Ólafur Þ Harðarson prófessor í stjórnmálafræði og sviðsstjóri Félagsvísindasviðs HÍ hélt mikla ræðu á fundi sem Vísinda- og tækniráð stóð fyrir í vikunni og útlistaði þar viðhorf sín til íslensks háskólasamfélags. Ólafur sagði það „móðgun við skattgreiðendur“ að halda uppi fleiri rannsóknaháskólum en einum á Íslandi.

Ólafur telur farsælast að stofnunin sem hann starfar við, Háskóli Íslands, eigi, ein háskóla, kost á fjármagni til að halda úti rannsóknastarfsemi. Aðrir háskólar geti þá sinnt ýmsum öðrum verkum, svo sem kennslu og þjálfun nemenda á grunnstigi, sérhæfðri ráðgjöf og þjónustu og svo framvegis.

En það er skrítin hugmynd að rekstur Háskóla Íslands geti verið fyrirmynd um hagkvæman rekstur í þágu skattgreiðenda. Í landinu eru nefnilega lög sem í raun gera Háskóla Íslands ókleift að hagræða þannig í kennslu og rannsóknum að með nokkru móti megi halda því fram að þessi starfsemi þjóni hagsmunum skattgreiðenda. Vissulega starfar margt gott fólk við Háskóla Íslands, en staðreyndin er samt sú að skólinn hefur litla möguleika á að láta árangur stýra starfsferli fólks. Sá sem einu sinni er orðinn starfsmaður Háskóla Íslands heldur því starfi á meðan hann eða hún brýtur ekki lög og sinnir lágmarksskyldum. Vart getur hagkvæmur rekstur nokkursstaðar byggst á svo ríkum réttindum starfsmanna.

Háskóli Íslands fær greitt fyrir þann fjölda nemenda sem stundar þar nám og flaggar umsóknatölum sínum ákaft til að sýna fram á að aðsóknin fari langt fram úr því sem samningar við ríkið gera ráð fyrir. Staðreyndin er hinsvegar sú að stór hluti þeirra sem skrá sig í Háskóla Íslands ljúka aldrei námi en hætta því eftir eina tvær eða þrjár annir. Þó að þetta vandamál hafi verið þekkt lengi virðist skólinn ráðþrota að bregðast við því.

Á síðustu árum hefur orðið mikill niðurskurður í fjárveitingum til háskólanna. Allir skólar hafa þurft að taka á honum með hagræðingu. Þegar Háskóli Íslands er borinn saman við sjálfstæðu skólana í landinu, HR, Bifröst og Listaháskólann, blasir við að hann er verst í stakk búinn til að takast á við niðurskurð. Hann getur hvorki lagfært augljósar brotalamir í rekstri né tekið á starfsmannavanda. En einu viðbrögð stjórnenda hans er að kvarta yfir því að fé fari til annarra skóla en Háskóla Íslands.

Opinberar stofnanir, og aðrar stofnanir sem njóta opinberra framlaga til starfsemi sinnar, þurfa að geta sýnt fram á að þær verji því fé sem þær fá vel. Háskóli Íslands, sem getur ekki dregið úr brottfalli eða losað sig við starfsmenn sem standa sig ekki, getur ekki haldið því fram að fé skattgreiðenda sé vel varið.

Þetta ættu Ólafur Þ Harðarson og aðrir leiðtogar Háskóla Íslands að hafa í huga áður en þeir bölsótast út í þá fjölbreytni sem ríkir í íslensku háskólasamfélagi, þar sem víða hefur farið fram sársaukafull hagræðing og niðurskurður. Þeir ættu að líta sér nær og huga að hagræðingu í eigin stofnun. Annað er móðgun við skattgreiðendur.

7 replies
 1. Ragnar Gunnarsson
  Ragnar Gunnarsson says:

  Sælir,

  Þú meinar þá að öll æðri menntun á að fara í útboð. Eins og þú vel veist er í flestum vestrænum löndum fá kennsluháskólar (University College/College/Høyskoler/Høgskoler) mun lægri framlög en rannsóknarháskólar (University) og það er í raun gerður skýr greinarmunur alls staðar annars staðar en á Íslandi. Það munar oft miklu, rannsóknarháskólar í fremstu röð fá oft margföld fjárframlög á við kennsluháskóla. Það er því miður lögð sorglega lítil áhersla á raungreinakennslu á Íslandi því hún kostar miklu ódýrara að hrúga saman fólki í einhvert ódýrt ítroðslunám og til þess fengnir stundakennarar á algjörum lúsalaunum og mannauði er sóað í að fá einhver lítilssigldar MBA gráður úr þessum stofnunum. Raunar er Háskóli Íslands eina æðri menntastofnunin sem í raun getur titlað sig sem alvöru rannsóknarháskóli og það eru í raun jarðfræðin, jarðeðlisfræðin og læknisfræðin sem halda honum á floti hvað vísindaframlög snertir. Þetta er í raun hægt að slá upp og þar eru íslenskar menntastofnanir langt niðri sama nánast á hvaða kvarða það er.
  Raunar skilst mér að hver nemi í svokölluðum háskólum á Íslandi kosti minna en grunnskólanemi og þetta er eflaust ennþá hægt að hagræða með að byggja bara einn fyrirlestrarsal og kenna greinar sem hvorki þarf raungreinakennslu, rannsóknir og rannsóknatenkt nám. Hrúga út fólki með einhverja viðskipta, sagnfræði eða stjórnmálafræði menntun þegar atvinnulífið öskrar eftir raungreinamenntuðu fólki. Það er verið að mennta fólk í lögfræði á 300 þús manna eyju á 4 stöðum og ekki veit ég hvað verið að mennta marga hagfræðinga, stjórnmálafræðinga eða viðskiptafræðinga á ári á Íslandi. Hvort það sé hægt að gera það einhverjum þúsundköllunum ódýrar á Bifröst sýnist mér vera algjört aukaatriði. Spurningin er hvort þörf sé á þessari menntun og það væri ágætt að sjá fram á það hversu hátt hlutfall af útgjöldum fer í rannsóknir og menntun og hvað fer í stjórnun og húsakost í þessum svokölluðu háskólum. Fá mat erlendra sérfræðinga á framhaldsnáminu á Íslandi og fara síðan eftir því.
  Augljóslega er verið að sóa mannauði í stofnunum sem vart er hægt að kalla háskóla og af fólki sem titlar sig prófesora sem eru varla með doktorsgráðu og væru sumir vart metnir hæfir sem stundakennarar í erlendum háskólum. Það er væntanlega auðveldast að halda fólki frá atvinnuleysisskrá með hafa fólk þarna inni en er það nóg. Er það svo að æðri menntun á Íslandi fer á útboð, enda eru rannsóknarvinna og vísindaleg vinnubrögð ekki hagkvæm við fáum háskóla sem verða tengdari grunnskóla- eða menntaskólanámi en æðri menntastofnunum annara landa.

  Svara
 2. jonolafs
  jonolafs says:

  Besta stýringaraðferð háskóla/rannsóknasamfélagsins er gæðaeftirlit. Það er í grundvallaratriðum ólíkt valdakerfi stofnana. Það sem íslenskt háskólasamfélag þarf á að halda er gæðakerfi rannsókna (ekki til í dag) og að allir sem stunda rannsóknir þurfi að standa sig gagnvart slíku kerfi. Að sóa fé í stofnanir, þar sem allt önnur sjónarmið en gæði og árangur ráða ferðinni er gamaldags. Gamaldags er einnig það viðhorf sem kemur fram í pósti þínum að öflugt rannsóknastarf og rannsóknanám geti aðeins farið fram innan stofnunar með harðan valdastrúktúr. Rannsóknir byggjast að því að góðir rannsakendur hafi tækifæri til samstarfs við kollega þvert á stofnanir og að umbunað sé fyrir árangur. Þetta krefst þess að stofnanir búi við harðar kröfur um bæði rekstur og árangur, en séu ekki skipulagðar út frá skrifræði. Hugmyndin um „einn sterkan rannsóknaháskóla“ er í fullkomnum villigötum. Við þurfum eitt sterkt rannsókna- og háskólasamfélag.
  Fullyrðing þín um að HÍ sé eini rannsóknaháskólinn á Íslandi er röng. HR getur nú orðið kallað sig rannsóknaháskóla. Langmest rannsóknaafköst per starfsmann eru við LBHI. Við HA eru sumir okkar fremstu rannsakenda á nokkrum sviðum, Hólaskóli er með öfluga rannsakendur sem eiga í umtalsverðu alþjóðlegu samstarfi og jafnvel við Háskólann Bifröst er að finna afkastamikla fræðimenn.
  Ég mæli með að þú kynnir þér það sem þú leyfir þér að fullyrða um!

  Svara
 3. Petur Henry
  Petur Henry says:

  Nu hafa fyrri komment min ekki verid daemd verd birtingar. Reynum aftur. Thu er hrifinn af skilgreiningum. Er rannsoknarhaskoli haskoli thar ser eru stundadar rannsoknir eda haskoli thar sem ad rannsoknir skipa akvedinn sess? Thu virdist hallast ad fyrri skilgreiningunni, tho ad eg hugsi ad flestra mati se hin sidari rettari.

  Eg er a margann hatt sammala ther um ad rannsoknir eigi ad vera sem vidast og dreift og ad til eigi ad vera kerfi sem styrki tha sem vilja stunda rannsoknir vid margar stofnanir og skola og tha fylgi thvi kennsluafslattur. Thad breytir thvi ekki ad rannsoknarhaskolar, thad er viss massi af folki sem talar saman og vinnur saman, med starfsorryggi, adgengi ad bokasofnum etc. tharf ad vera til stadar. Thetta er tho mjog mismunandi eftir greinum og thegar ad kemur ad greinum sem thurfa taeknilega serthekkingu og takjabunad, tha hentar ekki eins vel ad hafa dreift net visindamanna, tho ad thad se audveldara i hugvisindum.

  En, thad verdur ad mega raeda thessa hluti, an thess ad menn fari i of mikla skotgrafir. Ef haskolar eru of margir, tharf ad finna lausn a thvi. Ef arangur er ekki umbunadur vid HI, tha tharf af finna lausn a thvi. En ekki blanda theim malum saman. Svo skal bol baeta ad benda a eitthvad annad. Thad er heldur ekki sanngjarnt ad bera saman aldradan mannskap vid HI,thar sem nylidun hefur verid nanast enginn, vid yngri stofnanir thar sem kroftugt ungt folk vinnur. Thad hangir margt a spytunni.

  Svara
 4. Ragnar Gunnarsson
  Ragnar Gunnarsson says:

  Ég er ekkert að segja að það sé forsenda fyrir rannsóknum að það sé einhver valdastrúktur. Raunar má segja það að það sé forsenda fyrir rannsóknum að stjórn þessara stofnanna hafi yfir höfuð þekkingu og áhuga á rannsóknum. Að rannsónir séu í raun hornsteinn starfseminar. Að kalla sig háskóla án rannsókna er náttúrlega út í hött eða leggja höfuðáherslu á bílastæði og umhverfi, lógó, húsnæði og ímynd er ákveðin mantra í íslensk viðskiptalífi. Já eða fjölda nemenda og hversu mörgum er hægt að troða í gegn fyrir sem lægsta upphæð.
  Auðvitað á það að liggja á borðum hversu hátt hlutfall fer í stjórnun, hvað fer í kennslu og síðan hvað fer í rannsóknir.

  Auðvitað eiga þessar stofnanir að vera undir ákveðið seldar þanning að ekki skapast einhver kaffiklúbb stemning og auðvitað á að gera kröfur um bæði um rannsóknarstefnu, gæði (impact factor) og birtingu rannsókna því að það er í raun höfðukjarni starfseminar. Deildum eru gefnar einkanir af óháðum (oft erlendum aðilum) sem hafa þekkingu að meta þetta. Það getur vel verið að það séu góðir rannsakendur í Hólaskóla um það veit ég ekkert um. Grundallaratriðið er að rannsóknarstarfsemin á að vera metin hátt í framlögum sem er gert á flestum öðrum stöðum með mati utanaðkomandi aðila á starfseminni að því að lítið og „sætt“ umhverfi getur verið hættulegt þegar starfsemin er metin á ískaldan og faglegan hátt.

  Svara
 5. jonolafs
  jonolafs says:

  Ég átti alltaf eftir að svara ykkur Pétur og Ragnar. Bið ykkur að afsaka það. Fyrst, Pétur:
  Ég held að rannsóknasamfélag nútímans, hvort heldur sem er innlent eða alþjóðlegt vinni best ef stofnanamúrar eru sem minnstir, það er fólk getur unnið saman óháð stofnanalegri bindingu. Háskólar, eigi þeir að standa undir nafni, eru stofnanir þar sem fram fara rannsóknir. Það þarf að huga að mörgu til að halda vel utan um rannsóknastarf á ákveðnum stöðum. Sumt er fáránlegt að gera. Það væri til dæmis fáránlegt að fara að kenna læknisfræði í Grábrókarhrauni, enda hefur enginn lagt til að það verði gert. Rannsóknir sem byggja ekki á sérhæfðum tækjabúnaði geta hinsvegar farið fram hvar sem er. Ég get nefnt sjálfan mig sem dæmi. Ég er sæmilega virkur í rannsóknum. Langflestir þeirra sem eru að gera eitthvað sem tengist mínum áhugamálum eru erlendis. Það skiptir nákvæmlega engu máli fyrir mig hvort ég starfa við Háskólann á Bifröst eða Háskóla Íslands. Aðalatriðið er að sú stofnun sem ég starfa við geti gefið mér svigrúm sem þarf, gefið að ég skili þeim árangri sem ætlast er til. Þannig er rannsóknasamfélag samtímans. Við eigum að byggja það upp hér á landi í heild sinni, ekki karpa um of mikinn fjölda háskóla nema það séu þá einhver haldbær rök fyrir þeirri skoðun að þeir séu of margir.
  Ragnar: Ég er fullkomlega sammála þér.

  Svara
 6. Pétur Henry
  Pétur Henry says:

  Já, og ekki misskilja mig, það er mikilvægt að öflugt og mögulega dreift rannsókna og fræðsamfélag sé til. Burt með alla stofnannamúra líka. Það er til vel skilgreindar leiðir til þess t.d. samkeppnissjóðir, jafnvel samningar við stofnanir og skóla. Þessi mál eru í miklum ólestri eins og er og standa ekki undir nafni. En það þarf ekki að þýða að það þurfi að vera mjög margir kennsluháskólar. Þetta er ekki endilega sama umræðan. T.d. ef við tökum þig sem dæmi, ef að þú værir í HR, HA eða HÍ eða við einhverja stofnun værir þú eitthvað verr staddur? Svarið er augljóslega nei, en þú ert staddur þar sem þú ert vegna þess að þar er staðsettur skóli sem er fyrst og fremst (eins og allir íslenskir háskólar) fjármagnaður af ríkinu í gegnum kennslu. Þannig að þú getur ekki stundað rannsóknir þínar hvar sem er, þú þarft einhvern strúktúr, þó ekki væri nema skyldur og laun. Nú virðast margir telja að það séu of margir háskólar og það þurfi að sameina og breyta. Fair enough. Þannig að þetta er pólitísk spurning, sem virðist nú stundum þýða að við henni fást enginn svör, en hlutirnir séu látnir gerast af sjálfu sér…

  Svara
 7. Pétur Henry
  Pétur Henry says:

  Þannig að kannski má þá segja að umræðan eigi að snúast hvort það séu of margir skólar eða ekki. Ef þeir eru það ekki, þá hefur þú alveg rétt fyrir þér, að því gefnu að kröfur séu eðlilega háar og gæðaeftirlit með þeim öllum. Tek ekki þá umræðu núna, en að hafa hvað eru þetta 7 sjálfstæðir skólar, það virðast flestir vera þeirra skoðunnar að einhverju verði að breyta.

  Svara

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *