanlega, og ýmsa fleiri (173). Viðhorf og heimsmynd þessa fólks mótast af fáfræði og allskyns tískubundnum bábiljum sem það bítur í sig að áliti Kristjáns (174). Hann fjallar fyrst stuttlega um módernisma sem undanfara póstmódernisma og tengsl þeirra, þá um þá fjóra franska heimspekinga sem helst hafa verið tengdir póstmódernismanum og gerir því næst grein fyrir inntaki póstmódernismans. Loks fjallar hann um áhrif póstmódernisma í listum, menntun og á fleiri sviðum. Hann heldur fram að póstmódernismi sé þversagnakenndur og flestar skoðanir sem mest ber á í skoðanaflóru póstmódernista á endanum rökleysur. Eins og þetta yfirlit sýnir er greinaflokkur Kristjáns því fyrst og fremst árás á póstmódernisma og tilraun til að sýna fram á að hann sé í besta falli tískubylgja sem fljótt muni ganga yfir; í versta falli bölvaldur í hug- og félagsvísindum samtímans.
Nú er hægt að hafa margar skoðanir á viðhorfum, einstökum röksemdum og staðhæfingum þeirra sem ýmist kalla sig póstmódernista sjálfir eða hafa hlotið þá nafngift frá öðrum. Það er ekkert að hinni áköfu fordæmingu Kristjáns á einstökum fræðilegum skoðunum sem hann telur rökleysur eða einfaldlega rangar telji hann sig hafa rök sem leiða í ljós að svo sé. Hitinn í greinunum er því tvímælalaust kostur – það er ekkert blóðleysi í því sem Kristján skrifar, þvert á móti og vafalaust getur sú staðreynd ein kveikt í lesendum að kynna sér umfjöllunarefnið betur. Hitt atriðið, alhæfingarnar, vekja hinsvegar efasemdir. Það er ákaflega hæpið að fullyrða eins og Kristján gerir að póstmódernistar hafi þessa skoðun eða hina nema um leið sé tiltekið um hvaða póstmódernista er verið að tala. Tökum dæmi. Kristján segir: „Póstmódernistar hafna […] öllum hugmyndum um sjálfstæðan ytri veruleika eða hlutlægt manneðli“ (191). Þetta eru ólíkir hlutir. Að hafna hugmyndum um sjálfstæðan ytri veruleika er þekkt úr heimspeki nýaldar sem hughyggja af ákveðnu tagi. Að hafna því að til sé sjálfstætt manneðli er dálítið önnur og flóknari hugsun og kannski ekki alveg ljóst hvenær sjálfstæðu manneðli er alfarið hafnað og hvenær ekki. Það sem Kristján á væntanlega við er að margir heimspekingar samtímans hafa litið svo á að skýringa á breytni manna eða hugmyndum sé ekki að leita í tilteknum staðreyndum um eðli þeirra eða í ytri veruleika sem óháður sé mannlegu samfélagi. Skýringanna sé fyrst og fremst að leita í samfélaginu sjálfu. Þessi hugmynd kemur að sjálfsögðu fram í einum búningi hjá Marx en síðari tíma heimspekingar hafa sett hana í ýmis önnur samhengi. Staðhæfing Kristjáns er ekki röng, en hún er ekki hjálpleg fyrir þann sem hefur áhuga á að skilja hvað að baki býr.
Því miður er flest það sem Kristján segir um póstmódernista þessu sama marki brennt – um er að ræða alhæfingar sem hjálpa lítt fróðleiksfúsum lesendum en skapa óhjákvæmilega óþol hjá hinum sem til þekkja og vita að málin eru alltaf ofurlítið flóknari en svo að hægt sé að afgreiða þau með einni skammagusu. Nú kann að vera að einfaldanir Kristjáns og alhæfingar réttlætist í augum hans af því að þessi skrif flokkist undir heimspekilega blaðamennsku fremur en eiginlega heimspeki. En það sjónarmið gengur tæpast upp, vegna þess sem fyrr var sagt, markmiðin virðast vera markmið æsiblaðamennskunnar. Heimspekileg blaðamennska, eins og ég skil hana og eins og margir heimspekingar hafa stundað hana, hefur þann tilgang að kynna fólki einstaka heimspekinga, vandamál, stefnur og strauma í heimspeki. Skrif Kristjáns uppfylla engan veginn þau skilyrði þar sem tilgangur hans virðist fyrst og fremst vera sá að sýna lesendum sem lítið vita um póstmódernisma fram á að hann sé ákaflega slæmur án þess að gera það sem alltaf verður að gera þegar verið er að gaumgæfa röksemdir og afstöðu í heimspeki: Grafast fyrir um það hvaða markmið liggi að baki, hvaða vanda verið sé að bregðast við með tilteknum hætti og svo framvegis. Slíku veitir Kristján enga athygli. Í meðförum hans eru póstmódernistar einhverskonar klaufabárðar sem í tilraunum sínum til að hugsa og tala um heiminn gera hverja villuna á fætur öðrum, afbaka og misnota það sem skýrir og fágaðir heimspekingar hafa haldið fram á undan þeim. En hvaða tilgang skyldu þeir hafa með skrifum sínum? Við hverju eru þeir að bregðast? Í hverskonar heimi lifa þeir? Kristján gerir litlar tilraunir til að grafast fyrir um slíkt.
Ég hef lítið fjallað efnislega um viðhorf Kristjáns Kristjánssonar til póstmódernisma og ætla ekki að gera það hér, enda hafa margir brugðist við einstökum atriðum í greinum hans og hann svarað slíkri gagnrýni. Mér finnst hinsvegar mikilvægt að veita hinum röklegu tökum Kristjáns á þessu viðfangsefni athygli, en mér virðast þau því miður vera æði losaraleg. Það versta er sú hugmynd Kristjáns um póstmódernisma að hann sé stefna í heimspeki, kannski pólitísk heimspekistefna, sem tilteknir menn aðhyllist. Með þessu virðist mér Kristján skilja kjarnann frá hisminu en einhenda sér svo í að skoða hismið frekar en kjarnann. Í mínum augum er það sem einu nafni er nefnt póstmódernismi heiti yfir margvíslegar tilraunir í listum, bókmenntum, heimspeki og fræðum sem allar eru komnar til af svipuðum efasemdum eða óþægindum um nútímann. Að ætla sér að fara að fella heildardóm yfir póstmódernisma ef hann er skilinn svo, er augljóslega rökleysa og lítið á slíkum stílæfingum að græða.
Hugmynd Kristjáns um póstmódernisma sem einhverskonar heimspekilega pólitík sem hægt sé að saka menn um að aðhyllast hefur auk þess vondar afleiðingar. Í svargrein við gagnrýni Þorsteins Gylfasonar á Tíðarandann setur Kristján fram þrjár ábendingarskilgreiningar sem hann nefnir svo, sem hægt sé að beita til að bera kennsl á póstmódernisma. Í þeirri fyrstu lýsir hann dálítið óvæntu viðhorfi ákveðinna talsmanna heyrnleysingja til aðgerðar sem kann að leiða til þess hægt verði að gæða börn heyrn sem fæðst hafa heyrnarlaus. Sú röksemd hefur heyrst að þetta sé ekki nauðsynlega af hinu góða. Um sé að ræða breytingu á einstaklingi sem gengur út frá því að tiltekið einkenni hans sé fötlun og því beri að eyða. Ekki sé hinsvegar nauðsynlegt að líta svo á að heyrnarleysi sé fötlun. Það sé öllu heldur sérkenni og því mikilvægur hluti af sjálfsmynd og þroska einstaklingsins. Hér hefur Kristján upp vísifingurinn og kallar: Póstmódernismi! (246). Næsta dæmi sem hann tekur varðar þá hugmynd að veruleikinn sé texti og mismundandi veruleikar séu ekki sammælanlegir, hugmyndasagan ekki saga framfara heldur fallvaltleika. Póstmódernismi! (247). Segir Kristján. Þriðja dæmið varðar þá hugmynd að allar staðhæfingar og skoðanir ráðist af menningarlegu samhengi og því sé engin leið að finna hlutlægan sannleika sem standi nær veruleikanum en aðrar túlkanir. Og enn kallar Kristján: Póstmódernismi! (248). Gallinn á dæmunum er sá, þetta ætti Kristján að skilja sem hámenntaður heimspekingur, að þau segja okkur ekkert um póstmódernisma og ekkert um póstmódernista. Hversvegna ekki? Vegna þess að um er að ræða rök og viðhorf sem ein og sér eru ekki nægjanleg forsenda þess að sá sem hugleiðir þau og heldur fram sé póstmódernisti. Vegna þess að maður getur verið póstmódernisti en engu að síður haft aðrar skoðanir en þær sem Kristján lýsir á hverju einstöku þessara efna eða þeim öllum.
Ábendingarskilgreiningar á borð við þær sem Kristján beitir hér eru algengastar í samhengi pólitískra öfgastefna á borð við fasisma og stalínisma, og kannski mætti bæta við öðrum –isma, McCarthyisma. Einfaldar og villandi hugmyndir sem notaðar eru til að saka talsmenn ákveðinna skoðana um að vera á mála hjá illum öflum, eða um að aðhyllast hataða hugmyndafræði, eru fylgifiskur nornaveiða. Það þarf ekki að gera annað en að hugsa sér samskonar ábendingarskilgreiningar í tilraunum til að bera kennsl á hættulegan kommúnisma eða annað sem vafasamt er talið. Nú veit ég vel að Kristján er ekki pólitískur öfgamaður og það er alls ekki sanngjarnt að saka hann um að vera af sauðahúsi McCarthys. En hann ætti að vara sig á ábendingarskilgreiningunum. Það er ekki góður leikur að beita þeim í vörn á þann hátt sem hann gerir – það er einfaldlega of líklegt til að valda misskilningi.
Í svargrein Kristjáns til Þorsteins Gylfasonar og í öðru andsvari vegna greinar sem Guðni Elísson (TMM 59 1998) birti um Tíðarandann kemur ýmislegt athyglisvert fram um það sem Kristján telur vera hlutverk heimspekinga. Mér virðist Kristján telja að fræðsluhlutverkið sé kjarninn í þessu. Hann segist sjálfur hafa „óslökkvandi löngun til að upplýsa fólk um það sem sé að gerast í fræðaheiminum“ (242). Hann líkir háskólakennurum einnig við bifvélavirkja og bendir á að þeir hafi almennt fræðslu- eða vegsagnarskyldu gagnvart almenningi vegna sérþekkingar sinnar (280). Mennta- og fræðsluhugsjón sinni teflir Kristján leynt og ljóst fram gegn póstmódernismanum og til varnar upplýsingunni og grunngildum hennar. Gegn upplýsingunni beinist það sem Kristján kallar frábrigðafræði, forpokunarfræði og aflýsingu en hann er talsmaður samstillingar, víðsýni, skilnings og frelsis að ekki sé talað um skýrleikann sem hann telur einkenna marga helstu heimspekinga síðari alda á meðan loðmulla er höfuðeinkenni póstmódernista (254). Nú er alltaf erfitt að setja sig upp á móti fögrum hugsjónum og vissulega er menntahugsjón Kristjáns fögur þó að hún birtist fyrst og fremst í linnulausri baráttu hans gegn póstmódernismanum. Kristján telur póstmódernismann afmenntandi, hann er hættulegur vegna þess að hann minnkar möguleika manna á því að auka skilning sinn og njóta þess besta í menningunni. Kristján hafnar þeirri algengu skoðun síðari tíma, sem ekki síst ber á hjá róttækum heimspekingum, að arfleifð upplýsingarinnar og sá mannskilningur sem tengist bæði henni og fleiri viðteknum heimspekilegum viðhorfum nýaldar sé vafasamur og skýrist af valdahagsmunum fremur en af þekkingarhugsjóninni. Kristján dregur ekki í efa að heimspekileg afstaða sem mark er á takandi verði að fela í sér þá algildiskröfu sem gerir ráð fyrir að hún eigi jafnvel við undir öllum kringumstæðum. Ef svo er ekki er hættan alltaf sú að hún „þynnist út í nánast ekki neitt“ (260-261).
Þannig má segja að menntahugsjónin, algildiskrafan og samstillingarstefið einkenni heimspekilegan málflutning Kristjáns og því má umorða gagnrýni hans á póstmódernisma svo að þar sé um að ræða áhyggjur af hnignun menntunar, árás á hverskyns afstæðishyggju og mótmæli gegn frábrigðum – í þeim skilningi að menningarmunur eða annar grundvallarmunur komi í veg fyrir að menn geti stillt saman formlegan grunn sáttagjörðar um samfélagið. Hér er vandi lesandans eftirfarandi: Það sem Kristján stillir upp sem andstæðum þurfa ekki að vera neinar andstæður. Og það sem meira er, það virðist villandi og óhjálplegt að leitast við að draga fram andstæðurnar a þann hátt sem Kristján gerir.
Lítum fyrst á menntahugsjónina. Er líklegt að sú launhæðna afstaða sem birtist í því að leggja áherslu á hvernig gildi einstakra samfélaga og menningarheilda endurspegli fyrst og fremst félagslega sýn þeirra á sjálfar sig, og sama gildi um manns eigin menningu, leiði til hnignunar og „aflýsingar“? Þetta telur Kristján eina afleiðingu póstmódernismans (218). Eða er hugsanlegt að með því að öðlast vitræna fjarlægð á eigin menningu og menningarleg gildi muni fólk eiga auðveldara með að skilja og setja sig í spor annarra? Ég sé engin sérstök rök fyrir því að launhæðni á borð við þá sem er að finna hjá Rorty hafi þær hörmulegu afleiðingar sem Kristján telur (248).
Algildiskrafan er ein þeirra frumkrafna heimspekinnar sem Kristjáni finnst mikilvægt að ríghalda í. Hann gengur jafnvel svo langt að telja heimspeki Johns Rawls vera að þynnast út vegna þess að Rawls viðurkenni að réttlætiskenning leggi ekki nauðsynlega drög að algildum forsendum félagslegs réttlætis (259-260). Það er ljóst af mörgu öðru sem Kristján segir í bókinni að hann telur hlutverk heimspekinga felast í því að leita forsendna og reglna sem kalla megi algildar. Um leið og látið er í það skína að svo kunni að vera að engar algildar forsendur siðferðis, þekkingar, rökhugsunar eða veruleika verði fundnar hlýtur það að jafngilda því í augum Kristjáns að efasemdir séu hafðar um heimspekina sjálfa. Ef heimspekin er ekki í því að finna algildar forsendur, hvað er hún þá að gera yfirleitt? Nú má segja, með talsverðri einföldun, að undanfarin 200 ár hafi heimspekin skipst í tvennt. Annarsvegar eru heimspekingar sem hafa fyrst og fremst áhuga á því að hugsa um almennan vanda mannlífs, tilvistar, þekkingar og svo framvegis í ljósi þess að engin algild sannindi liggi mannlegri tilveru eða samfélagi til grundvallar. Við þessu ástandi má bregðast á mjög marga vegu, enda eru heimspekistraumar 19. og 20. aldar ákaflega margir og misjafnir. Í þessum hópi má telja pragmatista og tilvistarheimspekinga, einnig fyrirbærafræðinga að vissu leyti og marga málheimspekinga. Hinsvegar eru heimspekingar sem líta svo á að köllun heimspekinnar felist í því að finna leiðir til að verja þá heimssýn heimspekinnar, sem vissulega hefur fylgt henni frá því í árdaga, að þekkingu, gildi og veruleika þurfi að skýra í almennustu grundvallaratriðum. Í þessum hópi eru margir færustu rökfræðingar og frumspekingar síðustu alda ásamt vísindaheimspekingum, trúarlegum heimspekingum og ýmsum öðrum. Það má segja að höfuðkostur fyrri hópsins sé hugkvæmni, hugmyndir og merkileg úrvinnsla þeirra. Höfuðkostur seinni hópsins er hinsvegar nákvæmni og skerpa. Þegar Kristján setur algildiskröfuna í öndvegi skipar hann sér í þennan hóp, þar vill hann vera, meðal hinna nákvæmu og skörpu. Það er ekkert að því að taka afdráttarlausa afstöðu. En gagnrýni Kristjáns á póstmódernisma, þegar algildiskrafan er annarsvegar, er smituð þeim misskilningi að hægt sé að krefjast þess að það sem einkennir suma heimspekinga og suma heimspeki sé mælikvarði gæða allrar heimspeki. Slíkur misskilningur er oftast einkenni heimspekilegrar þröngsýni.
Samstillingarstefið er sumpart afleiðing menntahugsjónarinnar og algildiskröfunnar, sumpart sjálfstæð siðferðileg og pólitísk hugsjón. Það snýst um að finna megi mannleg grundvallarverðmæti, hvort sem það er í formi lífsgilda eða leikreglna, og miða félagslegt skipulag við þau (sjá 34-37). Samstillingarstefinu er þannig beint gegn því sem Kristján nefnir frábrigðafræði (politics of difference) og það beinist að vissu marki gegn fjölmenningarstefnu. Það kristallast þó í þeim orðum Kristjáns sem áður var vitnað til að fyrst þurfi að leggja niður grunngildin, þá þætti sem allir menn eiga sameiginlega, það sem gerir þá að mönnum; svo að ákveða hvernig byggja beri upp rétt siðferði og rétt samfélag (261). Óþægindin sem þessi einfalda krafa koma af stað hjá mér eru eftirfarandi. Þegar boðað er að eitthvað þurfi að gera, kemst ég ekki hjá því að hugsa um næsta skref: einhver þarf að gera það. Þetta er lykilspurning í þeim fræðum sem Kristján er að finna að. Ein af helstu niðurstöðum heimspekinnar undanfarna áratugi er einmitt sú að skynsemishugsjón Kants, þar sem skynsemin fær að leika lausum hala á opinberum vettvangi og að sá vettvangur sé þessvegna frjáls, sé villandi og að opinber vettvangur sé ekki síður háður flóknu valdatafli en annar mannlegur vettvangur. Þegar farið er að samstilla og ákvarða hin æðstu gæði verður því seint litið framhjá hagsmunum, völdum og styrk því að styrkur mun á endanum ráða mestu um það hvaða réttlætisskilningur og hverra verði litið á sem algilt réttlæti. Þetta er vandi samstillingarinnar: Hún er leið útilokunarinnar ekki síður en opnunar og sú staðreynd er óháð því hvort eða hversu mikið afstæðishyggjufólk við kjósum að vera.
Menntahugsjón, algildi og samstilling eru verðug umhugsunarefni í heimspeki. En í heimspeki eins og annarsstaðar verða menn að forðast að stilla upp of þröngum valkostum. Annað hvort ertu með mér eða á móti mér, annað hvort leiðir heimspekileg stefna til hnignunar og úrkynjunar eða til eilífrar dýrðar. Ekki svo að skilja að Kristján haldi slíku fram, en hann sést ekki fyrir og óðar er lesandinn farinn að hafa áhyggjur af margvíslegum afleiðingum þess að fallast á það sem Kristján segir. Sterkustu hughrifin sem bókin skilur eftir sig, að hluta en ekki öllu leyti vegna þess að maður les hana frá upphafi til enda (þó að augljóslega sé hægt að lesa hana í hina áttina líka), eru þau að Kristján vilji verja þá heimspeki, eða þann hluta hug- eða mannvísinda, sem honum virðist hætta steðja að frá kjaftastéttunum. Að vísu slær hann úr og í hvað þetta varðar. Stundum talar hann til dæmis um póstmódernismann sem tísku er fljótt muni ganga yfir og hverfa, stundum talar hann eins og póstmódernisminn sé til marks um vitsmunalega hnignun samfélagsins. Sjálfum finnst mér það mjög orðum aukið að hætta steðji að heimspeki frá öðrum greinum eða öðrum geirum samfélagsins. Þvert á móti er hægt að færa rök fyrir því að margar hræringar í stjórnmálum og heimspeki Vesturlanda gefi ástæðu til bjartsýni um opnari og skemmtilegri rökræðu um pólitík heldur en á árum kalda stríðsins, um að fleiri og betri leiðir opnist fyrir einstaklinga og samtök til að láta gott af sér leiða og leggja sitt af mörkum til þess að minnka hungur og stríð, þessa tvö helstu bölvalda mannkynsins. Hugmyndir, róttækni og nýjabrum kemur ekki síst frá þeim hópi háskólafólks og aktífista sem Kristján dæmir svo hart fyrir ótækan póstmódernisma. Ég veit ekki hvort hugmynd Kristjáns með greinaflokki sínum um póstmódernisma var í upphafi að „forða oss frá illu“ – að benda fólki á bölið í því skyni að koma í veg fyrir að menn ánetjist því. En við því er á endanum aðeins það að segja að ef til vill er hyggilegra þegar til lengri tíma er litið að rækta heimspekilegar dygðir sínar með öðrum hætti en þeim að útmála lesti óvinanna. Það er að mínu mati miklu meiri öfugþróun fólgin í útilokunaráráttunni sem einkennir margan heimspekinginn og Kristján Kristjánsson í ríkum mæli, heldur en í þeim hringum og krókaleiðum sem póstmódernisminn hefur haft í för með sér í vestrænum hugvísindum á síðustu árum.
Kristján tiltekur með velþóknun eitt sorglegasta dæmið um árásgjarna tilraun til útilokunar á síðari árum, að margir virtir heimspekingar skrifuðu undir bænarskjal til Cambridge háskóla þar sem óskað var eftir því að hætt yrði við að veita franska heimspekingnum Jacques Derrida heiðursdoktorsnafnbót þar sem verk hans væru óvísindaleg (251 – Það er að vísu ekki rétt hjá Kristjáni að hér hafi verið um bænarskjal til háskólans að ræða. Heimspekingarnir birtu opið bréf í London Times. Eins er það rangt hjá honum að Elizabeth Anscombe hafi verið í hópi þeirra sem skrifuðu undir bréfið). Sem betur fór reyndust háskólayfirvöld vitrari en heimspekingarnir að þessu sinni og ekki var hætt við það sem til stóð. Það er kannski ekki vanþörf á því stundum að minna á að margir merkir heimspekingar hafa í gegnum tíðina verið úthrópaðir loddarar og fúskarar af kollegum sínum sem hafa ekkert viljað af þeim vita og reynt að sýna fram á að þeir væru alls ekki heimspekingar. Sumir rökgreiningarheimspekingar halda því fram að margir af helstu hugsuðum síðari alda hafi ekki verið heimspekingar heldur einhverskonar bókmenntamenn eða kjaftaskar. Þetta hefur verið sagt um Rousseau, Nietzsche, Kierkegaard og marga fleiri. Mín skoðun er sú að yfirlýsingar af þessu tagi séu oftast annaðhvort marklausar eða rangar. Meinsemdin er hinsvegar sú að opin bréf og yfirlýsingar um slíkt skapa úlfúð og sundurlyndi meðal heimspekinga og annarra sem fást við hugvísindi hvort heldur sem þeir gera það sem áhugamenn eða atvinnumenn.
Ég hef ekki fjallað um allar greinar bókarinnar í þessum ritdómi, enda í sjálfu sér ekki þörf á því, meginhugmyndir Kristjáns eru skýrar og þær koma fram með ýmsum hætti í greinunum sem í bókinni birtast. Það er þó vert að nefna hér sérstaklega ítarlegan dóm Kristjáns um tvær bækur Loga Gunnarssonar sem birtist í Skírni árið 2001. Greinin er gagnlegt yfirlit yfir bækur Loga og segir skilmerkilega frá þeim, einkum þeirri bók sem fyrr er fjallað um, Making Moral Sense en hún kom út hjá Cambridge University Press árið 2000. Það kemur hinsvegar óþægilega við lesandann hve hástemmt lof Kristjáns er um Loga. Rétt eins og póstmódernistar voru áður fulltrúar hins illa, þannig verður Logi nú að merkisbera alls hins besta í íslenskri heimspeki og sýni að nú séu „landvinningar“ í nánd. Það er gott að geta hælt öðrum þannig að maður hæli sjálfum sér um leið, en hér held ég að lofið sé hér orðið oflof og því hlægilegt: Á því skyldi maður vara sig.
En hér er rétt að láta staðar numið. Mannkostir vekja lesandann sannarlega til umhugsunar – ekki síst þá sem hneigjast til að vera ósammála Kristjáni um eitt og annað. Er þetta góð bók? Það er kannski ekki rétta spurningin. Kristján hefur kosið að taka greinar sínar frá undanförnum árum saman og gefa út á bók. Það er góð leið til að halda verkum sínum að lesendum og það sem Kristján skrifar á skilið að vera lesið – hann á það sameiginlegt með heimspekingum á borð við Richard Rorty og Jacques Derrida að hann hrærir í, vekur til umhugsunar, þó að ef til vill megi kalla afdráttarleysi hans afdráttarlausa íhaldsemi fremur en róttækni.

Birt í tímaritinu Hugur, 16. árg. 2004.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *