Fyrir nokkrum vikum (fyrir hrunið semsé) var ég staddur á fundi um eitthvert pólitískt málefni, ég man ekki lengur hvert það var. Einn fyrirlesara minntist á það álit alþjóðlegrar stofnunar (Transparency International) að Ísland væri í hópi þeirra landa sem lausust væru við spillingu. Fundarmenn hlógu dátt.

Sú staðreynd að á síðustu árum hefur lánshæfismat Íslands ekki aðeins verið í toppi heldur höfum við notið stöðugrar virðingar fyrir traust stjórnkerfi og laust við spillingu vekur ákveðnar spurningar nú þegar allt er hrunið. Var það nokkur tilviljun að þessir dómar vöktu vissa kátínu þegar þeir voru felldir? Við vissum vel að þetta stóðst ekki alveg. Það verður áhugavert að sjá hvernig spilling á Íslandi verður metin í næstu úttekt Transparency International. Það er mjög líklegt miðað við aðferðafræðina sem beitt er að hrap Íslands verði mikið þar eins og annarsstaðar.

Á meðan allt leikur í lyndi á yfirborðinu er ef til vill ekkert verið að grufla í hlutunum. En þegar ráðaleysið blasir við og stjórnkerfið engist undir stöðugu ámæli og kröfum koma gallarnir betur í ljós. Það fylgir íslenska ráðherraræðinu og þeirri áherslu á vald meirihlutans sem hér hefur þróast undanfarin ár að stofnanir kunna hvorki að vinna saman né vinna með félagasamtökum. Því hefur oft verið haldið fram á undanförnum árum að lýðræðislegar aðferðir sem fela í sér samvinnu og samstarf séu tafsamar og geti spillt ákvörðunum. En í ringulreiðinni nú sést best hve rangt þetta er. Ef eitthvað kemur í veg fyrir að þjóðin geti staðið saman þá er það einmitt átakanlegur skortur á lýðræði.

Það má líta á það sem merki um spillingu í lýðræðisríki þegar fáeinir ráðherrar og jafnvel forsætisráðherra einn getur stjórnað ferðinni að mestu án samráðs við aðra, jafnvel án samráðs við aðra ráðherra. Það er sömuleiðis til marks um spillingu þegar þing og ráðherrar geta ekki komið óhæfum seðlabankastjóra úr embætti jafnvel eftir að hann hefur gerst sekur um verstu afglöp.

Þannig er ekki annað hægt en að tengja saman lýðræðistakmarkanir stjórnkerfisins og spillingu. Á tímum eins og við lifum nú verður þetta átakanlegt því þrátt fyrir hátt menntunarstig almennt og fjölda hámenntaðra sérfræðinga tekst stjórnvöldum ekki að ná utan um krísuna og taka á henni á trúverðugan hátt. Nýjustu fréttir úr Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sýna þetta best. Í stað þess að taka á og glíma við þá flóknu stöðu sem er komin upp og þarfnast heilsteyptrar og úthugsaðrar strategíu eru stjórnvöld á leiðinni út á þann hála ís að kenna öðrum þjóðum um. Ódýrar lausnir af því tagi, sem reyndar eru engar lausnir eru enn eitt dæmi um spillingu.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *