1. Gildi og siðferðileg markmið

Gömul amerísk saga sem maður rekst stundum á í kennslubókum í viðskiptasiðfræði lýsir fundi nokkurra forstjóra og framkvæmdastjóra sem starfa í sömu grein. Fundurinn er haldinn í þeim tilgangi að ræða bætt siðferði í greininni (hver svo sem hún nú er), og sameinast um nokkur meginmarkmið og gildi sem allir muni einsetja sér að vinna eftir og hafa í heiðri. Á fundinum er einn ungur forstjóri sem fyllist miklum áhuga og eldmóði að ganga sem lengst í siðvæðingarátt og virðist telja fundinn marka tímamót í atvinnugreininni. Einn hina eldri áttar sig á barnaskap yngri mannsins og að fundinum loknum tekur hann manninn afsíðis og bendir honum á að hann hafi ef til vill tekið fundarefnið of alvarlega. Enginn þeirra sem á fundinum hafi verið hafi einlægan áhuga á að starfa eftir íþyngjandi siðareglum eða markmiðum um gildi, skárra væri það nú. Hinsvegar viti menn að stjórnvöld séu með löggjöf í undirbúningi sem muni minnka mjög svigrúm til að haga viðskiptum á þann hátt sem best hentar hverju sinni. Þessvegna sé mikilvægt að menn stilli saman strengi og láti líta út fyrir að verið sé að bæta starfshætti verulega og að æðstu yfirmenn vilji setja markið hátt í siðferðilegum efnum. Þetta gæti mögulega stöðvað fyrirhugaða löggjöf eða að minnsta kosti orðið til þess að ekki þætti nauðsynlegt að láta hana ganga jafn langt og annars gæti orðið.

 

2. Raunsæi

Ein kenning í alþjóðafræðum/alþjóðasamskiptum hefur verið kölluð realismi eða raunsæishyggja. Hún er í sjálfu sér mjög einföld. Kjarni hennar er sá að siðferðissjónarmið ráði engu í alþjóðasamskiptum. Ríki taka ákvarðanir sínar út frá hagsmunamati hverju sinni og ef það hentar þeim að grípa til aðgerða sem eru í andstöðu við siðferðissjónarmið (hver svo sem þau eru) þá geri þau það. Þessvegna séu til dæmis kenningar um réttlátt stríð, eða tilraunir til að koma á reglukerfi í alþjóðamálum sem reist er á siðferðilegum grunni tilgangslausar. Ekkert annað en hagsmunir eða þá viðurlög geti í raun stjórnað hegðun ríkja  eða alþjóðlegra stofnana og fyrirtækja. Hliðstæð hugmynd hefur mörgum þótt eiga við viðskiptalífið á sama hátt. Fyrirtæki meta hagsmuni sína hverju sinni og haga sér í samræmi við þá. Sjái stjórnendur eða eigendur fyrirtækis sér hag í því að brjóta gegn siðferðilegum reglum eða viðmiðum, þá geri þeir það. Þessvegna sé í rauninni tómt mál að tala um siðferði í viðskiptum: Þegar viðskiptalífið fer að tala um siðareglur og gildi þá stafi það af því að sú tegund af sölumennsku virðist hagstæð. Í raun ráði alltaf hagsmunir ferðinni og þegar þeir stangast á við siðferði þá sé fullkomlega fyrirsegjanlegt hvað gerist (það er ef gert er ráð fyrir að um sé að ræða skynsamlega hegðun í skilningi hagfræðinnar).

 

3. Hræsni

Milton Friedman skrifaði grein um félagslega ábyrgð fyrirtækja í byrjun áttunda áratugarins sem orðið hefur hin klassísku andmæli við þeirri skoðun að viðskiptalífið þurfi á einhvern hátt að axla félagslega ábyrgð umfram þá sem felst í því að hlíta lögum og reglum sem um það gilda. Á einum stað í greininni veltir Friedman vöngum yfir því hvort fordæma eigi þá aðferð fyrirtækis að nota mælskulist félagslegrar ábyrgðar og leggja fé til samfélagsins þegar slíkar aðgerðir hafa í raun (eða eru taldar hafa) hagstæð áhrif á reksturinn og það er hin raunverulega ástæða þeirra. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að þótt „hræsni“ af þessu tagi, eins og hann kallar þetta, sé almennt séð óæskileg, þá sé alls ekki hægt að hafna henni. En það verði þá að vera á hreinu að um hræsni sé að ræða en ekki þann misskilning að fyrirtæki beri í raun samfélagslega ábyrgð.

 

4. Hugtökin

Ég hef valið þrjú hugtök í titil þessa fyrirlesturs sem öll þarfnast skýringar. Orðið launhæðni er tilraun til þýðingar á hugtakinu írónía. Þetta hugtak er notað í fleiri en einni merkingu í heimspeki og bókmenntum, en merkingin sem ég hef í huga hér varðar meðferð sannleikans. Það má segja að í sögunni sem ég rakti í upphafi hafi eldri forstjórinn viljað benda þeim yngri á að tilgangur forstjóranna með því að láta líta svo út að þeir hafi einlægan áhuga á bættu viðskiptasiðferði sé írónískur: Þeir eru ekki beinlínis að ljúga, þeir eru að sýna viðleitni sem allir vita að vísu að er ekki einlæg, en þeir eru kannski að sýna lit.

Þetta minnir mig á samskipti við auglýsingastofu fyrir nokkrum árum vegna kynningarmála Bifrastar. Þar barst í tal mikilvægi þess að halda reglulega ráðstefnur og fundi til að láta bera á skólanum. Þegar ég sagði að ráðstefnur héldi maður þegar tilefni væri til benti starfsmaður auglýsingastofunnar mér vinsamlegast á að tilefni eða ekki skipti afar litlu máli í þessu sambandi. Aðalatriðið væri að nota ráðstefnuformið til að sýna að skólinn væri virkur og í fremstu röð. Þarna höfum við aftur íróníska afstöðu: Það sem ég geri hefur í raun annan tilgang heldur en hinn yfirlýsta tilgang, ég veit það – en þú veist það líka. Það er ekki verið að blöffa, en við vitum að öll mælskulistin í kringum fundinn eða ráðstefnuna eða starfsemina er írónísk. Hún er á vissan hátt sviðsetning: Skólinn notar ákveðnar aðferðir til að sviðsetja sjálfan sig á ákveðinn hátt. Það þýðir ekki að hann sé ekki það sem hann segist vera, en sviðsetningin hefur þann tilgang að skapa ímynd hans, og ímyndin er aðalatriðið.

Í rauninni má segja að auglýsinga- og kynningarstarfsemi yfirleitt sé írónísk – launhæðin – í sama skilningi. Auglýsandinn veit að það sem auglýsingin segir hefur þann tilgang að auka sölu á vöru eða þjónustu. Hún hefur ekki þann tilgang að veita neytandanum upplýsingar. Auðvitað fær neytandinn upplýsingar, en það er mikilvægt að hann átti sig líka á launhæðninni: Hann má ekki vera barnalegur og trúa öllu eins og nýju neti. Við vitum öll að jólasveinninn er ekki til og við vitum líka að HR eða Bifröst eru ekki MIT og Columbia og svo má áfram telja.

Kaldhæðnin er dálítið annar hlutur en launhæðni. Launhæðnin miðar við ákveðnar reglur: Hinn launhæðni gerir ráð fyrir að viðmælandi hans skilji hina launhæðnu afstöðu og deili henni með honum. Launhæðnin krefst í rauninni þátttöku viðmælandans. Hugsið ykkur hvernig heimurinn væri ef neytendur tryðu auglýsingum almennt bókstaflega. Það væri ekki auglýsendum í hag: Þeir þyrftu að gerbreyta aðferðum sínum því að þeim dettur að sjálfsögðu ekki í hug að nokkur trúi auglýsingum þeirra bókstaflega. Hinum kaldhæðna stendur hinsvegar á sama um þetta. Hann ber enga virðingu fyrir viðmælandanum og hann ber enga virðingu lengur fyrir kerfinu sem hann þó þykist starfa innan. Hinn kaldhæðni blekkir án þess að blikna og það hvarflar ekki annað að honum heldur en að aðrir reyni líka að blekkja sig.

Raunsæishyggja í alþjóðamálum er að mörgu leyti kaldhæðin afstaða (þetta á kannski ekki síst við um raunsæishyggju kaldastríðsáranna). Kaldhæðnin felst í því að hvað sem líður öllu alþjóðlegu samstarfi, þá gerir raunsæishyggjumaðurinn alltaf ráð fyrir því að þegar slíkt hentar þá muni hann svíkja og vera svikinn. Sama gildir um viðskipti. Að svo miklu leyti sem hægt er að heimfæra raunsæishyggjuna upp á viðskiptalífið, þá byggir hún á þeirri afstöðu að reglur og gildi séu ekkert annað en hindranir sem aðeins hugleysingjar og bjánar fara eftir.

Þriðja stigið er svo auðvitað siðleysi. Munurinn á því og kaldhæðni er sá að siðleysinginn er ekki aðeins sannfærður um að alltaf sé kaldur hagsmunaútreikningur að baki öllum aðgerðum andstæðinga jafnt sem samstarfsaðila. Siðleysinginn svífst einskis: Honum stendur hjartanlega á sama um hvaða aðferðum hann þarf að beita til að ná markmiðum sínum. Siðleysinginn hefur ekki aðeins tapað virðingunni fyrir þeim sem hann á samskipti við: Hann hagar sér eins og tilvist annarra sé aðeins ein hindrun á vegi hans.

Ég held að ástæðan fyrir því að það stóð í Milton Friedman að viðurkenna hræsni sem fyllilega lögmæta aðferð til að ná viðskiptalegum markmiðum hafi verið sú að hann skynjaði siðleysið í aðferðafræði sem byggir á lygi. Það einkennir nefnilega rök Friedmans gegn félagslegri ábyrgð fyrirtækja, að þau eru byggð á mjög skýrri og afdráttarlausri siðferðilegri afstöðu. Afstaða Friedmans gagnvart ábyrgð, hlutverki og skyldum er sannarlega ekki launhæðið. Það er grundvallaratriði í röksemdafærslu hans að viðskiptalífið byggist á einlægri afstöðu, þar sem menn haga sér í samræmi við skyldur sínar en teygja sig ekki út fyrir það svið sem þeir hafa tekið að sér að starfa á. Rök hans gegn félagslegri ábyrgð fyrirtækja ganga einmitt út á að með því að vasast í málefnum sem varða ekki starfssvið fyrirtækis, séu stjórnendur í raun að bregðast siðferðilegum skyldum sínum. Hann lendir í vissri mótsögn með hræsni vegna þess að þar höfum við afstöðu sem er siðlaus samkvæmt öllum hversdagslegum viðmiðum, en hún verður þó, í meðförum Friedmans, síður siðlaus en einlæg tilraun stjórnenda fyrirtækis til að láta gott af sér leiða í samfélaginu!

 

5. Íslenskt viðskiptalíf

En nú er kannski rétt að koma sér að efninu. Hér var spurt um siðrof í samfélaginu og hvort breytingarnar sem urðu á síðustu árum hafi valdið einhverskonar grundvallarbreytingum á siðferði og grunngildum þjóðarinnar. Tilgangurinn með þessum vangaveltum er að undirbúa jarðveginn fyrir nokkurskonar svar við þessari spurningu.

Aðstæðurnar í samfélaginu voru að mörgu leyti afar sérkennilegar síðustu árin fyrir hrunið. Það má segja að viðskiptalífið hafi haft algjöran forgang í allri stefnumótun og umræðu. Sú grunnhugmynd að stjórnvöld ættu að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að styrkja viðskiptalífið virtist nánast óumdeild innan stjórnkerfisins og á meðal þeirra sem fóru með völdin. Það mætti ganga svo langt að segja að við höfum búið við alræði viðskiptalífsins. Þetta þýddi líka að fólk var í auknum mæli farið að líta til viðskiptalífsins eftir hugmyndafræðilegri forystu. Það var næstum ríkjandi skoðun að á sviði viðskipta- og atvinnulífs væri meiri hæfileika, færni, getu, snerpu, kraft og hugmyndaauðgi að finna heldur en á öðrum sviðum, svo sem í pólitík, menningu eða menntun og rannsóknum. Eðlilega var í margra augum líka alveg eðlilegt annarsvegar að allt lyti að hagsmunum viðskiptalífsins, hinsvegar að viðskiptalífið ætti að leiða önnur svið samfélagsins þar á meðal pólitíkina. Ég man eftir einu kostulegu samtali við samstarfsmann fyrir nokkrum árum. Hann sagði: „Samfylkingin er ekki stjórntæk“. „Hversvegna ekki“ spurði ég? „Vegna þess að stefna hennar þjónar ekki hagsmunum viðskiptalífsins“ sagði hann. „En á ekki stefna hennar fyrst og fremst að þjóna hagsmunum almennings?“ spurði ég. „Jú“, sagði hann, „en hagsmunum almennings er best þjónað með því að þjóna hagsmunum viðskiptalífsins“. Þetta er auðvitað dálítið naíf skoðun, en skiljanleg eins og tímarnir voru.

Þessvegna held ég að aðalspurningin sé þessi: Hvað hafði það í för með sér að viðskiptalífið í heild sinni skyldi ná þessari yfirburðastöðu í íslensku samfélagi? Leiddi það til einhverskonar siðferðisrofs og þá í hvaða skilningi?

Sá óformlegi mælikvarði sem hugtökin þrjú gefa okkur eru hjálpleg við að greina þetta. Það má spyrja: Einkenndist íslenskt viðskiptalíf af launhæðni, kaldhæðni eða siðleysi? Ég held, og ætla að reyna að rökstyðja þá afstöðu mína stuttlega, að kaldhæðni hafi einkennt viðskiptalífið um árabil og siðleysi í meira og meira mæli á síðustu árum.

Við getum séð kaldhæðna afstöðu í mörgum dæmum síðustu ára. Tökum eignatengsl í viðskiptalífinu, sem í eðli sínu eru andstæð eðilegri þróun, samkeppni og viðskiptaháttum. Tökum launastefnu, bæði ofurlaun og almennt þau laun sem voru farin að tíðkast í bankakerfinu. Launin hafa beinlínis þann tilgang að skilja starfsmenn ákveðins geira frá öllum öðrum og þar með líka skapa ákveðna siðferðilega fjarlægð. Þegar byrjunarlaun í banka eru orðin svipuð ráðherralaunum dregur líka úr virðingu bankamannanna við láglaunamennina í ríkisstjórninni. Það kvörtuðu margir yfir því á síðustu árum að ekkert virtist vekja virðingu annað en peningar. Það var held ég nokkuð til í þessu og það er einmitt dæmigerð kaldhæðin afstaða að spyrja alltaf fyrst: Hvað á hann eða hún? Og meta svo hvaða máli persónan skiptir. Tökum víkingatalið: Það virtist aldrei vefjast fyrir fólki að víkingahliðstæðan væri vafasöm. Segjum að hér væri ekki víkingaminni ráðandi heldur sjóræningjaminni. Að Íslendingar væru komnir af sjóræningjum. Hefði verið jafn sjálfsagt að líka útrásinni við sjórán og kalla útrásarvíkinga ekki víkinga heldur sjóræningja? En það er í raun enginn munur á þessu tvennu.

Kaldhæðnin birtist í því að forystumönnum viðskiptalífsins og smátt og smátt öðrum líka, finnst eðlilegt að hagsmunir viðskiptalífsins ýti öllum öðrum hagsmunum til hliðar. Eins má segja sjálfbirgingurinn sem einkenndi mælskulist íslensks viðskiptalífs síðustu árin fyrir hrunið sé eitt form kaldhæðni. Í skýrslu Viðskiptaráðs frá árinu 2006 þar sem mótuð er framtíðarsýn til 2015 er mörg dæmi um slíkar mælskuyfirlýsingar að finna. Ágætt dæmi er afstaðan til Norðurlanda sem birtist í þessari setningu: „Viðskiptaráð leggur til að Ísland hætti að bera sig saman við Norðurlöndin enda stöndum við þeim framar á flestum sviðum. Ísland ætti þess í stað að bera sig saman við þau ríki sem standa hvað fremst á hverju sviði fyrir sig“ (bls. 22). Og í framhaldinu kemur auðvitað fram að Ísland eigi að fara fram úr þessum löndum líka. Gallinn við þessa mælskulist er ekki sá að það sé eitthvað rangt við að stefna hátt og hafa metnaðarfull markmið. Gallinn er sjálfbirgingurinn sem verður til þess að svipta menn virðingu fyrir reynslu og leiðum annarra. Og þessi kaldhæðna sýn á heiminn var orðin ótrúlega algeng, jafnt utan viðskiptalífsins sem innan þess.

Hin kaldhæðna afstaða leiddist að mínu mati meira og meira út í siðleysi á allra síðustu árum sem ef til vill má skýra með því að þeim sem léku aðalhlutverk í viðskiptalífinu fór að skiljast að þeir væru ósnertanlegir. Þannig förum við að sjá hegðun og ákvarðanir sem eru ekki aðeins lítilsvirðing við íslenskt samfélag heldur sniðganga hagsmuni þess með öllu, einkum í bankakerfinu. Áhættan sem tekin var með Icesave reikningunum er til dæmis hvernig sem á það er litið dæmi um stórkostlegt siðleysi. Stjórnendum bankans stóð á sama um áhættuna sem þeir tóku, hlógu að stjórnvöldum sem skildu hana ekki og höfðu ekki áhyggjur af því að þjóðin bar ábyrgð á öllu saman án þess að hún vissi það. Þetta er líklega eins skýrt dæmi um siðleysi og dæmin verða.

Það sem var merkilegt við íslenskt viðskiptalíf fyrir hrunið og að mörgu leyti einstakt var hversu almenn sú skoðun virtist vera að auðmennirnir svokölluðu og þeir sem næst þeim störfuðu væru einlægir baráttumenn fyrir bættu samfélagi og ættu því að vera sem mest í sviðsljósinu. Betra væri að hlusta á þá heldur en misvitra pólitíkusa. Þetta kemur skemmtilega fram í Sögu af forseta sem kom út nú fyrir jólin þar sem forsetinn og nokkrir framámenn í viðskiptalífi koma sér saman um að best sé að sniðganga stjórnmálamenn í ákveðnum þjóðþrifamálum sem forsetinn hugðist beita sér fyrir, þeir myndu aðeins vera til leiðinda og gera málin flóknari. Trúin á þessa leiðtoga viðskiptalífsins var svo einlæg og hrein (sjá bls. 496).

Þrátt fyrir þetta hika ég við að halda því fram að siðrof hafi orðið í samfélaginu. Það er dálítið stórt tekið upp í sig að halda því fram. Ég held að það sé nær lagi að draga þá ályktun að almenningur, stjórnmálamenn og fleiri hafi látið hafa sig að fíflum. Viðskipta- og fjármálalífið hafði alla að fíflum. Í stað þess að sjá það í réttu ljósi sem ákveðinn afkima samfélagsins sem einmitt þurfi á aðhaldi og stífu regluverki að halda, tóku menn að trúa því að þar væri þvert á móti að finna fyrirmyndir og forystu og búið væri að sýna fram á í eitt skipti fyrir öll að meira frelsi, ennþá minna regluverk og ennþá lægri álögur þjónuðu viðskiptalífinu og þar með samfélaginu best. Fyrir nokkrum árum var meira að segja talað um það í fúlustu alvöru að Bjarni Ármannsson, þá 37 ára, hygði á forsetaframboð og sumir sögðust jafnvel ætla að kjósa hann, svo áköf var hrifningin orðin á forystumönnum útrásarinnar.

 

6. Lokaorð og nokkrar niðurstöður

Gallinn við viðskiptalífið og fyrirtækjaheiminn er að þróunin frá launhæðni til siðleysis er sennilega óhjákvæmileg ef ekki er haldið uppi ströngu eftirliti og stífu regluverki. Aðdáunin sem árangur í viðskiptum vekur getur haft hrikalegar afleiðingar á stjórnendur fyrirtækja. Þeir ofmetnast og halda að þeir geti gert nákvæmlega það sem þeim sýnist. Enron málið er ágætt dæmi um þetta: Nokkrir leiðtogar Enron nutu óskoraðrar virðingar í bandarísku samfélagi og það varð til þess að enginn dirfðist að gera athugasemdir við framferði þeirra og starfshætti, fyrr en löngu eftir að allt var komið í vitleysu.

Margt var líkt þessu hér: Helstu stjórnendur og auðmenn voru taldir vera einhverskonar séní sem aðrir ættu bara að hlusta þöglir á frekar en að fetta fingur út í athafnir þeirra og aðgerðir. Þetta varð til þess að almenningsálit varð fullkomlega gagnslaust, og pólitískt aðhald rann út í sandinn.

En hvaða lærdóm um siðferði á maður þá að draga af þessu öllu? Sá sirkus sem hér hefur staðið yfir í nokkur ár og vandræðalegur endir hans eykur talsvert á efasemdir mínar um samfélagslegt hlutverk og ábyrgð fyrirtækja. Getum við virkilega vænst þess að fyrirtæki og fjármálastofnanir séu réttu aðilarnir til að móta sýn á samfélagið sem aðrir eiga að taka mið af og tileinka sér? Þurfum við ekki að horfast í augu við að þar sem ríkir hagsmunir eru í húfi, munu fyrirtæki fyrst og fremst taka mið af þeim hverju sinni? Þarf ekki þessi reynsla að kenna okkur að viðskiptalífið er ófært um að stjórna sér sjálft, það þarfnast stýringar, aðhalds og strangra krafna frá almenningi og yfirvöldum: Þaðan þurfi hugmyndafræðileg forysta að koma en ekki öfugt?

Enron málið í Bandaríkjunum leiddi til endurmats á því trausti sem ákveðin fyrirtæki höfðu notið. Það sama hlýtur að gerast hér. Við hljótum að forðast aðstæður þar sem viðskiptalífið, forystumenn þess og talsmenn eru orðnir helstu hugsuðir samfélagsins. Þetta þýðir ekki að það megi ekki gera kröfur um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja. Það þýðir hinsvegar að á meðan viðskiptlífið bæði skilgreinir þessa ábyrgð og metur hana er hún ekki trúverðug.

Með þessu er ég ekki að gera lítið úr viðskiptum, fjármálum og atvinnulífi. Það er vissulega mikilvægt að öflug menntun haldist í hendur við öflugt atvinnu- og viðskiptalíf. En að láta viðskiptalífið gefa línuna um hvernig við eigum að hugsa og hegða okkur, það leiðir til glötunar, og það vita kannski allir núna.

 

(Fyrirlestur á málþingi EÞIKOS, Háskólanum í Reykjavík, 13. janúar 2009)


1 reply
  1. Hermann
    Hermann says:

    Maður veltir því fyrir sér hvort afstaða Viðskiptaráðs til Norðurlanda eigi sér dýpri rætur í íslenskri menningu, hvort hreinlega hafi verið veila í íslenska lýðveldinu eða hugsuninni um Ísland frá upphafi. Það er kannski svolítið mikið sagt. Þó er í riti Sigurðar Nordal, Íslenskri menningu, rætt um hvaða þjóðir sé rétt að bera Íslendinga saman við. Nordal vill fremur bera Íslendinga saman við stórþjóðir því hann segir, með réttu, að engar þjóðir sem eru álíka smáar og Íslendingar séu í sambærilegri stöðu og þeir. Þessi punktur hefur lengi staðið í mér því þá er óeðlilegt að bera Ísland saman við Færeyjar – og loks verður svo samanburður við Norðurlönd fáránlegur í huga fólks. Takk fyrir góða greiningu.

    Svara

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *