Það er merkileg þversögn að skóla- og menntamál, sem á hátíðlegum stundum eru sögð mikilvægustu málefni samfélagsins, þykja afar óáhugavert umfjöllunarefni fjölmiðla. Það þykir sjálfsagt að allir fjölmiðlar hafi starfsfólk, jafnvel margt, sem getur talað lengi og af þekkingu um sjávarútveg og bankamál, en í næstum hvert einasta skipti sem maður rekst á umfjöllun um háskóla og háskólamenntun í íslenskum fjölmiðli vantar annaðhvort botninn í hana eða hún er byggð á vandræðalegum misskilningi – í besta falli á spuna tiltekinnar stofnunar eða einstaklings.

Tökum dæmi. Um daginn var sagt frá svokallaðri stofnanaskýrslu um Listaháskóla Íslands í blöðum og skólinn sagður hafa fengið „hæstu mögulega einkunn“. Enginn fjölmiðill sem ég sá fjalla um þetta mál setti það í nokkurt vitrænt samhengi. Hvers vegna var verið að gera þessa skýrslu um Listaháskólann? Hvað gerir hann svona frábæran? Skýrslan er mikilvægur liður í gæðamálum háskóla, en nú fer fram fyrsta kerfisbundna úttekt allra háskóla sem lýkur á þessu ári. Skólarnir fara í fjóra flokka samkvæmt gæðakerfinu því úttektarnefndirnar geta úrskurðað að þeir njóti „óskoraðs trausts“, „trausts“, „takmarkaðs trausts“ og „einskis trausts“. Búið er að gefa út að í þessari fyrstu umferð fái engin stofnun „óskorað traust“. Því má gera ráð fyrir að allir skólar sem ekki eiga við gríðarleg vandræði að etja fái þann úrskurð að þeir njóti trausts. Einn skóli nýtur raunar „takmarkaðs trausts“. Það er Hólaskóli, en engan fjölmiðil hef ég séð fjalla um hvað það þýði. Bifröst og Háskóli Íslands eiga enn eftir að fá niðurstöður úttektar, en gera má ráð fyrir að þessir skólar fái sama úrskurð og Listaháskólinn: Að þeir njóti trausts.

Annað dæmi. Umræður munu komnar af stað um sameiningu þriggja háskóla, Háskólans á Bifröst, Landbúnaðarháskólans og Hólaskóla. Frumkvæðið ku koma frá rektor Háskólans á Bifröst, en menntamálaráðuneytið er þó sagt leiða umræðurnar. Þetta mál hefur verið á vitorði þeirra sem fylgjast með um skeið en enginn fjölmiðill hefur sýnt því nokkurn áhuga að öðru leyti en því að fréttir hafa verið sagðar af yfirlýsingum á fundum og í úskriftarræðum þar sem vikið hefur verið að því. Þó eru þetta klárlega mestu tíðindi í háskólamálum hér síðasta áratug eða svo, sem sannarlega þarfnast krufningar og gagnrýninnar umræðu.

Og þriðja dæmið. Í apríl verður kosinn nýr rektor Háskóla Íslands. Undanfarna mánuði hafa ýmsar þreifingar verið um framboð og mögulega frambjóðendur. Bak við tjöldin hefur margt verið sagt og gert, bandalög hafa myndast og breyst. Nóg af spennandi efni fyrir fjölmiðla sem nenna að veita mikilvægustu mennta- og vísindastofnun landsins einhverja athygli. En ég hef ekkert séð í fjölmiðlum um þessi mál annað en opinberar yfirlýsingar þeirra sem hafa tilkynnt um framboð sitt.

Íslenskir fjölmiðlar eru, með örfáum (tímabundnum) undantekningum, líkastir víðáttumiklu bloggi. Stöku mál fær almennilega umfjöllun, en flest er í mesta lagi rætt í pistlum – sem eru oft greindarlegir eða vel skrifaðir – en eru ekkert annað en álit á þessu málinu eða hinu, sem pistlahöfundurinn hefur af tilviljun áhuga á.

Pistlar, sama hvað þeir eru vel skrifaðir, eru ekki blaðamennska. Þvert á móti þrífast þeir á því að til séu blaðamenn sem hafa áhuga, þrjósku, sjálfsöryggi, stuðning og gildismat til að bera sem þarf til að taka mál almennilega fyrir og sýna þar með fram á að það skipti máli að kafa í þau. Á meðan enginn blaðamaður setur sig inn í málaflokk á borð við mennta- og háskólamál er samfélagið ekki bara fáfrótt um hann, heldur haldið þeirri ranghugmynd að á því sviði sé ekkert að gerast sem sé þess virði að skilja og fylgjast með. Góðir blaðamenn eru nefnilega ekki aðeins góðir í að greina og miðla – þeir sýna hvers vegna mál eru spennandi og mikilvæg.

Við búum í samfélagi þar sem ráðandi öfl vilja hafa fjölmiðlana veika. Það er ekkert einsdæmi. Stjórnvöld eru allsstaðar og ævinlega fegnust því að fjölmiðlarnir láti þau í friði. Þá er hægt að treysta á að mál sem koma upp verði aldrei meira en stormur í vatnglasi sem stendur í nokkra daga, kannski vikur, en líður svo hjá og gleymist. En stundum þarf ekki nema eitt almennilegt blað til að breyta þessu, og þrjóska blaðamanna er oft grundvallaratriði, eins og lekamálið sýnir. Maður heldur í vonina.

Birt í fyrsta tölublaði Stundarinnar, febrúar 2015. Sjá vefútgáfu: http://stundin.is/pistill/leyndardomar-haskolanna-sem-enginn-nennir-ad-paela/