Fyrir rúmum mánuði sagði ég þá lygasögu hér í þessum dálki (sjá „Ef ég væri 1.000) að ég hefði komist að raun um að genasamsetning mín setti mig í vissan áhættuhóp. Lygasagan var aðallega búin til í því skyni að lýsa því hvernig erfðaupplýsingar sem gefa prósentutölur um áhættu manns af því að fá tiltekna sjúkdóma eru oftast gagnslausar. Þær eru gagnslausar ef þær verða ekki til þess að gera ákvarðanir manns um líf sitt skynsamlegri en þær voru fyrir. Þær geta líka verið skaðlegar: Þær eru skaðlegar ef þær valda því að ákvarðanir manns um líf sitt verða óskynsamlegri en þær hefðu annars verið. Þær geta líka verið skaðlegar á ýmsan annan hátt en látum það liggja á milli hluta.
Nú er hægt að kaupa allan fjandann, sumt er gagnlegt, annað gagnslaust og jafnvel skaðlegt. Það er því ekkert til að kippa sér upp yfir, að stofnað sé fyrirtæki á borð við DecodeMe til að versla með gagnslausar og jafnvel í stöku tilfelli skaðlegar erfðaupplýsingar. Gagnslausar upplýsingar geta oft verið skemmtilegar og áhugaverðar og það getur vel hugsast lífsánægja manna vaxi við nákvæmari og betri þekkingu á því hvað framtíð þeirra kann að bera í skauti sér með svo og svo miklum líkum.
En það er stórmerkilegt að lesa langa grein Kára Stefánssonar í Morgunblaðinu 29. desember þar sem hann heldur því fram í fullri alvöru að mat á áhættu einstaklinga á að fá tiltekna sjúkdóma, og þá væntanlega sala á slíkum upplýsingum, leggi líklega grunninn að fyrirbyggjandi læknisfræði í náinni framtíð. Í sömu grein viðurkennir hann hinsvegar að sumir sjúkdómar séu „þess eðlis að í dag sé lítið eða ekkert hægt að gera til að hafa áhrif á það hvort eða hvenær áhættan verður að sjúkdómi“ og bendir á að „getan til að greina sjúkdóma hefur alltaf komið á undan getunni til að meðhöndla“ þó reyndar sé yfirleitt lítið hægt að græða (í bókstaflegri merkingu) á að selja greininguna áður en hægt er að bregðast við henni.
Hæfileiki loddarans er að geta talið öðrum trú um að varan eða málstaðurinn sem hann selur eða rekur áróður fyrir sé stórfenglegur hvorki meira né minna og að sjálfur sé hann mikill spekingur eða snillingur. Það er á margra færi að selja drasl, en loddarinn hefur náð æðra stigi: Hann er frelsarinn.
Nú er Kári auðvitað enginn loddari. Hann hefur af eljusemi haldið þeirri hugmynd sinni á lofti undanfarin 10 ár eða svo, að klæðskerasniðin heilsugæsla, þar sem einstaklingur getur í samráði við lækni sinn metið út frá nákvæmum erfðafræðilegum upplýsingum um sig, með hvaða hætti hann geti best tryggt góða heilsu og langlífi, sé eitt meginmarkmið Íslenskrar erfðagreiningar. Erfðaupplýsingarnar sem DecodeMe býður til sölu eru skref í átt að því að gera þessar upplýsingar að gjaldmiðli heilbrigðisþjónustunnar.
En þegar litið er til þess hve skelfilega lítið er hægt að gera við þessar upplýsingar nú er erfitt að fallast á það vægi sem Kári gefur þeim „í nánustu framtíð“. Það er þvert á móti fátt sem bendir til þess að slíkar upplýsingar verði gagnlegar nema í undantekningartilfellum í nánustu framtíð – þó vissulega megi hugsa sér að þær verði slíkur grunnur í fjarlægri framtíð.
Hvað veit einstaklingur sem hefur vitneskju í prósentum um áhættuþætti sína? Neytendaerfðafræðin veitir honum val um að stunda forvarnir eða ekki segir Kári. En erfðaupplýsingar segja honum ekkert um hvað hann eigi gera eða hverju hann eigi að kosta til, jafnvel þegar hægt er að gera líklegt ólíklegt, eða ólíklegt ennþá ólíklegra.

Birt í Lesbók Morgunblaðsins 12. janúar 2008.