Lærdómsmaðurinn Hannes H. Gissurarson hélt því fram á facebook síðu sinni um daginn að fámennur hópur vinstri manna ynni ákaft að því að setja nýja stjórnarskrá sem gæfi fyrirheit „um að ríkið skapi hamingju.“ Áhugamál þessara vinstrimanna væri að takmarka frelsi almennings og geta gert eignir upptækar að vild. Stjórnmálaskörungurinn Sigmundur D. Gunnlaugsson lýsti því yfir um svipað leyti að umfjöllun um eignir hans og/eða eiginkonu hans í skattaskjólum væru pólitísk aðför að sér af hálfu óvina hans og Framsóknarflokksins.
Þetta eru áhugaverðar fullyrðingar og og allrar athygli verðar en fyrst og fremst eru þær þó kannski dæmigerðar fyrir það frelsi sem fólk hefur til að segja nokkurn veginn það sem því sýnist á opinberum vettvangi. Köllum þetta frelsi rökfrelsi: Það má skilgreina sem frelsið til að segja hvað sem er án tillits til þess hvort það er heldur byggt rökum eða hrein rökleysa.
Nú er ég ekki að gefa í skyn að rétt sé að banna fólki að segja það sem því býr í brjósti. Þvert á móti. Hins vegar finnst mér merkilegt að þegar særðir stjórnmálaskörungar eða pirraðir lærdómsmenn viðra geðvonsku sína eða sárindi í fullyrðingum sem standast enga skoðun, skuli fjölmiðlar yfirleitt ekki spyrja þá út í þetta eða benda á það.

Stórhættulegir vinstrimenn og óvnir Framsóknarflokksins
Byrjum á stjórnarskránni. Ég þekki marga vinstrimenn sem hafa mikinn áhuga á að ný stjórnarskrá, byggð á drögum Stjórnlagaráðs taki gildi. Að því leyti hefur Hannes rétt fyrir sér og kannski vill þetta fólk einmitt ráðskast með eigur borgaranna eða gera þær upptækar, hvað veit ég? En hitt er svo annað mál að margir hægrimenn sem ég þekki eru líka mjög áhugasamir um stjórnarskrána og það sem meira er, mikill fjöldi fólks sem hvorki skilgreinir sig sérstaklega til hægri eða vinstri er á sömu skoðun. Þess vegna eru vinstrimennirnir sem Hannes óttast svo mjög hættulausir Þeir eru jú í samfloti við hægrifólk og miðjufólk og allt þar á milli. Allt kemur þetta fram í skoðanakönnunum þar sem tveir þriðju kjósenda reynast styðja þessa nýju stjórnarskrá að ógleymdri þjóðaratkvæðagreiðslunni um hana þar sem mikill meirihluti þeirra sem kusu var hlynntur ákveðnum breytingum og jafnframt á þeirri skoðun að setja ætti nýja stjórnarskrá byggða á fyrrnefndum drögum Stjórnlagaráðs.
Sumsé, rökleysan birtist í því að telja að þar sem tiltekinn hópur er meðal þeirra sem styðja að ný stjórnarskrá verði sett þá þjóni innihaldið hagsmunum þess hóps eins. En þá gæti maður eins sagt að fámennur hópur hægri manna ætli sér að ná markmiðum sínum með henni, eða að hún sé miðjumoð þeirra sem hvorki eru til hægri eða vinstri, eða eiginlega bara hvað sem er. Lærdómsmenn mega auðvitað eins og aðrir segja það sem þeim býr í brjósti en það er ekki óeðlilegt að vænta þess að þeir (af öllum) fylgi þeir lágmarksrökvísi.
Og þá eru það skattaskjólin. Vissulega er það hárrétt hjá Sigmundi að fréttaflutningurinn af tengslum hans við skattaskjól og umfjöllunin um hann og konu hans í kjölfarið var leidd af blaðamönnum sem ætluðu sér að afhjúpa hann og hlífðu honum því ekki. Kannski eru þeir líka óvinir hans, ég hef ekki hugmynd um það. En þeir gerðu þó ekki annað en að rekja staðreyndir, spyrja spurninga og velta vöngum. Sé maður opinber persóna verður maður að geta staðist slíka prófraun bæði með því að gefa ítarleg og rétt svör við því sem spurt er um og að sjálfsögðu með því að hafa dómgreind til að geta metið hvers konar fjármálagerningar samræmast stöðu manns. Ekkert sem þau hjónin gerðu við fé sitt og eignir er, svo vitað sé, ólöglegt. En það er aftur deginum ljósara að það samræmist ekki opinberri stöðu Sigmundar og sú staðreynd breytist ekki jafnvel þótt óvinir hans bendi á það.
Í báðum tilfellum er sama rökvillan á ferðinni og hún hefur verið þekkt í mælskulist stjórnmálanna frá alda öðli. Latneskt heiti hennar er „ignoratio elenchi“ en það vísar til röksemda sem missa marks: Áhugi vinstrimanna, eins og annarra, á stjórnarskránni og óvild þeirra sem afhjúpuðu Sigmund skiptir engu máli um mat á stjórnarskrárdrögunum eða á fjármálum Sigmundar.

Pólitískar afleiðingar heiladauða
Staðhæfingar lærdómsmannsins og stjórnmálaskörungsins kallast skemmtilega á við bandaríska sjónvarpsþáttaseríu sem CBS sjónvarpsstöðin sýnir á sunnudagskvöldum í sumar. Hún heitir Braindead eða Heiladauð. Þar er hæðst að bandarískri pólitík á skemmtilegan og dálítið áleitinn hátt. Söguþráðurinn er í stuttu máli sá að aðalpersónurnar komast á snoðir um að undarlegar og að því er virðist sjaldgæfar pöddur hafa borað sig inn í heilann á fólki – þar á meðal nokkrum öldungadeildarþingmönnum og fleiri lykilmönnum í bandarísku stjórnkerfi – étið stóra hluta hans og um leið gerbreytt persónuleika fórnarlambanna. Í fáeinum tilfellum springa höfuð þeirra sem verða fyrir pödduárás, en flestir lifa af og breytast: Verða óbilgjarnir og fullkomlega ósveigjanlegir, þrætugjarnir og furðulega ónæmir á muninn á góðum rökum og slæmum. Þeir hætta líka að gera skýran greinarmun á raunveruleika og skáldskap.
Eftir því sem pöddufólkinu fjölgar, því illskeyttari verður pólitíkin og smátt og smátt er stjórnkerfið undirlagt af fólki sem hótar andstæðingum sínum öllu illu, hefur engan áhuga á að semja eða leysa mál og gerir stríð úr smæstu deiluefnum. Það kemur svo í ljós að pöddurnar eru ekki af jarðneskum uppruna heldur er hér um að ræða árás utan úr geimnum. Þannig er tekið upp gamalkunnugt stef vísindaskáldsagna og kvikmynda á borð við Invasion of the Body Snatchers sem gekk líka út á að fjandsamlegt afl utan úr geimnum tók á sig mynd fólks.
Þættirnir eru skop frekar en hryllingur, og háðsádeilan er býsna augljós. Fólk sem hefur verið yfirtekið af pöddum utan úr geimnum byrjar að tala í vel þekktum klisjum bandarískra stjórnmála. Sagan er sett inn í samtímaviðburði – Trump er í framboði og repúblikanar ná meirihluta í Öldungadeildinni þegar einn demókrati svíkur lit. En ádeiluna má vel setja í samhengi við fleira en bandarísk stjórnmálaátök. Hún potar í vaxandi tilhneigingu víða um heim að gera sem mest úr andstæðum, hafna málamiðlunum og vaða í andstæðinginn af fullri hörku hvenær sem tækifæri gefst til. Heiladauðinn sem pöddurnar valda í þáttunum er býsna sýnilegur í sífellt meiri tilhneigingu til að láta frumstæðar tilfinningar reiði og ótta stjórna frekar en leyfa heilanum að starfa eðlilega (það er jú búið að éta hann að mestu): Stöðugt meiri kröfu um að hjóla í andstæðinginn af fullkomnu virðingarleysi og jafnvel hatri frekar en horfast í augu við að nútímasamfélag er suðupottur ólíkra viðhorfa og gilda.

Stjórnarskrá er aldrei sérstaklega róttæk
Og þá verður manni aftur hugsað til stjórnarskrárinnar. Um daginn varpaði maður nokkur fram þeirri spurningu á facebook hversvegna hann ætti (sem róttæk og umbótasinnuð manneskja, gerði ég ráð fyrir) að hafa sérstakan áhuga á nýrri stjórnarskrá? Og svo spurði hann hvort drögin innihéldu ákvæði sem falla að hugmyndum hans um hverju brýnast sé að breyta í samfélaginu. Spurningarnar voru kannski ögn mælskukenndar, og svarið við flestum þeirra neikvætt: drögin segja ekkert um borgaralaun, frjálsa búsetu óháð landamærum, félagslega yfirtöku á auðlindum, svo nokkur dæmi séu nefnd. Þegar þessar hugmyndir voru skoðaðar gat niðurstaðan kannski ekki orðið önnur en sú að líklega væri tæpast við því að búast að hann hefði áhuga á stjórnarskránni eða fyndist skipta miklu máli að breyta henni.
Ástæðan fyrir þessu er einföld. Vissulega er það barnaleg hugmynd að stjórnarskrá sé ekki hægt að setja öðruvísi en með víðtækri sátt eða jafnvel sammæli um hana. En það er hins vegar ekkert barnalegt við að vænta þess að stjórnarskrá innihaldi ákvæði sem virða sérstöðu allra – ekki aðeins þeirra sem standa höllum fæti, eða þarfnast við núverandi aðstæður meiri stuðnings samfélagsins en aðrir – heldur líka hinna sem öðruvísi eða betur er ástatt um. Stjórnarskrá hlýtur annars vegar að innihalda ákvæði sem eru nánast sjálfsögð (eða sjálfljós eins og komist er að orði í Sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna) hins vegar ákvæði sem skapa stjórn samfélagsins mátulega rúman eða þröngan ramma til að komið sé í veg fyrir að svo miklu leyti sem það er hægt að einstaklingar þurfi að búa við ofríki annarra eða ríkisvaldsins sjálfs. Það gefur auga leið að það þarf umtalsverða hugsun til að finna þann gullna meðalveg sem gerir öllum þeim ólíku hópum og einstaklingum sem byggja sama samfélag kleift að tileinka sér sömu grunnreglurnar.
Þess vegna er stjórnarskrá aldrei sérstaklega róttækt plagg – hún verður til við ákveðnar aðstæður og í ákveðnu samhengi. Það gerir að verkum að róttæklingarnir fyllast ekki endilega eldmóði yfir henni. Þeim mun alltaf finnast hún ganga of skammt. Jafnvel líkleg til að viðhalda ríkjandi ástandi – vinna með öðrum orðum gegn ýmsum róttækum hugmyndum.

Þarf að óttast um heilana?
En það mega hinir róttæku þó eiga að þeir eru ekki heiladauðir heldur bara raunsæir. Þeir hafa ekki endilega neitt mikið á móti breytingum á stjórnarskrá, sjá bara að þær hjálpa þeim ekki neitt. En ef maður glepst til að horfa of mikið á ameríska sjónvarpsþætti fer maður að ímynda sér ýmislegt. Eins og það að eitthvað óhuggulegt sé að gerast í heilum þeirra sem krefjast fulls rökfrelsis og sjá ekki þrátt fyrir mikinn lærdóm muninn á rökum og rökleysum. Þeim hættir til að halda að allir sem beita sér fyrir þó ekki sé nema eðlilegum og ekkert voðalega umdeildum breytingum á grunnreglum samfélagsins séu jafnvel sérstakir óvinir þeirra. En það sem góð stjórnarskrá stuðlar einmitt einna helst að er mikil og regluleg notkun heilans, en notkun hans leiðir yfirleitt frekar til þess að fólk nær saman og getur almennt átt frjó og nytsamleg samskipti. Hún er í stuttu máli þroskandi.

Upphaflega birt í Stundinni #28, 11. ágúst 2016. Sjá vefútgáfu: http://stund.in/PLx