Samfélagssáttmálinn eftir Jean Jacques Rousseau er hið fullkomna lærdómsrit. Hæfilega löng ritgerð, grundvallarrit í stjórnmálaheimspeki síðari tíma, ein af þeim bókum sem allir geta haft gagn af. Það er því lítið annað um útgáfu Hins íslenska bókmenntafélags á ritinu í Lærdómsritaröð sinni að segja annað en loksins, loksins.
Í eftirmála ritstjórans, Ólafs Páls Jónssonar kemur raunar fram að frá því að ritröðin hóf göngu sína fyrir 35 árum hafi staðið til að gefa Samfélagssáttmálann út, hann hafi átt að vera með fyrstu bókunum. En ýmsar hindranir stóðu í vegi fyrir því að það gæti orðið. Það reyndist erfitt að finna rétta frönskumanninn, og erfitt að finna nægilega sérfróðan einstakling til að skrifa formála og svo framvegis. Árin liðu án þess að af útgáfunni yrði, eins og raunar var um mörg önnur áformuð rit í röðinni. Og árin urðu semsagt 34.
Már Jónsson, sem þýðir bókina ásamt Birni Þorsteinssyni, og ritar inngang, hófst handa við verkið fyrir 13 eða 14 árum og gekk þýðing hans í gegnum ýmis nálaraugu og hreinsunarelda áður en hún kæmist á prent, en Ólafur Páll rekur einnig lauslega sögu hennar í eftirmála sínum. Ýmsir voru kallaðir til að lesa yfir og breyta, en þessi langa og stranga meðganga hefur nú skilað sér í útgáfu sem er ekki bara fullkomin vegna þess að ritið passi í röðina, heldur einnig vegna þess að vandað og fagmannlegt handbragð útgáfunnar sómir sér einstaklega vel í henni. Inngangurinn, þýðingin sjálf og allur frágangur og umgjörð bókarinnar er eins og best verður á kosið, þó að ef til vill geti verið skiptar skoðanir um einstakar þýðingalausnir eins og gengur.
En ritið er ekki aðeins hið fullkomna lærdómsrit. Vegna hinnar löngu og flóknu meðgöngu, endalausra yfirlestra lærðra manna, útgáfuáforma sem svo hefur verið frestað og svo framvegis og svo framvegis er ritið líka hið dæmigerða lærdómsrit. Þó að Lærdómsritin séu tvímælalaust ein best heppnaða ritröð sem gefin er út hér á landi og telji nú á sjötta tug verka, þá verður að segjast eins og er að útgáfan hefur aldrei verið markviss. Það hefur verið dálítið eftir hendinni hvað hefur verið gefið út og þó að í flestum tilfellum hafi verið um merk rit að ræða þá hafa þau verið misáhugaverð. Samfélagssáttmálinn er auðvitað verk sem hlýtur að vera ofarlega á útgáfulista í ritröð sem þessari hvernig sem á málin er litið, en það eru margar aðrar bækur líka sem þó er ekki vitað til að eigi að gefa út. Það er til dæmis hálfgert hneyksli að ekkert skuli hafa komið út á íslensku eftir þýska heimspekinginn G.W.F. Hegel og að fyrstu verk Kants og Rousseaus sem birtast á íslensku skuli koma út 2003 og 2004 er broslegt, svo maður taki nú ekki dýpra í árinni, eins mikið og sumir tala um mikilvægi þýðinga fyrir viðgang fræða hér á landi.
En hvað um það. Vonandi halda Lærdómsritin áfram að gefa út klassísk verk á sviði heimspeki, guðfræði og fleiri greina eins og verið hefur. Það er alltaf hægt að hugga sig við það, að jafnvel þótt engin sérstök stefna verði tekin upp um hvaða verk skuli gefin út, eða á hvaða hraða, þá komi þessi verk nú öll út á endanum á meðan ekki er hætt við röðina – um það sé Samfélagssáttmálinn einmitt prýðilegt dæmi.
Formáli Más Jónssonar er skýr og skilmerkilegur. Már hefur sett sig ágætlega inn í skrif um Rousseau og blandar í formálanum saman æviágripi Rousseaus, einu og öðru um útgáfusögu verksins og stuttri umfjöllun um helstu þætti þess. Inngangurinn miðast greinilega við hinn almenna lesanda og þjónar því hlutverki ágætlega að setja textann í það samhengi sem hann krefst.
Í textanum sjálfum hafa þýðendur stungið inn skýringum á stöku stað, en að mínu áliti hefði mátt gera meira af því. Ef gera á ráð fyrir því að útgáfan sé ekki aðeins aðgengileg almenningsútgáfa heldur einnig útgáfa sem nýtist í fræðilegu starfi og háskólakennslu, þá þarf helst að bæta við ákveðnum bókfræðilegum upplýsingum og upplýsingum um nöfn sem koma fyrir í textanum, ekki síst þegar um er að ræða einstaklinga sem höfundur verksins gerir augljóslega ráð fyrir að allir lesendur hans þekki og sem hafa kannski verið alþekktir á 18. öld þó að þeir séu það ekki á þeirri 21. Það er allur gangur á því hvernig staðið er að skýringum og athugasemdum við texta í Lærdómsritunum og virðast þýðendur sjálfir ráða mestu um það. Það er hinsvegar spurning hvort ekki ætti að samræma kröfurnar betur og sjá til þess að skýringar Lærdómsritanna miðist við fræðilegar þarfir, jafnvel þó að ritin séu ekki síður gefin út með þarfir hins almenna lesanda í huga.
Það er óumdeilt að Samfélagssáttmálinn er mikilvægt rit í sögu vestrænnar stjórnmálaheimspeki, þó að menn greini stundum á um heimspekilega vigt verksins. Hinir ströngu rökgreiningarheimspekingar seinni tíma vilja stundum gera lítið úr heimspeki Rousseaus og segja að hann sé skáld og rithöfundur frekar en heimspekingur. Þessi afstaða birtist til dæmis í nýlegri grein Atla Harðarsonar um Rousseau og Samfélagssáttmálann þar sem hann kallar Rousseau „skáldheimspeking“. (1) En Samfélagssáttmálinn hefur ekki aðeins sögulegt vægi. Hann er mikilvæg lesning enn þann dag í dag – og hvernig skyldi standa á því? Það má segja að í riti Rousseaus birtist ein leið og það afar mikilvæg leið til að leysa hinn klassíska vanda stjórnskipulags á upplýsingaöld og fram á okkar daga. Hann birtist strax í fyrstu setningum ritsins þegar Rousseau segist vilja finna „grundvallarreglu lögmætrar og traustrar stjórnar“. Það að stjórn sé hvorttveggja í senn lögmæt og traust var ekki gefið á tímum Rousseaus frekar en það er nú á tímum. Við þurfum ekki að gera annað en að veita því athygli að víða þykir það nánast sjálfsögð réttlæting á valdstjórn og kúgun að slíkt sé eina ráðið til að halda „stöðugleika“, en frjálslegri stjórnarhættir geti leitt til þess að ríkið fari í upplausn. Þessar röksemdir heyrast helst frá Rússlandi og nokkrum öðrum ríkjum gömlu Sovétblokkarinnar um þessar mundir, en grunnur þeirra er augljós: Því er þá haldið fram að lögmæti í skilningi Rousseaus skuli fórnað fyrir traust. Það verkefni að finna leið til þess að hafa hvorttveggja, traust stjórnarfar og lögmætt er jafn áþreifanlegt og flókið verkefni á okkar tímum eins og það var uppúr miðri 18. öld þegar Rousseau gaf út þetta rit sitt.
Leið Rousseaus er ekki einstök, í ljósi þess sem aðrir hafa sagt og skrifað síðar, en hún hefur þó sín sérkenni sem enn réttlæta umhugsun og umfjöllun og sem skipta miklu máli fyrir alla hugsun um samfélagið. Verk Rousseaus hefur verið tengt við svokallaða lýðveldishyggju (e. Republicanism) og almennt hafa rit hans haft skýrari áhrif á vinstri væng stjórnmálanna heldur en á þeim hægri. Vandamálið um lögmæti annarsvegar og traust hinsvegar hefur þó ekki verið leyst með einfaldari eða áþreifanlegri hætti á hægri væng stjórnmálanna en þeim vinstri.
Annað atriði sem Rousseau fjallar um og er enn í dag í miðpunkti stjórnmálaheimspekinnar, og kannski sumpart enn frekar nú en stundum áður, er spurningin um vald, beitingu þess og möguleika. Upplýsingin gerbreytti hugmyndum manna um vald og þess sér skýr merki í Samfélagssáttmálanum. Í fyrsta lagi er ekki hægt að setja neitt samasemmerki á milli valds eða máttar annarsvegar og lögmætis eða réttar hinsvegar. Máttur veitir engan rétt (sjá 64-65). Þetta merkir í augum Rousseaus, alveg eins og Kants, að ekki er hægt að stjórna með einu saman valdi. Þetta er mjög merkileg niðurstaða og fjarri því óumdeild, en grundvallarhugsunin er sú að samfélagi verði ekki stýrt með geðþóttavaldi. Samfélag upplýsingarinnar er þess eðlis að lögmæti getur aðeins komið til með gagnkvæmum hagsmunum. Valdhafi sem stjórnar þjóð í eigin þágu en ekki hennar sjálfrar er því ekki aðeins kúgari, hann er ófær stjórnandi þegar til lengri tíma er litið, vegna þess að hagsmunir þeirra sem hann stjórnar eru honum óviðkomandi. Aðeins samvinna viðurkennir hagsmunina og lætur stjórn heildarinnar þjóna hagsmunum hennar (sjá 74). Þannig verður samfélagssáttmáli í raun nauðsynlegt stig þjóðfélagsþróunar. Rousseau leitast við að sýna fram á að jafnvel þótt togstreita kunni að vera á milli trausts og lögmætis í stjórn samfélags, þá er annað ómögulegt án hins: Nútímasamfélagi verður ekki stjórnað nema grundvöllur stjórnar þess sé bæði lögmætur og traustur.
Það má taka ýmis fleiri atriði upp úr Samfélagssáttmálanum með svipuðum hætti, en það sem máli skiptir er að ritið tengist á svo margvíslegan hátt helstu spurningum stjórnmálanna að það er ekki innantóm mælska að halda því fram að allir sem láta sig pólitík einhverju varða ættu að lesa það og hvort sem þeir hneigjast til að telja Rousseau skáld, heimspeking eða „skáldheimspeking“.
Þekktasta hugtakið úr stjórnspeki Rousseaus er ef til vill almannaviljinn og tilraun hans til að sýna fram á að einn hluti þess að vera frjáls í borgaralegu samfélagi feli í sér viðurkenningu og tileinkun á hinum sameiginlega vilja samfélagsins sem er ekki sama og samanlagður vilji einstaklinganna. Frelsishugtak Rousseaus mótast af almannaviljanum. Frelsi er ekki aðeins samfélagslegt hugtak, það að vera maður er einnig samfélagslega skilyrt: „Að afneita frelsi sínu er að afneita því sem gerir mann að manni“ (67) segir Rousseau í Samfélagssáttmálanum og bætir við nokkru síðar: „hlýðni við lög sem menn setja sér sjálfir er frelsi“ (82).
Þannig er atlaga Rousseaus að því verkefni að móta almennar reglur frelsis samfélagslega grundvölluð. Það er ekki aðeins maðurinn sem er dæmdur til frelsis, eins og það var orðað hjá tilvistarheimspekingum síðar, samfélagið er í vissum skilningi einnig dæmt til frelsis, því að það getur hvorki starfað eftir fyrirframgefnum boðorðum, né afsalað sér valdi sínu óskorað til valdhafa. Í þessu ljósi þarf að skilja almannavilja Rousseaus. Þó að þetta hugtak sé vissulega loðið og þvælist sumpart fyrir manni þá er það skýrt að því leyti að ef samfélagið hefur hagsmuni þá hafi það líka vilja. Hvort það er jafn augljóst og Rousseau telur hverjir þessir hagsmunir eru hverju sinni, er hinsvegar allt annað mál og eins hvort það sé rétt eða farsælt að einstaklingarnir taki þessa hagsmuni fram yfir einkahagsmuni sína.
Þetta innsæi tengir Rousseau við vinstristefnu í stjórnmálum, en slítur heimspeki hans líka frá henni. Því þó að samfélagi á upplýsingaöld verði ekki stýrt nema í félagi við skynsemina, þá veitir hún ekki forskrift að þróun þess eða leiðir hana í ljós. Rousseau hefur einmitt sama einkenni og seinni tíma höfundar frjálslyndis og frjálshyggju: Hann sér samfélagið í ljósi togstreitu og málamiðlana ólíkra hagsmuna og ólíkra markmiða. Þessvegna fellur hann aldrei í gryfju „vísindalegrar“ þjóðfélagsgreiningar og á enn sama erindið við lesendur sína.

(1) Atli Harðarson, Rousseau og samfélagssáttmálinn. Lesbók Morgunblaðsins 5. febrúar 2005.

Jean Jacques Rousseau: Samfélagssáttmálinn. Íslensk þýðing Már Jónsson og Björn Þorsteinsson. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík, 2004, 267 bls.
Birt í tímaritinu Hugur, 17. árg. 2005.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *