Það er alltaf áhugavert að sjá hvernig stjórnmálamenn haga sér á krísu- og krepputímum. Hér á Íslandi höfum við síðustu vikur fengið að sjá alveg nýja hlið á mörgum helstu forystumönnum okkar. Fyrst sjáum við þá neita að skilja það sem er að gerast, næst panikera, þegar þeir loksins skilja það, þá gera hver mistökin á fætur öðrum þegar gripið er til aðgerða og loks tekst þeim að orða hugsun sína svo klaufalega að þeir gera bara illt verra með útskýringum sínum – einkum reyndar utan landsteinanna.

Einn maður hefur þó ekki látið þetta ástand hafa minnstu áhrif á sig og haldið ró sinni fullkomlega. Þetta er að sjálfsögðu Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Það grípur hann engin angist þó landið sé að fara á hausinn. Ólíkt kollega sínum Össuri Skarphéðinssyni, sem hefur ekki bloggað síðan krísan skall á fyrir tæpum fjórum vikum, missir Björn ekki dag úr, en bloggar af sömu staðfestu og vant er.

Björn er ekki aðeins sallarólegur. Hann veit hvernig hægt er að nýta neyðarástand til þarfra og mikilvægra verka. Á slíkum tímum má koma ýmsum málum í gegn sem áður mættu andstöðu eða jafnvel andófi. Eitt helsta áhuga- og baráttumál Björns hefur um langa hríð verið að auka heimildir lögreglu til valdbeitingar og rannsókna og nú er auðvitað lagið að koma slíkum málum í gegnum þingið.

16. október síðastliðinn lagði Björn þannig fram frumvarp til laga um breytingar á hegningarlögum sem ekki náði fram að ganga síðastliðið vor og kveður á um aukningu ýmissa valdheimilda lögreglu. Um svipað leyti varpaði hann þeirri dúsu til andstæðinga sinna að hann myndi skipa opinbera rannsóknanefnd vegna bankahrunsins auk þess sem hann lét hafa eftir sér að svo kynni að fara að kosningar yrðu haldnar áður en veturinn er liðinn. Þessar yfirlýsingar gefa Birni vafalaust ágætt athafnarými. Eini þingmaðurinn sem gerði tilraunir til að malda í móinn við valdheimildafrumvarpi Björns var Atli Gíslason, en þann mann sakar Björn um að hindra störf lögreglunnar og koma í veg fyrir að hún geti með góðu mót unnið skyldustörf sín (sjá orðaskiptin á vef Alþingis).

Frumvarp Björns eykur heimildir lögreglu til valdbeitingar og eignaupptöku í tengslum við mansals- og hryðjuverkamál. Ákvæði þess eru samkvæmt skýringum við frumvarpið í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslendinga og í samræmi við lög af sama tagi í nágrannaríkjum. Björn telur þessar breytingar svo brýnar og sjálfsagðar að öll andstaða við það jafngildi því að valda lögreglunni truflun og erfiðleikum í starfi sínu:

… þeirra ábyrgð er mikil sem lögðu stein í götu þess [frumvarpsins] … Það er einkennilegt að heyra þá sem þannig beittu sér, virðulegi forseti, tala síðan um að það þurfi að gera hér ráðstafanir til þess að efla löggæslu og auka hana og stuðla að því að lögreglumenn geti sinnt störfum sínum á markvissari hátt en áður (Ræða á Alþingi, 16. október 2008).

Annað áhugamál Björns er forvirkar rannsóknaheimildir. Hann hefur ýmist haldið því fram að nauðsynlegt sé að setja á fót sérstaka nýja eftirlitsstofnun eða að lögregla þarfnist slíkra heimilda til að geta betur fylgst með grunsamlegum einstaklingum og jafnframt unnið með erlendum lögreglustofnunum. Á málstofu í Háskólanum á Bifröst 24. september síðastliðinn færði Björn rök fyrir því að eftirlitsstofnunar væri þörf, sem gæti sinnt eftirgrennslunum og veitt lögreglu stuðning án þess þó að hún væri lögreglustofnun. Áður hefur hann hinsvegar haldið því fram að lögregla sé vanbúin til að takast á við glæpastarfsemi samtímans vegna þess að hana skorti þessar heimildir. Þetta eru í sjálfu sér ólíkir hlutir en Björn hefur haldið hvoru tveggja fram, þótt á Bifröst legði hann áherslu á að það væri ekki lögreglan sem slík sem ætti að fá heimildirnar. Ég veit ekki hvora skoðunina Björn hefur nú (sjá upptöku af málstofunni á vef Bifrastar).

Í málflutningi Björns um nauðsyn forvirkra rannsóknarheimilda gætir alltaf sömu stefjanna: Í fyrsta lagi eru þeir sem láta í ljós efasemdir um mikilvægi og gagnsemi aukinna heimilda sagðir hatast við lögreglu og vilja trufla störf hennar. Í öðru lagi er því haldið fram að glæpaheimurinn á Íslandi hafi breyst mjög til hins verra á síðustu árum og í þriðja lagi er því haldið fram að þær lagabreytingar sem lagðar eru til séu allar einungis í þá átt að færa löggjöfina til sama horfs og tíðkast í nágrannalöndunum. Þetta orkar auðvitað allt mjög tvímælis. Flestar mótbárurnar við hugmyndum Björn um auknar heimildir lögreglu eru mjög eðlilegar efasemdir um þær byggðar á misjafnri reynslu af slíkum heimildum í öðrum löndum undanfarna áratugi. Það er engin leið að halda því fram að í nágrannalöndunum sé einsleit löggjöf í þessum efnum og sennilega rangt að samstarfi íslenskrar lögreglu við erlendar lögreglustofnanir sé viðbrugðið hafi íslensk lögregla ekki aðgang að forvirkum rannsóknarheimildum. Loks er það stór spurning með hvaða hætti nákvæmlega glæpaumhverfið hafi harðnað á síðustu árum. Það ber meira á ofbeldisglæpum, að minnsta kosti í fréttum fjölmiðla. En að hvaða leyti er Ísland vettvangur alþjóðlegrar glæpa- eða hryðjuverkastarfsemi? Svarið við þeirri spurningu er enn dálítið fræðilegt: Það er að segja Ísland gæti orðið vettvangur slíkrar starfsemi. En er líklegt að auknar heimildir til valdbeitingar og forvirkra rannsókna geri okkur eitthvað öruggari gagnvart slíku? Það er að minnsta kosti ekki síður líklegt að þessar heimildir geri lögreglu of sjálfstæða og valdamikla og full ástæða til að óttast það, enda eitt mikilvægasta hlutverk réttarríkisins að gæta þess að öllum valdastofnunum séu sett skýr takmörk.

Það er svo merkilegt að frá embættum dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóra berast stöðugar yfirlýsingar á borð við það sem Greiningardeildarmaðurinn Leifur hreytir í Árna rannsóknalögreglumann í lok síðasta þáttar Svartra Engla þegar hann segir:

Þetta samfélag er að breytast, við þurfum að aðlagast því. Það er það sem menn eins og þú skilja ekki.

Nú vill Björn fá okkur til að skilja að samfélagið sé að breytast og grípa þurfi til varna, en nákvæmlega hvað það er sem við þurfum að óttast og hversvegna lögreglan sé vegna lagalegra hindrana vanbúin til að takast á við það er mjög óskýrt. Nægir að fullyrða að heimurinn sé nú harðari og verri en hann var? En er hann það? Ætli sé meiri hætta á því nú, svo dæmi sé tekið, að íslenskri flugvél sé rænt en til dæmis á áttunda áratugnum þegar flugrán voru algeng aðferð hryðjuverkahópa? Er meiri hætta nú á hryðjuverkum á Íslandi en var á þeim tíma? Mig grunar reyndar að hættan þá hafi verið umtalsvert meiri en hún er nú. Það eina sem við fáum frá stofnunum sem með öryggismál fara eru fullyrðingar um mikla og vaxandi hættu á skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkum, en fullyrðingarnar virðast byggja á upplifun og endurgerð fjölmiðla á veruleikanum frekar en á skiljanlegum rökum og staðreyndum.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *