Það er merkilegt hvernig áhugi á seinni heimstyrjöldinni kemur og fer í bylgjum. Þessa dagana, líklega fyrir það að liðin eru 60 ár frá lokum styrjaldarinnar, er hann óvenju mikill. Og um leið og hátíðahöld fara fram af þessu tilefni vakna líka upp deilur og óleyst mál sem varða lok stríðsins og framferði þjóða og einstaklinga í stríðinu og eftir það. Eitt slíkt deiluefni er viðhorf til sovéska hernámsins í Eystrasaltslöndunum en þess hefur verið krafist að rússnesk stjórnvöld biðji Eystrasaltsþjóðirnar afsökunar á framferði Sovétstjórnarinnar eftir að Rauði herinn rak Þjóðverja frá löndum þeirra í lok stríðsins. Það gera þau ekki en fagna stríðslokunum af jafnvel enn meira kappi en gert var fyrir 10 árum þegar hálf öld var liðin frá stríðslokum. Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra Dana sá hinsvegar sitt óvænna í ljósi nýjustu umfjöllunar um Gyðinga sem fluttir voru frá Danmörku til Þýskalands í stríðinu og baðst afsökunar á framferði danskra embættismanna, þó að hann tuldraði um leið í barminn að einhverja aðra ætti nú ekki síður að knýja til afsökunarbeiðni – og átti við Rússa.
Í bók sinni Medaljens bagside hjólar Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson í dönsk yfirvöld sem löngum hafa hælt sér af því að hafa verið laus við andúð á Gyðingum ekki síst á meðan landið var hersetið af Þjóðverjum og sýnir fram á að í raun voru viðhorfin oft á annan veg. Hann sýnir fram á að hvað eftir annað hafi dönsk yfirvöld reynt að gera Gyðinga sem höfðu ekki alla pappíra í lagi brottræka frá Danmörku og koma þeim til Þýskalands á vit örlaga sinna. Hann bendir á að í mörgum tilfellum hafi kapp danskra embættismanna farið langt framúr áhuga þýskra á að taka við þessu fólki. Bókin er stórmerkileg lesning en í henni fer Vilhjálmur þá leið að segja sögur einstaklinga og fjölskyldna sem urðu fyrir barðinu á danska kerfinu sem þannig sendi fólkið beint í þýskar útrýmingarbúðir.
Bókin vekur margar spurningar um afstöðu Dana til Gyðinga og um samband embættismannakerfisins við þýska hernámsliðið. En það sem þó birtist skýrast í bókinni í margendurteknum tilvísunum í málskjöl og umfjöllun um afgreiðslu mála er hve ónæmir embættismenn sem um málefni einstaklinga fjalla eru fyrir því sem bíður þessa fólks eftir að því hefur verið vísað úr landi. Kerfið vinnur sitt verk á þessum viðsjártímum eins og allt væri með eðlilegum hætti og landinu stafi helst hætta af því að einstaklingum sem í neyð sinni leita til þessa smáríkis sé leyft að dvelja í landinu. Rétt fyrir hernám Þjóðverja var löggjöf um ólöglega útlendinga í Danmörku hert til muna og meðal annars komið á tilkynningaskyldu þeirra Dana sem hýstu slíkt fólk sem gerði refsivert að segja ekki til þess. Þó að svo ætti að heita að svokallaðir raunverulegir pólitískir flóttamenn nytu hælisréttinda þá gerðu þessi lög í raun enn erfiðara fyrir Gyðinga að leita skjóls í Danörku, því það að vera Gyðingur þótti ekki nægjanleg ástæða til að fá hæli í landinu. Jafnvel jafnaðarmannaleiðtoginn Hans Hedtoft-Hansen taldi mjög mikilvægt að herða löggjöfina til að auðvelda stjórnvöldum að losna við þá sem ekki væru „raunverulegir flóttamenn“ (bls. 260).
Medaljens bagside fjallar að langmestum hluta um einstaklinga. Vilhjálmur Örn lætur ekki nægja að afla sér þeirra upplýsinga um örlög fólks sem hafa má úr málskjölum. Í mörgum tilfellum hefur honum tekist að komast að því hvað um fólkið varð eftir brottvísun frá Danmörku. Margir enduðu líf sitt í útrýmingarbúðum en einnig eru dæmi um að mönnum hafi tekist að sleppa lifandi úr hildarleiknum og lifa löngu og jafnvel farsælu lífi. Það hefur bæði galla og kosti að byggja bók sem þessa upp á fjölda sagna um einstaklinga og fjölskyldur. Frásagnirnar verða óhjákvæmilega líkar, sömu atriðin endurtaka sig, fólk rekst á sömu hindranirnar, sömu sljóu embættismennina, sama skilningsleysið. Þó eru einstakar frásagnir sem skera sig úr, eins og til dæmis frásögnin af Kurt Bolz sem hafðist við í Berlín eftir brottvísun frá Danmörku og var síðar í hópi þeirra Gyðinga sem sættu ásökunum fyrir að hafa bjargað sér með samvinnu við yfirvöld í Þýskalandi. Sú leið Vilhjálms að birta langa kafla úr sendibréfum og málskjölum hefur mismikið gildi fyrir bókina, þó að lesningin sé oft átakanleg. Vilhjálmur tekur ævinlega málstað fórnarlambanna og túlkar sögu þeirra af skilningi og samúð. Því verkar bókin fremur á lesandann sem tilraun til að láta fólkið njóta sannmælis þó seint sé, en sem fræðilegt verk.
Það sem situr eftir þegar hinum fjölmörgu frásögnum sleppir er mynstrið. Allt það fólk sem bókin segir frá á það sameiginlegt að hafa mætt skilningsleysi og verið beitt ranglæti sem dönsk yfirvöld hefðu getað komið í veg fyrir ef vilji hefði verið fyrir því í kerfinu og meðal embættismanna. Kerfið neitaði að taka tillit til persónulegra aðstæðna þess og þeir sem um mál þess fjölluðu neituðu að viðurkenna að jafnvel þó að löggjöf og regluverk ríkisins um flóttamenn og hælisleitendur leyfðu að það væri sent úr landi, þá var ekki þar með sagt að nauðsynlegt væri að gera það. Í stað þess að embættismenn reyni að hjálpa eða koma í veg fyrir að þetta fólk væri sent í opinn dauðann, þá er kerfið látið vinna sitt verk og á grundvelli laga sem leyfa að útlendingum sé úthýst er það gert. Sú bitra staðreynd að dönsk yfirvöld úthýsti fólki sem átti allt annað skilið tómlæti og áhugaleysi ætti að vera mönnum lærdómur enn þann dag í dag. Það er augljóst nú að í öllum þeim tilfellum sem Vilhjálmur fjallar um í bók sinni hefðu yfirvöld átt að beita þeim víðtæku heimildum sem til voru til að veita þessu fólki dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Þetta á að sjálfsögðu við fyrir hernám Þjóðverja, en það sama gildir í raun á meðan á hernáminu stóð, ef marka má túlkun Vilhjálms, því að mál af þessu tagi virðast lítinn áhuga hafa vakið hjá þýskum hernámsyfirvöldum.
Oft er hægt að verja sig gagnvart ásökunum um mannhatur með því að reglur krefjist tiltekinna aðgerða og viðbragða og embættismaður sem hefur það hlutverk að framfylgja þessum lögum og reglum hafi lítið svigrúm til að fara eftir eigin samvisku. Hannah Arendt nefndi það lágkúru hins illa þegar venjulegt fólk vinnur illvirki í nafni samviskusemi og hlýðni við kerfi og yfirboðara. Persónusögurnar sem Vilhjálmur rekur í bók sinni eru af sömu rót. Þær lýsa því hvernig lágkúra hins illa getur birst jafnvel í stjórnkerfi lítils lands sem einnig hælir sér af mannúð og frelsisást.

Medaljens bagside Jødiske flygtningsskæbner i Danmark 1933-1945. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 472 bls. Kaupmannahöfn: Forlaget Vandkunsten, 2005.
Birt í Lesbók Morgunblaðsins 21. maí 2005.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *