Í prýðilegri grein Kjartans Ólafssonar sem birt var í Morgunblaðinu föstudaginn 3. nóvember kemur fram sá misskilningur að Halldór Guðmundsson hafi haft forgöngu um rannsóknir mínar á tengslum íslenskra kommúnista og sósíalista austur til Moskvu fyrr á árum. Sá ágæti maður hafði að sjálfsögðu ekkert með rannsóknir mínar að gera en að þeim vann ég á meðan á doktorsnámi mínu í Bandaríkjunum stóð, ýmist í sumarleyfum eða að svo miklu leyti sem mér tókst að afla til þeirra styrkja, frá Vísindasjóði og rannsóknasjóði Harriman stofnunarinnar í rússneskum fræðum við Columbia háskóla. Ég hafði forgöngu um þær sjálfur. Halldór Guðmundsson var hinsvegar útgáfustjóri Máls og menningar og sem slíkur féllst hann á að gefa út bók mína Kæru félagar, en hún kom út árið 1999.
Kjartan mælist einnig til þess að hið opinbera hlutist til um og fjármagni frekari rannsóknir „vandaðra sagnfræðinga“ á tengslum Íslendinga við stórveldin á kaldastríðsárunum. Ég get ekki annað en andmælt þessari hugmynd Kjartans. Það kann aldrei góðri lukku að stýra að stjórnvöld veiti fé til ákveðinna fyrirskipaðra rannsókna, síst af öllu þegar um er að ræða jafn rammpólitískt efni og tengsl við stórveldi kalda stríðsins virðast vera enn þann dag í dag. Stjórnvöld eiga að stuðla að rannsóknum með því að veita fé til samkeppnissjóða. Þangað eiga fræðimenn að sækja um fé til rannsókna sinna, en ekki til stjórnmálamanna.
Þegar orrahríðin geysar og öllu er ruglað saman, peningum, pólitík, njósnum, hryðjuverkum, landráðum og leynilögreglu er þeim sem er annt um sannleikann best að hafa hægt um sig. Ég ætla bara að vona að ekki verði send sveit „vandaðra sagnfræðinga“ með stjórnartilskipun til Moskvu og Washington að finna sönnunargögn um eitt eða annað. Þá er hætt við að vitleysan fari nú fyrst úr böndunum.

Birtist í Morgunblaðinu 3. nóvember 2006.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *