Það er merkilegt, þegar svo mikið er talað um Landsdómsákæruna á hendur Geir Haarde og hvort draga eigi hana til baka eða ekki, að það sem hún afhjúpar er hvorki ranglæti né réttlæti heldur sú þversögn lýðræðisins að tillaga geti orði ofan á sem fæstir vilja við lýðræðislega atkvæðagreiðslu.

Ef við skoðum atkvæðagreiðsluna í þinginu 28. september 2010, þegar ákveðið var að ákæra Geir einan ráðherra sjáum við að atkvæði féllu svona:

26 vildu ákæra alla (Geir, Ingibjörgu, Árna og Björgvin)

7 vildu ákæra einhverja, en ekki alla

30 vildu engan ákæra.

Af þeim sem vildu ákæra einhverja en ekki alla, vildu þrír ákæra Geir, Ingibjörgu og Árna, tveir vildu ákæra Geir, Árna og Björgvin og tveir vildu ákæra Geir einan. Enginn vildi aðeins ákæra Geir og Árna.

Séu allar niðurstöður sem fengu atkvæði teknar saman eru þær fimm og við getum táknað þær svona:

GIÁB

GIÁ

GÁB

G

Enginn ákærður

Nú er ekki hægt að fullyrða neitt um það hvernig einstakir þingmenn hefðu raðað öðrum kostum en þeim sem þeir völdu, en þó má ef til vill gefa sér að þeir sem völdu GIÁB hefðu raðað kostunum GIÁ og GÁB ofar en G. Einnig bendir flest til þess af umræðunum að flestir, jafnvel allir þeirra sem kusu að ákæra engan, hefðu tekið GIÁB fram yfir GIÁ og GÁB og alveg örugglega fram yfir G. Með öðrum orðum, af þeim kostum sem einhver vildi, má geta sér þess til að G hefði undir öllum kringumstæðum lent neðst á forgangslistanum hjá þeim sem settu hann ekki efst á forgangslistann (það er rétt að ítreka að þetta getur maður þó að sjálfsögðu ekki fullyrt).

Niðurstaðan er því sú að við atkvæðagreiðslu þingsins 28. september 2010 var sá kostur valinn sem fæstir vildu. Þversögn, ekki satt?

Staðreyndin er hinsvegar sú að þversagnir af þessu tagi koma iðulega fram þegar greidd eru atkvæði um fleiri kosti en tvo. Nú getur manni fundist hvað sem er um þessa tilteknu niðurstöðu. Ég hefði til dæmis talið að það væri rökrétt að líta svo á að eðlilegast væri að ákæra alla, en næst eðlilegast að ákæra forystumanninn, það er forætisráðherra. En ég ætla ekki að halda því fram að mín forgangsröðun sé sú eina sem vit er í. Lýðræðislegt val er ekki á milli rökréttari og síður rökréttari kosta heldur tilraun til að velja þann kost sem mest samstaða er um. En stundum getur það farið á hinn veginn og sá kostur sem minnst samstaða er um orðið fyrir valinu.

Aðeins tveir þingmenn vildu þann kost sem varð fyrir valinu, Skúli Helgason og Helgi Hjörvar. Það er kannski ekki nema von, þótt ólga sé um þá niðurstöðu á þinginu nú, hvað sem hástemmdum yfirlýsingum sumra um réttlæti og ranglæti líður.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *