Í grein minni „Voru kommúnistar hættulegir“ sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 7. október síðastliðinn hélt ég því fram að við hefðum ekki heimildir sem sýndu fram á að kommúnistar á Íslandi hefðu verið hættulegir lýðræðinu eða stjórnskipulaginu. Ég færði rök fyrir því að ofbeldisfullar yfirlýsingar íslenskra kommúnista væri yfirleitt eðlilegra að túlka sem mælsku heldur en sem sönnunargögn um bein ofbeldisáform. Þór Whitehead, sem gerir grein mína að umræðuefni í Lesbókinni 11. nóvember telur að með þessu geri ég tilraun til að „ómerkja hálfrar aldar boðun og starf fjölda manna að byltingu eða gjörbreytingu á íslensku samfélagi að sovéskri fyrirmynd.“ Þetta er að rangt. Ég geng einfaldlega út frá því sem vísu að í kommúnískri pólitík, rétt eins og annarri pólitík, hafi orð og yfirlýsingar ekki síður verið notaðar til að skapa stundaráhrif, en til að segja sannleikann. Öfugt við Þór tel ég að ályktanir um áform íslenskra kommúnista sé ekki hægt að draga af yfirlýsingum þeirra eða groddalegum pólitískum tilþrifum og ofbeldisfullri mælsku. Slíkar ályktanir þarfnast traustari heimilda, eigi þær að hafa meira gildi en almennar vangaveltur eða dylgjur. Þór telur hinsvegar mælskuna segja allt sem segja þurfi. Það kalla ég barnaskap í grein minni. Þór gengur jafnvel enn lengra í barnaskap sínum nú, með því að láta eins og bituryrði manna sem gengu úr hreyfingu kommúnista í þeirra garð séu ein sönnun á ofbeldisáformum þeirra, en Þór endar grein sína á tilvitnun í Áka Jakobsson, þingmann og ráðherra úr röðum kommúnista sem sagði fyrrum félaga sína geta verið fegna að hafa ekki náð völdum, því að þá hefðu þeir orðið „verri menn“.

Alþjóðlegir flokksskólar og íslenskar aðstæður
Því miður fjarlægist Þór enn frekar eðlileg fræðileg vinnubrögð í Lesbókargrein sinni með rangtúlkunum og útúrsnúningum á því sem ég hef skrifað um íslenska kommúnista, bæði í áðurnefndri grein minni og í bókinni Kæru félagar sem kom út árið 1999. Hann ýkir mjög vægi skotæfinga sem sönnun á niðurstöðu sinni og telur að ég hafi reynt að leyna því að íslenskir nemendur í alþjóðlegum skólum kommúnista í Moskvu hafi fengið skotþjálfun. Um þetta efni þykist hann finna margar mótsagnir í greinum mínum og bók. En þó er verra að sumstaðar í grein sinni virðist mér Þór fara vísvitandi með rangt mál. Það er til dæmis erfitt að draga aðra ályktun af umfjöllun hans um trúnaðarsamtal Einars Olgeirssonar, formanns Sósíalistaflokksins við sovéska sendiherrann árið 1952 sem ég segi frá í bók minni. Í samtalinu bendir Einar sendiherranum á að nám Íslendinga á byltingarskólum í Moskvu hafi vakið ranghugmyndir með sumum þeirra. Einar segir:
„Afleiðingin varð sú að til dæmis nokkrir íslenskir félagar sem stundað höfðu nám í Moskvu komu heim og fóru að tala um vopnaða uppreisn á Íslandi. Þessir félagar tóku ekkert tillit til sérstöðu landsins og sögulegrar þróunar þess.“
Það er ekki annað að skilja af grein Þórs en að hann telji þessa tilvitnun sanna að kommúnistar hafi lagt á ráðinn um vopnaða uppreisn. Hann gleymir hinsvegar eða lítur framhjá því um hvað sendiherrann og Einar Olgeirsson voru að tala í þessu samtali. Einar var að gagnrýna skólana sem Komintern rak í Moskvu tveimur áratugum áður, og hélt því fram að „kennslan [hafi] oft og tíðum [verið] dogmatísk. Nemendurnir mynduðu sér ekki skapandi skilning á marx-lenínismanum heldur þröngsýnan sértrúarskilning.“ Þrátt fyrir þetta taldi Einar mikilvægt að hin alþjóðlega kommúnistahreyfing stofnaði nýja skóla fyrir unga flokksmenn. Svona lýsti sendiherrann hugmyndum Einars: „Að áliti Olgeirssonar væri gagnlegt að koma á fót slíkum skólum í einhverju sósíalistaríkjanna og fá alla helstu forustumenn verkalýðshreyfingarinnar og mestu fræðimenn á sviði marx-lenínisma til að halda fyrirlestra og erindi. Ef af stofnun slíks skóla yrði mætti ekki gleyma mistökum fortíðarinnar.“ Í framhaldi samtalsins segir Einar sendiherranum að vegna þess að þjóðin hafi ekki borið vopn í næstum þúsund ár væri ætti hugmynd um vopnaða uppreisn eða byltingu ekkert erindi til Íslands. Allir sem tileinkuðu sér marx-lenínisma yrðu að gera sér grein fyrir því að af þessum sökum hlyti leið Íslands til sósíalismans að vera dálítið önnur en hún hefði verið og mundi verða í mörgum öðrum löndum.
Það er merkilegt að í sömu málsgrein og Þór Whitehead telur sig finna sönnunina um ofbeldisáform kommúnista, er að finna fullyrðingar sem eðlilegast er að skilja þveröfugt. Í samtalinu er einmitt verið að halda því fram að íslenskir kommúnistar beiti ekki ofbeldi. Á fjórða áratugnum hafði Einar Olgeirsson næstum mátt þola að hans eigin félagar, sem orðnir voru svo „dogmatískir“ að þeir töldu minnstu frávik frá „línunni“ til marks um borgaralegt hugarfar, vikju honum úr flokknum. Þess vegna bendir hann sendiherranum á að alþjóðlegir flokksskólar, sem Einar hafði almennt mikla trú á, þurfi að vera sveigjanlegir hugmyndafræðilega til að hæfilegt tillit sé tekið til séraðstæðna í hverju landi. Á Íslandi var algjör andstaða við vopnaburð sá veruleiki sem taka þyrfti tillit til (umfjöllun um samtalið er að finna á bls. 207-210 í Kæru félögum).
Túlkun Þórs á samtalinu á hinn veginn, að Einar trúi sendiherranum fyrir því að félagar hans hafi verið farnir að undirbúa vopnaða uppreisn, er fráleit jafnvel þó að Einar kvarti yfir því að einhverjir hafi talað um slíkt. Meira að segja á róttækasta tímabili Kominterns, þegar íslensku kommúnistunum var uppálagt að kalla Alþýðuflokksmenn sósíalfasista, fól línan engan veginn í sér að beitt skyldi ofbeldi.
Ég hef lesið hundruð samtala Einars Olgeirssonar við sovéska flokksmenn, ráðamenn og embættismenn. Í flestum þeirra er Einar að reyna að fá þessa menn til að samþykkja einhverja hugmynd eða fallast á einhverja beiðni. Samtal hans við sovéska sendiherrann 1952 sker sig ekki úr. Það snýst um nýja alþjóðlega flokksskóla sem Einar vildi láta stofna í Austur-Þýskalandi eða annarsstaðar í Austur-Evrópu. Sendiherrann var efins um þessar hugmyndir en kom þeim á framfæri með því að skrá samtalið.
Jafet Ottósson hét maður sem um tíma dvaldi í Moskvu við nám í Vestur-háskólanum. Jafet þessi þótti ekki standa sig nógu vel í hugmyndafræðilegu starfi ungra kommúnista í Moskvu og var því látinn fara heim. Eitt af því sem virðist hafa verið tekið til marks um það sem nefnt var „pólitískt þroskaleysi“ Jafets, var sú hugmynd hans að kommúnistar ættu að stofna vopnaðar sveitir. Að þessu vann hann eftir að hann kom heim, Íslendingunum í Moskvu til mikillar skapraunar þar sem þeir töldu aðgerðir af því tagi ekki þjóna málstaðnum hér heima. Þessi afstaða þeirra stafaði ekki af því að þeir höfnuðu ofbeldi, heldur af hinu að þeir, eins og langflestir íslenskir kommúnistar, töldu að á Íslandi væru friðsamlegar aðgerðir og þátttaka í pólitík vænlegri til árangurs heldur en ofbeldisaðgerðir og því kölluðu þeir hugmyndir Jafets „sport radikalismus“ (sjá Kæru félagar bls. 61-62).

Er nóg að ræða hernað til að stunda hernað?
Þór Whitehead heldur því fram að ég sniðgangi heimildir um þjálfun íslenskra kommúnista í hernaði og ofbeldisverkum og nefnir tvö dæmi. Annað er dagbækur Andrésar Straumland frá Moskvu en Andrés minnist þar á þjálfun í meðferð skotvopna á meðan eins árs námi hans við Lenínskólann stóð. Hvaða ályktanir á að draga af þessari staðreynd? Þýðir þetta að Andrés hafi fengið þjálfun sem miðaði að því að hann gæti tekið þátt í vopnuðum sveitum kommúnista eins og Þór virðist halda? Heldur Þór að almenn skotþjálfun, sem gera má ráð fyrir að allir nemendur flokksskólanna hafi fengið, segi eitthvað um eðli námsins eða um störf Andrésar Straumland eftir eins árs Moskvuvist hans? Ég sé ekki að hún geri það, og eins og annað sem Andrés skráir í dagbók sína ber vitni um, að ógleymdum glósum og fjölrituðu efni sem hann hafði heim með sér, þá var nám hans í Moskvu fyrst og fremst hugmyndafræðilegt (sjá Kæru félagar bls. 65-67).
Þór krefst þess að heimildin sé túlkuð á þann veg að hún falli að eða styðji fyrirframgefnar hugmyndir hans um þjálfun íslenskra kommúnista. Í mínum augum segir þessi heimild ekkert nýtt. Allir nemendur Lenínskólans og Vestur-háskólans (þeirra tveggja skóla á vegum Kominterns sem Íslendingar sóttu í Moskvu) fengu (sennilega) einhverja skotþjálfun. Hún segir okkur ekkert um það hlutverk sem nemendunum var ætlað eftir að námi þeirra lauk. Þór grípur þetta hálmstrá af því að hann langar til að sýna fram á að þessi skotþjálfun hafi dýpri eða meiri merkingu en hún hefur í mínum augum. Hitt dæmið er jafnvel skondnara. Þór bendir á að í umsögn um íslenskan nemanda komi fram að hún þurfi að auka skilning sinn á tengslum lenínisma og vandamálum hernaðar og gefur í skyn að þetta hafi líka dýpri merkingu. Hvernig í ósköpunum er hægt að halda því fram að sú staðreynd að nemendur í Lenínskólunum ræddu um „tengsl lenínisma og hernaðar“ við kennara sína bendi til þess að þar hafi Íslendingar fengið þjálfun til að gera vopnaða byltingu á Íslandi?
Þór er sannfærður um að vopnabúr hafi verið til á Íslandi annars hefði hugmyndin um vopnaða uppreisn sem Einar Olgeirsson segir að ákveðnir félagar hafi rætt ekki komið upp. Ég verð að viðurkenna að þessi röksemdafærsla Þórs minnir mig á sannanir fyrir tilvist Guðs: Sumir heimspekingar fyrri alda reyndu að færa rök að því að hugmyndin um Guð væri þess eðlis að hún gæti ekki hafa orðið til nema fyrir guðlegan tilverknað. Gildir sama um vopnabúrið? Mér virðist augljóst að nokkrir æstir ungkommúnistar geta hæglega talað um vopnaða uppreisn án þess að það merki að þeir hljóti að hafa haft vopn undir höndum. Ég nefni ekki vopnasöfnunina sem Þór talar um í Þjóðmálagrein sinni vegna þess að ég sé ekki að hann hafi merkilegri heimildir um hana en sögusagnir og ögrandi yfirlýsingar.

Var ofbeldi mikið eða lítið?
Staðreyndin er sú að í þeim rannsóknum sem ég gerði fyrir nokkrum árum á samskiptum íslenskra kommúnista við Komintern og Sovétríkin fann ég mikið um hugmyndafræði, pólitíska réttlínu, ráðgjöf, fyrirmæli, viðskipti og fjárhagslegan stuðning, en ekkert um vopnaða uppreisn, kerfisbundið ofbeldi eða fyrirhugaða byltingu (nema að svo miklu leyti sem þjóðfélagsbylting var lokamarkmið kommúnista). Í skrifum sumra íslenskra kommúnista kemur fram sú (kannski barnalega) trú að íslenska byltingin geti farið fram án ofbeldis. Þór Whitehead á ákaflega erfitt með að sætta sig við þetta og því reynir hann að láta líta út fyrir að ég ýmist sniðgangi heimildir eða lendi í mótsögnum við sjálfan mig. Ég neita því auðvitað ekki að kommúnistar sem voru í Moskvu hafi lært að fara með skotvopn, eða að ungir flokksmenn hafi gefið digurbarkalegar yfirlýsingar og jafnvel beitt ofbeldi. En það er dálítið annað en skipulagt kerfisbundið ofbeldi eða uppreisnaráform.
Nú er rétt að hafa í huga að ef Íslendingar hefðu fengið sérþjálfun til hernaðar eða ofbeldisverka í Moskvu þá væru til um það heimildir. Nemendur frá ýmsum öðrum löndum fengu slíka þjálfun. Komintern beitti sér mismikið í ólíkum löndum, því sumsstaðar voru kommúnistaflokkar ólöglegir, sumsstaðar stunduðu þeir margvíslega neðanjarðarstarfsemi, sumsstaðar áttu þeir möguleika á að ná völdum. Um slíka sérþjálfun hafa ýmsar heimildir varðveist auk þess sem um hana má lesa í endurminningum sumra þeirra útlendu kommúnista sem dvöldu í Moskvu á fjórða áratugnum. Þeir Íslendingar sem ég hef fundið heimildir um í Moskvu fengu ekki sérþjálfun af þessu tagi og ég hef ekki séð á skrifum Þórs Whitehead að hann hafi fundið heimildir um slíka þjálfun þeirra heldur.
Í harðvítugum átökum kreppuáranna og kaldastríðsins var beitt ofbeldi, vissulega gerðist það að menn slösuðust og þá skiptir tala slasaðra ekki máli, tjón hinna slösuðu verður ekki minna fyrir það. Það breytir þó ekki því sem ég bendi á grein minni 7. október að hér á Íslandi hafi átök á milli verkalýðs og yfirvalda verið minni en víða annarsstaðar. Þór er eitthvað hissa á þeirri fullyrðingu. En um meiriháttar slagsmál almennings og lögreglu eru aðeins tvö dæmi, Gúttóslagurinn 1932 og átökin vegna inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið 1949 og hér á landi var sem betur fer aldrei neinn drepinn í pólitískum átökum.

Ímyndað leyfisbréf?
Öll grein Þórs markast af sömu skrítnu túlkununum og mistúlkununum á orðum mínum og ályktunum um samtök íslenskra kommúnista og sósíalista. Hann heldur að hér á Íslandi hafi kommúnistar jafnan þarfnast beinna fyrirmæla um aðgerðir frá Moskvu og virðist því álíta að allar aðgerðir þessa fólks megi heimfæra upp á slíkar skipanir. Í Kæru félögum sýni ég fram á að þessi tengsl voru flóknari. Vissulega trúðu kommúnistar á hugmyndafræðilega forsjá Kominterns, en á sama tíma fóru þeir líka sínu fram. Þetta kann að vera mótsagnakennt, en það þýðir ekki að það sé útilokað eins og Þór virðist halda. Stofnun Sósíalistaflokksins er prýðilegt dæmi um þetta. Heimildir sem til eru um hana benda til að Komintern hafi lagst eindregið gegn því að leggja niður Kommúnistaflokkinn og stofna Sameiningarflokk alþýðu – Sósíalistaflokkinn, ef stofnun slíks flokks leiddi til klofnings Alþýðuflokksins. Samt var flokkurinn stofnaður og Komintern í Moskvu tilkynnt um stofnun nýja flokksins. Í grein sinni heldur Þór því fram að Komintern hafi leyft stofnun Sósíalistaflokksins. Mér þætti fróðlegt að sjá leyfisbréfið, ef Þór skyldi hafa það undir höndum.
Í lok greinar sinnar sakar Þór Whitehead mig um að gera lítið úr valdstjórn bolsevíkaflokksins í Sovétríkjunum og dregur í efa greinarmun minn á alræði Stalíns og stjórn landsins áratuginn á undan. Ef til vill má skilja sjónarmið Þórs í þessu, því margir sagnfræðingar af hans kynslóð, ekki síst sumir bandarískir sagnfræðingar, lögðu áherslu á það í túlkun sinni á Sovétríkjunum að enginn hugmyndfræðilegur munur hefði verið á Sovétríkjunum fyrir 1930 annarsvegar og Sovétríkjum Stalíns hinsvegar. En flestir sagnfræðingar sem skrifað hafa um sögu Sovétríkjanna eftir að tilvist þeirra lauk og hafa haft aðgang að heimildum sem fyrri kynslóð sagnfræðinga gat ekki kynnt sér, komast ekki hjá því að gera skýran greinarmun á alræði Stalíns og mildari valdstjórn sem á undan fór hvað sem allri hugmyndafræði líður. Ógnarstjórn Stalíns ásamt samyrkjuvæðingu og iðnvæðingu Sovétríkjanna á sér einfaldlega enga hliðstæðu.

Niðurstöður og fyrirframskoðanir
Ýkjutúlkanir Þórs Whitehead auka ekki skilning á hreyfingu kommúnista eða stjórnmálasögu 20. aldarinnar yfirleitt. Ég tel mikilvægt að átta sig á hagsmunum einstaklinga og hreyfinga, markmiðum sem menn settu sér í samskiptum sínum, og árangri sem menn náðu hvort sem var við stórveldin, leyniþjónustur þeirra eða hinn volduga Kommúnistaflokk Sovétríkjanna. Fyrir nokkrum árum átti ég skemmtilegt samtal við norska sagnfræðinginn Geir Lundestad sem hefur m.a. skrifað um kaldastríðssögu Norðurlandanna. Við töluðum um það sem menn hafa dregið fram úr sovéskum skjalasöfnum á síðustu árum og Lundestad varð tíðrætt um ályktanagleði sumra sem duglegastir hafa verið á því sviði. Hann sagðist sjálfur hafa þá reglu þegar hann væri að rannsaka efni úr sögu síðustu áratuga að byrja á því að setja sér það markmið að sýna fram á tilgátu sem væri öfug við fyrirframskoðanir hans á efninu. Það væri langbesta leiðin til að verjast þeirri skiljanlegu og oft ósjálfráðu tilhneigingu að túlka heimildir í þá átt að þær staðfestu það sem maður héldi fyrir. Ég er ekki frá því að þessi regla Lundestads gæti komið Þór Whitehead að góðum notum.
Þór nefnir í Lesbókargrein sinni inngönguskilyrði kommúnistaflokka í Komintern sem samþykkt voru á 2. þingi sambandsins 1920. Í inngönguskilyrðunum sem eru 21 talsins, er gert ráð fyrir að í hverjum flokki, að minnsta kosti þeim ólöglegu, starfi leynideild og Þór gefur sér að þessvegna hljóti slík deild einnig að hafa starfað í Kommúnistaflokki Íslands sem stofnaður var 1930, spurningin sé bara hver hafi stjórnað henni, hvað hún hafi gert og svo framvegis. Ég er á annarri skoðun. Mér virðist allt eins líklegt að engin raunveruleg leynideild hafi verið innan KFÍ þó hugsanlega hafi einhverjir félagar látið sig dreyma um að stofna slíka deild (þessa ályktun styður bréf það frá íslenskum kommúnistum í Moskvu sem áður var getið. Kæru félagar bls. 61-62). Í fyrsta lagi var flokkurinn lítill, í öðru lagi var hann löglegur og í þriðja lagi höfðu þessi skilyrði ekki sama vægi árið 1930 og þær höfðu tíu árum fyrr. Munurinn á aðferðafræði okkar Þórs Whitehead er í hnotskurn þessi: Hann telur sig vita sannleikann og beitir því heimildum til þess eins að sýna fram á það sem hann er sannfærður um fyrirfram. Ég hef hinsvegar lagt uppúr því að gefa mér sem minnst fyrirfram, fylgja heimildunum og forðast að hrapa að ályktunum.

Birtist í Lesbók Morgunblaðsins, 15. nóvember 2006.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *